Greinasafn fyrir flokkinn: Almennt

Út að borða með Þjóðverjum o.fl. (TíT3)

Á föstudagskvöldið síðasta var mér boðið út að borða – yfirmaðurinn á rannsóknastofunni hélt uppá afmælið með því að bjóða samstarfsfólkinu á Reefs, grillhús með vesturheimskt kóralrifjaþema við hliðina á körfuboltahöllinni. Ég ákvað að láta reyna á hamborgarann.

Ég veit ekki hvort frúin hefur nokkru sinni minnst á það hjá sér: Það er nánast ómögulegt að fá almennilegan hamborgara á veitingastöðum í Þýskalandi. Það besta sem hægt er að vonast eftir er brasaður Udo Special í sveittu búllunni við hliðina á Marktkauf. En það er meira svona gamla góða Tommastemmingin.

Hamborgarinn á Reefs var sá besti sem ég hef fengið hérna úti. Ekki gallalaus: Hann var aðeins of mikið steiktur fyrir minn smekk (ég var reyndar ekki spurður hvernig ég vildi hafa hann) og þau voru nísk á laukhringina sem var lofað í matseðlinum. En brauðið var fullkomið, grænmetið ferskt og sósan góð. Sem og sveitakartöflurnar. Ég var sáttur.

Svakalega er mig samt farið að langa í almennilegan hamborgara.

Ég hef fylgst með „Strákunum Okkar“ með öðru auganu síðustu daga. Missti reyndar af tveimur af fyrstu þremur leikjunum, þannig að ég hef mestmegnis bara séð þá spila rassinn úr buxunum. Djók.

Á laugardaginn bauð þýskt samstarfs- og vinafólk mér í heimsókn að horfa með sér á Ísland-Þýskaland. Það var í þá daga þegar íslenska liðið var enn búið að vinna alltsaman og mér fannst einhvernveginn eins og vinafólkið væri bara að hugsa um að leyfa mér að fagna í góðra vina hópi. En ja, það fór á annan veg. Og til að bíta hausinn af skömminni bauð franskur strákur af deildinni sér í heimsókn til mín í gærkvöldi til að horfa á sína menn taka Ísland í kennslustund.

En heimsóknin var að öllu öðru leyti skemmtileg. Við töluðum um tónlist og aðra dægurmenningu, ég sagði honum frá Þorranum og leyfði honum að smakka bæði harðfisk og brennivín. Verst að ég fattaði ekki með nægum fyrirvara að taka hákarlinn úr frystinum.

Og laugardagskvöldið var að öðru leyti skemmtilegt líka. Við horfðum á gamlan amerískan blokkböster, með þýsku döbbi og íslenskum texta. Allir sáttir.

– – –

Komandi helgi er að taka á sig mynd. Á sunnudeginum er ég aftur boðinn til samstarfs- og vinafólksins: heimilisfaðirinn á afmæli. Sjitt, þá fatta ég að ég verð víst að mæta með eitthvað. Það er víst það sem maður gerir þegar maður er boðinn í afmæli. Kannski ég gefi honum áritaðan geisladisk með Diktu, sé til hvað ég geri…

Svo ætla ég að fara á tónleika. Ég er bara ekki alveg búinn að ákveða hvaða, það koma tvennir til greina: Á föstudagskvöldinu spila Bakkushan í Sudhaus og á laugardagskvöldinu spila Joy Kills Sorrow í Deutsch-Amerikanisches Institut.

Bakkushan eru hressir rokklingar utan frá Mannheim sem slógu hálfa leiðina í gegn þegar þeir komust í úrslit Bundesvision-keppninnar hans Stefáns Raab í haust sem leið. Þeir eru núna að túra með nýja diskinn sinn, svona líka kúl og kalkúleraðir.

Joy Kills Sorrow eru hinsvegar amerískir krakkar sem spila blágresis-krútt-bræðing. Ég veit nánast ekkert um þau annað. En tónleikaupptökur á þjónvarpinu lofa mjög góðu. Ég er sem stendur sjónarmun svagari fyrir þeim heldur en Mannheimarokkurunum, en er enn að gera upp hug minn. Hvað finnst öðrum?

Tepokar í Tübingen (2)

Hvunndagurinn tekur á sig mynd í einverunni.

Það kom með mér hingað yfir fullur ruslapoki af fötum sem krakkarnir voru vaxnir uppúr. Á laugardeginum lagði ég uppí góðan göngutúr yfir í Waldhäuser Ost hverfið – hverfi með háreistum blokkum sem rísa yfir Waldhausen-býlið hérna austan við Heuberger-Tor-Weg. Ég vissi að það væri fatagámur þarna einhversstaðar. Taldi mig hafa nógu góða hugmynd nákvæmlega hvar til að geta rambað á hann.

Það var ekki alveg.

