Greinasafn fyrir flokkinn: Eurovision

Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagar 11-14 (og kosningauppgjör)

Jæja, þá er þetta bara að verða búið.

Báðir dagarnir um helgina voru miklir maraðonsdagar. Á laugardeginum vorum við komin af stað fyrir hádegið. Báðar systurnar höfðu gist hvor hjá sinni vinkonunni um nóttina, og þannig hittist á að þær fóru hvor á sína hverfishátíðina með þeim um morguninn. Svo við hittum þær þar og smöluðum, fyrst við Víkurskóla og síðan í Korpuhverfinu. Þaðan var haldið til bróður míns, þarsem við vorum strax sjanghæjuð í vorverkin: uppsetningu á trampólíni heimilisins í bakgarðinum. Svo fengum við dýrindis smörrebröð og mungát að smekk, nema krakkarnir, sem fengu kalda pizzu og vatn. Þaðan var farið í ýmsar útréttingar og um kvöldið var heljarinnar Evróvisjón- og kosningapartý hjá mági mínum, hinum eldri.

Talandi um það, þá glöddust allir vitaskuld óskaplega mikið yfir úrslitunum. Yngri systirin hoppaði og spangólaði af gleði og öllum nokk sama um hrakfarir hennar Heru. Ég sé mest eftir því sjálfur að hafa ekki haft tröllatrúna til að spá henni Lenu sigri – hálfasnalegt að hafa haldið með laginu sem vann án þess að hafa spáð því sigri. Asnalegt, en ánægjulegt. Annars telst mér til að ég hafi náð að spá sex þjóðum rétt á topp tíu: Hvíta-Rússland hefur endanlega sannað sig vera utan allra blokka, Serbía skoraði lægra en ég átti von á og Ísland og Noregur gerðu hvort öðru meira í brók í stigagjöfinni (þótt flutningur hafi verið skammlaus). Af þeim sem komu í staðinn furða ég mig mest á gengi Danmerkur – djöfuls holdrosalegt rusl sem það nú var. Armenska og georgíska lagið voru meðal þeirra sem hefði þessvegna verið hægt að spá sigri þótt þau rötuðu ekki inná topp tíu spána hjá mér – keppnin í ár var óvenju jöfn og tvísýn, eins og sést á úrslitunum. Það voru bara fleiri en tíu lög sem hefðu þessvegna getað tekið þetta. Svo náði Úkraína að slefa upp í tíunda sætið, hvað sem annars má um það segja.

Það er þó ljóst að allt tal um austantjaldsklíkuna fellur dautt og ómerkt, sem sést best á því að mesti hrollurinn yfir atkvæðablokkagreiðslu kvöldsins var þegar Jóhanna Guðrún tilkynnti tólf stig til „ár frends, Denmark.“

Bjakk.

Svo var glaðst yfir öðrum atkvæðaúrslitum framyfir aðrar tölur úr Reykjavík. Krakkarnir gistu hjá gestgjöfunum og voru sóttir þangað morguninn eftir fyrir morgunkaffi með vinafólki á Kjarvalsstöðum. Þá var brennt á Suðurnesin að hitta frænku frúarinnar, og svo aftur til baka í pönnukökur hjá frænda í hina ættina hennar. Um kvöldið bauð svo vinnufélagi minn í dýrindis kvöldverð til heimilis í rottubælinu Garðabæ.

– – –

Í gær var farið í hamfaraskoðunarferð undir Eyjafjöllin. Það var mjög athyglisverð upplifun. Við sáum fossana tvo, og þessutan öskugrátt mistur yfir öllu. Ég safnaði krukkufylli á grasbala við Skóga. Eftir þetta veitti ekki af að skola jarðefnin af sér í Árbæjarlaug.

Eftir ýmsar útréttingar í morgun hittum við móður mína sem kom með föður mínum í gær. Ég mun heilsa uppá hann sjálfur um kvöldmatarleytið í kvöld, og svo er ræs um óttubilið í nótt og brennt til Keflavíkur.

Stocherkahnrennen á Neckar á komandi Fronleichnam.

Gestgjafinn, Fjóru Stóru, spáin og Lena

Þegar ég hafði bara séð „Alla leið“ klippuna af honum Diðriki norska leist mér ekkert á þetta, óttaleg leiðindi. Þegar maður horfir á allt númerið er það mun skárra, en á tæru að þetta verður rosalega brothætt hjá honum stráknum. Það má ekkert útaf bera og þá verður þetta að einu allsherjar fíaskói.

Það er einsog „Fjóru Stóru“ löndin séu smám saman að taka sig á. Franska lagið er tildæmis ekkert alslæmt. Frakkarnir hafa reyndar annað veifið verið að senda inn ágæta entransa, bara aldrei gengið neitt með þá. Kannski standa þeir sig skammlaust í ár, svei mér þá. Fyrst þegar maður sá vídeóið leist manni ekkert á að láta krakkana horfa á þetta, fá bara rauða merkið í hornið takk fyrir (maður er orðinn svo mikil tepra). En sviðsnúmerið verður mjög hófstillt og settlegt, skilst mér. Sem einhverjum finnst ábyggilega alveg agalegt.

Spánn er alveg ágætur í ár líka. En ég er samt ekki sannfærður um að sirkuskonseptið dugi til að fleyta þeim neitt svakalega langt uppávið.

Stóra-Bretland er samt ekkert að fara að læra þetta. Enn eina ferðina send einhver luðran sem hefði varla náð að meikaða á rusladiskói á ofanverðri síðustu öld. Ég bíð bara eftir að hann strumpi falskt á úrslitakvöldinu til að fullkomna ömurlegheitin.

Ég hef áður lýst yfir hrifningu minni á þýska keppandanum.  Hún Lena Meyer-Landruth hefur sjarma sem erfitt er að standast. Þjóðverjarnir héldu sjö kvölda keppni um það hver fengi að fara að keppa (undir handleiðslu glataða snillingsins Stefan Raab) og strax frá fyrsta kvöldi var ljóst að spennan fólst í því hver af hinum upphaflegu keppendunum nítján fengi að keppa við Lenu í úrslitaþættinum. Lagið sem áhorfendur kusu handa Lenu var annað að tveimur sem hún og hin stelpan sungu báðar. Mér finnst segja eitthvað hversu mikið hún Lena breytti því frá upprunalegu útgáfunni – beriði saman við flutning Jennifer Braun sem keppti við hana til úrslita. Ég hefði reyndar kosið annað lag handa henni Lenu, lag sem hún samdi í samvinnu við Stefan Raab sérstaklega fyrir kvöldið og má heyra hér: Love me (dálítill Cardigans-fílingur). En áhorfendur fengu að ráða:

– – –

Mér líst bara nokkuð vel á þetta samt. Hún vinnur sennilega ekki (mér skilst að fari tvennum sögum af því hversu vel sjarminn er að skila sér á norska sviðinu) en mig grunar að hún verði meðal tíu efstu. Með hverjum? Segjum að það verði þessir:

Tyrkland – Disney-Gothið svínvirkar. Með smergelinu og öllu.
Rúmenía – Það er bara svaka flott númer.
Hvíta-Rússland – Þetta fiðrildamóment er svo ógleymanlega mikið kitsch.
Ísland – Þartil á þriðjudagskvöldið hafði ég aldrei heyrt Heru syngja þetta skammlaust. Það dugði til að sannfæra mig um að kannski finnst ekki öllum þetta svo ömurlegt.
Serbía – Það er búið að grisja svo garðinn fyrir Júgóslavana að þetta er nánast eitt eftir.
Grikkland – Eins hallærislegt og það er, frá stirðbusanum sem syngur til sætu strákanna sem dansa, þá virkar þetta á einhvern fáránlegan máta.
Belgía – Ég vil sjá Belga fá breik í ár.
Azerbadjan – Það er slatti af tiltölulega rólegum lögum austanað, sungnum af snoppufríðu og mestanpart tónhaldandi kvenfólki. Ég held að azerska laginu muni ganga best af þeim.
Noregur – En ég er samt ekki alveg viss. Það er nánast fiftí-fiftí milli Diðriks og ísraelska stráksins hvor skríður uppí neðri helminginn á topp tíu. Veltur allt á því hvorum þeirra gengur betur að halda lagi.

