Tepokar í Tübingen

Þá er maður búinn að vera einsetumaður á ellefta dag hérna úti.

Frúin var kölluð aftur til að byrja vinnu heima í Reykjavík uppúr áramótum og tók börnin með sér, eins og hún hefur áður lýst. Flugið fyrir þau heim var þann þriðja janúar, en við fórum öll saman með lest daginn áður til Frankfurt og gistum þar síðustu nóttina saman, til að sleppa við ferðastress. Það reyndist eins gott, þar sem Deutsche Bahn átti óvenju slæma daga uppúr áramótunum og allt fór úrskeiðis sem farið gat. En frúin lýsir þeim hrakningum eflaust á sinni síðu, þar sem mér skilst að hún muni pósta lokakaflann um leið og hleðslutækið fyrir myndavélina er komið uppúr kassa.

Svo var skilist við járnleitarhliðin morguninn eftir. Ég sá þau síðast taka töskurnar sínar eftir gegnumlýsingu og hverfa inní fríhafnarsvæðið.

Heimferðin gekk vel framanaf, það var fjörutíu mínútna seinkun á lestinni sem ég tók til Stuttgart, sem var ágætt, þar sem hún hefði átt að vera farin korteri áður en ég keypti miðann. Svo var einhver seinkun á svæðislestinni til Tübingen á brautarstöðinni í Stuttgart. Og svo varð að skipta tvisvar um lest í viðbót þennan stutta spöl sem var eftir, vegna rafmagnsleysis skilst mér. Svo ég hafði hálftíma til að svipast um í Plochingen og Reutlingen á leiðinni, hvorum bæ fyrir sig. Í Reutlingen hékk ég reyndar bara á lestarstöðinni. En í Plochingen gekk ég um miðbæinn og komst að því að það eina sem þyrfti að skoða þar væri það eina sem ég komst ekki til að skoða áður en ég sneri um borð í lestina: Hundertwasserhverfið.

Meðan ég beið eftir fimmunni heim hjá aðalbrautarstöðinni í Tübingen hringdi síminn. Það var frúin að segja mér að þau væru lent og lögð af stað til Reykjavíkur. Ferðin til Íslands tók þau skemmri tíma en það tók mig að fara frá Frankfurt til Tübingen. Síðast í gær eða í dag sá ég einhverjar fréttir í Schwäbisches Tagblatt um þetta „Neujahrschaos“ hjá DB. Þetta mál þykir allt hið ódæmigerðasta.

Svo var unnið í tvo daga, en sjötti janúar er almennur frídagur – Dreikönigstag. Þá byrjaði ég fyrir alvöru að pakka því litla sem skilið var eftir hjá mér, þarsem búið var að finna handa mér minni íbúð í staðinn fyrir fjögurra herbergja gímaldið sem ég var skilinn eftir í. Í það fór afmælisdagurinn. Í vinnunni var meirihluti fólks enn í jólafríi, svo lítið þýddi að halda uppá afmælið þar. En í staðinn sló ég upp ágætu afmæli á fasbókarveggnum mínum á föstudagskvöldinu. Þangað mættju vinir mínir frá Íslandi, Danmörku, Bretlandi og Ástralíu (og e.t.v. víðar að) og héldu uppi fjöri langt framyfir miðnætti. Hafði ég af því hina mestu skemmtan.

Á laugardeginum flutti ég hingað sem ég er nú. Þetta er einsherbergis íbúð með litlu eldhúsi og baði, tveimur húsnúmerum neðar í sömu götu. Þetta kláraðist að mestu um helgina, þótt góður partur af laugardeginum hafi farið í búðaþeyting um bæinn þveran og endilangan og stór partur af sunnudeginum í það að steikja kleinur og soðið brauð (ég átti alltof mikið af jógúrt, þurfti að mæta með eitthvað bakkelsi á fimmtudagsfund núna í vikunni útaf afmælinu og það er enginn ofn í nýju íbúðinni). Hvorttveggja lukkaðist ljómandi vel. Ég keypti mér vænan skammt af vandaðri skinku og hef varla étið neitt annað hérna heimavið síðan þá nema soðið brauð með skinku og osti.

Við hjónin eigum marga ágæta vini hérna úti. Þar á meðal eru vinahjón okkar frá Búlgaríu. Þær vinkonurnar töluðust við á þrettándanum og afmælið mitt barst í tal. Sú búlgarska var alveg miður sín yfir því að enginn skyldi sinna greyið bóndanum á sjálfan afmælisdaginn, og ákvað í sárabætur að slá upp afmælisveislu á mánudagskvöldinu. Og það meiraðsegja tvöfaldri – maðurinn hennar átti afmæli þann dag. Það var dásamlegt kvöld, við átum búlgarskt síldar- og rauðrófusalat og sjófrystan fisk úr ofni (hún ætlaði fyrst að hafa kjúkling en guggnaði síðan á því – díoxínhræðslan sko) og supum á sætkartöflubrandíi úr Ammerdalnum. Góður endir á góðum degi – hann hafði líka byrjað ljómandi vel þarsem ein af stelpunum á kontórnum mætti með muffins í tilefni af afmælinu.

Svo var þrifið á kvöldin frameftir vikunni. Hlaupið frá úr vinnu annað veifið til að sinna pappírsvinnu í tengslum við flutninga 0g breytingar á fjölskylduhögum. Ég afhenti lyklana loksins í morgun. Og eldaði í fyrsta sinn heitan mat núna undir kvöldið. Frúin gaf mér (auk geisladisks og bókar) mikið þarfaþing í afmælisgjöf – Spätzlehristara. Ég eldaði reyndar ekki með honum núna, heldur bara takkó sem ég átti uppí skáp. En Spätzlehristarinn verður prófaður áður en langt um líður:

Jæja, nú er Nachtcafé byrjað á SWR. Yfirmaðurinn á deildinni minni tekur þátt í umræðum í sjónvarpssal um kosti og hættur nútíma læknisfræði. Ég ætla að horfa.