Út að borða með Þjóðverjum o.fl. (TíT3)

Á föstudagskvöldið síðasta var mér boðið út að borða – yfirmaðurinn á rannsóknastofunni hélt uppá afmælið með því að bjóða samstarfsfólkinu á Reefs, grillhús með vesturheimskt kóralrifjaþema við hliðina á körfuboltahöllinni. Ég ákvað að láta reyna á hamborgarann.

Ég veit ekki hvort frúin hefur nokkru sinni minnst á það hjá sér: Það er nánast ómögulegt að fá almennilegan hamborgara á veitingastöðum í Þýskalandi. Það besta sem hægt er að vonast eftir er brasaður Udo Special í sveittu búllunni við hliðina á Marktkauf. En það er meira svona gamla góða Tommastemmingin.

Hamborgarinn á Reefs var sá besti sem ég hef fengið hérna úti. Ekki gallalaus: Hann var aðeins of mikið steiktur fyrir minn smekk (ég var reyndar ekki spurður hvernig ég vildi hafa hann) og þau voru nísk á laukhringina sem var lofað í matseðlinum. En brauðið var fullkomið, grænmetið ferskt og sósan góð. Sem og sveitakartöflurnar. Ég var sáttur.

Svakalega er mig samt farið að langa í almennilegan hamborgara.

Ég hef fylgst með „Strákunum Okkar“ með öðru auganu síðustu daga. Missti reyndar af tveimur af fyrstu þremur leikjunum, þannig að ég hef mestmegnis bara séð þá spila rassinn úr buxunum. Djók.

Á laugardaginn bauð þýskt samstarfs- og vinafólk mér í heimsókn að horfa með sér á Ísland-Þýskaland. Það var í þá daga þegar íslenska liðið var enn búið að vinna alltsaman og mér fannst einhvernveginn eins og vinafólkið væri bara að hugsa um að leyfa mér að fagna í góðra vina hópi. En ja, það fór á annan veg. Og til að bíta hausinn af skömminni bauð franskur strákur af deildinni sér í heimsókn til mín í gærkvöldi til að horfa á sína menn taka Ísland í kennslustund.

En heimsóknin var að öllu öðru leyti skemmtileg. Við töluðum um tónlist og aðra dægurmenningu, ég sagði honum frá Þorranum og leyfði honum að smakka bæði harðfisk og brennivín. Verst að ég fattaði ekki með nægum fyrirvara að taka hákarlinn úr frystinum.

Og laugardagskvöldið var að öðru leyti skemmtilegt líka. Við horfðum á gamlan amerískan blokkböster, með þýsku döbbi og íslenskum texta. Allir sáttir.

– – –

Komandi helgi er að taka á sig mynd. Á sunnudeginum er ég aftur boðinn til samstarfs- og vinafólksins: heimilisfaðirinn á afmæli. Sjitt, þá fatta ég að ég verð víst að mæta með eitthvað. Það er víst það sem maður gerir þegar maður er boðinn í afmæli. Kannski ég gefi honum áritaðan geisladisk með Diktu, sé til hvað ég geri…

Svo ætla ég að fara á tónleika. Ég er bara ekki alveg búinn að ákveða hvaða, það koma tvennir til greina: Á föstudagskvöldinu spila Bakkushan í Sudhaus og á laugardagskvöldinu spila Joy Kills Sorrow í Deutsch-Amerikanisches Institut.

Bakkushan eru hressir rokklingar utan frá Mannheim sem slógu hálfa leiðina í gegn þegar þeir komust í úrslit Bundesvision-keppninnar hans Stefáns Raab í haust sem leið. Þeir eru núna að túra með nýja diskinn sinn, svona líka kúl og kalkúleraðir.

Joy Kills Sorrow eru hinsvegar amerískir krakkar sem spila blágresis-krútt-bræðing. Ég veit nánast ekkert um þau annað. En tónleikaupptökur á þjónvarpinu lofa mjög góðu. Ég er sem stendur sjónarmun svagari fyrir þeim heldur en Mannheimarokkurunum, en er enn að gera upp hug minn. Hvað finnst öðrum?

Tepokar í Tübingen (2)

Hvunndagurinn tekur á sig mynd í einverunni.

Það kom með mér hingað yfir fullur ruslapoki af fötum sem krakkarnir voru vaxnir uppúr. Á laugardeginum lagði ég uppí góðan göngutúr yfir í Waldhäuser Ost hverfið – hverfi með háreistum blokkum sem rísa yfir Waldhausen-býlið hérna austan við Heuberger-Tor-Weg. Ég vissi að það væri fatagámur þarna einhversstaðar. Taldi mig hafa nógu góða hugmynd nákvæmlega hvar til að geta rambað á hann.

