Greinasafn fyrir flokkinn: Þjóðmálin

Af tveimur tungum

Til hamingju með dag íslenskrar tungu.

– – –

Það eru tvær fréttir sem mig langar að staldra við eftir daginn. Þær eru hvor úr sinni áttinni, þótt þær tengist. Sú fyrri er gleðileg (að mestu) og er einmitt í tilefni af deginum. Gísli Einarsson var í beinni útsendingu í kvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins frá Landnámssetrinu í Borgarfirði:

Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, flutti ávarp og talaði meðal annars um mikilvægi þjóðtungunnar en minnti um leið á að hundruð Íslendinga hefðu annað tungumál,  táknmálið, að móðurmáli og að því þyrfti einnig að hlúa. Einnig talaði hún um mikilvægi þess að nýir Íslendingar hefðu aðgang að íslenskukennslu og að þeim væri sýnd þolinmæði við íslenskunámið.

Að mestu gleðileg, sagði ég. Ég veit nefnilega ekki hversu margir heyrnarlausir hafa frétt af þessu ennþá. Þeir hafa að minnsta kosti ekki komist að þessu gegnum fréttirnar á internetinu. Þar er ekkert um þetta á prenti, það voru bara útvarpsfréttir RÚV klukkan sex sem impruðu á þessu. Sem kemur að takmörkuðum notum við fréttamiðlun til heyrnarlausa samfélagsins.

– – –

Það vilja margir að það verði grein í nýrri stjórnarskrá þar sem kveðið sé á um það að íslenska sé opinber þjóðtunga. Ég er einn þeirra. En það verður þá um leið að tryggja rétt þeirra sem tala hana ekki. Það þarf að ganga kirfilega frá því að víst sé að slíkt ákvæði troði ekki á mannréttindum þeirra sem skilja ekki opinbera tungumálið. Þetta má ekki bara vera einhver grein sem við setjum inn án frekari umhugsunar, til þess eins að geta mært okkur af henni á dögum eins og í dag.

– – –

Önnur frétt sem barst í dag, og ekki alveg eins gleðileg og sú fyrri, er af baráttu heyrnarlausra við Tryggingastofnun Ríkisins. Úr frétt Vísis um málið:

Heyrnarlausir eru að mörgu leyti háðir táknmálstúlkum í samskiptum sínum við Tryggingastofnun ríkisins. Stofnunin lítur hins vegar svo á að henni sé ekki skylt að greiða fyrir túlka og því þurfa heyrnarlausir sem leita til stofnunarinnar sjálfir að greiða reikninginn. Um er ræða tæpar sjö þúsund krónur.

Sú opinbera stofnun sem sér um málefni almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar lítur sem sagt ekki á það sem sitt mál — hvað þá réttindi skjólstæðinga sinna — að þeir fái þjónustu á öðru tungumáli en íslensku, jafnvel þótt sama fötlun og veldur því að þeir leita til stofnunarinnar geri þeim erfitt um vik að eiga samskipti við hana öðruvísi en á táknmáli með aðstoð túlks.

Og þetta er án þess að þurfi að tilgreina íslensku sem opinbert tungumál í stjórnarskrá.

– – –

Þetta er gömul saga og ný. Í Mílanó var árið 1880 haldin alþjóðleg ráðstefna um menntun heyrnarlausra, sú önnur í sögunni. Fundargestir voru 164. Þar af var einn þeirra heyrnarlaus. Eftir viku fundahöld var ákveðið með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða að notkun táknmáls væri skaðleg raddmótun og vitsmunaþroska heyrnarlausra, og því skyldi hætta að nota táknmál við menntun þeirra. Í staðinn skyldu heyrnarlausir öðlast menntun og fræðslu gegnum raddmál eingöngu.

Þessari stefnu var fylgt í þaula víðast hvar í heiminum — meðal annars á Íslandi — með þeirri mismunun og félagslegu einangrun sem hægt er að sjá í hendi sér. Þannig liðu meira en hundrað ár og sú saga verður ekki rakin hér. Ég vil þó minnast á þá uppreisn sem heyrnarlausir Íslendingar fengu haustið 2009, þegar Jóhanna Sigurðardóttir tók skýrslu Breiðavíkurnefndarinnar þar sem m.a. var fjallað um Heyrnleysingjaskólann fyrir á Alþingi og baðst afsökunar fyrir hönd íslensku þjóðarinnar og íslenskra stjórnvalda á því sem þar kom fram.

Í júlí 2010 var svo 21. alþjóðlega ráðstefnan um menntun heyrnarlausra haldin í Vancouver. Í lokaályktun hennar voru allar ályktanir Mílanóráðstefnunnar dregnar til baka, beðist afsökunar á afleiðingum hennar, og stjórnvöld hvött til að taka tillit til allra tungumála og samskiptamáta við mótun menntastefnu sinnar.

Hér má aftur gleðjast yfir fyrri frétt dagsins.