Svo held ég bara sveimérþá að Grikkland taki þetta. Þótt ég voni náttúrulega á móti öllum líkum að hún Lena slái þessu öllusaman við. En við þurfum allavega ekki að hafa neinar áhyggjur af henni Heru.

Bloggað í beinni: Evróvisjón – seinni undankeppni

Ji, bara þrjú lög búin og ég alltof seinn inn hérna. Það á sér sínar leiðinlegu skýringar sem má bíða að fara útí. Nú er annað meira mikilvægt.

Ég heyrði óminn af litháíska laginu utan af palli. Mér fannst það ekki hljóma neitt alltof spennandi en missti náttúrulega af því hvernig þeir litu út á sviðinu. Ég spurði yngri dóttur mína (6 ára) sem var fyrst með matinn. Hún sagði að þetta hefðu verið einhverjir kallar að syngja á silfurnærbuxum. Hún var ekki hrifin. En ég sé hálfpartinn eftir að hafa misst af því. Var eitthvað varið í þetta?

Armenía var næst og enn var ég úti á palli að éta slátur. Núna var sú elsta (9 ára) mætt fyrir framan kassann og sagði mér að það hefðu verið skógardvergar á sviðinu. Útfrá því sem ég heyrði (og sá, í svona tíu sekúndur) var ég ekki impóneraður.

Ísrael – þarna var ég loksins kominn og náði honum stráknum á meðan græjan var að ræsa sig. Fannst þetta ekki alslæmt framanaf. Svo skipti ég um skoðun þegar á leið. Þetta var sorglegt lag og allt svoleiðis sko. Svo fór hann að þenja sig upp á við og yfir það sem mónitórinn gaf honum og þá varð þetta bara alltsaman sorglegt. Lag sem hefði átt góðan séns með góðum flutningi. En ekki lengur.

Sjúkk. Nú er auglýsingahlé, svo ég hlýt að geta unnið restina upp á meðan. Neeei! Bíðiði!!!

Danmörk, púffpúffpúff. Ég var ekki hrifinn. Bara eitthvað níundaáratugar rúnk. Með ú-i. Eða sko, með úúúúú-i.

Sviss – alveg rétt. Það var þessi með eyrun. Ég hef oft spáð Svissi áfram, þegar það hefur sent frábær lög með glimrandi góðum flutningi. Fyrst mér skjátlaðist þá, þá fer það ekki áfram í kvöld.

En ég var ógeðslega hrifinn af sænsku stelpunni. Einvernveginn þannig að allt er á þann veginn að manni ætti að finnast það óþolandi, en manni finnst það ekki, heldur tværtimod. Gott mál.

Azerbaídshjan (hvernig skrifar maður þetta helvíti) og loksins er maður orðinn læv hérna. Þetta er lagið sem ég held að allir hafi verið að tala vel um. Og hún syngur vel þessi stelpa. En lagið finnst mér ekkert yfirmáta spes. Og ballettstrákurinn með rauða bindið dálítið hallærislegur. Samt, það er nokkurn veginn að þetta sleppur.

Ef ég hefði verið hérna frá byrjun hefði ég haft tíma til að halda utanum vindvélanotkun kvöldsins. Með þessu áframhaldinu stefnir í met.

Æjá. Alveg rétt. Úkraína. Þetta er svo slæmt. Á alla vegu. Lagið yfirmáta skelfilegt. Ekki alveg verið að hitta á tónana í upphafinu. Og vindvélin maður. Gat nú skeð. Samt eins gott að það eru ekki ballettstrákar að skekja sig á bakvið hana á 160 bpm. Samt, það er reynt að redda einhverju með gegnsæja kjólnum. Með, vona ég, engum árangri.

Obbosí. Hollendingar hafa verið svo clueless í þessu síðustu áratugi. Síðan bara, öhh. Hvenær? Og hvað svo? Eru þetta Bobbysocks? Ertu ekki að fokking djóka í mér?! Ojæja, tengdamamma fílar þetta allavega. Staðin upp og farin að dilla sér á gólfinu með krökkunum. Og hver er ég að setja útá þetta, Schlager-fanatíkerinn sjálfur.

Eins gott að kom þessi pása – ég er að reka krakkana í pottinn svo ég fái almennilegan frið til að einbeita mér að menningunni hérna.

Rúmenía já, ég hef einhvernveginn alltaf misst af þessu. Hei, þessi söngkona lítur út alveg eins og hún, þarna, aaaah, hvað heitir hún aftur? Rachel eitthvað, er það ekki? Þessi með norræna eftirnafnið, já, þarna kom það. Hún er einsog dökkhærð Scarlett Johanson. Pærótekniks maður. Og geðveika röddin. Og leðurbuxur. Það. Er. Nákvæmlega. Ekkert. til að hafa á móti þessu lagi. Svona á Evróvisjón að vera í sínu allra besta lægsta-samnefnara-stuði.

Næst er Slóvenía og ég hlakka til. Þetta finnst mér æðislega skemmtilegt. Þetta spilar beint inná Volksmusik-bentinn í mér. Og snjóþvegni gallabuxnavinkillinn spillir ekki fyrir. Þetta lag er að minnstakosti þrjú ef ekki fjögur lög í einu. Og mér finnst þau öll jafn yndislega hallærisleg. Ég er draugfúll að fá ekki að kjósa þetta áfram, því ég er handviss um að enginn annar með fullu viti gerir það. Mér finnst löngu kominn tími til að Volksmusik fái sitt reprazent í Evróvisjón.

Þá kemur írska dívan sem snýr aftur eftir öll þessi ár. Hún getur sungið náttla. Og er hinn girnilegasta, rétt í laginu með rauða hárið sitt. En samt, ég held að það kæmi mér á óvart að sjá þetta fara áfram. Kannski afþví að mér finnst lagið dálítið leiðinlegt. Erfitt að segja. … Sjitt maður. Hversu lengi halda þeir þessari vindvél í gangi? Er ekki búið að banna fleiri virkjanir í Noregi? Allavega, svo toppaði hún það með því að strumpa pínu falskt í lokin.

Fyrirfram held ég að ég hafi meiri trú á búlgarska laginu en meðalmaðurinn. Sko, það stendur undir öllum mínum væntingum. Hið fínasta júrótrass. Glimmer og efnislitlir geimgallar. Getur ekki klikkað. Sanniði til. … Púff. Í smástund þarna hélt ég að hann ætlaði að kyrkja stelpuna einsog var svo mikil tíska á þriðjudagskvöldið. Hann hefur sennilega hætt við á síðustu æfingu eftir árangur þeirra sem gerðu það um daginn.

Kýpur með gítarballöðu kvöldsins. Sjáum til hvort lukkast jafnvel og hjá belgíska krúttinu um daginn. Mér sýnist á öllu að þetta sé ekki alveg glatað, en ekki algjör glimrandi súxé heldur. Flórsykurinn aðeins of þykkur. Hvar er hjartað í þessu hjá ykkur krakkar? Vons mor, vit fílink! En eins og ég sagði, ekki alslæmt og má alveg fara áfram mínvegna, tildæmis frá dómnefndum, eins og Sigmar stingur undir með.

Auglýsingahlé. Notum það.

Króatía og það er Feminem. Jiminn eini hvað mér finnst þetta plebbalegt nafn. Næstum eins plebbalegt og frænka krakkanna minna (12 ára)  segir að það sé að blogga. Sérstaklega fyrir svona fullorðna karlmenn. En hún segir að þetta sé, and I quote, „sigurstranglegt.“ Og hún er með puttann á púlsinum, svo hún hlýtur að vita þetta. En erum samt sammála um að dansinn sé asnalegur. Þær kunna samt alveg að syngja stelpurnar og ég hef fulla trú á þeim, þrátt fyrir dansinn.

