Greinasafn fyrir flokkinn: Heimsmálin

Ólöglegt verðsamráð

Ég var búinn að finna mér uppáhaldskaffi til hvunndagslegs heimabrúks – Dallmayr Prodomo – einhverntíma á haustdögum. Ætlaði að reyna að halda mig við það sem oftast. Þá birtist rétt fyrir jólin frétt um að dómur hefði fallið í máli sem snerist um ólöglegt verðsamráð kaffirisanna þriggja hér í Þýskalandi: Melitta, Tchibo og Dallmayr. Með sekt uppá samtals 159 og hálfa milljón evra. Þá ákvað ég að finna mér nýja uppáhaldstegund til heimilisnota.

Ég er enn að leita. Og tek feginn á móti uppástungum. Ég hef reynt mig við týpur frá bæði Jacobs og Eduscho án þess að ná fullum sáttum. En jólunum var blessunarlega reddað með sendingu ofanaf skeri af hátíðarblöndu frá Rúbín.

Soddan synd. Ég var mjög sáttur við Dallmayr Prodomo. En sumt gerir maður bara ekki. Hvar í landi sem maður er staddur.

Ekki satt?

Landráð

„Hristu hana aðeins,“ sagði annar pjakkurinn við hinn, þar sem þeir góndu á tvö skriðkvikindi sem þeir höfðu fangað í krukku. „Sjáum hvort þau ráðist ekki hvort á annað.“

Þarf ég að segja meira? Mér finnst að ég ætti ekki að þurfa þess. Leggðu snöggvast á minnið hvernig þú ræður í þetta. Ég kem aftur að þessu seinna.

– – –

Mér hefur fundist eins og ég þyrfti að segja eitthvað yfir Icesave-málunum. En það er bara svo ómögulegt að koma inn í þetta einhvernveginn, héðan utanað. Inn í hitann og kófið.

Landráð!, er hrópað innan úr kösinni. Þjóðníð! Kvislingar!

Og um hverja? Bræðum það aðeins með okkur í hljóði.

Ég kem aftur að þessu seinna.

– – –

Eitt hefur legið ljóst fyrir alveg síðan síðasta haust: Við munum aldrei aftur hafa það eins gott og við höfðum það. Og mér finnst það reyndar gott, útaf fyrir sig. Við höfðum það aldrei eins gott og við höfðum það.

Ég endurtek: Við höfðum það aldrei eins gott og við höfðum það.

Og núorðið er annað ekki hægt en að horfast í augu við eftirfarandi: Sama hvað verður gert, hvort sem Icesave samningarnir verða samþykktir eða ekki, með eða án fyrirvara, þá mun fyrirsjáanleg framtíð lands og þjóðar verða, fyrir allan praktískan samanburð við nýliðna tíma, ömurleg. Þetta er ekki svartagall, þetta er staðreynd. Að ætla eitthvað annað er að berja höfðinu við steininn. Það er kominn tími til að vakna og finna lyktina af forhúðarostinum.

– – –

Bara svo það sé á tæru: Ég er reiður. Ég er alveghreint bandhoppandi brjálaður. En þetta er ekki sú heiftþrungna, stefnulausa reiði sem fyllti svo marga (þarámeðal mig) síðasta október, og svo aftur í janúar.

Einusinni fyrir óramörgum árum var ég að keyra frá Hólum í Hjaltadal niður á Sauðárkrók seint um kvöld. Ég var með bílfylli af krökkum á svipuðu reki og ég og við ætluðum aðeins að skreppa niður í Ábæ fyrir lokun. Stúlkan sú sem ég elskaði þá sat í farþegasætinu.

Ég var enn að gefa inn upp að einbreiðu brúnni sem lá yfir Víðinesána á blindhæðinni rétt utan við Hólastað þegar ég sá að það var ekki allt með felldu; það var eitthvað í veginum. Þegar ég gerði mér ljóst að þetta var kindarskrokkur sem lá á miðju brúargólfinu var orðið of seint að negla á bremsurnar, en það var ekkert annað að gera. Mér tókst að stýra með vælandi dekkjum og öskrandi farþegum á milli brúarstólpanna, fann skepnuna skella á hægra framhjólinu og dragast undir bílnum útá brúarendann hinumegin áður en hún losnaði aftur. Svo námum við staðar.