– – –

Í ýmsum stjórnarskrám er hugað að réttindum heyrnarlausra og annarra málminnihlutahópa. Í finnsku stjórnarskránni frá 1999 er ákvæðið um opinber tungumál (finnsku og sænsku) fyrsta málsgrein sautjándu greinarinnar, „Um rétt til eigin tungu og menningar.“ Í framhaldinu er m.a. talað um að réttur málminnihlutahópa (Sama og Rómafólks) og réttur þeirra sem tala táknmál eða þurfa á túlkaþjónustu að halda vegna fötlunar skuli tryggður með lögum.

Takið eftir að greinin heitir ekki „Um þjóðtungu.“ Það er ekki til þess sem hún er.

Fyrir fleiri dæmi má benda á ljómandi góða samantekt Erlu Hlínar Hjálmarsdóttur, annars frambjóðanda til stjórnlagaþings. Þau spanna allt frá því að tryggja rétt fólks fyrir dómi og í samskiptum við opinbera aðila, yfir í að táknmál viðkomandi lands er viðurkennt sem opinbert tungumál til jafns við raddmál.

Í öllum álitamálum við ritun nýrrar stjórnarskrár eru fleiri en ein fær leið. Það á líka við hér. En að hnykkja á rétti heyrnarlausra til eigin tungu og eigin menningar finnst mér sjálfsagt og nauðsynlegt. Með einum hætti eða öðrum.

– – –

Að lokum er hér ljóð í tilefni dagsins. Það er flutt á íslensku táknmáli en er þýtt úr bandarísku táknmáli (ASL). Ensk þýðing fylgir:

Handhafi Jónasar

En allt frelsi, jafnt þjóða sem einstaklinga, krefst aga. Agi hvers einstaklings, í hugsun og hátterni, getur aldrei leitt til annars en farsældar allrar þjóðarinnar. Við megum aldrei ganga svo lengi á sjóði, hvorki andlega né veraldlega, að ekkert sé lengur eftir til að gefa. Við höfum þegið góðar gjafir frá fyrri kynslóðum og öðrum þjóðum. Mesta gæfa okkar væri sú að gefa ekki minna.

Þetta er úr setningarræðu sigurvegara dagsins, fyrsta ágúst árið 1980.

Fagur texti, tímalaus og dagsannur.

Einhvern tíma á síðustu tveimur árum (kannski kringum áttræðisafmælið hennar í vor sem leið) var athygli okkar hjóna vakin á þessum orðum. Okkur fannst nógu mikið um þau til að skrifa þau upp og hengja á vegginn í stofunni okkar. Ég rifja þau upp hér í tilefni dagsins.

Til hamingju Vigdís, þú ert vel að þessu komin.

Hvernig er stemmingin?

Ég ligg slappur og sloj uppí rúmi hérna í Svabíu og horfi með öðru auganu á útsendingar að heiman, eftir því sem línan leyfir. Hugsa sitthvað: um íslenska fjölmiðla, stjórnvöld, almúga og alþingi, stjórnarskrána, forsetann og frúna hans. Svo fátt eitt sé nefnt.

Það er sitthvað sem þarf bæði að segja og gera sem hvorki heyrist né sést. Veit samt ekki hvort ég verði til neins við hvort heldur sem er þar sem ég er. Enda löngum því marki brenndur að vilja helst hugsa mig um í nokkra daga áður en ég segi eða geri nokkurn skapaðan hlut sem gæti mögulega skipt nokkurn mann máli.

Svo finnur maður ekki alveg hvernig ástandið er heima; maður fær ekki nema undan og ofan af því hingað út, enda varla neinum íslensku fjölmiðlanna treystandi til að gefa sjónarhorn sem er ólitað af áhrifum pólitískra og fjármálalegra valdhafa.

(Eins og sagan ætti að hafa kennt okkur: Fjármálalegt vald er ekki endilega mælt í prósentum af eignaraðild. Pólitískt vald er ekki endilega mælt í fjölda sæta á alþingi eða í ríkisstjórn. Hvað þá í niðurstöðum nýjustu skoðanakannana.)

Svo ég velti fyrir mér: Hvernig er stemmingin?

Hvernig var hún niðri á Austurvelli? Hverju var fólk að mótmæla? Hverju vill það koma í verk? Hver er krafan? Það komst ekki alveg til skila til mín.

Hvernig er hún allsstaðar annarsstaðar? Hvernig líður fólki? Hvernig hafið þið það?

Spyr sá sem ekki veit.

Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagar 11-14 (og kosningauppgjör)

Jæja, þá er þetta bara að verða búið.

Báðir dagarnir um helgina voru miklir maraðonsdagar. Á laugardeginum vorum við komin af stað fyrir hádegið. Báðar systurnar höfðu gist hvor hjá sinni vinkonunni um nóttina, og þannig hittist á að þær fóru hvor á sína hverfishátíðina með þeim um morguninn. Svo við hittum þær þar og smöluðum, fyrst við Víkurskóla og síðan í Korpuhverfinu. Þaðan var haldið til bróður míns, þarsem við vorum strax sjanghæjuð í vorverkin: uppsetningu á trampólíni heimilisins í bakgarðinum. Svo fengum við dýrindis smörrebröð og mungát að smekk, nema krakkarnir, sem fengu kalda pizzu og vatn. Þaðan var farið í ýmsar útréttingar og um kvöldið var heljarinnar Evróvisjón- og kosningapartý hjá mági mínum, hinum eldri.