Þá kemur lagið frá Georgíu og ég get svo svarið það, það er annað lagið í kvöld sem mér finnst byrja alveg eins og Is it true gerði í fyrra. Hvernig er það, er ekki búinn að vera slatti af ballöðum sungnum af snoppufríðum stúlkum í kvöld? Jú, þetta er sú sjötta, ef mér skjöplast ekki. En með þeim betri. Eða, með þeim betur sungnu. Lagið var náttúrulega bara svona lala, eins og þetta alltsaman.

Og þá er þetta bara að verða búið. Tyrkir með hressa rokkarastráka og fara örugglega áfram. Eina lagið sem keyrir inná Disney-Goth línuna í kvöld. Vel spilað, vel spilað. Dave -Grohl-lúkkalæk  og. hvað. er. málið. með þetta smergelsveiflandi vélkvendi á miðjupallinum? Brjálað stuð. Við fáum að sjá þetta aftur á laugardagskvöldið.

Svo talandi um það, hvernig fer þetta nú í kvöld? Humm…

Ji, þessar gömludagaklippur eru æði.

Loksins sá ég mýflugumynd af litháísku strákunum. Og leist alveg sæmilega á. Ég spái þeim áfram. Annars verður þetta kvöldið þegar sætu stelpurnar fara áfram með ballöðurnar sínar: Svíþjóð, Azerbaídjan, Króatía og Georgía. En ekki Úkraína. Og ég held ekki Írland áfram. Svo verða það Rúmenía, Búlgaría og Tyrkland úr hressu deildinni, alveg garanterað.

Uppí hvað er ég kominn? Átta? Og hvað er þá eftir – Armenía, Danmörk, ? Holland? Nei djók. En ég held að kannski eigi Kýpur eftir að taka þetta. Og bara af því að ég er ég sendi ég Slóveníu áfram á dómnefndaratkvæðinu. Þaraseia einsmanns dómnefndinni mér.

Sumsé, tíuþjóðaspáin: Litháen, Svíþjóð, Azerbadjan, Króatía, Georgía, Rúmenía, Búlgaría, Tyrkland, Kýpur og Slóvenía. Read’em and weep.

Það virðist rétt sem haldið var fram: Þetta er mun sterkari riðill en þriðjudagskvöldið var. Miklu harðari keppni. En ég bíð samt spenntur eftir fyrsta manninum sem fer að kvarta yfir austantjaldsklíkunni þegar Danmörk situr eftir, í staðinn fyrir að horfast í augu við að lögin að austan eru bara miklu betri. Eða svona, fyrir formið.

Jæja, þá eru auglýsingar og síðasti séns að birta fyrir umslög. Sjáum til hvernig fer.

Var svissneski strákurinn með svona geðveikislega flotta barta? Ég missti alveg af því, sennilega skyggðu eyrun svona á þá.

Rétt: Georgía, Tyrkland, Kýpur, Azerbadjan, Rúmenía.

Rangt: Úkraína, Ísrael, Írland, Armenía, Danmörk.

Feilaði á þessum: Litháen, Svíþjóð, Króatía, Búlgaría, Slóvenía.

Helvítis norðurlandaþjóðaklíka alltafhreint.

Jæja, þetta er gott í kvöld. Ég þarf að fara að svæfa. En ég verð að skrifa eitthvað meira um þetta á morgun. Og líka um „fjóru stóru.“ Og uppáhaldið mitt.

Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagar 6-7 og smá um Evróvisjón

Það eru leiðinlegu dagarnir akkúrat núna, eða þeir eru það a.m.k. fyrir aðra að fylgjast með þeim. Ef einhverjir nördar villast hérna inn er bara best að þeir skrolli strax neðst niður.

– – –

Það var brjálað maratonnsprógramm á lokadegi Akureyrardvalar – reynt að koma sem mestu í verk sem farist hafði fyrir um helgina. Um síðmorguninn var byrjað á að hjálpa doktor Sumarbrosi við flutninga. Svo var dögurður hjá frænku frúarinnar. Krakkarnir fóru allir á hestbak í síðasta sinn, og á bakaleiðinni úr hesthúsinu var heilsað uppá fyrrverandi bæjarfélaga frá Tübingen, frúin rak inn nefið hjá vinkonu sinni og keyptar DVD-myndir og gúmmítúttur á krakkalínuna í Nettó á Glerártorgi.

Svo var flogið. Án frekari tíðinda. Jökullinn hættur (a.m.k. í bili) og allt.

Ótrúlegt en satt, þá var gærkvöldið fyrsta kvöldið á landinu sem við fengum fisk. Etið úti á palli í góða veðrinu.

Djödl ógeðslega var það gott.

– – –

Dagurinn í dag er fyrsti af þremur í vinnu. Hlé frá fríinu. Fámennt en góðmennt í Sturlugötunni og ágætir endurfundir við gamla vinnufélaga. Og einn nýjan frá Svabíu sem kom hingað fyrir hálfum öðrum mánuði í fangaskiptum fyrir undirritaðan.

Í hádeginu var etið á Jómfrúnni með tveimur góðum vinum. Og lítið meira af tímanum fram að kvöldi að segja. Nema þegar ég steig útúr strætó í Spönginni og horfði á Úlfarsfellið og Esjuna yfir sólgullin sundin þá  kýldi það mig í magann hvað ég elska þetta land. Eins og ég myndi elska drykkfellt stórasystkin í ruglinu, ef ég ætti svoleiðis.

– – –

Ég var nokkuð ánægður með forkeppni kvöldsins. Það var minna af gígantískum gloríum en áður fannst mér, bæði í jákvæðu og neikvæðu merkingunni. Meirihlutinn frá soddan miðjumoði upp í alveg svona ágætt bara. Allur söngur nánast skammlaus, nema stelpan frá Lettlandi, hún var jafnvel enn verri en ég átti von á. Og þurfti mikið til. Flutningur svona allaveganna, en flestir stóðu undir því pari sem hægt var að setja þeim fyrir.

Skorið hjá mér eftir kvöldið er ekki nema sextíu prósent, en ekki nema eitt land sem kom mér á óvart að kæmist áfram: Bosnía-Herzegóvína var skárri en ég hafði átt von á, en ekki það mikið skárri. Portúgalska stúlkan var mun minna óþolandi en fyrirfram mátti ætla og söng alveg ljómandi vel. Það gerðu krakkarnir frá Hvíta-Rússlandi líka, og fiðrildavængjagimmikkið var ódauðlega móment kvöldsins og eitt og sér næg ástæða til að senda þau áfram. Hera Björk söng vel, verð ég að játa. Þetta var fyrsta skiptið sem mér fannst hún syngja þetta vel. Og dugði til.

Eistneska strákinn vantaði einhvern neista þegar til kom. Slóvakísku stelpuna líka (og svo söng hún pínu flatt). Ég er pínu leiður fyrir hönd finnsku stelpnanna – þær hefðu alveg mátt komast áfram. En Pólland maður, hvað var ég eiginlega að spá?!

– – –

Vinna á morgun og hinn, og svo byrjar fríið hjá mér aftur frá og með fimmtudagskvöldinu. Ég hef verið alltof upptekinn til að setja mig alminlega inní fimmtudagsriðilinn. Sennilega verð ég bara að gera honum skil í beinni, eins og ég gerði í fyrra og hafði gaman af. Ég var að gæla við það áðan að gera svoleiðis undir keppninni í kvöld, en svo var tæknin eitthvað að stríða mér á tölvuöld.

Evróvisjónæði! (fyrsti hluti)

Ekki dauður enn, þótt ég hreyfi mig hægt.

Ég hef þagnað um lengri og skemmri tíma áður. Haft lítið fram að færa svo mánuðum skiptir. En eitt er á tæru. Öll þau rúmlega sjö ár sem ég hef bablað þetta hefur aldrei orðið messufall í kringum Evróvisjón. Og ég ætla sko ekki að fara að byrja á því núna.