En ég fann hann fyrir rest eftir að hafa gengið góðan dagpart um hálft hverfið með fullan ruslapoka af fötum í fanginu. Fékk góða hjálp hjá afgreiðslustelpunum á OMV-bensínstöðinni við Waldhausen. Hann var þarna einhversstaðar.

Á leiðinni heim horfði ég á naktar greinarnar á eplatrjánum við Waldhausen og fór að hugsa um Mondrian. Fannst í smástund rofa eitthvað til. En skil samt enn ekkert hvað hann var að fara með öllum þessum kompósisjónum í rauðu, gulu og bláu.

Um kvöldið fór ég á körfuboltaleik. Sá Tígrana hans Walters tapa fyrir Trier. Strákarnir okkar byrjuðu vel í fyrsta fjórðungi en svo var þetta bara eintómt klúður hjá þeim í hinum þremur.

Ég keypti mér samt trefil, að sjálfsögðu.

Á sunnudeginum þann sextánda bar ekkert sérstakt til tíðinda. Fyrir utan að það laust niður í mig í morgunsturtunni að ég átti enn eftir að segja upp síma- og internetsamningunum mínum við Deutsche Telecom. Tveggja ára samningurinn sem ég skrifaði uppá við komuna rennur út þann fimmtánda apríl. Og klausa í samningnum um að maður verði að segja upp skriflega með þriggja mánaða fyrirvara, altsvo í mínu tilviki í síðasta lagi laugardaginn fimmtánda janúar. Annars endurnýjaðist samningurinn sjálfkrafa til tveggja ára í viðbót.

Fokk, sagði ég þá.

Þetta slapp samt fyrir horn, ég mætti eftir svefnlitla nótt við opnun á mánudagsmorgninum með uppsögnina tilbúna og undirskrifaða, búinn að æfa mig í helstu svívirðingum og fyrirfestufrösum. Hvernig á að segja „Bitte“ einsog viðmælandi manns eigi að skammast sín fyrir tilveru sína. En svo kom ekkert til þess, DT-strákurinn ósköp geðþekkur og allur af vilja gerður að slútta þessu. Málið er dautt, við reddum þessu bara.

Þeir eiga þetta nefnilega til líka, hérna úti. Ef pappírarnir eru svona nokkurn veginn í lagi.

Í gærkvöldi fór ég svo á tónleika á Schocken-klúbbnum í Stuttgart. Dró þangað með mér Frakka og Fríslenska valkyrju. Dikta lék fyrir, kannski ekki dansi, en svona nettu fótatappi. Góð stemming. Staðurinn hálffullur af Íslendingum – ranghugmyndir mínar um að ég væri nánast eini Íslendingurinn í Schwaben snarlega leiðréttar. Ég hafði samt ekki minnstu löngun til að tala við neinn þeirra.

Nema reyndar strákana sjálfa í Diktu, þegar ég keypti af þeim diskana þeirra báða. Og fékk plakat í kaupbæti. Allt áritað. Ég horfi á áritað plakatið uppi á vegg um leið og ég skrifa þetta:

Til Þín! Frá Okkur! Áfram Ísland!

Tepokar í Tübingen

Þá er maður búinn að vera einsetumaður á ellefta dag hérna úti.

Frúin var kölluð aftur til að byrja vinnu heima í Reykjavík uppúr áramótum og tók börnin með sér, eins og hún hefur áður lýst. Flugið fyrir þau heim var þann þriðja janúar, en við fórum öll saman með lest daginn áður til Frankfurt og gistum þar síðustu nóttina saman, til að sleppa við ferðastress. Það reyndist eins gott, þar sem Deutsche Bahn átti óvenju slæma daga uppúr áramótunum og allt fór úrskeiðis sem farið gat. En frúin lýsir þeim hrakningum eflaust á sinni síðu, þar sem mér skilst að hún muni pósta lokakaflann um leið og hleðslutækið fyrir myndavélina er komið uppúr kassa.

Svo var skilist við járnleitarhliðin morguninn eftir. Ég sá þau síðast taka töskurnar sínar eftir gegnumlýsingu og hverfa inní fríhafnarsvæðið.

Heimferðin gekk vel framanaf, það var fjörutíu mínútna seinkun á lestinni sem ég tók til Stuttgart, sem var ágætt, þar sem hún hefði átt að vera farin korteri áður en ég keypti miðann. Svo var einhver seinkun á svæðislestinni til Tübingen á brautarstöðinni í Stuttgart. Og svo varð að skipta tvisvar um lest í viðbót þennan stutta spöl sem var eftir, vegna rafmagnsleysis skilst mér. Svo ég hafði hálftíma til að svipast um í Plochingen og Reutlingen á leiðinni, hvorum bæ fyrir sig. Í Reutlingen hékk ég reyndar bara á lestarstöðinni. En í Plochingen gekk ég um miðbæinn og komst að því að það eina sem þyrfti að skoða þar væri það eina sem ég komst ekki til að skoða áður en ég sneri um borð í lestina: Hundertwasserhverfið.

