Út að borða með Þjóðverjum o.fl. (TíT3)

Á föstudagskvöldið síðasta var mér boðið út að borða – yfirmaðurinn á rannsóknastofunni hélt uppá afmælið með því að bjóða samstarfsfólkinu á Reefs, grillhús með vesturheimskt kóralrifjaþema við hliðina á körfuboltahöllinni. Ég ákvað að láta reyna á hamborgarann.

Ég veit ekki hvort frúin hefur nokkru sinni minnst á það hjá sér: Það er nánast ómögulegt að fá almennilegan hamborgara á veitingastöðum í Þýskalandi. Það besta sem hægt er að vonast eftir er brasaður Udo Special í sveittu búllunni við hliðina á Marktkauf. En það er meira svona gamla góða Tommastemmingin.

Hamborgarinn á Reefs var sá besti sem ég hef fengið hérna úti. Ekki gallalaus: Hann var aðeins of mikið steiktur fyrir minn smekk (ég var reyndar ekki spurður hvernig ég vildi hafa hann) og þau voru nísk á laukhringina sem var lofað í matseðlinum. En brauðið var fullkomið, grænmetið ferskt og sósan góð. Sem og sveitakartöflurnar. Ég var sáttur.

Svakalega er mig samt farið að langa í almennilegan hamborgara.

Ég hef fylgst með „Strákunum Okkar“ með öðru auganu síðustu daga. Missti reyndar af tveimur af fyrstu þremur leikjunum, þannig að ég hef mestmegnis bara séð þá spila rassinn úr buxunum. Djók.

Á laugardaginn bauð þýskt samstarfs- og vinafólk mér í heimsókn að horfa með sér á Ísland-Þýskaland. Það var í þá daga þegar íslenska liðið var enn búið að vinna alltsaman og mér fannst einhvernveginn eins og vinafólkið væri bara að hugsa um að leyfa mér að fagna í góðra vina hópi. En ja, það fór á annan veg. Og til að bíta hausinn af skömminni bauð franskur strákur af deildinni sér í heimsókn til mín í gærkvöldi til að horfa á sína menn taka Ísland í kennslustund.

En heimsóknin var að öllu öðru leyti skemmtileg. Við töluðum um tónlist og aðra dægurmenningu, ég sagði honum frá Þorranum og leyfði honum að smakka bæði harðfisk og brennivín. Verst að ég fattaði ekki með nægum fyrirvara að taka hákarlinn úr frystinum.

Og laugardagskvöldið var að öðru leyti skemmtilegt líka. Við horfðum á gamlan amerískan blokkböster, með þýsku döbbi og íslenskum texta. Allir sáttir.

– – –

Komandi helgi er að taka á sig mynd. Á sunnudeginum er ég aftur boðinn til samstarfs- og vinafólksins: heimilisfaðirinn á afmæli. Sjitt, þá fatta ég að ég verð víst að mæta með eitthvað. Það er víst það sem maður gerir þegar maður er boðinn í afmæli. Kannski ég gefi honum áritaðan geisladisk með Diktu, sé til hvað ég geri…

Svo ætla ég að fara á tónleika. Ég er bara ekki alveg búinn að ákveða hvaða, það koma tvennir til greina: Á föstudagskvöldinu spila Bakkushan í Sudhaus og á laugardagskvöldinu spila Joy Kills Sorrow í Deutsch-Amerikanisches Institut.

Bakkushan eru hressir rokklingar utan frá Mannheim sem slógu hálfa leiðina í gegn þegar þeir komust í úrslit Bundesvision-keppninnar hans Stefáns Raab í haust sem leið. Þeir eru núna að túra með nýja diskinn sinn, svona líka kúl og kalkúleraðir.

Joy Kills Sorrow eru hinsvegar amerískir krakkar sem spila blágresis-krútt-bræðing. Ég veit nánast ekkert um þau annað. En tónleikaupptökur á þjónvarpinu lofa mjög góðu. Ég er sem stendur sjónarmun svagari fyrir þeim heldur en Mannheimarokkurunum, en er enn að gera upp hug minn. Hvað finnst öðrum?