Í þögninni á eftir gerði ég mér nokkra hluti ljósa:

  1. Ég var ekki fyrstur til að keyra yfir kindina.
  2. Sá sem var á undan mér hafði skilið hræið eftir þarna og ekið í burtu.
  3. Kindin var enn uppi á miðjum veginum.

Og nötrandi af adrenalínsjokki og hamslausri bræði yfir hugsunarleysi þess sem fór á undan mér rauk ég út, þreif um lappirnar á skepnunni þar sem hún lá í malbikinu með iðrin úti, dró hana út í kant og fleygði upp fyrir veg af meira afli en ég átti til.

Þetta var ömurlegt verk. En ég varð að gera það. Það varð bara andskotakornið að gera þetta.

Eitthvað þessu lík er sú reiði sem fyllir mig í dag.

– – –

Það verður andskotakornið að gera þetta. Þannig blasir þetta við mér. Og mér sýnist úr fjarlægð sem þeim röddum fari fjölgandi sem segja það sama. Þetta er spurningin um að gera eins og maður hefur lofað, að gera það sem maður er skuldbundinn (bókstaflega) til að gera. Þetta snýst um að halda í einhvern snefil af sjálfsvirðingu, ef ekki virðingu annarra.

Heiður. Er ekki talað um eitthvað svoleiðis í Íslendingasögunum?

– – –

Ha? Hvað segirðu? Hljómar þetta einsog eitthvað útúr Bjarti í Sumarhúsum? Ég er bara alveg sammála því. Þetta eru 600 1800 milljarðar (and counting) sem þessi Bjartur sem við erum þarf að „sá í akur óvinar síns,“ ef allt er talið. Og ég er, satt best að segja, ekki sannfærður um að við höfum efni á þessu. Og ef svo er, þá verður bara að horfast í augu við það.

Só bí itt.

Kannski mun þetta sliga okkur öll í gröfina. Kannski endar þetta með því að íslenska þjóðarbúið verður tekið uppí skuld. Kannski munum við neyðast til að ganga Noregskonungi á hönd. Eða Englandsdrottningu.

(og ég minni á: óháð því hvort samningurinn verður samþykktur eða ekki).

Við gætum verið með dauða íslensks lands, þjóðar og tungu í spilunum.

Þetta er ekki svartagall. Þetta er raunverulegur möguleiki í stöðunni.

Kannski ekki stór. En til staðar.

En nota bene: Það er þá ekki atburðarás sem er hrundið af stað með samþykkt eða höfnun Icesave-samninganna. Það er ekki einusinni atburðarás sem hófst með hruninu í október síðastliðnum. Þetta er eitthvað sem fór af stað enn fyrr en það.

– – –

Ojæja. Ef ekki vill betur til, þá hefur þjóðin hér allavega sitt tækifæri til að deyja hetjudauða, frekar en sem lítilsvirtur svíðingur og varmenni meðal þjóða. Það er mín persónulega afstaða.

Hetjudauði. Er ekki talað um eitthvað svoleiðis í Íslendingasögunum? Einhvernveginn finnst mér þeir sem sóttu hvað grimmast í arfinn síðustu árin hafa náð að leiða þetta hugtak þægilega hjá sér.

– – –

Að lokum: Manstu eftir pjökkunum tveimur í upphafinu? Reyndirðu að ráða í táknmyndina?

Ef þú settir Breta og Hollendinga í hlutverk þeirra ertu fallinn á myndmálsprófinu. Líka ef þú settir Steingrím J, Samfylkinguna, InDefence-hópinn eða hvern annan þann sem af sinni eigin ósérplægni vill reyna að gera það skásta sem mögulegt er úr þeirri ómögulegu stöðu sem upp er komin.

En hverja þá? Af hverra völdum erum við lokuð hérna ofaní til að kljást hvert við annað? Saka hvert annað um kvislingshátt og þjóðníð?

Þeir standa þarna enn og skemmta sér við að hrista krukkuna.

Hvern ætlar þú að kalla landráðamann í dag?

