Greinasafn fyrir flokkinn: Amstur

Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagar 11-14 (og kosningauppgjör)

Jæja, þá er þetta bara að verða búið.

Báðir dagarnir um helgina voru miklir maraðonsdagar. Á laugardeginum vorum við komin af stað fyrir hádegið. Báðar systurnar höfðu gist hvor hjá sinni vinkonunni um nóttina, og þannig hittist á að þær fóru hvor á sína hverfishátíðina með þeim um morguninn. Svo við hittum þær þar og smöluðum, fyrst við Víkurskóla og síðan í Korpuhverfinu. Þaðan var haldið til bróður míns, þarsem við vorum strax sjanghæjuð í vorverkin: uppsetningu á trampólíni heimilisins í bakgarðinum. Svo fengum við dýrindis smörrebröð og mungát að smekk, nema krakkarnir, sem fengu kalda pizzu og vatn. Þaðan var farið í ýmsar útréttingar og um kvöldið var heljarinnar Evróvisjón- og kosningapartý hjá mági mínum, hinum eldri.

Talandi um það, þá glöddust allir vitaskuld óskaplega mikið yfir úrslitunum. Yngri systirin hoppaði og spangólaði af gleði og öllum nokk sama um hrakfarir hennar Heru. Ég sé mest eftir því sjálfur að hafa ekki haft tröllatrúna til að spá henni Lenu sigri – hálfasnalegt að hafa haldið með laginu sem vann án þess að hafa spáð því sigri. Asnalegt, en ánægjulegt. Annars telst mér til að ég hafi náð að spá sex þjóðum rétt á topp tíu: Hvíta-Rússland hefur endanlega sannað sig vera utan allra blokka, Serbía skoraði lægra en ég átti von á og Ísland og Noregur gerðu hvort öðru meira í brók í stigagjöfinni (þótt flutningur hafi verið skammlaus). Af þeim sem komu í staðinn furða ég mig mest á gengi Danmerkur – djöfuls holdrosalegt rusl sem það nú var. Armenska og georgíska lagið voru meðal þeirra sem hefði þessvegna verið hægt að spá sigri þótt þau rötuðu ekki inná topp tíu spána hjá mér – keppnin í ár var óvenju jöfn og tvísýn, eins og sést á úrslitunum. Það voru bara fleiri en tíu lög sem hefðu þessvegna getað tekið þetta. Svo náði Úkraína að slefa upp í tíunda sætið, hvað sem annars má um það segja.

Það er þó ljóst að allt tal um austantjaldsklíkuna fellur dautt og ómerkt, sem sést best á því að mesti hrollurinn yfir atkvæðablokkagreiðslu kvöldsins var þegar Jóhanna Guðrún tilkynnti tólf stig til „ár frends, Denmark.“

Bjakk.

Svo var glaðst yfir öðrum atkvæðaúrslitum framyfir aðrar tölur úr Reykjavík. Krakkarnir gistu hjá gestgjöfunum og voru sóttir þangað morguninn eftir fyrir morgunkaffi með vinafólki á Kjarvalsstöðum. Þá var brennt á Suðurnesin að hitta frænku frúarinnar, og svo aftur til baka í pönnukökur hjá frænda í hina ættina hennar. Um kvöldið bauð svo vinnufélagi minn í dýrindis kvöldverð til heimilis í rottubælinu Garðabæ.

– – –

Í gær var farið í hamfaraskoðunarferð undir Eyjafjöllin. Það var mjög athyglisverð upplifun. Við sáum fossana tvo, og þessutan öskugrátt mistur yfir öllu. Ég safnaði krukkufylli á grasbala við Skóga. Eftir þetta veitti ekki af að skola jarðefnin af sér í Árbæjarlaug.

Eftir ýmsar útréttingar í morgun hittum við móður mína sem kom með föður mínum í gær. Ég mun heilsa uppá hann sjálfur um kvöldmatarleytið í kvöld, og svo er ræs um óttubilið í nótt og brennt til Keflavíkur.

Stocherkahnrennen á Neckar á komandi Fronleichnam.

Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagar 8-9 (og hálfur)

Það er skemmst frá því að miðvikudagur og fimmtudagur fóru í lítið annað en vinnu. Tengdapabbi renndi eftir mér niðrá Sturlugötu síðdegis á miðvikudeginum og leyfði mér að fljóta með uppí Grafarvoginn. Þar voru mæðgurnar að tygja sig í sund með krökkunum og ég skellti mér með þeim. Vinkona þeirrar eldri fékk að fara með svo við fórum tvíbíla. Það var sitthvað vesen sem kom uppá á leiðinni, eitt og annað sem gleymdist og svo var Grafarvogslaugin lokuð vegna viðhalds, en við komumst loksins oní í Mosfellsbænum.

Þegar heim var komið uppgötvaði ég að ég hafði gleymt kútunum af stráknum í sturtuklefanum á leið uppúr, svo ég renndi uppeftir aftur til að ná í þá. Á leiðinni út með þá mætti ég draugnum af sjálfum mér.

Allir voðalega punkteraðir um kvöldið og snemma skriðið í kojs.

Í vinnudagslok í gær tók ég þátt í málstofu við læknadeild HÍ. Hún gekk vel. Fékk leiðbeinandann til að skutlast með mig uppí Grafarvoginn og ræða við hann í leiðinni. Svo ég yrði kominn heim fyrir klukkan sjö.Frúin fór í saumaklúbb um kvöldið, ég var heima með tengdó og krökkunum og horfði á Evróvisjón.

Stelpurnar fóru í skólann í morgun, tengdó til vinnu og frúin að útrétta fyrir sín mál, svo við feðgarnir vorum einir í kotinu. Höfðum það náðugt framaf, dvöldum aðeins útá leifunum af leikvellinum hér í botnlanganum (því sem eftir er eftir að hún Hanna Birna fjarlægði sandkassann) og gengum svo uppí Spöng þarsem ég sá að er meira í gangi en nokkru sinni. Mér líst sérstaklega vel á fiskbúðina. Svo sá ég að vídeóleigan er búin að gefa upp öndina. Segir manni eitthvað um það hvernig afþreyingarmenningin er að breytast, frekar en neitt um ástandið í þjóðfélaginu í dag.

Við feðgar fórum og skiptum með okkur línubát á Hlölla. Og ég mátti þakka fyrir að fá helminginn.

Nú síðdegis er yngri systirin komin heim og með vinkonu sína í heimsókn. Þau voru öll úti í pottinum á pallinum þegar fyrstu línurnar voru ritaðar. Núna heyri ég í þeim innan úr stofu.

Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagar 6-7 og smá um Evróvisjón

Það eru leiðinlegu dagarnir akkúrat núna, eða þeir eru það a.m.k. fyrir aðra að fylgjast með þeim. Ef einhverjir nördar villast hérna inn er bara best að þeir skrolli strax neðst niður.

– – –

Það var brjálað maratonnsprógramm á lokadegi Akureyrardvalar – reynt að koma sem mestu í verk sem farist hafði fyrir um helgina. Um síðmorguninn var byrjað á að hjálpa doktor Sumarbrosi við flutninga. Svo var dögurður hjá frænku frúarinnar. Krakkarnir fóru allir á hestbak í síðasta sinn, og á bakaleiðinni úr hesthúsinu var heilsað uppá fyrrverandi bæjarfélaga frá Tübingen, frúin rak inn nefið hjá vinkonu sinni og keyptar DVD-myndir og gúmmítúttur á krakkalínuna í Nettó á Glerártorgi.

Svo var flogið. Án frekari tíðinda. Jökullinn hættur (a.m.k. í bili) og allt.

Ótrúlegt en satt, þá var gærkvöldið fyrsta kvöldið á landinu sem við fengum fisk. Etið úti á palli í góða veðrinu.

Djödl ógeðslega var það gott.

– – –

Dagurinn í dag er fyrsti af þremur í vinnu. Hlé frá fríinu. Fámennt en góðmennt í Sturlugötunni og ágætir endurfundir við gamla vinnufélaga. Og einn nýjan frá Svabíu sem kom hingað fyrir hálfum öðrum mánuði í fangaskiptum fyrir undirritaðan.