Meðan ég beið eftir fimmunni heim hjá aðalbrautarstöðinni í Tübingen hringdi síminn. Það var frúin að segja mér að þau væru lent og lögð af stað til Reykjavíkur. Ferðin til Íslands tók þau skemmri tíma en það tók mig að fara frá Frankfurt til Tübingen. Síðast í gær eða í dag sá ég einhverjar fréttir í Schwäbisches Tagblatt um þetta „Neujahrschaos“ hjá DB. Þetta mál þykir allt hið ódæmigerðasta.

Svo var unnið í tvo daga, en sjötti janúar er almennur frídagur – Dreikönigstag. Þá byrjaði ég fyrir alvöru að pakka því litla sem skilið var eftir hjá mér, þarsem búið var að finna handa mér minni íbúð í staðinn fyrir fjögurra herbergja gímaldið sem ég var skilinn eftir í. Í það fór afmælisdagurinn. Í vinnunni var meirihluti fólks enn í jólafríi, svo lítið þýddi að halda uppá afmælið þar. En í staðinn sló ég upp ágætu afmæli á fasbókarveggnum mínum á föstudagskvöldinu. Þangað mættju vinir mínir frá Íslandi, Danmörku, Bretlandi og Ástralíu (og e.t.v. víðar að) og héldu uppi fjöri langt framyfir miðnætti. Hafði ég af því hina mestu skemmtan.

Á laugardeginum flutti ég hingað sem ég er nú. Þetta er einsherbergis íbúð með litlu eldhúsi og baði, tveimur húsnúmerum neðar í sömu götu. Þetta kláraðist að mestu um helgina, þótt góður partur af laugardeginum hafi farið í búðaþeyting um bæinn þveran og endilangan og stór partur af sunnudeginum í það að steikja kleinur og soðið brauð (ég átti alltof mikið af jógúrt, þurfti að mæta með eitthvað bakkelsi á fimmtudagsfund núna í vikunni útaf afmælinu og það er enginn ofn í nýju íbúðinni). Hvorttveggja lukkaðist ljómandi vel. Ég keypti mér vænan skammt af vandaðri skinku og hef varla étið neitt annað hérna heimavið síðan þá nema soðið brauð með skinku og osti.

Við hjónin eigum marga ágæta vini hérna úti. Þar á meðal eru vinahjón okkar frá Búlgaríu. Þær vinkonurnar töluðust við á þrettándanum og afmælið mitt barst í tal. Sú búlgarska var alveg miður sín yfir því að enginn skyldi sinna greyið bóndanum á sjálfan afmælisdaginn, og ákvað í sárabætur að slá upp afmælisveislu á mánudagskvöldinu. Og það meiraðsegja tvöfaldri – maðurinn hennar átti afmæli þann dag. Það var dásamlegt kvöld, við átum búlgarskt síldar- og rauðrófusalat og sjófrystan fisk úr ofni (hún ætlaði fyrst að hafa kjúkling en guggnaði síðan á því – díoxínhræðslan sko) og supum á sætkartöflubrandíi úr Ammerdalnum. Góður endir á góðum degi – hann hafði líka byrjað ljómandi vel þarsem ein af stelpunum á kontórnum mætti með muffins í tilefni af afmælinu.

Svo var þrifið á kvöldin frameftir vikunni. Hlaupið frá úr vinnu annað veifið til að sinna pappírsvinnu í tengslum við flutninga 0g breytingar á fjölskylduhögum. Ég afhenti lyklana loksins í morgun. Og eldaði í fyrsta sinn heitan mat núna undir kvöldið. Frúin gaf mér (auk geisladisks og bókar) mikið þarfaþing í afmælisgjöf – Spätzlehristara. Ég eldaði reyndar ekki með honum núna, heldur bara takkó sem ég átti uppí skáp. En Spätzlehristarinn verður prófaður áður en langt um líður:

Jæja, nú er Nachtcafé byrjað á SWR. Yfirmaðurinn á deildinni minni tekur þátt í umræðum í sjónvarpssal um kosti og hættur nútíma læknisfræði. Ég ætla að horfa.

Grein á Vísi og nokkur svör

Dagurinn í gær var mikill greinabirtingadagur. Sú þriðja birtist á visir.is um hádegisbilið og fór nánar út í efnið sem ég impraði á í hinum tveimur. Um það sem mestu máli skiptir.