Nöfn úr fortíðinni

Við frúin ræðum stundum örin á þýsku þjóðarsálinni sem erfitt er að tala um. Við erum í raun ósköp illa að okkur (hún þó heldur skár en ég) og ég hef ekki fyrir mitt litla líf þorað að ræða neitt í námunda við þau mál við samstarfsfólkið. Og mun eflaust aldrei.

En mér finnst dálítið skrítið að rekast stundum á hitt og þetta sem hringir bjöllum aftan úr fortíðinni. Reyndar ekki allt vandræðalegt, tildæmis er ekkert sem vekur óbragð í munni við það að aka framhjá verktakaskiltinu hjá Gottlob Rommel sem tekur í gagn spítalabyggingarnar uppi á hæðinni (enda sá Rommel sem varð þekktur í seinna stríði annálaður öðlingur), nema hvað það minnir mann óþægilega mikið á Kaupþingslógóið. Og þá rifjast bara upp manns eigin skömm og landa sinna:

Hitt þótti mér öllu merkilegra þegar við fórum í göngutúr á nálægan bóndabæ og sáum traktor með Mengele-kerru í eftirdragi:

Og ekki minnkuðu merkilegheitin þegar ég komst að því að fyrirtækið „Karl Mengele og synir“ er stórframleiðandi landbúnaðartækja og hefur verið allt frá því faðir Jósefs stofnaði það fyrir hundrað árum. Við frúin ræddum þessa nafngift aðeins og henni fannst að í svona kringumstæðum ættu fyrirtæki bara að sjá sóma sinn í að skipta um nafn. En ég er ekki svo viss – þá fyrst finnst mér verið að forðast að horfast í augu við fortíðina. Fyrir utan hvað það er voðalega Íslandsbanka/NBI-legt, eitthvað.

En áhugasamir eru hvattir til að tékka á heimasíðu Mengele landbúnaðartækja. Aðdáendur geta líka keypt sér sitthvað smálegt, s.s. kaffibolla, lyklakippur eða vasahnífa merkta fyrirtækinu, ef vill.

Maríuraunir og tolla-

Voðalegur pestarsegull er þetta að heita María. Eitt sinn var það taugaveiki. Nú svínaflensa. (Djók um 2000 ára gamla sýki vinsamlegast afþökkuð.)

Annars vaki ég og bíð eftir að frúin komi á bílnum sem hún leysti úr tolli fyrr í dag upp við Norðursjó. Ég fylgdi henni á flugvallarrútuna til Stuttgart árla morguns, svo flaug hún til Hamborgar og var komin með lest þaðan til Cuxhaven á þriðja tímanum. Til að frétta það að í dag, og aðeins í dag, lokaði tollafgreiðslan á hádegi vegna komandi verkamannahelgar. Áhugasamir bitte beðnir um að koma aftur á mánudaginn.

En mín var seig og vann sigur á þýska skrifræðinu. Hvernig mun ég aldrei fá skilið.

Ballardískur fílingur

Ég er í alveg rosalega ballardískum fíling þessa dagana. Jákvætt fídbakk milli þess hvernig ég sé hlutina í kringum mig og bókanna sem ég er að lesa.

Um daginn var ég í strætó að lesa Crash. Í sætinu fyrir framan mig voru tvær táningsstúlkur að tala um vin sinn sem ku hafa keyrt á vegg á 100 km hraða/klst (heyrðist mér á þeim). Í Ártúnshöfðanum fór öll umferð í hægagang: bílarnir siluðust framhjá bifreiðavöllunum við Húsgagnahöllina. Boglína dregin af hreinsuðum útblæstri og nöglum sem gæla við tjörustein. Svo sáum við skýringuna þegar við mjökuðumst yfir Gullinbrú: Í skjóli blikkandi blárra ljósa á eyjunni milli akstursstefna stóðu sjúkraflutningamenn yfir feitlaginni miðaldra húsmóður sem sat sem fastast undir stýri í bláum Volvó með krumpaða vélarhlíf. Hinumegin við okkur var risavaxinn ruslagámur í vegkantinum; böggull sem virtist hafa dottið úr pósttösku risavaxins bréfbera. Mér stóð.