– – –

Fyrra undankvöldið í ár verður annan þriðjudag héðan í frá, 25. maí. Þá verðum við (ef jörð og vindar leyfa) öll á skerinu, í annarra manna húsum. Svo það er ekkert sjálfgefið að ég endurtaki leikinn frá í fyrra, þegar ég tjáði mig um herlegheitin í rauntíma (sem ég hafði reyndar mjög gaman af, ég segi það fyrir mig). En þá hef ég allavega póstað þessu hérna.

Kvöldið byrjar á framlagi Moldavíu. Þetta er óttalegt hvítarusl, en fer nú sennilega áfram. Stelpan virðist geta sungið sæmilega skammlaust, strákurinn nær varla að eyðileggja það fyrir henni og sjóið stefnir í að verða eitt brjálæðislega yfirdrifið kitsj. Og rifni saxófónninn. Ekki minnast ógrátandi á þetta rifna saxófónsóló. Mér finnst að það ætti að frysta allar veraldlegar eigur hvers þess manns sem dirfist að nota rifinn saxófón í tónsmíð á almannafæri.

Fyrsti grínentrans kvöldsins er frá Rússlandi. Nei djók. En það er algjört möst að sjá þetta og njóta, bara fyrir þórðargleðina. Ég er samt ekki alveg viss um að Peter Nalitch sé gleymdur og grafinn, þrátt fyrir hörmulegt lag, grátbroslegan flutning og krampavekjandi fyndinn texta. Hann slefar sennilega í úrslitin á brottfluttum atkvæðum til þess að sitja svo eftir í neðri helmingnum á laugardagskvöldið.

Eistneska lagið heillar mig algjörlega uppúr skónum. Mjög sjarmerandi. Skemmtilega retró alltsaman og krókur sem límir sig pikkfastan við heilabörkinn. Ég verð illa svikinn ef hann Malcolm Lincoln kemst ekki áfram. En einhvernveginn finnst mér ég reyndar spá Eistlandi áfram á hverju ári og alltaf situr það eftir. Ég má til með að setja hérna inn lifandi flutninginn (ég mæli líka með kynningarvíðgesjóninni þar sem hann labbar um í snævi þöktum skógi með risavaxinn haus af David Byrne á herðunum):

Lagið frá Slóvakíu virkar vel. Kannski dálítið venjulegt, lágstemmt og ekki alveg verið að brjóta upp formið, en stúlkan heldur lagi og það er eitthvað pínu sjarmerandi við þetta dæmi alltsaman. Þetta fer sennilega áfram.

Lagið frá Finnlandi er dálítið spes. Þá á ég við spes á sama máta og finnsku lögin á liðinni öld voru spes, frekar en Lordi-spes. But in a good way. Það væri gaman að sjá krakkana í  Kuunkuiskaajat (nafnið segir allt sem segja þarf) fara áfram eins og furðulega margir spá þeim, en ég er ekki alveg sannfærður um að svo fari.

Lettland grunar mig að verði stórslys kvöldsins númer tvö. Hún Aisha er alls ekki örugg söngkona, lagið er lélegt og textinn til þess að gnísta tönnum yfir. En það má alls ekki missa af þessu — þetta gæti orðið spectacular failure.

Serbía fer sennilega áfram, enda kemur þaðan skásta lag kvöldsins af Balkanskaganum og balkanbítið keyrt uppí ellefu. En samt aðallega fyrir það að hin Balkanlög kvöldsins skuli vera slík óskapanna hörmung sem þau eru. Svo er krúttið hann Milan Stankovic svo skelfilega sætur og rakar ábyggilega einhverju inn á hárgreiðslunni. Sérstaklega ef hann skiptir um föt í miðju lagi.

Lagið frá Bosníu og Herzegóvínu er hinsvegar algjörlega ömurlegt. Andlaust iðnaðarrokk með banal texta og illa sungið í þokkabót. Ekki einu sinni þannig að hægt sé að hafa gaman af því, svo þetta ætti að vera kjörin pissupása fyrir þá sem þurfa.

Lagið frá Póllandi er. Humm. Pínu sjarmerandi, reyndar. Ef maður kemst yfir hversu byrjunin er skelfileg. Hann  Marcin Mrozinski kann að syngja nógu vel, svo lengi sem þessar hálfglötuðu bakraddir skemma ekki of mikið fyrir honum.

Belgía hefur sjaldnast riðið feitum hesti frá Evróvisjón í seinni tíð. En ég held svei mér þá að það gæti brugðið út af vananum þetta árið: Hann Tom Dice kemst áfram með gítarinn sinn ef eitthvað er sanngjarnt. Þrátt fyrir þetta sé í rauninni lítið annað en hreint og klárt Tracy Chapman rippoff.

Svo lengi sem ég man hefur mér þótt maltneska framlagið ömurlegt. Undantekningalaust. Það breytist ekki í ár. Og bætir bara í, ef eitthvað er. Þótt stelpan geti sungið, þá er lagið leiðinlegt og fuglamaðurinn hreintútsagt martraðarvekjandi. Þessi hörmung ætti að sitja eftir ef eithvað réttlæti er til í veröldinni. En Malta kemst reyndar vanalegast áfram, án þess að ég botni nokkru sinni neitt í því.

Ég veit ekki alveg hvað ég á að halda um Albaníu í ár. Það hefur tekist að finna alveg ágæta söngkonu, en lagið er meira svona meeeh. Þetta gæti oltið dálítið á sjóinu: Ef þau ná að kokka upp eitthvað á svipuðum skala og smaragðsgræna og augnalausa himpigimpið sem hefur ásótt martraðir mínar annað veifið frá keppninni í fyrra, þá flýgur þetta áfram. Albanía hefur líka einhvernveginn haft meðvind hingað til. Ég held varla að það breytist í ár.

Það er óvenju lítið varið í gríska lagið í ár: Söngurinn er ekki góður og einhvernveginn varla einsog þeir nenni þessu strákarnir. Hvar er Sakis Rövas þegar maður þarfnast hans? Samt er eitthvað sem segir mér að þetta eigi eftir að ná inn í úrslitin. Get ekki alveg útskýrt af hverju. En ég myndi gleðjast yfir að hafa rangt fyrir mér.

Ég er ekki eins hrifinn af portúgalska framlaginu og ég var síðustu tvö ár. Þótt stelpan kunni að syngja þá finnst mér lagið væmið og asnalegt og þetta er bara alltof Idol eitthvað. Það fer voðalega í mig svona trillerí, alltsaman. Og Portúgal er ekki land sem kemst áfram fyrir neitt minna en toppframmistöðu á öllum vígstöðvum.

Hvað er hægt að segja um lagið frá Makedóníu? Miðaldra skallapoppara með skóreim um hálsinn og fagmennskurokkið í fyrirrúmi?  Ég veit: Það er bara yfirmáta öfmó. Ekkert minna. Varla þess virði að bíða eftir gestarappinu. Ekki einu sinni hammer-on gítarsólóið í restina nær að bjarga því. Það má mikið vera ef makedóníska heilkennið gerir vart við sig í ár. Og annar iðnaðarrokksentransinn frá fyrrum Júgóslavíu þetta kvöldið. Eru einhverjir þungamálmar í vatninu þarna á Balkanskaganum?

Ég veit ekki alveg með Hvíta Rússland. Þrír plús tveir snoppufríðir og sandblásnir táningskrakkar með hugljúfa óperuballöðu. Þetta er náttúrulega alveghreint yfirmáta hallærislegt. Og þá meina ég ekki alveg endilega í bestu merkingu þess orðs. Ég hef ekki hugmynd um hvernig þeir syngja þetta læf krakkarnir, en það hangir eiginlega allt á því. Þetta gæti heillað. En mér finnst samt líklegast að þetta eigi allt eftir að enda með ósköpum.

