Greinasafn fyrir flokkinn: Stjórnlagaþing

Væmna þakkarræðan

Já, þannig fór það. Fyrir mitt leyti komu úrslitin mér ekki á óvart. Ef ég á að segja alveg eins og er, þá var ég fyrst ekkert svo viss um að ég ætti eftir að fá mikið fleiri en svona tuttugu manns inn á hugmyndina. Og reisti mér engar skýjaborgir um útkomuna eftir að fjöldi framboða var kominn í ljós. Svo ég er sáttur, fyrir mitt leyti.

Um fulltrúana 25 vil ég segja að mér líst alls ekki sem verst á þá. Ég á ábyggilega eftir að skrifa eitthvað meira um þá seinna (áður en ég sný mér aftur að öðru), en mín fyrstu viðbrögð eru að þetta hefði getað verið miklu verra.

– – –

Heildarútgjöld framboðsins námu tíu þúsund krónum og fóru í tvo jafnstóra útgjaldaliði: Annarsvegar rafrænt eintak af alveghreint framúrhófi framboðslegri prófílmynd sem tekin var af mér í fjölskyldumyndatöku árið 2008, og hinsvegar stuðning minn við framtakið kjostu.org.

– – –

Ég fann fyrir ómetanlegum stuðningi frá fjölda fólks.

Þau eru nokkur sem eiga sérstaklega skilið að þeirra er getið. Það vildi svo skemmtilega til að daginn eftir að ég var búinn að ákveða endanlega að bjóða mig fram frétti ég að Óli Gneisti Sóleyjarson, frændi konunnar minnar og sambýlismaður hér á Truflun, hefði ákveðið að gera það líka. Einmitt þá var hann á leið í heimsókn til okkar með konu og barni, og milli þess sem við áttum öll ágæta daga hér í suður-þýska haustinu ræddum við um stjórnarskrána, stjórnlagaþingið og kosningarnar sem þá voru við sjóndeildarhring. Hann var óþreytandi við að aðstoða mig í ýmsum uppsetningarvandræðum sem ég rakst á þegar ég fór að krukka í þessa bloggsíðu og setja upp framboðssíðuna á fasbók, og sýndi mér mikinn stuðning í orði sem á borði, þótt við værum kannski ekki alltaf með nákvæmlega sömu áherslur í öllum málum.

Ég vil líka sérstaklega þakka Rósu Eggertsdóttur á Akureyri, bæði fyrir undirskriftasmölun (hún fór langleiðina með að fylla lágmarkskvótann á einni kvöldstund með bíltúr fram um allan fjörð) og fyrir ágætar ráðleggingar í tölvupóstsamskiptum við mig í gegnum baráttuna.

Fjölskylda mín, vinir og tengdafjölskylda veittu mér góða aðstoð með ráðum sínum og dáð, sem og starfsfólk Samskiptamiðstöðvar heyrnarskertra og heyrnarlausra. Einnig vinir mínir og ókunnugir í kjötheimum og á fasbók sem þótti þetta framboð þess vert að vekja athygli vina sinna og kunningja á því, og þeir sem þótti það þess virði að hafa samband við mig til að lýsa yfir stuðningi sínum og/eða fræðast um einstök áherslumál. Þið vitið hver þið eruð.

Frændi minn Hjálmar í Kárdalstungu á svo sérstakar þakkir skildar fyrir ósérhlífna kosningabaráttu fyrir mig í Húnavatnssýslunum.

Síðast en ekki síst vil ég samt þakka konunni minni fyrir að ýta mér út í að gera þetta þá bara, fyrst ég hefði svona miklar áhyggjur af þessu, og standa við bakið á mér og ýta á herðarblaðið þegar á þurfti að halda. Hún var óbilgjarni kosningastjórinn minn.

Takk Árný mín. Ég elska þig.