Í hádeginu var etið á Jómfrúnni með tveimur góðum vinum. Og lítið meira af tímanum fram að kvöldi að segja. Nema þegar ég steig útúr strætó í Spönginni og horfði á Úlfarsfellið og Esjuna yfir sólgullin sundin þá  kýldi það mig í magann hvað ég elska þetta land. Eins og ég myndi elska drykkfellt stórasystkin í ruglinu, ef ég ætti svoleiðis.

– – –

Ég var nokkuð ánægður með forkeppni kvöldsins. Það var minna af gígantískum gloríum en áður fannst mér, bæði í jákvæðu og neikvæðu merkingunni. Meirihlutinn frá soddan miðjumoði upp í alveg svona ágætt bara. Allur söngur nánast skammlaus, nema stelpan frá Lettlandi, hún var jafnvel enn verri en ég átti von á. Og þurfti mikið til. Flutningur svona allaveganna, en flestir stóðu undir því pari sem hægt var að setja þeim fyrir.

Skorið hjá mér eftir kvöldið er ekki nema sextíu prósent, en ekki nema eitt land sem kom mér á óvart að kæmist áfram: Bosnía-Herzegóvína var skárri en ég hafði átt von á, en ekki það mikið skárri. Portúgalska stúlkan var mun minna óþolandi en fyrirfram mátti ætla og söng alveg ljómandi vel. Það gerðu krakkarnir frá Hvíta-Rússlandi líka, og fiðrildavængjagimmikkið var ódauðlega móment kvöldsins og eitt og sér næg ástæða til að senda þau áfram. Hera Björk söng vel, verð ég að játa. Þetta var fyrsta skiptið sem mér fannst hún syngja þetta vel. Og dugði til.

Eistneska strákinn vantaði einhvern neista þegar til kom. Slóvakísku stelpuna líka (og svo söng hún pínu flatt). Ég er pínu leiður fyrir hönd finnsku stelpnanna – þær hefðu alveg mátt komast áfram. En Pólland maður, hvað var ég eiginlega að spá?!

– – –

Vinna á morgun og hinn, og svo byrjar fríið hjá mér aftur frá og með fimmtudagskvöldinu. Ég hef verið alltof upptekinn til að setja mig alminlega inní fimmtudagsriðilinn. Sennilega verð ég bara að gera honum skil í beinni, eins og ég gerði í fyrra og hafði gaman af. Ég var að gæla við það áðan að gera svoleiðis undir keppninni í kvöld, en svo var tæknin eitthvað að stríða mér á tölvuöld.

Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagar 3-5

Það gerist einhvern veginn minna þegar frúin er ekki með manni. Svo það voru rólegheit á okkur fram eftir föstudegi. Það er komin þessi skemmtilega skábraut niður þrepin ofaní stofuna og það var hægt að dvelja sér lengi við að keyra bílana upp og niður. Strákurinn var svona mestanpart hressari en hann hafði verið daginn áður, svo hann fékk að fara með uppí hesthúsið hennar ömmu uppúr hádeginu. Hann þótti hinsvegar ekki hressari en svo að hann var skilinn eftir hjá ömmu og afa á meðan við feðginin fórum í sund að hitta gamla skólafélaga. Þar varð stelpunum svo vel til endurnýjaðra kynna við krakkana þeirra að þær fengu að fara með þeim heim í kvöldmat og ég fór einn heim til stráksins. Planið var að við myndum fara báðir feðgarnir að ná í frúna á flugvöllinn uppúr kvöldmatnum og sækja svo stelpurnar í bakaleiðinni. Þá var hinsvegar orðið svo lágt á honum risið að hann fór bara að sofa.

Eyjafjallajökull var til friðs. Af ferð minni með frúna frá flugvellinum til vinanna í Munkaþverárstrætinu fara engar sögur hér. En þar var setið frameftir kvöldi, spjallað og sötrað viskuvatn.