Talandi um það, þá glöddust allir vitaskuld óskaplega mikið yfir úrslitunum. Yngri systirin hoppaði og spangólaði af gleði og öllum nokk sama um hrakfarir hennar Heru. Ég sé mest eftir því sjálfur að hafa ekki haft tröllatrúna til að spá henni Lenu sigri – hálfasnalegt að hafa haldið með laginu sem vann án þess að hafa spáð því sigri. Asnalegt, en ánægjulegt. Annars telst mér til að ég hafi náð að spá sex þjóðum rétt á topp tíu: Hvíta-Rússland hefur endanlega sannað sig vera utan allra blokka, Serbía skoraði lægra en ég átti von á og Ísland og Noregur gerðu hvort öðru meira í brók í stigagjöfinni (þótt flutningur hafi verið skammlaus). Af þeim sem komu í staðinn furða ég mig mest á gengi Danmerkur – djöfuls holdrosalegt rusl sem það nú var. Armenska og georgíska lagið voru meðal þeirra sem hefði þessvegna verið hægt að spá sigri þótt þau rötuðu ekki inná topp tíu spána hjá mér – keppnin í ár var óvenju jöfn og tvísýn, eins og sést á úrslitunum. Það voru bara fleiri en tíu lög sem hefðu þessvegna getað tekið þetta. Svo náði Úkraína að slefa upp í tíunda sætið, hvað sem annars má um það segja.

Það er þó ljóst að allt tal um austantjaldsklíkuna fellur dautt og ómerkt, sem sést best á því að mesti hrollurinn yfir atkvæðablokkagreiðslu kvöldsins var þegar Jóhanna Guðrún tilkynnti tólf stig til „ár frends, Denmark.“

Bjakk.

Svo var glaðst yfir öðrum atkvæðaúrslitum framyfir aðrar tölur úr Reykjavík. Krakkarnir gistu hjá gestgjöfunum og voru sóttir þangað morguninn eftir fyrir morgunkaffi með vinafólki á Kjarvalsstöðum. Þá var brennt á Suðurnesin að hitta frænku frúarinnar, og svo aftur til baka í pönnukökur hjá frænda í hina ættina hennar. Um kvöldið bauð svo vinnufélagi minn í dýrindis kvöldverð til heimilis í rottubælinu Garðabæ.

– – –

Í gær var farið í hamfaraskoðunarferð undir Eyjafjöllin. Það var mjög athyglisverð upplifun. Við sáum fossana tvo, og þessutan öskugrátt mistur yfir öllu. Ég safnaði krukkufylli á grasbala við Skóga. Eftir þetta veitti ekki af að skola jarðefnin af sér í Árbæjarlaug.

Eftir ýmsar útréttingar í morgun hittum við móður mína sem kom með föður mínum í gær. Ég mun heilsa uppá hann sjálfur um kvöldmatarleytið í kvöld, og svo er ræs um óttubilið í nótt og brennt til Keflavíkur.

Stocherkahnrennen á Neckar á komandi Fronleichnam.

Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagur 1

Það var óvenju lítið að gera í Frankfurtarflughöfn þegar við tékkuðum okkur inn. Ég hef aldrei séð svona lítið að gera þarna. Spurning hvort spili stærri rullu: Rísandi Eyjafjallajökull eða fallandi evra. Eða bara hrein hending.

Sáum súluna stíga upp af honum og yfir skýjaþykknið út um kýraugað á stjórnborða þegar flugið var lækkað til lendingar. Tignarlegt. Og alltíeinu langaði mig ekkert sérstaklega til að keyra þangað og skoða nánar. Þetta er ekki jákvæðasta og mest aðlaðandi orka í heimi að horfa á hana.

Jaðrar kannski við lög að segja svona? Geta ferðaþjónustuaðilar nokkuð kært mig fyrir að segja svona upphátt?

Við fengum Moggann og ég greip tækifærið til að fletta honum, í fyrsta skipti í meira en ár. Ég komst að því að það er að minnsta kosti ekki búið að eyðileggja bridsdálkinn.

Horfði á Bjarnfreðarson í „inflight entertainment.“ Og fannst hún hinsvegar stórkostleg.

– – –

Það er orðið mjög athyglisvert þegar maður kemur svona sjaldan til landsins að sjá hvernig mynd er máluð af landinu með auglýsingaskiltunum sem heilsa manni þegar gengið er frá borði í Keflavík. Nú er orðið mjög sláandi hversu mikil athygli er lögð á að prómótera íslenskan útivistarfatnað (sem var reyndar fyrir), ullarvörur og heimilisiðnað (sem er nýrra trend). Og hvað það er gert á svakalega hipp og kúl máta. Ég sá þarna auglýsingamyndir af fólki í ullarpeysum sem voru svo slick að langaði mest að troða ullarsokki í brókina þegar maður sá þær. Algjöra listgerninga í ímyndarsköpun.