Svo er það hún Hera Björk. Og ég verð bara að segja að hún heillar mig ekki. Hún er auðvitað góð söngkona og allt það, en lagið er bara nauðaómerkilegt og ég á enn eftir að heyra og sjá hana flytja það þannig að dugi til nokkurs.  Ég man ekki eftir að hafa verið svona lítt hrifinn af íslensku framlagi síðan einhverntíma á tíunda áratugnum. Hún á sosum séns á að komast áfram, ég er bara ekkert voðalega bjartsýnn á stærðina á honum.

Ég er nokkuð sjúr á að Moldavía, Eistland, Slóvakía, Serbía og Belgía komast áfram eftir kvöldið. Mér finnst líklegra en ekki að Albanía og Grikkland fljóti með (misverðskuldað). Ég myndi mjög gjarnan vilja sjá bæði Finnland og Pólland komast í gegn líka. Og svo tel ég nokkuð garanterað að rússneska furðuverkið fari áfram á brottfluttum atkvæðum.

Ég get alveg liðið bæði Portúgal, Íslandi og Hvíta-Rússlandi (ef þau geta sungið) að komast áfram, þótt mér þyki þau öll ólíklegri kandídatar. Og þá helst á kostnað Grikklands eða Rússlands. En ef Lettland, Bosnía-Herzegóvína, Makedónía eða Malta ná að troða sér inn, þá veit ég ekki hvert ég ætla.

Og læt það duga í bili.

Temavika lágmenning (seinni hluti): „Leðjan til Lettlaaands!“

Höfum þetta stutt.

– – –

Ef kosið yrði á morgun eftir eftir því hver hefur sýnt besta og öruggasta flutninginn, þá ætti Íris Hólm að taka þetta. Hún er sá flytjandinn í úrslitunum sem skilaði lýtaminnstri frammistöðu í undanriðlunum: hún bar af  öðrum sem komust áfram (verst að ég er ekki nema rétt svo hrifinn af laginu…). Svo mæli ég með að kjóllinn hennar annað kvöld hæfi henni betur en sá sem hún var í síðast.

– – –

Af öllum sem komust áfram, sagði ég. Mér finnst reyndar hálfgerð synd að Anna Hlín hafi ekki komist áfram – hún kom mér ánægjulega á óvart. Hefði alveg átt skilið að vera kosin áfram frekar en hvor heldur sem er af hinum tveimur flytjendunum það kvöldið.

Eina dæmið um slíkt í þetta skipti, finnst mér. Og má telja vel sloppið.

– – –

Bæði Matti Matt og Sjonni Blank verða fagmannlegir og án stórslysa, sosum. En mun ekki fara af þeim meiri sögum.

– – –

„Stóru Evróvisjónstríðin“ hafa náttúrulega verið milli tjaldbúða Heru Bjarkar og Jógvans. Hálfhláleg vitaskuld, eins og öll önnur stríð á skerinu þessi dægrin (les: síðustu sextíu árin).

Þau eru bæði ágætir flytjendur, þótt hvorugt hafi verið uppá sitt besta í sínum flutningi þetta árið. Sem skýrist kannski af því að lögin þeirra beggja eru óttalegt miðjumoð.

Soddan hrat.

Lagið hans Örlygs Smára kannski ekki stolið, bara óttalega mikið eins. Gleymum þessari Kate Ryan; mér finnst ég alltaf vera að hlusta á ódýrt og handabakalega útfært rippoff af „This is my life“ þegar ég heyri það.

Og mér er fyrirmunað að muna eftir lagi frá Bubba sem er hvorttveggja, grípandi og góð lagasmíð, síðasta… tjah… hálfan annan áratuginn, sirkabát.

– – –

Þá sem þekkja mig þarf ekki að undra að ég held með Hvanndalsbræðrum. Langskemmtilegasti entransinn í ár. Minnir mig dálítið á Leðjuna frá því þarna um árið (án þess að vera að ræna neinu, haha). Og fiðlusólóið er innblásin himnasæla. Ef ég væri að fara að hringja inn á morgun myndi ég hringja í númerið þeirra.

– – –

En ég þori samt nánast að veðja að annaðhvort Hera Björk eða Jógvan á eftir að taka þetta.

– – –

Æ fokkitt. Ég er farinn að hlusta á Semino Rossi.

Temavika lágmenning (fyrri hluti): „Unser Star für Oslo“ (ist gefunden)

(VARÚÐ: þessi færsla er um Evróvisjón söngvakeppnina.)

– – –

Þegar kemur að Evróvisjón söngvakeppninni er Stefan Raab bjargvættur Þjóðverja.

Þetta er ekki vongóð draumlýsing, heldur staðreynd. Af síðustu tólf skiptum hefur þeim sex sinnum mistekist að skríða upp fyrir miðju. Af hinum sex skiptunum var Stefan Raab með puttana í þýska laginu í þrjú skipti: Hann samdi lagið „Guildo hat euch lieb!“ sem fleytti hinum ástsæla skallapoppara Guildo Horn uppí sjöunda sætið árið 1998. Hann söng sjálfur hið víðfræga „Wadde Hadde Dudde Da“ árið 2000, í föngulegum félagsskap til fimmta sætis. Og svo samdi hann aftur lag og texta árið 2004: „Can’t Wait Until Tonight,“ fyrir Max Mutzke, sigurvegara keppninnar SSDSGPS („Stefan sucht den Super-Grand-Prix-Star“), sem Stefan Raab hélt sem forval fyrir Evróvisjónkeppnina það árið. Það dugði til áttunda sætis.

Síðan hefur þátttaka Þýskalands verið ein samfelld eyðimerkurganga. Stefan Raab missti áhugann á Evróvisjón og startaði í staðinn sinni eigin söngvakeppni, „Bundesvision,“ sem hann hélt úti þartil í fyrra. Þá kom þýska ríkissjónvarpið ARD að máli við hann og kumpána hans á Pro Sieben sjónvarpsstöðinni og grátbað um aðstoð við að rétta úr Evróvisjónkútnum með einhverju í líkingu við SSDSGPS þarna um árið. Útkomunni úr þeim viðræðum var svo hleypt af stokkunum í gærkvöldi þegar fyrsti þáttur af „Unser Star für Oslo“ var sýndur í beinni útsendingu úr sjónvarpssal Pro Sieben í Köln.

Serían á sér forsögu: fyrr í vetur var farið af stað með inntökupróf í Idolstílnum þar sem leitað var að upprennandi stjörnum til að halda uppi heiðri þjóðarinnar. Þau bestu tuttugu úr þeim prufum eru þau sem fá að spreyta sig í tveimur fyrstu þáttunum, þeim í gær og öðrum að viku liðinni. Í hvorum þætti kjósa áhorfendur svo áfram fimm af tíu flytjendum. Síðan taka við þrír þættir í viðbót á Pro Sieben sem ég veit ekki alveg hvernig fara fram, því næst það sem er kallað „fjórðungsúrslit“ á ARD, þar á eftir „undanúrslit“ á Pro Sieben og loks endanlegur lokaúrslitaþáttur á ARD þann tólfta mars. Nákvæmlega hvernig skorið verður niður úr tíu í einn í seinni sex þáttunum hef ég ekki hugmynd um. Né heldur hvernig farið verður að því að velja lagið: hvort það sé partur af prógramminu eða hvort Stefan Raab sjái bara um það sjálfur þegar flytjandinn hefur verið fundinn. En í hverjum þætti situr hann í dómarasæti (svipað og Cowell et al.) og fær sér til fulltingis tvo meðdómara fyrir hvern þátt – alltaf nýja og nýja. Já, voðalega Idol eitthvað.

Og hvernig var svo þátturinn í gærkvöldi?

Hann var ekki alveg eins leiðinlegur og Idol, í stuttu máli. Þegar níu flytjendur voru búnir varð ég að játa þetta voru allt krakkar sem gátu sungið, svona nokkurn veginn, og höfðu einna helst mismiklar líkur á því að komast áfram eftir óljósari mælistikum einsog „karakter,“ „útgeislun“ og, tjah, „eigind.“

(er það ekki orð, annars?)