– – –

Á laugardeginum fórum við öll í dagsferð í Mývatnssveitina með föður mínum, systur og mági; einbíla, þarsem jeppinn tók sjö farþega. Stoppað í fuglasafninu, á aldarfjórðungsafmæli Mýflugs og etið rúgbrauð með reyktum silungi í Dimmuborgarsjoppunni. Goðafoss á leiðinni heim. Hin ágætasta för að öllu leyti. Systurfjölskyldunni boðið í lambalæri um kvöldið.

– – –

Í dag var farið í heimsóknir til vina, rætt um Evróvisjón, sveitarstjórnarkosningar, uppbyggingu menntakerfisins, hnignun ungdómsins í dag og andlegan, táknrænan og veraldlegan dauða fegurðarsamkeppna. Svo var endað í fermingarveislu í Laugaborg þar sem góðar veitingar voru þegnar og heilsað uppá frændfólk. Undir svefninn skutust stelpurnar svo og litu á hestana með ömmu sinni fyrir svefninn.

Á morgun er síðasti dagurinn hér fyrir norðan. Við fljúgum suður síðdegis og verðum fyrir sunnan það sem eftir er af Íslandsdvölinni.

Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagur 2

Sá skapmikli svaf í ferðabarnarúmi inni hjá okkur hjónum í nótt sem leið. Eða, svo langt sem það náði. Það fóru eitthvað plaga hann í honum eyrun þegar komið var fram yfir miðnættið, svo svefninn var laus hjá okkur öllum þremur það sem eftir lifði.

– – –

Ég var búinn að gleyma hverafýlulyktinni af heita vatninu. Hún rifjaðist upp undir sturtunni í morgun. Eða maður var náttúrulega svo samdauna henni sem hvunndagslegur íbúi.

– – –

Annan daginn í röð var lánið með okkur með flugið – við lentum á Akureyrarflugvelli í hádeginu þar sem amma beið með Skódann. Síðdegis fór ég með strákinn á heilsugæsluna til að láta líta í eyrun á honum – hann svaf í flugvélinni og vaknaði hálfu argari en áður. Þrýstingsbreytingarnar eflaust ekki til að bæta ástandið í miðeyranu.

Á heilsugæslunni hitti ég gamlan vin, sem vildi svo vel til að var heilsugæslulæknirinn sjálfur. Við mæltum okkur mót með fleirum í lauginni á morgun.

Ég er samt hræddur um að amma fái að passa strákinn á meðan.

– – –

Amma fór svo með systurnar í hesthúsið meðan við langfeðgarnir sátum heima allir þrír. Strákurinn var ekkert alltof hrifinn þegar við karlarnir stóðum fastir á því að horfa á endursýningu á Stiklum Ómars Ragnarssonar. En lúffaði. Sofnaði svo í fanginu á mér.

– – –

Lítið rætt um pólitík í dag – minna en í síðustu heimsókn. En eitthvað þó. Og allt á sama máli, ólíkt því sem einhvern tíma var.

– – –

Frúin verður við jarðarför fyrir sunnan á morgun og kemur svo undir kvöldmatinn.

Humm. Við þurfum eitthvað að tímastilla það með hliðsjón af því að við feðgin verðum í sundi á Skódanum og jeppinn í viðgerð á verkstæði.

Sjáum til.

Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagur 1

Það var óvenju lítið að gera í Frankfurtarflughöfn þegar við tékkuðum okkur inn. Ég hef aldrei séð svona lítið að gera þarna. Spurning hvort spili stærri rullu: Rísandi Eyjafjallajökull eða fallandi evra. Eða bara hrein hending.

Sáum súluna stíga upp af honum og yfir skýjaþykknið út um kýraugað á stjórnborða þegar flugið var lækkað til lendingar. Tignarlegt. Og alltíeinu langaði mig ekkert sérstaklega til að keyra þangað og skoða nánar. Þetta er ekki jákvæðasta og mest aðlaðandi orka í heimi að horfa á hana.

Jaðrar kannski við lög að segja svona? Geta ferðaþjónustuaðilar nokkuð kært mig fyrir að segja svona upphátt?