– – –

Síðustu tvær vikur hef ég fengið nokkur bréf frá félagasamtökum og einstaklingum sem hafa viljað forvitnast um afstöðu frambjóðenda til stjórnlagaþings um hin ýmsu mál. Þarna bregður fyrir ýmsum málaflokkum sem ég hef kannski ekki lagt sömu áherslu á og með aðra, en kannski geta svör mín við þeim hjálpað einhverjum á lokametrunum við að ákveða hvort ætti eða ætti ekki að kjósa mig.

– – –

Félag umhverfisfræðinga á Íslandi (FUMÍ) spurði mig að eftirfarandi:

Munt þú styðja tillögur þess efnis að umhverfisverndarákvæði verði bætt við íslensku stjórnarskrána, náir þú kjöri til stjórnlagaþings? – Með umhverfisverndarákvæði er til dæmis átt við ákvæði um sjálfbæra þróun, um rétt almennings til heilnæms umhverfis, um umgengni við náttúru og umhverfi með tilliti til komandi kynslóða og um vernd villtra dýrastofna.

Og ég svaraði:

  • Já, það mun ég gera. Það er alls ekki sama hvernig slík ákvæði eru orðuð og þarf að vanda til þeirra svo hafi raunveruleg áhrif á löggjöf og aðgerðir valdhafa. En mér þætti sjálfsagt að styðja tillögur um efni í líkingu við þau dæmi sem tiltekin voru með spurningunni, ef vel er að þeim staðið.

– – –

Ferðaklúbburinn 4×4 hafði svo sérstakan áhuga á að fræðast um viðhorf frambjóðenda til þess að færa í stjórnarskrá ákvæði um almannarétt, þ.e. rétt  almennings til ferðalaga og nýtingar, eins og honum er lýst í þriðju grein laga um náttúruvernd (1999 nr. 44 22. Mars ). Svör frambjóðenda voru svo kynnt á spjallvef klúbbsins. Spurningarnar voru tvær og þær koma hér á eftir, með svörum mínum:

1. Finnst þér rétt að binda í stjórnarskrá ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar?

  • Nei. Þriðji kafli laga um náttúruvernd finnst mér góður til síns brúks. Ákvæði um þetta finnst mér að eigi heima þar og innan almennrar löggjafar, frekar en í stjórnarskránni. Mér finnst eðlilegt og sjálfsagt að almenningur hafi ferðarétt um íslenska náttúru (og nýtingarrétt að því marki sem tilgreint er í þriðja kafla náttúruverndarlaga), svo lengi sem það stangast ekki á við rétt almennings til heilnæms umhverfis, og sjálfbæra umgengni við náttúru og umhverfi með tilliti til komandi kynslóða. En rétturinn finnst mér alltaf skýlaust eiga að hvíla hjá því síðarnefnda.

2. Munt þú beita þér fyrir því að ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar verði sett í stjórnarskrá?

  • Nei. Þetta er ekki eitt af því sem mér þykir mestu máli skipta við ritun nýrrar stjórnarskrár og mér finnst því ekki líklegt að ég myndi hafa frumkvæði að því

Í seinni hluta fyrra svarsins tók ég mér það bessaleyfi að fá lánað orðalag úr spurningum FUMÍ. Enda erindin tengd, þar sem þau hafa bæði að gera með náttúru.

– – –

Þriðja erindið hafði líka að gera með náttúru, þótt af öðrum toga væri. Samtökin 78 lögðu sínar spurningar fyrir frambjóðendur, en ég hef ekki orðið var við opinbera umræðu á viðbrögðum við þeim, ólíkt því sem hefur verið um aðrar fyrirspurnir hagsmunaaðila og félagasamtaka. Svo hér er sennilega eini staðurinn til að fræðast um viðhorf mín til þess sem þar var spurt um:

1) Hver eru viðhorf þín til hinsegin fólks (Hommar, Lesbíur, tvíkynhneigðir og transgender)?

  • Í persónulegum samskiptum eru þau svipuð og viðhorf mín til tónlistarmanna, Skaftfellinga og aldraðra kvenna sem prjóna: Þetta er eitt af því sem skilgreinir það hver viðkomandi er en skiptir að öðru leyti litlu máli. Sem þjóðfélagshópi ber ég ómælda virðingu fyrir sögu þeirra og réttindabaráttu.

2) Hvað munt þú gera ef sú hugmynd kemur upp að bæta orðinu kynhneigð inn eða áfram útiloka þennan hóp samfélagsins úr stjórnarskránni?

  • Tillögu um að bæta skilyrði um kynhneigð inn í 65. grein stjórnarskrárinnar (um mannréttindi og að allir skulu jafnir fyrir lögum) myndi ég styðja heilshugar. Ef engin slík tillaga kæmi frá forsætisnefnd stjórnlagaþings myndi ég vilja taka þátt í að leggja hana fram sjálfur.

3) Ert þú jákvæð/ur í garð réttinda hinsegin fólks?

  • Já.

Og lítið meira um það að segja.