Í morgun lagði ég bílnum á efri hæð bílastæðahússins sem stendur undir brúnni á flaggskipi íslenskra erfðarannsókna. Í polli á bílastæðinu spígsporuðu tveir tjaldar. Þeir flugu kvakandi burt þegar Pajerojeppi malaði inn heimreiðina.

Annars er svarið fundið Magnús: Egill Helgason er R.R. Ég held að það sé alveg málið. Það er reyndar blíding obvíös um leið og maður stoppar til að pæla í því. Veistu um einhvern sem getur hjálpað mér með fótósjopp?

Annað í fréttum: mér hefur verið bent á að það verði aukasýning á hinu ágæta Hugleikriti, 39 ½ vika, á föstudagskvöldið kemur. Fagni því allir góðir menn.

Út úr skápnum

Það eru nokkrir punktar sem hafa verið að brjótast í mér um þjóð- og heimsmálin síðustu vikur og mánuði (já, eins og alltaf svo tímanlega í umræðunni…) og sem ég held ég verði bara að játa upp á mig, þótt einhverjir þeirra geti kannski talist þvert á karakter.

  • Ég er ekki frægur talsmaður harðari refsinga. En ég er bara hreint afskaplega ánægður með miðbæjaraðgerðir Reykjavíkurlöggunnar. Um að gera að hirða peningana af þessum sóðum – fólk lærir mun meira af því en að vera stungið í grjótið.
  • Í framhaldi af því: Þegar ég sé siðlausu subbuna í bílnum fyrir framan mig skrúfa niður rúðuna til að fleygja Cult-dósinni sinni á malbikið hugsa ég: „Þennan mætti sko aldeilis alveg rukka um tíu bláa Brynjólfa. Lágmark.“
  • Mér finnst Friðarsúlan ódjissla flott. Hún rúlar.
  • Ég hef aldrei haft mikið álit á Birni Inga Hrafnssyni. Ég hélt lengi vel að það gæti ekki orðið minna. En ég verð að játa að það hefur aukist töluvert síðustu vikuna.
  • Ég á voðalega erfitt með að heillast af Kiljunni. Ég hef reynt, en hún bara… … …ég nenni því ekki. Alltaf þegar ég kveiki finnst mér hann Egill bara vera að sýna einhver myndbrot úr kalda stríðinu.
  • En mér fannst Dr. Who þættirnir æðislegir. Þeir fáu sem ég sá. Í alvörunni. Æðislegir.

Eitt ofurlítið kast af smárasótt

Þriðji í páskum: ég er með magapínu.

Er ég annars sá eini sem er ekki alfarið afslappaður yfir PepsíMax auglýsingunni? Þessari þar sem menntaskólastrákarnir eru strandaglópar í eyðimörkinni? Og súpersexí skutlan kemur til bjargar eins og í blautum draumi í svefnpoka í Þórsmörk?
„Úúúú strákar. Við verðum víst að vera hérna í nótt.“

„Eigum við ekki að koma ykkur úr þessum ‘blautu’ fötum.“

Já, fynd. Haha. Og fólk lætur eins og Kókakólakompaníið hafi verið fyrst til að fatta uppá auglýsingaherferð með Zero legsýkisjöfnuði.

Afhverju hef ég aldrei orðið var við neinn láta þetta fara í taugarnar á sér?

Ég veit ekki. Kannski er þetta bara af því að viðfangið er hjólgraða heimilisfrúin Eva Longoria, en ekki togleðursjórtrandi fermingarstelpa úr Kópavogi. Ekki þess verð að taka sóttina yfir.

Trunt trunt

Bloggari dauðans liggur máske í vetrarmóki. Eins og sumir aðrir (og nefnum engin nöfn hér takk fyrir). En hann er greinilega ekki dauður úr öllum æðum og á hreint ansi magnaða fréttaúttekt á Kistunni sem orðin er nokkurra daga gömul en sem ég rambaði ekki á fyrr en núna rétt í þessu. Við lesturinn varð mér ósjálfrátt hugsað til sögunnar um Trunt trunt og tröllin í fjöllunum.