Við fengum Moggann og ég greip tækifærið til að fletta honum, í fyrsta skipti í meira en ár. Ég komst að því að það er að minnsta kosti ekki búið að eyðileggja bridsdálkinn.

Horfði á Bjarnfreðarson í „inflight entertainment.“ Og fannst hún hinsvegar stórkostleg.

– – –

Það er orðið mjög athyglisvert þegar maður kemur svona sjaldan til landsins að sjá hvernig mynd er máluð af landinu með auglýsingaskiltunum sem heilsa manni þegar gengið er frá borði í Keflavík. Nú er orðið mjög sláandi hversu mikil athygli er lögð á að prómótera íslenskan útivistarfatnað (sem var reyndar fyrir), ullarvörur og heimilisiðnað (sem er nýrra trend). Og hvað það er gert á svakalega hipp og kúl máta. Ég sá þarna auglýsingamyndir af fólki í ullarpeysum sem voru svo slick að langaði mest að troða ullarsokki í brókina þegar maður sá þær. Algjöra listgerninga í ímyndarsköpun.

Ojæja, það situr þá eitthvað eftir af gróðærinu: Auglýsingagúrúar sem þekkja leiðirnar að brautunum sem hægt er að virkja í hausnum á okkur. Og þætti þá sumum til einhvers unnið. Eða tapað, ef við viljum líta svoleiðis á það.

Spjaldið sem skar sig úr og stakk í augu eins og Höfðatorgsturn í Árbæjarsafninu var auglýsing fyrir tónlistar- og ráðstefnuhúsið, mér liggur við að segja svokallaða. Eftir því sem mánuðirnir líða verður allt einhvern veginn meira og meira rangt við það. Maður sá rautt við að horfa á auglýsingaspjaldið. Rautt spjald.

Keypti Ítrekun Mugisons og Go með Jónsa í fríhöfninni, með nokkrum DVD fyrir krakkana (íslenska talið fyrir krakkana sko). Fékk svo í kvöldmatnum ábendingu frá mági mínum um einn disk í viðbót sem mér myndi líka: Diskinn frá í fyrra með Kimono. Hef kannski augun opin fyrir honum í fríhöfninni á leið út aftur.

– – –

Annars erum við öll komin í Grafarvoginn þarsem við gistum yfir nótt áður en við fjögur feðgin fljúgum norður yfir heiðar í fyrramálið (ef Earth, Wind and Fire leyfa okkur það). Frúin kemur svo sömu leið hálfum öðrum sólarhring á eftir okkur. Þetta lítur allt sæmilega út í augnablikinu, en maður trúir því þá fyrst að þetta gangi þegar maður horfir uppá Súlur útum landganginn á vélinni.

Svo aftur í Reykjavík í næstu viku, þetta verða fimmtán dagar og fjórtán nætur í allt.

Ólöglegt verðsamráð

Ég var búinn að finna mér uppáhaldskaffi til hvunndagslegs heimabrúks – Dallmayr Prodomo – einhverntíma á haustdögum. Ætlaði að reyna að halda mig við það sem oftast. Þá birtist rétt fyrir jólin frétt um að dómur hefði fallið í máli sem snerist um ólöglegt verðsamráð kaffirisanna þriggja hér í Þýskalandi: Melitta, Tchibo og Dallmayr. Með sekt uppá samtals 159 og hálfa milljón evra. Þá ákvað ég að finna mér nýja uppáhaldstegund til heimilisnota.

Ég er enn að leita. Og tek feginn á móti uppástungum. Ég hef reynt mig við týpur frá bæði Jacobs og Eduscho án þess að ná fullum sáttum. En jólunum var blessunarlega reddað með sendingu ofanaf skeri af hátíðarblöndu frá Rúbín.

Soddan synd. Ég var mjög sáttur við Dallmayr Prodomo. En sumt gerir maður bara ekki. Hvar í landi sem maður er staddur.

Ekki satt?

Þrjú kvöld af sjónvarpi

Ég fór í afmælisferð til Kölnar.