Ojæja, það situr þá eitthvað eftir af gróðærinu: Auglýsingagúrúar sem þekkja leiðirnar að brautunum sem hægt er að virkja í hausnum á okkur. Og þætti þá sumum til einhvers unnið. Eða tapað, ef við viljum líta svoleiðis á það.

Spjaldið sem skar sig úr og stakk í augu eins og Höfðatorgsturn í Árbæjarsafninu var auglýsing fyrir tónlistar- og ráðstefnuhúsið, mér liggur við að segja svokallaða. Eftir því sem mánuðirnir líða verður allt einhvern veginn meira og meira rangt við það. Maður sá rautt við að horfa á auglýsingaspjaldið. Rautt spjald.

Keypti Ítrekun Mugisons og Go með Jónsa í fríhöfninni, með nokkrum DVD fyrir krakkana (íslenska talið fyrir krakkana sko). Fékk svo í kvöldmatnum ábendingu frá mági mínum um einn disk í viðbót sem mér myndi líka: Diskinn frá í fyrra með Kimono. Hef kannski augun opin fyrir honum í fríhöfninni á leið út aftur.

– – –

Annars erum við öll komin í Grafarvoginn þarsem við gistum yfir nótt áður en við fjögur feðgin fljúgum norður yfir heiðar í fyrramálið (ef Earth, Wind and Fire leyfa okkur það). Frúin kemur svo sömu leið hálfum öðrum sólarhring á eftir okkur. Þetta lítur allt sæmilega út í augnablikinu, en maður trúir því þá fyrst að þetta gangi þegar maður horfir uppá Súlur útum landganginn á vélinni.

Svo aftur í Reykjavík í næstu viku, þetta verða fimmtán dagar og fjórtán nætur í allt.

Ánægður með úrslitin

Ég má til með að segja að ég er ánægður með úrslit atkvæðagreiðslunnar í gær.

– – –

Fólk hefur verið að deila um það um hvað var verið að kjósa og um hvað var ekki verið að kjósa.

Skiljanlega.

Þegar ég tjáði mig í upphafi árs um mögulega neitun Ólafs Ragnars lá málið tiltölulega ljóst fyrir: Í þjóðaratkvæðagreiðslu hefði Já þýtt samþykki á lögunum, Nei hefði þýtt ekki aðeins höfnun laganna heldur sennilegast líka risastóra löngutöng framan í umheiminn og þið getið bara átt ykkur. Að öllu óbreyttu.

Svo þykknaði plottið.

Bretar og Hollendingar komu að borðinu með nýtt og betra tilboð, og meðfylgjandi kröfu um aðkomu og samþykki allra stjórnmálaflokka á alþingi við lausnina. Teik itt or lív itt, mæ frend.

Og sat í grófum dráttum við það þegar kosningar voru haldnar. Svo Já þýddi ekki lengur ósk um lausn deilunnar – hinumegin við borðið beið enn betra tilboð og hálfmarklaust að fara þá að taka því verra. Og nei þýddi ekki lengur það risavaxna fokkjú sem það hefði þýtt ella, heldur ekki endilega neitt meira en það að frekar væri óskað eftir betri samningi, eins og þeim sem virtist í kortunum.

Málin voru, svo gripið sé til frasanna, í farvegi.

– – –

Auðvitað hafði hver sínar ástæður. Þær hafa verið þuldar upp. Sumir vildu ekki borga skuldir óreiðumanna. Sumir vildu fella ríkisstjórnina. Sumir vildu senda „skýr skilaboð til umheimsins.“ Hver hafði sitt að segja með sínu nei-i.

En það er dálítið óhæft til túlkunar á heildinni. Það var bara eitt nei í boði.

– – –

Svo um hvað var verið að kjósa? Hverjir voru kostirnir? Eftir hverju var fólk að vonast þegar það merkti við nei? Og ekki síður, eftir hverju var fólk að vonast þegar það merkti við já?

– – –

Niðurstaðan verður að segjast skýr. 62,7% kosningabærra landsmanna nýttu kosningaréttinn. Af þeim sögðu 93,2% nei. Það segir okkur í hið allraminnsta að yfir fimmtíuogátta prósent þjóðarinnar höfnuðu lögum númer eitt frá tvöþúsundogtíu.

Það er, hvað sem hver segir, afgerandi niðurstaða. Hvernig sem hún er túlkuð. Hvað sem hún nú annars þýðir.

Hvað áttu öll þessi fimmtíuogátta prósent sameiginlegt? Og hvað áttu þær sameiginlegt, þær tæplega tvöþúsund og sexhundruð sálir sem merktu við já?

Hvað gekk þeim til?

– – –

Eins og áður sagði: Málin eru í farvegi. Tilboðið liggur fyrir. Íslenska samninganefndin er að vinna í málunum. Leitað er eftir samstöðu allra aðila. Hálfgert þjóðstjórnarfyrirkomulag á hlutunum.