– – –

Að síðustu má bæta við að um síðustu helgi gaf ég fulltrúum Biskupsstofu formleg svör við spurningum þeirra til frambjóðenda til stjórnlagaþings. Það virðist hafa dottið uppfyrir að koma þeim fyrir á kirkjuvefnum. En til að allt mitt sem lyti að þeim málaflokki væri samankomið á einum stað setti ég endanleg svör mín inn sem athugasemd við fyrri grein þar um.

– – –

Þá eru eftir svör mín til nokkurra almennra kjósenda sem vildu forvitnast um hug frambjóðenda til sinna eigin hugðarefna. Ég get vonandi tekið þau saman til að birta hér síðar í dag.

Útvarpsviðtal og nauðsyn þess að kjósa

Síðustu vikuna hefur ríkisútvarpið gert stórátak í umfjöllun sinni um stjórnlagaþingið. Það er kominn þessi líka fíni stjórnlagaþingsvefur hjá þeim þar sem meðal annars er hægt að hlusta á viðtöl sem óöfundsverðir starfsmenn RÚV tóku við alla frambjóðendur um liðna helgi.

Á sunnudagskvöldið var hringdi Leifur Hauksson í frambjóðanda #3502 og leyfði honum að ausa úr sálarkeröldunum í fimm mínútur. Hér má heyra afraksturinn:

Viðtalið við RÚV

– – –

Nú síðdegis fer fjölskyldan í bíltúr að heimsækja ræðismanninn í Stuttgart. Það er kjördagur í héraði í dag.

Ég gekk frá endanlegu uppkasti að kjörlistanum mínum í gærkvöldi. Þetta er mun einfaldara mál en búið er að reyna að telja fólki trú um. Með orðum Óla Gneista Sóleyjarsonar:

Ég held að það sé ein leið sem virkar betur en önnur þegar farið er að velja og raða niður frambjóðendum á kjörseðilinn. Sú aðferð er að setja þann sem þér þykir bestur efst, næstbesta í annað sætið og svo framvegis. Ekki hafa sérstakar áhyggjur af öðru.

– – –

Í tengslum við það vil ég vekja athygli á vefnum kjostu.org. Þetta er hugmynd sem kom fram meðal frambjóðenda sjálfra til að hvetja fólk til að kjósa á laugardaginn kemur. Helmingurinn af öllum mínum beinu útgjöldum vegna framboðsins hingað til (eða sem nemur einni Ragnheiði af tíu Brynjólfum) er til að taka þátt í kostnaðinum við þetta framtak.

Því það er gríðarlega mikilvægt að fólk fari og kjósi. Eftir því sem færri kjósa, þess veikara umboð hefur stjórnlagaþingið til uppkastsins að nýju stjórnarskránni þegar það kemur til afgreiðslu alþingis. Ef umboðið er sterkt verður erfitt fyrir alþingi að standa í vegi fyrir afgreiðslunni eða gera sínar eigin breytingar. Ef það er veikt, ja þá. Ja þá.

Það vill segja: Mér er sama hvort ég sjálfur er á listanum þínum eða ekki. Það er ekki það sem mestu máli skiptir. Mikilvægast af öllu er að þú farir og skilir inn atkvæðinu þínu.

Ekki vera fúli kallinn:

Fúli kallinn
Fúli kallinn

Af tveimur tungum

Til hamingju með dag íslenskrar tungu.

– – –

Það eru tvær fréttir sem mig langar að staldra við eftir daginn. Þær eru hvor úr sinni áttinni, þótt þær tengist. Sú fyrri er gleðileg (að mestu) og er einmitt í tilefni af deginum. Gísli Einarsson var í beinni útsendingu í kvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins frá Landnámssetrinu í Borgarfirði:

Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, flutti ávarp og talaði meðal annars um mikilvægi þjóðtungunnar en minnti um leið á að hundruð Íslendinga hefðu annað tungumál,  táknmálið, að móðurmáli og að því þyrfti einnig að hlúa. Einnig talaði hún um mikilvægi þess að nýir Íslendingar hefðu aðgang að íslenskukennslu og að þeim væri sýnd þolinmæði við íslenskunámið.

Að mestu gleðileg, sagði ég. Ég veit nefnilega ekki hversu margir heyrnarlausir hafa frétt af þessu ennþá. Þeir hafa að minnsta kosti ekki komist að þessu gegnum fréttirnar á internetinu. Þar er ekkert um þetta á prenti, það voru bara útvarpsfréttir RÚV klukkan sex sem impruðu á þessu. Sem kemur að takmörkuðum notum við fréttamiðlun til heyrnarlausa samfélagsins.