(Hún var mjög ánægjuleg, takk fyrir að spyrja – sjá frúna fyrir ferðalýsingu.)

Við stoppuðum á leiðinni norðureftir til að fá okkur skyndibita. Í sjoppunni voru seldar DVD-myndir, sem var kjörið, þar sem maður á til að þreytast á þýska döbbinu.

Meir um það rétt bráðum.

En einnig fyrir það að við gáfum okkur einmitt í jólagjöf ferða-DVD-spilara, til að hafa ofanaf fyrir krökkunum í langferðum (einsog tildæmis til Kölnar). Og okkur eftir að þau eru komin í ró á gistiheimilunum.

Svo við keyptum okkur tvo diska. Annan þeirra horfðum við á strax þá um kvöldið: Cloverfield.

(Smáragrund? Smáravellir? Smáratún? Gengur ekki alveg í þýðingunni: kemur alltaf út einsog götuheiti í Grafarvogi…)

Við vorum aldrei búin að sjá hana áður. Og ég var mjög impóneraður. Skemmtilegasta skrímslamynd sem ég hef séð svo áratugum skiptir.

Vildi bara benda á þetta, ef einhverjir skyldu enn eiga eftir að sjá hana…

– – –

Hinn diskurinn sem við keyptum innihélt tvær myndir. Annarsvegar einhvern vestra, sýnist mér, með Angelínu Jolie. Hann er enn óséður. Hinsvegar myndina A Few Days in September – alþjóðlega spennumynd með Juliette Binoche,  John Turturro og Nick Nolte í blikkaðu-og-misstu-af-honum-ódauðum-hlutverki.

Þetta leit út sem hin sæmilegasta ræma á pappírnum. Og það má vel vera að hún sé það.

Nema.

Eins og með allar myndir sem maður getur keypt hérna úti, þá er hægt að velja um að horfa á hana með þýsk-döbbuðu hljóðrásinni, eða enska orgínalnum. Nema það sem var kallað ensk hljóðrás kom fljótlega í ljós að var að, hvaaað, svona tveimur þriðju til þremur fjórðuhlutum á frönsku.

Og engir textar í boði, takk fyrir.

Svo maður var tilneyddur að hamast á audio-takkanum í gegnum alla myndina, að ná enskunni hvenær sem hennar naut við, en skipta yfir í þýska döbbið um leið og franskan byrjaði. Og ekki einusinni hægt að reiða sig á amerísku leikarana: John Turturro talaði sig á frönsku gegnum alla myndina.

Gaman.

Það stakk dálítið meira en vanalega að heyra hve raddirnar í þeim Turturro og Binoche dýpkuðu í hvert skipti sem skipt var yfirá þýskuna. Það er nógu skrítið að horfa á heilar myndir með leikurum sem tala framandi röddu, þótt þeir fari ekki alltíeinu í mútur í miðri setningu.

– – –

Svo horfðum við á forkeppni Evróvisjón á rúv-vefnum í gærkvöldi. Og þótti báðum sem skástu kostirnir væru kosnir áfram.

(Er það ekki einmitt íslenska lýðræðið í hnotskurn þessa dagana? Frelsi til að fá að kjósa illskásta kostinn?)

Vorum á leiðinni heim í gær eftir skemmtilega heimsókn hjá vinum þegar ég sagði frúnni frá þessu: Við yrðum að horfa, þetta væri allt að fara í gang. Sigurjón Brink á sjó dreginn og alles.

„Sigurjón hver?“ spurði hún.

„Nú Sigurjón Brink manneskja,“ svaraði ég. „Fastamubla í hverri forkeppni í áraraðir. Bíddu bara, hann rifjast upp fyrir þér.“

Leið svo fram á kvöldið.

„Þarna er hann,“ sagði ég og benti á tölvuskjáinn. „Þetta er hann, þekkirðu hann ekki núna?“

„Njeeeh,“ sagði hún og mundaði prjónana. „Þetta er nú bara einhver Sigurjón Blank fyrir mér.“

Setti mig þá ofurlítið stúmm.

Og hefur téður Sigurjón aldrei verið titlaður annað en Blank á heimilinu síðan.