Og þetta var vitað fyrir. Þetta er nánast það eina sem var vitað áður en gengið var til kosninganna: Lögunum um gamla samninginn yrði hafnað (lög um annan enn eldri og ósamþykktan tækju aftur gildi) og haldið yrði áfram vinnunni um þann nýja sem fyrir lá.

Það eina sem hefði getað sett það í uppnám hefði verið samþykkt laga 1/2010.

Það er eina skynsamlega ástæðan sem ég sé í hendi mér fyrir þau 2599 sem merktu við já.

Skynsamlega? Er hægt að kalla þetta skynsamlega ástæðu?

– – –

Það er þetta með kröfuna um aðkomu allra aðila. Að allir verði að koma að borðinu. Þjóðstjórn um lausn. Ef fólk trúir því ekki að það muni leiða til farsællar lausnar fyrir þjóðina er skiljanlegt að það kjósi frekar að samþykkja lakari samning en þann sem enn er ósamið um, þótt hann sé betri.

Betri sé einn fugl í hendi en tveir í skógi, má segja.

Og þeir sem kjósa nei, þeir væntanlega setja traust sitt frekar á farveginn.

– – –

Eins og áður: Fólk gæti borið mismunandi vonir til þess framhalds. Að það leiði til lægri vaxtaprósentu og betri greiðsluskilmála. Að það leiði til uppreisnar æru fyrir hinn hrjáða íslenska almúga. Að það leiði til þess að flosni upp úr viðræðunum. Að AGS verði rekinn úr landi. Að við fáum gamla góða fólkið okkar aftur í ríkisstjórn.

Fyrsta skrefið liggur fyrir. Fólk getur borið ólíkar vonir til þess sem kemur á eftir. En fyrsta skrefið er ljóst: Samningaviðræðum verður haldið áfram.

– – –

Þetta er það sem mér sýnist mega lesa útúr niðurstöðunum án þess að vera að gera neinum neitt upp.

2599 manns trúðu ekki því að áframhaldandi samningar myndu leiða til betri niðurstöðu en lög 1/2010.

58.4% þjóðarinnar vildu hafna lögunum og fá áframhaldandi viðræður í kjölfarið. Með ólíkum vonum um framhaldið, en þó þetta sameiginlegt.

– – –

Með hliðsjón af því sem ég hef sagt áður er augljóst að ég fagna þessu: Hinn almenni kjósandi hefur axlað sína eigin ábyrgð á því hvernig málum skuli fram haldið, svo langt sem hún nær. Meirihlutinn er ótvíræður, skilaboðin eru skýr (ef ekki neitt yfirmáta afmörkuð).

Þetta segi ég þrátt fyrir mína eigin takmörkuðu trú á samninganefndarferlinu eins og það blasir við í dag. Ég tel tölverðar líkur á að þetta lendi allt í heilu heljarinnar allsherjar klúðri, með ófyrirséðum og ófyrirsjáanlegum skaða fyrir íslenskan efnahag og íslenska sjálfsmynd (ef hægt er að segja að eitthvað slíkt sé til).

Ég verð alsæll ef það kemur í ljós að ég hafi rangt fyrir mér. Ég vona að svo sé. Ég tel mig ekki með forspárri mönnum.

Að minnsta kosti 58.4% kosningabærra manna eru ósammála mér. Það segir mér að Íslendingar eru ennþá bjartsýn þjóð að eðlisfari, þrátt fyrir allt. Það er líka eitthvað til að gleðjast yfir.

En jafnvel þótt fari á versta veg þá yrði það afleiðing ákvörðunar sem tekin var á afgerandi máta af meirihluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu þar um.

Allt orkar tvímælis þá gert er. Til góðs eða ills, þá er þetta ákvörðun sem er tekin á óafneitanlega ábyrgð mín og þín, hvers einasta óbreytts Íslendings á gólfinu, hvers einasta starfsmanns á plani. Við tókum þessa ákvörðun – meirihlutinn ræður.

Það er akkúrat það sem við þurftum að gera.

Og því ber að fagna.

Túlkun kosningaúrslita – ágæt forskrift frá Mogganum

Fólk mun mikið deila um hvernig túlka eigi úrslitin eftir kosningar dagsins. Hvernig á að ráða í úrslit þarsem í raun er einungis einn valkostur í boði? Hvað getur það mögulega sagt okkur?

Það er ekki eins og Íslendingar hafi áður gengið til kosninga þarsem í raun var bara einn möguleiki á kjörseðlinum, er það nokkuð?

Eða hvað?

– – –

Nú man ég ekki fyrir víst hvort í tví- eða þrígang hefur verið gengið til forsetakosninga þar sem „utangarðs“-frambjóðandi hefur farið fram gegn ríkjandi forseta. En hitt man ég að í eitt skipti voru úrslit á þann veg að deila mátti um þau: Í forsetakjörinu 2004, þar sem Ástþór Magnússon og Baldur Ágústsson (hvar er hann núna?!) buðu sig fram gegn Ólafi Ragnari Grímssyni sumarið eftir hina alræmdu neitun á fjölmiðlalögum Davíðs Oddssonar.