– – –

Það vilja margir að það verði grein í nýrri stjórnarskrá þar sem kveðið sé á um það að íslenska sé opinber þjóðtunga. Ég er einn þeirra. En það verður þá um leið að tryggja rétt þeirra sem tala hana ekki. Það þarf að ganga kirfilega frá því að víst sé að slíkt ákvæði troði ekki á mannréttindum þeirra sem skilja ekki opinbera tungumálið. Þetta má ekki bara vera einhver grein sem við setjum inn án frekari umhugsunar, til þess eins að geta mært okkur af henni á dögum eins og í dag.

– – –

Önnur frétt sem barst í dag, og ekki alveg eins gleðileg og sú fyrri, er af baráttu heyrnarlausra við Tryggingastofnun Ríkisins. Úr frétt Vísis um málið:

Heyrnarlausir eru að mörgu leyti háðir táknmálstúlkum í samskiptum sínum við Tryggingastofnun ríkisins. Stofnunin lítur hins vegar svo á að henni sé ekki skylt að greiða fyrir túlka og því þurfa heyrnarlausir sem leita til stofnunarinnar sjálfir að greiða reikninginn. Um er ræða tæpar sjö þúsund krónur.

Sú opinbera stofnun sem sér um málefni almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar lítur sem sagt ekki á það sem sitt mál — hvað þá réttindi skjólstæðinga sinna — að þeir fái þjónustu á öðru tungumáli en íslensku, jafnvel þótt sama fötlun og veldur því að þeir leita til stofnunarinnar geri þeim erfitt um vik að eiga samskipti við hana öðruvísi en á táknmáli með aðstoð túlks.

Og þetta er án þess að þurfi að tilgreina íslensku sem opinbert tungumál í stjórnarskrá.

– – –

Þetta er gömul saga og ný. Í Mílanó var árið 1880 haldin alþjóðleg ráðstefna um menntun heyrnarlausra, sú önnur í sögunni. Fundargestir voru 164. Þar af var einn þeirra heyrnarlaus. Eftir viku fundahöld var ákveðið með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða að notkun táknmáls væri skaðleg raddmótun og vitsmunaþroska heyrnarlausra, og því skyldi hætta að nota táknmál við menntun þeirra. Í staðinn skyldu heyrnarlausir öðlast menntun og fræðslu gegnum raddmál eingöngu.

Þessari stefnu var fylgt í þaula víðast hvar í heiminum — meðal annars á Íslandi — með þeirri mismunun og félagslegu einangrun sem hægt er að sjá í hendi sér. Þannig liðu meira en hundrað ár og sú saga verður ekki rakin hér. Ég vil þó minnast á þá uppreisn sem heyrnarlausir Íslendingar fengu haustið 2009, þegar Jóhanna Sigurðardóttir tók skýrslu Breiðavíkurnefndarinnar þar sem m.a. var fjallað um Heyrnleysingjaskólann fyrir á Alþingi og baðst afsökunar fyrir hönd íslensku þjóðarinnar og íslenskra stjórnvalda á því sem þar kom fram.

Í júlí 2010 var svo 21. alþjóðlega ráðstefnan um menntun heyrnarlausra haldin í Vancouver. Í lokaályktun hennar voru allar ályktanir Mílanóráðstefnunnar dregnar til baka, beðist afsökunar á afleiðingum hennar, og stjórnvöld hvött til að taka tillit til allra tungumála og samskiptamáta við mótun menntastefnu sinnar.

Hér má aftur gleðjast yfir fyrri frétt dagsins.

– – –

Í ýmsum stjórnarskrám er hugað að réttindum heyrnarlausra og annarra málminnihlutahópa. Í finnsku stjórnarskránni frá 1999 er ákvæðið um opinber tungumál (finnsku og sænsku) fyrsta málsgrein sautjándu greinarinnar, „Um rétt til eigin tungu og menningar.“ Í framhaldinu er m.a. talað um að réttur málminnihlutahópa (Sama og Rómafólks) og réttur þeirra sem tala táknmál eða þurfa á túlkaþjónustu að halda vegna fötlunar skuli tryggður með lögum.

Takið eftir að greinin heitir ekki „Um þjóðtungu.“ Það er ekki til þess sem hún er.

Fyrir fleiri dæmi má benda á ljómandi góða samantekt Erlu Hlínar Hjálmarsdóttur, annars frambjóðanda til stjórnlagaþings. Þau spanna allt frá því að tryggja rétt fólks fyrir dómi og í samskiptum við opinbera aðila, yfir í að táknmál viðkomandi lands er viðurkennt sem opinbert tungumál til jafns við raddmál.

Í öllum álitamálum við ritun nýrrar stjórnarskrár eru fleiri en ein fær leið. Það á líka við hér. En að hnykkja á rétti heyrnarlausra til eigin tungu og eigin menningar finnst mér sjálfsagt og nauðsynlegt. Með einum hætti eða öðrum.