(Um þá tvo flytjendur sem enn eru ónefndir hef ég engin orð. Segjum að það sé af tillitssemi.)

Annars ætlaði ég ekki að fjalla neitt sérstaklega um íslensku forkeppni Evróvisjón þetta árið, þótt ég kannski stikli á einhverju aftur á næstu vikum.

Hér á heimilinu er nefnilega mun meiri spenningur fyrir Bundesvision 2010.

Um það verður pottþétt betur fjallað síðar.

Árið í aldanna skaup

Gleðileg jól og árs og friðar.

Þau voru ljúf hjá fjölskyldunni, bæði jólin og áramótin, eins og lesa má hjá frúnni. Þar má meðal annars sjá undirritaðan í Lederhosen og alsælan yfir íslenskri jólabók í hendi. Ég fékk þær þrjár: Svörtuloft eftir Arnald, Harm englanna eftir Jón Kalman og Milli trjánna eftir Gyrði. Ég byrjaði á Arnaldi, svo frúin gæti fengið hann þegar hún væri búin með þær þrjár sem hún fékk í jólagjöf.

Hann var ágætur, betri en ég átti von á. Mér fannst Vetrarborgin betri en flestum öðrum á sínum tíma. En Harðskafi síðri. Og nennti ekki að lesa Myrká í fyrra. Sýnist sem ég verði að gera ráðstafanir til að fá hana senda hingað út – mig er aftur farið að langa til að fylgjast með honum karlinum.

– – –

Nú vantar einn dag uppá að það séu sex ár síðan ég byrjaði að blogga, og tvo til að ég fylli þrjátíuogátta ára aldurinn. Ég verð að heiman og utan internets báða afmælisdagana. Hyggst ekki halda neitt frekar uppá þá. Enda hvorugur af stærra taginu.

– – –

Ég er núna að lesa Jón Kalman. Fer að verða búinn. En frúin er búin með sínar þrjár. Og Arnald að auki. Og bíður þolinmóð eftir því að ég klári.

Hún er hraðlæsari en ég.

Jón Kalman á skilið að láta vitna í sig:

Auðsveipnin virðist inngróin í þjóðina, eins og þrálátur sjúkdómur, dúrar einstaka sinnum niður en tekur sig alltaf upp aftur, og þá gjarnan andspænis auðmagni, þungum húsgögnum, sterkum og ósvífnum valdhöfum. Við erum hetjur við eldhúsborðið, auðsveip í stórum sölum.

– – –

Talandi um það, þá gæti ég farið að tala um þennan merkilega viðsnúning sem orðið hefur á þjóðinni minni frá sama tíma á síðasta ári. Veit það ekki…

En Icesave, eigum við ekki að tala um Icesave?

Blegh.

Ég skráði mig um daginn á hvatningalistann til Ólafs Ragnars. Þess sem átti að hvetja hann til að skrifa undir altso.

En síðan fór ég að hugsa.

Ég hefði eiginlega frekar átt að skrá mig á hinn, þennan sem er með 25% þjóðarinnar, eða hvað sem það var annars nákvæmlega, fyrir rest. Mikkamúsarlistann.

Bara af þveröfugri ástæðu við alla aðra.

Sumsé, ég fór að hugsa.

Það er dálítill alki í þjóðarsálinni. Kannski frá náttúrunnar hendi, ég veit það ekki. Allavega, það er þessi gríðarsterka þörf til að benda á alla aðra sökudólga en sjálfan sig. Einsog Breta og Hollendinga, í þessu tiltekna dæmi. Samninganefndina. Ríkisstjórnina. Forsetann. Alla nema sjálfan sig.

Og ég áttaði mig á að ef forsetinn skrifar undir fær hver einasti sérbarmandi og lómberjandi meðalíslendingur hina fullkomnu afsökun til að segja sig stikkfrí frá Icesave-klúðri Landsbankans og ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks/Samfylkingar. Það væri kannski jafnvel skárra að forsetinn tilkynnti það á morgun að hann skrifaði ekki undir, svo hver einasti Íslendingur væri neyddur til þess í kosningum að axla einhvern hluta ábyrgðarinnar á sínum eigin gjörðum og gjörðaleysi, í dag og síðustu nítján árin.