Skoðum hvaða forskrift leiðari Morgunblaðsins frá 28. júní 2004 gefur okkur fyrir að ráða í úrslit við svipaðar kringumstæður og munu blasa við okkur í kvöld:

Úrslit forsetakosninganna á laugardaginn var eru (svo!) alvarlegt áfall fyrir Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands. Eftir átta ára setu á Bessastöðum mættu um 28 þúsund Íslendingar á kjörstað til þess að skila auðu og láta með þeim hætti í ljósi andúð sína á vinnubrögðum forsetans og afstöðu. Um 80 þúsund kjósendur sáu ekki ástæðu til að koma á kjörstað, sem að hluta til má skilja sem vísbendingu um andstöðu einhverra úr þeirra hópi við forsetann og endurkjör hans. Um 13 þúsund kjósendur greiddu Baldri Ágústssyni atkvæði, sem snemma í vor var lítt þekktur meðal landsmanna.
Ólafur Ragnar Grímsson hefur gegnt embætti forseta Íslands í átta ár og hefði átt að komast langt með það á þessum tíma að fylkja þjóðinni að baki sér sem forseta, þótt hann væri einn umdeildasti stjórnmálamaður landsins á sinni tíð. Það hefur þó ekki tekizt betur en svo, að í þessum kosningum hlaut hann einungis atkvæði um 42,5% kosningabærra Íslendinga til þess að gegna forsetaembættinu áfram.
Allt eru þetta skýrar vísbendingar um að ótrúlega stórum hópi kjósenda hefur mislíkað hvernig forsetinn hefur sinnt embættisstörfum sínum og skyldum.

Þetta eru tölur sem er ekkert verra að hafa til hliðsjónar en hverjar aðrar. Ef, þegar upp verður staðið,fjöldi þeirra sem heima sitja, skila auðu eða ógildu, eða merkja við „já“ nær slíkum tölum að ekki nema um fjörutíu til fjörutíuogfimm prósent kosningabærra manna merkir við „nei,“ sem nánast allir (nema einhverjar furðuskepnur eins og undirritaður) halda fram að hafi verið eini raunhæfi kosturinn, þá ætti samkvæmt þessari ágætu forskrift leiðarahöfundar Moggans að vera kristaltært að úrslitin séu „alvarlegt áfall“ fyrir þá sem hafa hvatt fólk til að fella lögin. Það ættu að geta talist „skýrar vísbendingar“ um að „ótrúlega stórum hópi kjósenda“ hafi mislíkað þetta fíaskó alltsaman.

Með öðrum orðum: Það hlyti Mogginn þá að kalla „skýr skilaboð.“

Og ef ég man rétt, þá er það akkúrat það sem „við“ þurfum að senda til „umheimsins.“

Ekki satt?

– – –

Einhversstaðar þar fyrir ofan bíður grátt svæði. Ef talan verður sirkabát, segjum, kringum sextíu prósentin má sennilega fara að deila um hversu skýr skilaboðin eru. Og svo má náttúrulega fara að rífast um það hver þau séu, þessi skilaboð sem sumir myndu þá halda fram að væru skýr en aðrir óskýr.

Og ættu þá allir að una glaðir við sína þrætubók enn um sinn.

– – –

Sjáum til. Ég bíð pínu spenntur.

Tvær mögulegar ástæður fyrir að segja „Já“ í kosningunum á laugardaginn kemur

Ég, eins og margir, hef sveiflast pólanna á milli í Icesave málinu síðustu mánuði. Síðast þegar ég tjáði mig (daginn fyrir ekki-undirskriftina hans Ólafs Ragnars) vonaði ég hálfpartinn að forsetinn myndi neita að skrifa undir og samningurinn færi í þjóðaratkvæði. Bara svo hinum almenna kjósanda yrði þröngvað til að taka sína eigin ábyrgð á fíaskóinu.

Svo fór það náttúrulega svoleiðis, og í einhvern tíma fannst mér þetta alveg voðalegt. Svo fannst mér það ágætt. Svo fannst mér þetta bara fáránlegur sirkus og tilgangslaus vitleysa. Svo fannst mér þetta aftur ágætt. Og finnst enn, á sömu forsendum og áður.

Mér finnst þetta samt enn allt vera hinn fáránlegasti sirkus.

– – –

Ég tvísté lengi lengi og vissi ekkert hvað ég ætti að kjósa: nei eða já, skila auðu eða sitja heima. Var í síðustu viku kominn niðurá að gera upp á milli tveggja seinni kostanna. Og það að ég skyldi vera hérna úti í Þýskalandi, í klukkutíma fjarlægð frá konsúlnum og auk þess með eigin ábyrgð á að koma mínu (líkastil auða) atkvæði uppá skerið gerði valið í raun auðvelt.

Svo var það bara í gær eða fyrradag að það small hjá mér dálítið svakaleg staðreynd. Og önnur í dag, kannski ekki alveg eins svakaleg, en þó allrar athygli verð.

Tökum þær í öfugri röð.