Það var ekki alveg.

En ég fann hann fyrir rest eftir að hafa gengið góðan dagpart um hálft hverfið með fullan ruslapoka af fötum í fanginu. Fékk góða hjálp hjá afgreiðslustelpunum á OMV-bensínstöðinni við Waldhausen. Hann var þarna einhversstaðar.

Á leiðinni heim horfði ég á naktar greinarnar á eplatrjánum við Waldhausen og fór að hugsa um Mondrian. Fannst í smástund rofa eitthvað til. En skil samt enn ekkert hvað hann var að fara með öllum þessum kompósisjónum í rauðu, gulu og bláu.

Um kvöldið fór ég á körfuboltaleik. Sá Tígrana hans Walters tapa fyrir Trier. Strákarnir okkar byrjuðu vel í fyrsta fjórðungi en svo var þetta bara eintómt klúður hjá þeim í hinum þremur.

Ég keypti mér samt trefil, að sjálfsögðu.

Á sunnudeginum þann sextánda bar ekkert sérstakt til tíðinda. Fyrir utan að það laust niður í mig í morgunsturtunni að ég átti enn eftir að segja upp síma- og internetsamningunum mínum við Deutsche Telecom. Tveggja ára samningurinn sem ég skrifaði uppá við komuna rennur út þann fimmtánda apríl. Og klausa í samningnum um að maður verði að segja upp skriflega með þriggja mánaða fyrirvara, altsvo í mínu tilviki í síðasta lagi laugardaginn fimmtánda janúar. Annars endurnýjaðist samningurinn sjálfkrafa til tveggja ára í viðbót.

Fokk, sagði ég þá.

Þetta slapp samt fyrir horn, ég mætti eftir svefnlitla nótt við opnun á mánudagsmorgninum með uppsögnina tilbúna og undirskrifaða, búinn að æfa mig í helstu svívirðingum og fyrirfestufrösum. Hvernig á að segja „Bitte“ einsog viðmælandi manns eigi að skammast sín fyrir tilveru sína. En svo kom ekkert til þess, DT-strákurinn ósköp geðþekkur og allur af vilja gerður að slútta þessu. Málið er dautt, við reddum þessu bara.

Þeir eiga þetta nefnilega til líka, hérna úti. Ef pappírarnir eru svona nokkurn veginn í lagi.

Í gærkvöldi fór ég svo á tónleika á Schocken-klúbbnum í Stuttgart. Dró þangað með mér Frakka og Fríslenska valkyrju. Dikta lék fyrir, kannski ekki dansi, en svona nettu fótatappi. Góð stemming. Staðurinn hálffullur af Íslendingum – ranghugmyndir mínar um að ég væri nánast eini Íslendingurinn í Schwaben snarlega leiðréttar. Ég hafði samt ekki minnstu löngun til að tala við neinn þeirra.

Nema reyndar strákana sjálfa í Diktu, þegar ég keypti af þeim diskana þeirra báða. Og fékk plakat í kaupbæti. Allt áritað. Ég horfi á áritað plakatið uppi á vegg um leið og ég skrifa þetta:

Til Þín! Frá Okkur! Áfram Ísland!

Tepokar í Tübingen

Þá er maður búinn að vera einsetumaður á ellefta dag hérna úti.

Frúin var kölluð aftur til að byrja vinnu heima í Reykjavík uppúr áramótum og tók börnin með sér, eins og hún hefur áður lýst. Flugið fyrir þau heim var þann þriðja janúar, en við fórum öll saman með lest daginn áður til Frankfurt og gistum þar síðustu nóttina saman, til að sleppa við ferðastress. Það reyndist eins gott, þar sem Deutsche Bahn átti óvenju slæma daga uppúr áramótunum og allt fór úrskeiðis sem farið gat. En frúin lýsir þeim hrakningum eflaust á sinni síðu, þar sem mér skilst að hún muni pósta lokakaflann um leið og hleðslutækið fyrir myndavélina er komið uppúr kassa.

Svo var skilist við járnleitarhliðin morguninn eftir. Ég sá þau síðast taka töskurnar sínar eftir gegnumlýsingu og hverfa inní fríhafnarsvæðið.