– – –

Að lokum er hér ljóð í tilefni dagsins. Það er flutt á íslensku táknmáli en er þýtt úr bandarísku táknmáli (ASL). Ensk þýðing fylgir:

Handhafi Jónasar

En allt frelsi, jafnt þjóða sem einstaklinga, krefst aga. Agi hvers einstaklings, í hugsun og hátterni, getur aldrei leitt til annars en farsældar allrar þjóðarinnar. Við megum aldrei ganga svo lengi á sjóði, hvorki andlega né veraldlega, að ekkert sé lengur eftir til að gefa. Við höfum þegið góðar gjafir frá fyrri kynslóðum og öðrum þjóðum. Mesta gæfa okkar væri sú að gefa ekki minna.

Þetta er úr setningarræðu sigurvegara dagsins, fyrsta ágúst árið 1980.

Fagur texti, tímalaus og dagsannur.

Einhvern tíma á síðustu tveimur árum (kannski kringum áttræðisafmælið hennar í vor sem leið) var athygli okkar hjóna vakin á þessum orðum. Okkur fannst nógu mikið um þau til að skrifa þau upp og hengja á vegginn í stofunni okkar. Ég rifja þau upp hér í tilefni dagsins.

Til hamingju Vigdís, þú ert vel að þessu komin.

Hvernig er stemmingin?

Ég ligg slappur og sloj uppí rúmi hérna í Svabíu og horfi með öðru auganu á útsendingar að heiman, eftir því sem línan leyfir. Hugsa sitthvað: um íslenska fjölmiðla, stjórnvöld, almúga og alþingi, stjórnarskrána, forsetann og frúna hans. Svo fátt eitt sé nefnt.

Það er sitthvað sem þarf bæði að segja og gera sem hvorki heyrist né sést. Veit samt ekki hvort ég verði til neins við hvort heldur sem er þar sem ég er. Enda löngum því marki brenndur að vilja helst hugsa mig um í nokkra daga áður en ég segi eða geri nokkurn skapaðan hlut sem gæti mögulega skipt nokkurn mann máli.

Svo finnur maður ekki alveg hvernig ástandið er heima; maður fær ekki nema undan og ofan af því hingað út, enda varla neinum íslensku fjölmiðlanna treystandi til að gefa sjónarhorn sem er ólitað af áhrifum pólitískra og fjármálalegra valdhafa.

(Eins og sagan ætti að hafa kennt okkur: Fjármálalegt vald er ekki endilega mælt í prósentum af eignaraðild. Pólitískt vald er ekki endilega mælt í fjölda sæta á alþingi eða í ríkisstjórn. Hvað þá í niðurstöðum nýjustu skoðanakannana.)

Svo ég velti fyrir mér: Hvernig er stemmingin?

Hvernig var hún niðri á Austurvelli? Hverju var fólk að mótmæla? Hverju vill það koma í verk? Hver er krafan? Það komst ekki alveg til skila til mín.

Hvernig er hún allsstaðar annarsstaðar? Hvernig líður fólki? Hvernig hafið þið það?

Spyr sá sem ekki veit.

Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagar 11-14 (og kosningauppgjör)

Jæja, þá er þetta bara að verða búið.

Báðir dagarnir um helgina voru miklir maraðonsdagar. Á laugardeginum vorum við komin af stað fyrir hádegið. Báðar systurnar höfðu gist hvor hjá sinni vinkonunni um nóttina, og þannig hittist á að þær fóru hvor á sína hverfishátíðina með þeim um morguninn. Svo við hittum þær þar og smöluðum, fyrst við Víkurskóla og síðan í Korpuhverfinu. Þaðan var haldið til bróður míns, þarsem við vorum strax sjanghæjuð í vorverkin: uppsetningu á trampólíni heimilisins í bakgarðinum. Svo fengum við dýrindis smörrebröð og mungát að smekk, nema krakkarnir, sem fengu kalda pizzu og vatn. Þaðan var farið í ýmsar útréttingar og um kvöldið var heljarinnar Evróvisjón- og kosningapartý hjá mági mínum, hinum eldri.

Talandi um það, þá glöddust allir vitaskuld óskaplega mikið yfir úrslitunum. Yngri systirin hoppaði og spangólaði af gleði og öllum nokk sama um hrakfarir hennar Heru. Ég sé mest eftir því sjálfur að hafa ekki haft tröllatrúna til að spá henni Lenu sigri – hálfasnalegt að hafa haldið með laginu sem vann án þess að hafa spáð því sigri. Asnalegt, en ánægjulegt. Annars telst mér til að ég hafi náð að spá sex þjóðum rétt á topp tíu: Hvíta-Rússland hefur endanlega sannað sig vera utan allra blokka, Serbía skoraði lægra en ég átti von á og Ísland og Noregur gerðu hvort öðru meira í brók í stigagjöfinni (þótt flutningur hafi verið skammlaus). Af þeim sem komu í staðinn furða ég mig mest á gengi Danmerkur – djöfuls holdrosalegt rusl sem það nú var. Armenska og georgíska lagið voru meðal þeirra sem hefði þessvegna verið hægt að spá sigri þótt þau rötuðu ekki inná topp tíu spána hjá mér – keppnin í ár var óvenju jöfn og tvísýn, eins og sést á úrslitunum. Það voru bara fleiri en tíu lög sem hefðu þessvegna getað tekið þetta. Svo náði Úkraína að slefa upp í tíunda sætið, hvað sem annars má um það segja.