– – –

(Það eru svo enn aðrar ástæður sem aðrir hafa nefnt, fyrir sitt leyti, fyrir hverjum af kostunum fjórum. Ég sé enga ástæðu til að rekja þær hér – ég er ekki að gefa tæmandi yfirlit, bara benda á tvo punkta sem mér sýnist hafa orðið útundan í umræðunni.)

– – –

Hver sá sem eitthvað veit, veit að ef núgildandi lögum um greiðslur vegna Icesave-skuldbindinga gamla Landsbankans verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá taka gildi þau gömlu frá síðasta sumri, þessi með skilmálum og lánakjörum þess sumars frá Bretum og Hollendingum (hvernig var það, voru þeir ekki eitthvað verri en þeir sem verið er að fara að kjósa um á laugardaginn? Ég man það ekki fyrir víst…) og tilsvarandi fyrirvörum sem alþingi setti eftirá. Og Bretar og Hollendingar vildu ekki gangast undir á sínum tíma.

Þessi lög voru samþykkt, frá hendi íslenska ríkisins. Og í raun er Bretum og Hollendingum enn í lófa lagið að samþykkja þau skilst mér, eins og t.d. Ómar Ragnarsson benti á í bloggi í dag.

Kannski ekki líklegt. En ekki útilokað.

Eins og staðan er í dag er ég ekkert svo viss að meðalkjósandinn vilji þau frekar en það sem fyrir liggur í dag. Ég bara veit það ekki – hefur einhver vegið það og metið?

En það yrði að minnsta kosti alltaf síðra en það sem lá á borðinu og beið eftir undirskrift fyrr í vikunni.

– – –

Ég vek athygli á að það er ekki hægt að velja það sem okkur langar. Það er ekki í boði. Það bjóðast tveir kostir (eða fjórir, vilji maður telja svoleiðis), og ekki nóg með að báðir séu afleitir, heldur er ekki hægt að sjá fyrir hverjar afleiðingarnar verða af hvorum fyrir sig.

Það er ekki nóg með að þetta sé rússnesk rúlletta. Þetta er rússnesk rúlletta þar sem hvert einasta hólf getur verið hlaðið, eða öll tóm, eða hvað sem er þar á milli.

Mér dettur í hug spurningin sem hann Harrý hreinlætisskerti sagði að maður þyrfti að spyrja sig: „Do I feel lucky?“

– – –

Hin ástæðan er ósköp einföld. Og hræðir mig hálfu meir.

Setjum sem svo að Hollendingar og Bretar sýni það langlundargeð að setjast aftur að samningaborði eftir að lögin verða felld í atkvæðagreiðslunni á laugardaginn. Enn þess krafist að íslenska samninganefndin hafi umboð frá öllum flokkum á alþingi.

Þetta gefur strax augaleið, er það ekki?

Ef tekur að nálgast lendingu í málinu þarsem reynt er að lágmarka skaðann beggja vegna borðs, þarsem Bretum og Hollendingum er bættur skaðinn án þess að þeir hagnist á sjálfum vaxtaprósentunum, þá veit ég hvar ég hef fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna: Þeir hafa viljað koma þessu útaf borðinu mánuðum saman. Ég er til í að trúa því að Hreyfingarliðið þekki vitjunartímann. Og anskotakornið, einverra hluta vegna held ég meiraðsegja að Sjálfstæðismenn undir forystu Bjarna Ben myndu á endanum gera sér ljóst mikilvægi þess að fá lúkningu á málið.

En framsóknarmenn undir forystu Sigmundar Davíðs get ég bara ekki séð fyrir mér gera neitt annað en að slá hendinni á móti hverju sem býðst. Allt til að geta slegið sér uppá því heimafyrir. Það er ekkert flóknara: Það er sú strategía sem felur í sér mesta pópúlíska skammtímagróðann.

Það ætti að vera nóg fyrir þá að þrjóskast við út árið 2011, fram yfir stóru gjalddagana sem bíða okkar þá og gera allar mögulegar Icesave greiðslur árið 2016 býsna saklausar í samanburðinum.

Það er mun auðveldara að digta upp átórítet til að slá sjálfan sig til riddara þegar ríkið er hrunið og landið stjórnlaust.

– – –

(„Well, do ya, punk?“)

– – –

(P.S. Lenti í þeirri innsláttarvillu við ritunina að káið datt úr nafni Landsbankans. Það var dálítið spúkí.)

Ólöglegt verðsamráð

Ég var búinn að finna mér uppáhaldskaffi til hvunndagslegs heimabrúks – Dallmayr Prodomo – einhverntíma á haustdögum. Ætlaði að reyna að halda mig við það sem oftast. Þá birtist rétt fyrir jólin frétt um að dómur hefði fallið í máli sem snerist um ólöglegt verðsamráð kaffirisanna þriggja hér í Þýskalandi: Melitta, Tchibo og Dallmayr. Með sekt uppá samtals 159 og hálfa milljón evra. Þá ákvað ég að finna mér nýja uppáhaldstegund til heimilisnota.