En það mun ekki gerast. Líkastil skrifar hann undir og heldur hola og hjartnæma ræðu af því tilefni. Ef ekki verður samningunum sennilega sagt upp af viðsemjendum hvorteðer og allt mun fara til fjandans án þarfar á frekari hjálp frá litla manninum. Þvímiður.

– – –

Við viljum ekki ögrun heldur viðfelldni, viljum ekki áreiti heldur gleymsku, ekki örvun heldur doða. Þessvegna sækir fólk í rímur en ekki skáldskap, þessvegna efast það ekki fremur en kindurnar…

– – –

Jón Kalman aftur. Gaman að hann skuli tala um kindur.

Ég hef einmitt verið að velta fyrir mér þessu með sameiningartáknið. Fólk hefur nefnt Pál Óskar í framhaldi af ágætu skaupi (sem ég sá einmitt að kveldi nýársdags). Sjálfur stakk ég einusinni uppá Almannagjá. En kannski er sauðkindin best af öllu. Þessi sauðþráa skepna sem lætur smala sér onaf fjalli haust hvert og leiða sig til slátrunar af eigendum sínum, sífellt jarmandi á þá sem standa henni næstir.

Íslensk þjóð sem jarmandi óttaslegið ósjálfbjarga safn af fjalli á leið í pyngjur eigenda sinna.

Já, ég held það bara.

Almenningur. Tvírætt orð, þegar maður lítur þannig á það.

– – –

Gyrðir bíður á náttborðinu. Kemst í hann innan nokkurra daga – hann verður að koma með í ferðalagið, held ég. En frúin bíður ekki eftir honum. Hann á ég einn.

Skriftir (inniheldur mylsnu)

Voðalega datt botninn úr þessu þarna í restina.

– – –

Það sem eftir var dvalar var ágætt, svo ég komi því frá. Dálítið litlausara samt eftir að kona og börn fóru aftur heim á sunnudagsmorgni. En pródúktíft. Sem var tilgangur ferðarinnar til að byrja með.

– – –

Á þriðjudagskvöldinu eftir að þau fóru skrapp ég úr húsi vestur í bæ á óttalega menningarlegt mannamót. Og skemmti mér hið allrabesta. Nú má meiraðsegja sjá afraksturinn af því í Kanada á tölvuöld.

Ég leyfði frúnni að sjá þetta um kvöldið og hún sagði já, að sér þættu þetta nú ekki teljast með mínum betri verkum. En ég er ekki svo viss um að ég taki undir það, þótt ég taki annars mikið mark á henni. Það er eitthvað þarna sem ég tengi við, einhver merking milli suðurveggjanna á samhenginu sem rifjar upp sælar minningar frá því þegar ég gerði allt upptækt.

– – –

Annað: Sinfónían hafði samband við mig í haust og bað um afnot af þýðingunum á Carmina Burana sem ég vann fyrir Voxið á sínum tíma. Fyrir tónleika í febrúar. Svo ég gróf hana upp, renndi yfir og snittaði aðeins til. Fyrsta boðorð er eins og áður að íslenski textinn fari sem næst frumtextanum, línu fyrir línu, þannig að fari vel í tónleikaskrá. En þessutan að sé sem rembingslausast að lesa. Nánast algjörlega laust við allar bindingar í rím og stuðla. Svona er tildæmis þýðingin á In trutina kaflanum:

Á bláþræði
Á bláþræði tilfinninga minna
vega salt
lostafull ást og lítillæti.
En ég kýs það sem ég sé
og legg háls minn undir okið,
gef mig ljúfu okinu á vald.

Verst að missa af herlegheitunum sjálfur: Ég hefði ekkert á móti því að sjá þau Hallveigu og Brósa frænda troða upp í einu af mínum uppáhaldsverkum. Sem ég hef ítrekað farið á mis við að taka þátt í að syngja sjálfur. En þannig gengur það.