Heimferðin gekk vel framanaf, það var fjörutíu mínútna seinkun á lestinni sem ég tók til Stuttgart, sem var ágætt, þar sem hún hefði átt að vera farin korteri áður en ég keypti miðann. Svo var einhver seinkun á svæðislestinni til Tübingen á brautarstöðinni í Stuttgart. Og svo varð að skipta tvisvar um lest í viðbót þennan stutta spöl sem var eftir, vegna rafmagnsleysis skilst mér. Svo ég hafði hálftíma til að svipast um í Plochingen og Reutlingen á leiðinni, hvorum bæ fyrir sig. Í Reutlingen hékk ég reyndar bara á lestarstöðinni. En í Plochingen gekk ég um miðbæinn og komst að því að það eina sem þyrfti að skoða þar væri það eina sem ég komst ekki til að skoða áður en ég sneri um borð í lestina: Hundertwasserhverfið.

Meðan ég beið eftir fimmunni heim hjá aðalbrautarstöðinni í Tübingen hringdi síminn. Það var frúin að segja mér að þau væru lent og lögð af stað til Reykjavíkur. Ferðin til Íslands tók þau skemmri tíma en það tók mig að fara frá Frankfurt til Tübingen. Síðast í gær eða í dag sá ég einhverjar fréttir í Schwäbisches Tagblatt um þetta „Neujahrschaos“ hjá DB. Þetta mál þykir allt hið ódæmigerðasta.

Svo var unnið í tvo daga, en sjötti janúar er almennur frídagur – Dreikönigstag. Þá byrjaði ég fyrir alvöru að pakka því litla sem skilið var eftir hjá mér, þarsem búið var að finna handa mér minni íbúð í staðinn fyrir fjögurra herbergja gímaldið sem ég var skilinn eftir í. Í það fór afmælisdagurinn. Í vinnunni var meirihluti fólks enn í jólafríi, svo lítið þýddi að halda uppá afmælið þar. En í staðinn sló ég upp ágætu afmæli á fasbókarveggnum mínum á föstudagskvöldinu. Þangað mættju vinir mínir frá Íslandi, Danmörku, Bretlandi og Ástralíu (og e.t.v. víðar að) og héldu uppi fjöri langt framyfir miðnætti. Hafði ég af því hina mestu skemmtan.

Á laugardeginum flutti ég hingað sem ég er nú. Þetta er einsherbergis íbúð með litlu eldhúsi og baði, tveimur húsnúmerum neðar í sömu götu. Þetta kláraðist að mestu um helgina, þótt góður partur af laugardeginum hafi farið í búðaþeyting um bæinn þveran og endilangan og stór partur af sunnudeginum í það að steikja kleinur og soðið brauð (ég átti alltof mikið af jógúrt, þurfti að mæta með eitthvað bakkelsi á fimmtudagsfund núna í vikunni útaf afmælinu og það er enginn ofn í nýju íbúðinni). Hvorttveggja lukkaðist ljómandi vel. Ég keypti mér vænan skammt af vandaðri skinku og hef varla étið neitt annað hérna heimavið síðan þá nema soðið brauð með skinku og osti.

Við hjónin eigum marga ágæta vini hérna úti. Þar á meðal eru vinahjón okkar frá Búlgaríu. Þær vinkonurnar töluðust við á þrettándanum og afmælið mitt barst í tal. Sú búlgarska var alveg miður sín yfir því að enginn skyldi sinna greyið bóndanum á sjálfan afmælisdaginn, og ákvað í sárabætur að slá upp afmælisveislu á mánudagskvöldinu. Og það meiraðsegja tvöfaldri – maðurinn hennar átti afmæli þann dag. Það var dásamlegt kvöld, við átum búlgarskt síldar- og rauðrófusalat og sjófrystan fisk úr ofni (hún ætlaði fyrst að hafa kjúkling en guggnaði síðan á því – díoxínhræðslan sko) og supum á sætkartöflubrandíi úr Ammerdalnum. Góður endir á góðum degi – hann hafði líka byrjað ljómandi vel þarsem ein af stelpunum á kontórnum mætti með muffins í tilefni af afmælinu.

Svo var þrifið á kvöldin frameftir vikunni. Hlaupið frá úr vinnu annað veifið til að sinna pappírsvinnu í tengslum við flutninga 0g breytingar á fjölskylduhögum. Ég afhenti lyklana loksins í morgun. Og eldaði í fyrsta sinn heitan mat núna undir kvöldið. Frúin gaf mér (auk geisladisks og bókar) mikið þarfaþing í afmælisgjöf – Spätzlehristara. Ég eldaði reyndar ekki með honum núna, heldur bara takkó sem ég átti uppí skáp. En Spätzlehristarinn verður prófaður áður en langt um líður:

Jæja, nú er Nachtcafé byrjað á SWR. Yfirmaðurinn á deildinni minni tekur þátt í umræðum í sjónvarpssal um kosti og hættur nútíma læknisfræði. Ég ætla að horfa.