Það er þó ljóst að allt tal um austantjaldsklíkuna fellur dautt og ómerkt, sem sést best á því að mesti hrollurinn yfir atkvæðablokkagreiðslu kvöldsins var þegar Jóhanna Guðrún tilkynnti tólf stig til „ár frends, Denmark.“

Bjakk.

Svo var glaðst yfir öðrum atkvæðaúrslitum framyfir aðrar tölur úr Reykjavík. Krakkarnir gistu hjá gestgjöfunum og voru sóttir þangað morguninn eftir fyrir morgunkaffi með vinafólki á Kjarvalsstöðum. Þá var brennt á Suðurnesin að hitta frænku frúarinnar, og svo aftur til baka í pönnukökur hjá frænda í hina ættina hennar. Um kvöldið bauð svo vinnufélagi minn í dýrindis kvöldverð til heimilis í rottubælinu Garðabæ.

– – –

Í gær var farið í hamfaraskoðunarferð undir Eyjafjöllin. Það var mjög athyglisverð upplifun. Við sáum fossana tvo, og þessutan öskugrátt mistur yfir öllu. Ég safnaði krukkufylli á grasbala við Skóga. Eftir þetta veitti ekki af að skola jarðefnin af sér í Árbæjarlaug.

Eftir ýmsar útréttingar í morgun hittum við móður mína sem kom með föður mínum í gær. Ég mun heilsa uppá hann sjálfur um kvöldmatarleytið í kvöld, og svo er ræs um óttubilið í nótt og brennt til Keflavíkur.

Stocherkahnrennen á Neckar á komandi Fronleichnam.

Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagar 8-9 (og hálfur)

Það er skemmst frá því að miðvikudagur og fimmtudagur fóru í lítið annað en vinnu. Tengdapabbi renndi eftir mér niðrá Sturlugötu síðdegis á miðvikudeginum og leyfði mér að fljóta með uppí Grafarvoginn. Þar voru mæðgurnar að tygja sig í sund með krökkunum og ég skellti mér með þeim. Vinkona þeirrar eldri fékk að fara með svo við fórum tvíbíla. Það var sitthvað vesen sem kom uppá á leiðinni, eitt og annað sem gleymdist og svo var Grafarvogslaugin lokuð vegna viðhalds, en við komumst loksins oní í Mosfellsbænum.

Þegar heim var komið uppgötvaði ég að ég hafði gleymt kútunum af stráknum í sturtuklefanum á leið uppúr, svo ég renndi uppeftir aftur til að ná í þá. Á leiðinni út með þá mætti ég draugnum af sjálfum mér.

Allir voðalega punkteraðir um kvöldið og snemma skriðið í kojs.

Í vinnudagslok í gær tók ég þátt í málstofu við læknadeild HÍ. Hún gekk vel. Fékk leiðbeinandann til að skutlast með mig uppí Grafarvoginn og ræða við hann í leiðinni. Svo ég yrði kominn heim fyrir klukkan sjö.Frúin fór í saumaklúbb um kvöldið, ég var heima með tengdó og krökkunum og horfði á Evróvisjón.

Stelpurnar fóru í skólann í morgun, tengdó til vinnu og frúin að útrétta fyrir sín mál, svo við feðgarnir vorum einir í kotinu. Höfðum það náðugt framaf, dvöldum aðeins útá leifunum af leikvellinum hér í botnlanganum (því sem eftir er eftir að hún Hanna Birna fjarlægði sandkassann) og gengum svo uppí Spöng þarsem ég sá að er meira í gangi en nokkru sinni. Mér líst sérstaklega vel á fiskbúðina. Svo sá ég að vídeóleigan er búin að gefa upp öndina. Segir manni eitthvað um það hvernig afþreyingarmenningin er að breytast, frekar en neitt um ástandið í þjóðfélaginu í dag.

Við feðgar fórum og skiptum með okkur línubát á Hlölla. Og ég mátti þakka fyrir að fá helminginn.

Nú síðdegis er yngri systirin komin heim og með vinkonu sína í heimsókn. Þau voru öll úti í pottinum á pallinum þegar fyrstu línurnar voru ritaðar. Núna heyri ég í þeim innan úr stofu.