Þá steig á svið síðasti keppandinn, og líka sá yngsti, átján ára skotta frá Hanover að nafni Lena Meyer-Landrut. Það var eitthvað við það hvernig hún steig á sviðið sem sagði manni að annaðhvort yrði þetta alveg stórkostlegt fíaskó eða eitthvað algjörlega æðislegt. Eftir nokkrar sekúndur í viðbót var morgunljóst hvort væri. Kannski ofrausn að segja að stjarna sé fædd. En að minnsta kosti á leiðinni í burðarliðinn. Sjáið hana taka lagið „My same“ sem upphaflega var með Adele og gera að sínu eigin:

Ég gæti þulið upp hina krakkana fjóra, en þau voru minni spámenn. Ég geri mér vonir um sterkan og skemmtilegan kandídat í þættinum að viku liðinni, þá gæti orðið spennandi keppni í framhaldinu. Annars sýnist mér þetta bara búið.

Slúttum þessu á tveimur bónusum, þeim Guildo og Max (entransinn hans Stefáns hef ég birt hérna áður í öðrum pósti).

Þrjú kvöld af sjónvarpi

Ég fór í afmælisferð til Kölnar.

(Hún var mjög ánægjuleg, takk fyrir að spyrja – sjá frúna fyrir ferðalýsingu.)

Við stoppuðum á leiðinni norðureftir til að fá okkur skyndibita. Í sjoppunni voru seldar DVD-myndir, sem var kjörið, þar sem maður á til að þreytast á þýska döbbinu.

Meir um það rétt bráðum.

En einnig fyrir það að við gáfum okkur einmitt í jólagjöf ferða-DVD-spilara, til að hafa ofanaf fyrir krökkunum í langferðum (einsog tildæmis til Kölnar). Og okkur eftir að þau eru komin í ró á gistiheimilunum.

Svo við keyptum okkur tvo diska. Annan þeirra horfðum við á strax þá um kvöldið: Cloverfield.

(Smáragrund? Smáravellir? Smáratún? Gengur ekki alveg í þýðingunni: kemur alltaf út einsog götuheiti í Grafarvogi…)

Við vorum aldrei búin að sjá hana áður. Og ég var mjög impóneraður. Skemmtilegasta skrímslamynd sem ég hef séð svo áratugum skiptir.

Vildi bara benda á þetta, ef einhverjir skyldu enn eiga eftir að sjá hana…

– – –

Hinn diskurinn sem við keyptum innihélt tvær myndir. Annarsvegar einhvern vestra, sýnist mér, með Angelínu Jolie. Hann er enn óséður. Hinsvegar myndina A Few Days in September – alþjóðlega spennumynd með Juliette Binoche,  John Turturro og Nick Nolte í blikkaðu-og-misstu-af-honum-ódauðum-hlutverki.

Þetta leit út sem hin sæmilegasta ræma á pappírnum. Og það má vel vera að hún sé það.

Nema.

Eins og með allar myndir sem maður getur keypt hérna úti, þá er hægt að velja um að horfa á hana með þýsk-döbbuðu hljóðrásinni, eða enska orgínalnum. Nema það sem var kallað ensk hljóðrás kom fljótlega í ljós að var að, hvaaað, svona tveimur þriðju til þremur fjórðuhlutum á frönsku.

Og engir textar í boði, takk fyrir.

Svo maður var tilneyddur að hamast á audio-takkanum í gegnum alla myndina, að ná enskunni hvenær sem hennar naut við, en skipta yfir í þýska döbbið um leið og franskan byrjaði. Og ekki einusinni hægt að reiða sig á amerísku leikarana: John Turturro talaði sig á frönsku gegnum alla myndina.

Gaman.

Það stakk dálítið meira en vanalega að heyra hve raddirnar í þeim Turturro og Binoche dýpkuðu í hvert skipti sem skipt var yfirá þýskuna. Það er nógu skrítið að horfa á heilar myndir með leikurum sem tala framandi röddu, þótt þeir fari ekki alltíeinu í mútur í miðri setningu.

– – –

Svo horfðum við á forkeppni Evróvisjón á rúv-vefnum í gærkvöldi. Og þótti báðum sem skástu kostirnir væru kosnir áfram.

(Er það ekki einmitt íslenska lýðræðið í hnotskurn þessa dagana? Frelsi til að fá að kjósa illskásta kostinn?)

Vorum á leiðinni heim í gær eftir skemmtilega heimsókn hjá vinum þegar ég sagði frúnni frá þessu: Við yrðum að horfa, þetta væri allt að fara í gang. Sigurjón Brink á sjó dreginn og alles.

„Sigurjón hver?“ spurði hún.

„Nú Sigurjón Brink manneskja,“ svaraði ég. „Fastamubla í hverri forkeppni í áraraðir. Bíddu bara, hann rifjast upp fyrir þér.“

Leið svo fram á kvöldið.

„Þarna er hann,“ sagði ég og benti á tölvuskjáinn. „Þetta er hann, þekkirðu hann ekki núna?“

„Njeeeh,“ sagði hún og mundaði prjónana. „Þetta er nú bara einhver Sigurjón Blank fyrir mér.“

Setti mig þá ofurlítið stúmm.

Og hefur téður Sigurjón aldrei verið titlaður annað en Blank á heimilinu síðan.

(Um þá tvo flytjendur sem enn eru ónefndir hef ég engin orð. Segjum að það sé af tillitssemi.)

Annars ætlaði ég ekki að fjalla neitt sérstaklega um íslensku forkeppni Evróvisjón þetta árið, þótt ég kannski stikli á einhverju aftur á næstu vikum.

Hér á heimilinu er nefnilega mun meiri spenningur fyrir Bundesvision 2010.

Um það verður pottþétt betur fjallað síðar.

Evróvisjón – blogg í rauntíma (seinni hluti)

Jæja, það rétt slapp. Á síðustu stundu duttum við inná hollenska stöð sem sýnir seinna kvöldið. Ég var farinn að halda að við fyndum þetta ekki. En það slapp, ég er kominn með Rothausinn í aðra hendina og allt orðið sirkabát einsog á að vera. Fyrir utan að heyra ekki í honum Sigmari blessuðum, heldur þessu bévaða hrognamáli í staðinn.

Króatía: Jæja. Það er bara þjóðlega línan, öllum að óvörum. Söngvarinn vill greinilega vera voða sexý en óttalega freðýsulegur, þrátt fyrir góðan vilja. En syngur skammlaust, heyrist mér. En tengdó er ennþá að spjalla við vinkonu sína á Skæpinu hinumegin í stofunni svo ég heyri þetta ekki alveg nógu vel. Virðist samt alltílagi.

Írland: Með lagið „Et cetera.“ Voðalega býður það upp á fyndið grín á þeirra kostnað. En ég sé að Elektrulínan hefur verið tekin víðar en í Andorra. Ég kunni bara ágætlega við þetta, þetta á sér von fyrir utan að Írland hefur ekki átt það auðvelt uppá síðkastið.

Lettland: Ef ég væri frá Lettlandi get ég skilið að mér þætti þetta dálítið flott. En ég er bara ekki frá Lettlandi. En samt… það er eitthvað við þetta… Ég glotti útí annað, og ekki nema til hálfs að því, frekar en með því.

Serbía: Neinei, bara kominn húmorvinkill á þjóðlegu línuna. Bara verst hvað hann er óttalega lítið fyndinn. Fer Serbía samt ekki alltaf í gegn, sama hvað hún sendir?

Pólland: Eitt af mínum uppáhaldslöndum í seinni tíð. Fyrsta ballaða kvöldsins og einhvernveginn alveg kominn tími á hana. Fyrsta númer kvöldsins með svona „alveg týpískt“ Júróvisjónlag, stelpan getur sungið og hefur í grófum dráttum allt með sér til að komast áfram. Mér finnst lagið reyndar óttalega leiðinlegt. En það er aukaatriði.

