Rassskelling í Stuttgart (TíT5)

P2125880
Fyrir leik, meðan allir voru enn í góðum fíling.

Ég fór við annan mann til Stuttgart á laugardaginn var. Við skoðuðum Mercedes Benz safnið og sáum FC Nürnberg rassskella VfB Stuttgart á útivelli, 1:4. Það var bjart yfir öllum fyrir leik, VfB hafði átt góðan útisigur gegn Borussia Mönchengladbach helgina áður og Cacau allur að koma til eftir meiðsli. Og heimaliðið byrjaði mun betur, fyrstu tíu mínúturnar. Svo var staðan alltíeinu orðin 0:2. Þá kom ágætur fimm mínútna kafli og munurinn minnkaður í 1:2 fyrir leikhlé. Cacau kom inná í hálfleik og smá von fyrstu fimm mínútur þar á eftir. Svo var þetta bara ömurleg frammistaða. Dómarinn nennti þessu ekki lengur og blés leikinn af eftir 89 mínútur og 48 sekúndur. Það kvartaði enginn yfir því. En við heyrðum leikvanginn blístra og púa á sína menn meðan við gengum út.

P2125875
Silfurörin.

Safnið var flott. Ég mæli með því.  Og reyndar ógeðslega gaman að fara á leikinn, þótt „sínir menn“ hafi staðið sig hörmulega. Ég er dæmdur til að verða fylgjandi fyrir lífstíð. Kominn með trefil og allt. Og fullkomin byrjun á aðdáandaferlinum ef þeir byrja svo á því að falla niður í aðra deild, eins og allt lítur út fyrir.

– – –

Út-að-borða-með-allra-þjóða-kvikindunum datt hinsvegar uppfyrir. Og sá sem var e.t.v. að snúa aftur er ekki að snúa aftur. Hann flaug í dag til Ítalíu þar sem hann á fjölskyldu og verður þar eitthvað áfram.

Í staðinn vorum við fimm sem hittumst á gríska veitingastaðnum handan við Waldhausen á þriðjudagskvöldið var. Fórum svo þaðan heim til Frakkans í félagsskapnum og spiluðum á spil framyfir miðnættið.

Annars hefur ekkert verið að gerast. Nema vinnan. Sem er skemmtileg þessa síðustu daga fyrir heimför, en sosum ekki til að segja frá henni þannig að lifni ljós í augum barnanna.

– – –

Síðustu dagar fyrir heimför. Núna eru akkúrat fjórar vikur þangað til ég halla höfði í mínu eigin rúmi eftir tveggja ára hlé, þar af tvo og hálfan mánuð fjarri hlýju hjónasængur. Ég er farinn að telja dagana.

En þetta er búinn að vera góður tími hérna úti. Mjög góður.

– – –

Það stefnir í að ég fari eitthvað út með indverskum vinnufélaga (og e.t.v. einhverjum fleirum) ofan af Hertie Institut á föstudaginn eftir viku. Á þriðjudagsmorguninn hef ég rottað mig saman við annan niðri á Med.Gen.Abt. í smá kaffi, Sect og meððí handa öllum á deildinni. Og á sunnudaginn er Tübinger Fasnettsumzug. Vonandi get ég tekið einhverjar myndir til að sýna frá því hérna. Myndirnar hér að ofan eru frá bandaríska meðreiðarsveininum.

– – –

Ég hef fylgst með tíðindum undanfarinna daga og vikna heimanað. En mig langar einhvernveginn takmarkað að tjá mig um þá. Ekki úr þessu, ekki fyrr en ég verð kominn heim, held ég. Þangað til verð ég hérna úti.

Tepokar í Tübingen (4)

Það er ekki margt sem drífur á dagana. En eitthvað þó.

Tónleikarnir með Joy Kills Sorrow í þýsk-bandarísku vináttumiðstöðinni voru frábærir. Svo frábærir að ég keypti tvo diska með þeim, einn fyrir mig og einn fyrir þýskan vin minn, vinnufélaga og fjölskylduföður sem bauð mér og fleirum út að borða í afmælismorgunkaffi á sunnudeginum. Það var drukkið kaffi og spjallað, tvær af fjölskyldunum eru á leið til Íslands í sumar og því var töluvert rætt um það hvað ætti að gera þar. Svo börðust krakkarnir fyrir því að farið var í arabíska símann. Nokkra hringi.

Bakkushan nennti ég enganveginn, þegar til átti að taka.

Á fimmtudagskvöldið var ég boðinn í mat til bandarískra nágranna. Þar var boðið uppá hið ágætasta „Gumbo,“ sötraður Stuttgarter Hofbräu og rætt um hin ýmsustu mál. Mér var boðið með niðrí D.A.I. að horfa á Superbowl í nótt, en ég þakkaði pent. Í staðinn ætlaði ég að fara með bóndanum á heimaleik með Walter Tígrunum niðri í Paul Horn Arena á laugardagskvöldinu. Um laugardagsmorguninn beið mín hinsvegar tölvupóstur frá honum þar sem hann sagðist vera veikur og ekki treysta sér. Í staðinn fyrir að fara einn á leikinn (þar sem ég hefði reyndar hitt a.m.k. tvo ef ekki þrjá vinnufélaga) ákvað ég að vera heima og reyna mig við að elda Maultaschen frá grunni. Það lukkaðist ekki nema svona og svona. Kannski engin skelfileg katastrófa, alveg ætt svosem, en bara ekki nógu gott. Það verður reynt aftur síðar.

Það er eitthvað sem stendur til á næstunni. Ég ætla að reyna að gleyma ekki að horfa á seinni undanúrslitaþáttinn á morgun (ólíkt þeim fyrri fyrir viku síðan), þar sem Þjóðverjar velja lag handa henni Lenu Meyer-Landruth til að keppa með í Evróvisjón í Düsseldorf seinna í vor. Ég segi kannski eitthvað um það seinna. Og jafnvel um íslensku keppnina – ég á mér hefð til þess.

Á miðvikudagskvöldið stefnir í að við förum út að borða nokkur á deildinni, með vinnufélaga og ágætum vini mínum sem veiktist í september síðastliðnum og er e.t.v. að snúa aftur þessa dagana. Um næstu helgi ætla ég svo að fara með bandaríska húsbóndanum að sjá heimaleik með VfB.

En núna ætla ég að horfa á annan þáttinn af sex í Das Boot – miniseríunni, sem ég gat ekki staðist að kaupa mér um daginn.