Ég er enn að leita. Og tek feginn á móti uppástungum. Ég hef reynt mig við týpur frá bæði Jacobs og Eduscho án þess að ná fullum sáttum. En jólunum var blessunarlega reddað með sendingu ofanaf skeri af hátíðarblöndu frá Rúbín.

Soddan synd. Ég var mjög sáttur við Dallmayr Prodomo. En sumt gerir maður bara ekki. Hvar í landi sem maður er staddur.

Ekki satt?

Þrjú kvöld af sjónvarpi

Ég fór í afmælisferð til Kölnar.

(Hún var mjög ánægjuleg, takk fyrir að spyrja – sjá frúna fyrir ferðalýsingu.)

Við stoppuðum á leiðinni norðureftir til að fá okkur skyndibita. Í sjoppunni voru seldar DVD-myndir, sem var kjörið, þar sem maður á til að þreytast á þýska döbbinu.

Meir um það rétt bráðum.

En einnig fyrir það að við gáfum okkur einmitt í jólagjöf ferða-DVD-spilara, til að hafa ofanaf fyrir krökkunum í langferðum (einsog tildæmis til Kölnar). Og okkur eftir að þau eru komin í ró á gistiheimilunum.

Svo við keyptum okkur tvo diska. Annan þeirra horfðum við á strax þá um kvöldið: Cloverfield.

(Smáragrund? Smáravellir? Smáratún? Gengur ekki alveg í þýðingunni: kemur alltaf út einsog götuheiti í Grafarvogi…)

Við vorum aldrei búin að sjá hana áður. Og ég var mjög impóneraður. Skemmtilegasta skrímslamynd sem ég hef séð svo áratugum skiptir.

Vildi bara benda á þetta, ef einhverjir skyldu enn eiga eftir að sjá hana…

– – –

Hinn diskurinn sem við keyptum innihélt tvær myndir. Annarsvegar einhvern vestra, sýnist mér, með Angelínu Jolie. Hann er enn óséður. Hinsvegar myndina A Few Days in September – alþjóðlega spennumynd með Juliette Binoche,  John Turturro og Nick Nolte í blikkaðu-og-misstu-af-honum-ódauðum-hlutverki.

Þetta leit út sem hin sæmilegasta ræma á pappírnum. Og það má vel vera að hún sé það.

Nema.

Eins og með allar myndir sem maður getur keypt hérna úti, þá er hægt að velja um að horfa á hana með þýsk-döbbuðu hljóðrásinni, eða enska orgínalnum. Nema það sem var kallað ensk hljóðrás kom fljótlega í ljós að var að, hvaaað, svona tveimur þriðju til þremur fjórðuhlutum á frönsku.

Og engir textar í boði, takk fyrir.

Svo maður var tilneyddur að hamast á audio-takkanum í gegnum alla myndina, að ná enskunni hvenær sem hennar naut við, en skipta yfir í þýska döbbið um leið og franskan byrjaði. Og ekki einusinni hægt að reiða sig á amerísku leikarana: John Turturro talaði sig á frönsku gegnum alla myndina.

Gaman.

Það stakk dálítið meira en vanalega að heyra hve raddirnar í þeim Turturro og Binoche dýpkuðu í hvert skipti sem skipt var yfirá þýskuna. Það er nógu skrítið að horfa á heilar myndir með leikurum sem tala framandi röddu, þótt þeir fari ekki alltíeinu í mútur í miðri setningu.

– – –

Svo horfðum við á forkeppni Evróvisjón á rúv-vefnum í gærkvöldi. Og þótti báðum sem skástu kostirnir væru kosnir áfram.

(Er það ekki einmitt íslenska lýðræðið í hnotskurn þessa dagana? Frelsi til að fá að kjósa illskásta kostinn?)

Vorum á leiðinni heim í gær eftir skemmtilega heimsókn hjá vinum þegar ég sagði frúnni frá þessu: Við yrðum að horfa, þetta væri allt að fara í gang. Sigurjón Brink á sjó dreginn og alles.

„Sigurjón hver?“ spurði hún.

„Nú Sigurjón Brink manneskja,“ svaraði ég. „Fastamubla í hverri forkeppni í áraraðir. Bíddu bara, hann rifjast upp fyrir þér.“

Leið svo fram á kvöldið.

„Þarna er hann,“ sagði ég og benti á tölvuskjáinn. „Þetta er hann, þekkirðu hann ekki núna?“

„Njeeeh,“ sagði hún og mundaði prjónana. „Þetta er nú bara einhver Sigurjón Blank fyrir mér.“

Setti mig þá ofurlítið stúmm.

Og hefur téður Sigurjón aldrei verið titlaður annað en Blank á heimilinu síðan.

(Um þá tvo flytjendur sem enn eru ónefndir hef ég engin orð. Segjum að það sé af tillitssemi.)

Annars ætlaði ég ekki að fjalla neitt sérstaklega um íslensku forkeppni Evróvisjón þetta árið, þótt ég kannski stikli á einhverju aftur á næstu vikum.

Hér á heimilinu er nefnilega mun meiri spenningur fyrir Bundesvision 2010.

Um það verður pottþétt betur fjallað síðar.