Noregur: Þá er það lagið sem allir segja að muni vinna. En bíddu… út á hvað? Já ókei, hann er sætur strákurinn. Syngur svona nokkurnveginn ófalskt… Já ókei. Þetta er að síast inn hjá mér. Það er sjarmi þarna. Þetta er ekki alvitlaust.

Þessir kynnar eru hinsvegar hreinasta hörmung. En að dæma af fyrsta fjórðungi finnst mér þetta sterkari riðill en í fyrrakvöld.

Kýpur: Dálítið brothætt byrjun. Og heldur áfram. Flutningur ekki alveg eins lýtalaus og hann þyrfti að vera fyrir svona lag. Söngkonan ekki alveg með röddina í þetta. En lagið var ekki alveg ómögulegt.

Slóvakía: Neeei nú fer þetta að verða alveg ágætt af sætum stúlkum sem geta næstum sungið rólegu lögin sem þær eru að flytja. Nei ókei, núna kemur loðinbarði í fráhnepptum jakkafötum til að redda þessu. Nema að hann gerir það ekki. Og þar kom hái áhrifatónninn… Ái. Nei ókei, hann var bara upphitun fyrir þennan hérna. Öhh… ái.

Danmörk: Lagið hans Ronan Keating, svo mikið hef ég frétt. Og fundinn Dani sem er eins og skapaður af rifi úr honum Ronan, meiraðsegja. Nú ætla ég að sjá hversu oft áður en laginu lýkur ég get skrifað vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla nei ókei. Bara eldglæringar. En samt, vanilla, vanilla, vanilla, vanilla, vanilla, og vær so gúð.

Slóvenía: Ókei, sæmilega kúl júróruslbyrjun, en hvenær fer hún að syngja?! Og hvenær birtist hún á sviðinu? Lagið er rúmlega hálfnað, við erum enn í intróinu og söngkonan er ekki enn komin á sviðið. Er hún með bólu á nefinu eða eitthvað? Nei ég skil. Þetta var svona trikk til að við værum enn svo uppnumin yfir að sjá hana loksins að við tækjum ekki eftir að hún nær ekki háu tónunum. Voðalega furðulegt alltsaman.

Ungverjaland: „Dance with me.“ Afsakið. Ég er bara… vá. Þetta má segja að sé slæmt á alla mögulega vegu, en samt alltaf af fullkominni einlægni og virðingu fyrir viðfangsefninu. Ég. er. impóneraður.

Azerbadjan: Hér gerir minn kröfur. Loksins almennilegt júrótrass. Bara verst hvað þau eru fölsk greyin. Spurning: Er júrótrassið dautt? Erum við að horfa uppá fjörbrot evróruslsins? Neeeei varla. En þetta er ekki þess glæstasta móment.

Grikkland: Jei! Sakis Rouvas! Bara Johnny Logan evróruslsins mættur! Ég kemst reyndar aldrei yfir það hvað hann er líkur Samúel Erni Erlingssyni. Og viðlagið er með uncanny resemblance við titillagið úr Fame. En við erum samt hérna loksins með alvöru evrórusl-entrans í þessari keppni. Það var mikið.

Litháen: Land sem hefur ekki riðið feitum hesti frá keppninni undanfarið. Ooooog er ekki að fara að breyta því í ár, er ég hræddur um. Lítið meira um það að segja. Loginn í lófanum flott gimmikk í restina, en samt.

Moldavía: Ég hef bara dálítið gaman af þessu. Og við öll. Tengdamamma er ánægð með þetta.

Albanía: Eitt af mínum uppáhalds frá fornu fari. Og jibbí. Það er græn diskógeimvera á sviðinu, bendir frúin á. Og þá loksins sá ég hana – ég gleymdi mér yfir snípsíða pilsinu. Breik og látbragðsdans og allt. Og svo er einhver tónlist þarna líka víst. Það er bara eitthvað verulega rangt við þetta alltsaman.

Það er bara eitthvað lítillega bilað við þetta kvöld eins og leggur sig. Ég ætla að fá mér annan Rothaus.

Úkraína: Ó-kei. Súludans í hamstrahjólum og. rómverskir. gladíatorar. Hérna… er það bara ég eða… er þetta ekki dálítið gay?

Eistland: Eistland lítur út fyrir að hafa lánið fyrir sér í kvöld. Það er blessunarlega lágstemmdari kynþokki yfir þessu númeri en þeim næstu á undan. Og nýtur sín því betur. Allt blessunarlega yfirvegaðra og öruggara með sjálft sig en maður hefur séð svo nokkrum lögum skiptir. Leggst vel í mig.

Holland: Hvað. er. þetta?! Góðu fréttirnar eru að ég var farinn að örvænta um hvort það ætti ekki að vera neitt fyndið grínatriði í kvöld. Þetta bætti úr því. Ef við hugsuðum okkur Helga Björns, Herbert Guðmunds og Eyva, dressuðum þá upp í glimmergalla og létum Heru Björk skratsa undir í diskólagi eftir Indian Princess Leoncie, myndum við hrífast með? Neh, sennilega ekki. En það gæti orðið næstumþvi svona fyndið.

Jæja, aftur út í bláinn spái ég að þessi tíu haldi áfram:

Króatía, Pólland, Noregur, Grikkland, Moldavía, Úkraína, Eistland, Írland, Lettland, Danmörk.

Já, ég veit að hvorki Írland né Lettland eiga að hafa nokkurn séns í reynd, en það var bara eitthvað við bæði lög sem ég var dáldið skotinn í. En Serbía, Slóvakía, Slóvenía og Azerbadjan gætu þessvegna slegið út hvert sem er eða öll af þremur síðustu. Ég nenni ekki að pæla of mikið í grannþjóða- og díaspórupólitíkinni. En ég vona hins vegar af öllu hjarta að Ungverjaland stingi sér inn. Það myndi veita ómetanlegt comic relief á laugardagskvöldinu.

Albaníuatriðið mun hinsvegar ásækja mig í martröðum komandi nátta.

Við erum svo heppin að sjá tímadrápsatriðið strax í beinni. Jamm, þetta er voða þjóðlegt alltsaman. Þjóðdansaklúbbur Volgograd leikur listir sínar. Og tekur… Grikkjann Zorba?!

En. intressant.

Ókei. Þá eru úrslitin komin:

Aserbadjan, Króatía, Úkraína, Litháen, Albanía, Moldavía, Danmörk, Eistland, Noregur og Grikkland.

Grísaði á sjö af tíu. Litháen kom mér mjög á óvart. Annað var meira svona viðbúið. Og hægt að kætast yfir að fá að sjá græn/bláklædda gimpið aftur á laugardagskvöldið. Það er hrein gleði.

Ég geri ekki ráð fyrir að blogga á rauntíma á laugardagskvöldið – sennilega gestir í bænum, krakkarnir á fótum og svona. Auk þess sem ég get alveg hugsað mér að horfa bara á keppnina.

Ég hefði getað fengið mér eitthvað verulega schwäbískt í hádegismatinn. En ákvað að láta það bíða betri tíma. Svo í dag var það bara kjötbolla með krydduðum hrísgrjónum.

Evróvisjón – blogg í rauntíma

Jæja, ekkert búinn að tjá mig af þeirri einföldu ástæðu að ég hef hvorki heyrt né séð haus né sporð á neinnar þjóðar kvikindum. Nema þá kvikindinu henni Jóhönnu. Svo hví þá ekki að blogga bara sín fyrstu hughrif í beinni meðan við horfum á keppnina í portúgalska ríkissjónvarpinu: Ég, frúin og tengdamamma.

Svartfjallaland: Fyrsta graðkelling kvöldsins (og væntanlega ekki sú síðasta). Hápunkturinn þegar dansfolinn þuklaði uppundir pilsduluna á henni (blessunarlega missti tengdamamma af því mómenti). Verst hvað lagið var mikið bleh.

Tékkland: Enn að leita að formúlunni greinilega. Ég er hræddur um að þetta verði ekki kvöldið sem staðfestir málsháttinn „Allt er þá þrennt er“ fyrir þau greyin. Sem mér finnst reyndar miður, enda ber ég taugar til lands og þjóðar.

Belgía: Rokkabillý! Alla leið! Jöööss!!! Elviseftirherma og allt! Langbesta lagið það sem af er kvöldi. En samt ömurlegt. En samt æði.

Hvíta Rússland (hvort er það eitt orð eða tvö?):  Alltaf sömu yfirdrifnu sjóin þarna austanað, einhverveginn. Æðislegur þessi austurevrópski hreimur á enskunni líka. Að maður tali nú ekki um Kjöthleifslúkkið. Vá. Tengdó finnst þetta skást það sem af er. Og ég skil hvað hún er að fara. En hvað var eiginlega málið með vofurnar í silkidulunum?!

Svíþjóð: Charlotte Nielsen skólinn í lúkkinu. Eh bíddu. Nú er lagið byrjað, og það er nú bara nokkuð … öhhh… glatað. Hef ekki séð Svíann svona lélegan síðan þeir sendu Las Vegas söngvarann með reðurgúmmístöngina þarna um árið. Já, hún getur sungið en… hvernig gerðist þetta?!!! Má maður ekki líta af þessari keppni í eitt ár og þá bara fer allt í vitleysu?!

Armenía: Ahhh. Sumt klikkar aldrei. Þar á meðal er þjóðlega sándið frá Armeníu. Og þessutan … þá er ég bara pínu skotinn í þessu. Takturinn nokkuð góður, mixið og svona. Helst að vanti krókinn. Hvar er krókurinn stelpur? Allavega, gleymdi að telja upphátt undir Svíþjóð áðan, en er svona að velta fyrir mér hvort hér skuli talið þriðja graðkellinganúmer kvöldsins.

Andorra: Ein af mínum uppháhaldsþjóðum alltafhreint. Ég sé að Valli Sport hefur sparkað Harasystrum úr Elektra og troðið þeim inn í Andorrakeppnina eftir að hafa mistekist að meikaða á skerinu. Og skellt einni katalónskumælandi Dolly Halliwell í framlínuna í staðinn. Dálítið skotinn, en aðallega bara afþví að þetta er Andorra.

Sviss: Vá maður. Bara Editorslínan alla leið. Designerlúkk, þunglyndiskúl og allt svona dálítið væld, en samt alltaf þannig að snyrtimennskan er í fyrirrúmi. Þetta fer áfram, ef allt er með felldu. Og á það sennilega bara alveg skilið. Dálítið ánægður með þetta.

Tyrkland: Hananú. Nú er keppnin greinilega byrjuð. Og minntist einhver á graðkellingar? Takturinn minnir mig reyndar grundamlega mikið á gríska sigurlagið frá því fyrir nokkrum árum. Og lagið að öðru leyti ekki eins gott (ekki það að ég vilji tala vel um frummyndina). Hér er eitthvað fyndið sem bíður ósagt um spila inná þjóðararfinn. En lagið fer lengra. Ójá.

Ísrael: Þetta er bara ágætt lag. Já. Alveg ágætt. Annars hefur ár frá ári gerst sífellt erfiðara að taka tónlistina úr sambandi við þjóðfélagslega samhengið. Og er orðið ómögulegt eftir atburði síðasta árs. Það er bara ekki hægt lengur. En ég segi samt aftur: Þetta lag var ágætt.

Búlgaría: Vá. Þetta byrjar eins og stórslys í uppsiglingu. Vá. Bara … vá. Það er bara allt svo rangt við þetta. Þetta var fíaskó af stórfenglegri stærðargráðu. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að maður getur ekki annað en elskað þessa keppni.

Ísland: Bara … flott. (Og ekki verra að hafa komið á eftir Búlgaríu.)

Makedónía: Noh. Óskilgetinn sonur Bon Jovi bara mættur á staðinn. Þetta er svo sannarlega númer sem er sleipt í hálku. Það hefur lengi vantað meira af snjóþvegnu gallabuxnarokki, ekki bara í Evróvisjón, heldur í tónlistina almennt. Ég hef bara lúmskt gaman af þessu, játti hann uppá sig og glotti í kampinn.

Rúmenía: Ef mér skjöplast ekki, þá er þetta fyrsta snípsíða pils kvöldsins. En lagið er óttalega litlaust.

Finnland: Öh. Ókei… á dauða mínum átti ég von, en ekki teknótrassi frá Finnlandi. Já, ókei, þarna kom pínu hefímetalgítar. Í hálfa sekúndu. En það er eitthvað við þetta sem gengur upp, þvert ofaní sjálft sig. Og þau geta sungið. Og raddað. Ég er með gott væb fyrir þessu.

Auglýsingar. Nú fer þetta bráðum að verða búið.

Portúgal: Þetta er bara dálítið flott. Eftir að hafa verið úti á þekju frá örófi alda eru Portúgalir í seinni tíð farnir að fatta hvernig á að spila þetta. Ánægður með þá.

Malta: Næstsíðasta lagið. Allt frá barnæsku hefur mér þótt Maltneski entransinn óttalega óspennandi. Það er ekki að breytast í kvöld. Voðalega næntís eitthvað. And not in a good way.

Bosnía-Hersegóvína: Hmmm… ég er á báðum áttum með þetta. Í sjálfu sér sáttur við lagið og sándið í því (balkneska skólann og svona) en útlitið og sviðshreyfingarnar … ég veeeeeit það ekki. Æéveidaggi.

Mitt algjörlega út-í-bláinn gisk á þau tíu sem fara áfram:

Svartfjallaland, Hvítarússland, Armenía, Sviss, Tyrkland, Ísland, Makedónía, Finnland, Portúgal og Bosnía-Hersegóvína.

Svíþjóð og Rúmenía eru á þröskuldinum, og þá á kostnað Svartfjallalands, Íslands eða Portúgals. Aðrir eru sennilega öruggari.

Er núna að horfa á lögin sem fara beint í úrslitin. Ég er núna fyrst að heyra þau (einsog önnur) en get þó laumað að þeim innanbúðarupplýsingum að Dita von Teese mun taka þátt í þýska númerinu. Sem reyndar er mun skárra en oft áður, sýnist mér. Og þá er ég að tala af fyllsta hlutleysi. Ég geri fullteinsvel ráð fyrir óvæntum árangri Þjóðverja á laugardaginn kemur, jafnvel töluvert uppfyrir fimm neðstu sætin.

Úrslit: Tyrkland, Svíþjóð, Ísrael, Portúgal, Malta, Finnland, Bosnía-Hersegóvína, Rúmenía, Armenía og Ísland.

Vá. Ég var búinn að skrifa voðalega sólilókíu um að fara að halda með Portúgal, en svo kom það á lokametrunum. Þetta er, ef ég man rétt (sem þarf ekki að vera), annað skiptið sem Ísland meikar það upp úr undanriðli, og í annað skipti sem það er tíunda og síðasta landið uppúr umslaginu. Getur einhver staðfest þetta?

En voðalega var maður úti á þekju. Svartfjallaland, Hvíta-Rússland, Sviss og Makedónía sitja öll eftir. 60% skor. Svíþjóð, Rúmenía (hvorttveggja inni í myndinni), Ísrael og Malta (hvorttveggja mun óvæntara) í staðinn. Eflaust annaðhvort af þeim tveimur síðari að koma inn fyrir tilstilli dómnefnda. Sem er sosum ekki til að æsa sig yfir.

En 60% skorið mun ég reyna að bæta. Og þá ekki seinna en annað kvöld.

Læt getið í restina að ég beilaði á spítalaeldhúsið og fékk mér falafel í hádeginu, í fyrsta sinn frá því ég kom hingað. Og þætti sumum lengi haldið út.