– – –

Tuttugu og fimm fulltrúar hafa verið valdir. Ég vona heitt og innilega að þeim gangi hið allra besta. Þetta verður bévítans streð fyrir þau, eflaust vanþakklátt starf og útjaskandi píslavinna frá upphafi til enda. En ef þau standa sig vel (og það er engin ástæða til að ætla neitt annað) og skila af sér nýrri og betri stjórnarskrá í breiðri og góðri sátt, þá gætu þetta orðið 25 einstaklingar sem við munum ætíð verða stolt af fyrir vinnu þeirra, hvernig sem síðan fer.

Kosningaþátttakan var vissulega dálítil vonbrigði. Margir hafa víða lýst hver sínu álitinu á henni og ástæðum hennar, og sýnist sitt hverjum. Efst í huga mér er samt gleði yfir því að ég skuli hafa gert þetta. Og líka allir hinir 522 sem gerðu það sama. Hvernig sem allt veltist, þá er það það sem situr eftir.

Kosningadagur

Góðan og gleðilegan kosningadag. Vonandi hafa allir gert upp hug sinn.

Í síðasta sinn: Það skiptir svo miklu máli að nýta rétt sinn til að kjósa. Sérstaklega í þessum kosningum. Það eina sem er mögulega síðra en að kjósa ekki er að kjósa einhvern hugsunarlaust bara af því að einhver sagði manni að gera það. Meir að segja handahófskenndur listi af 25 frambjóðendum væri skárri. En ekki mikið samt.

Vona svo að mér fyrirgefist þótt ég setji kosningavísuna hérna inn eina ferðina enn. Ég geri það lítið af þessu dags daglega að ég verð að hreykja mér af því þá sjaldan það gerist:

Að kjósa til stjórnlagaþings er þónokkuð létt.
Þú þarft bara lista af snillingum, þjörkum og vinum.
Og síðan er gott að sjá til að þetta sé rétt:
Þú setur þann besta efst, og raðar svo hinum.

Um bankastarfsemi í útlöndum og kosningapartý

„Þú færð allan minn stuðning Hjörvar,“ sagði einn kunningi minn við mig, „ef þú stendur fyrir því að binda í stjórnarskrá ákvæði um að íslenskir ríkisborgarar megi hvorki eiga né reka viðskiptabanka í útlöndum.“

Þetta var fyrir um það bil tveimur mánuðum, þegar ég var enn að leita hófanna með það hvort ég ætti að bjóða mig fram. Ég skellti svolítið uppúr og sagði „Já, þú segir það.“

„Mér er alvara með þetta Hjörvar,“ hélt hann áfram. „Þú ert nú í Þýskalandi sjálfur. Sjáðu bara hvernig Þjóðverjarnir höfðu þetta með sína stjórnarskrá árið 1949.“

Ég varð að játa að þetta var ekki alveg út í bláinn hjá honum. Þjóðverjar höfðu valdið bæði sjálfum sér, öðrum þjóðum og ríkjum ómældum skaða nokkrum árum áður. Í nýrri stjórnarskrá sambandsríkisins voru mörg góð og nauðsynleg skref tekin til að fyrirbyggja að það gerðist aftur: Í valdahlutföllum sambandsríkisins við einstök ríki þess. Í dreifingu framkvæmdavaldsins milli handhafa þess. Í ákvæðum um herinn, svo fátt eitt sé nefnt. Og eftir hörmungar síðari heimstyrjaldar báru Þjóðverjar gæfu til að setja sér mannréttindakafla sem átti sér engan sinn líka á þeim tíma og setti ný viðmið fyrir framtíðina. Þeir sem rituðu nýja stjórnarskrá öxluðu ábyrgð fyrir hönd ríkis síns og þjóðar, ekki aðeins gagnvart sínum eigin samborgurum, heldur líka gagnvart því fólki í öðrum löndum sem batt vonir við vinnu þeirra.

Vandamál okkar Íslendinga í dag eru náttúrulega öll svo miklu smærri í sniðum og léttvægari. En við megum samt alveg hugsa út í að fjöldi fólks mun horfa til þess hvernig tekst til með vinnu stjórnlagaþings. Ekki bara hér heima, heldur líka almenningur í nágrannalöndum okkar.

Ég hef engar konkret hugmyndir um það hvernig þetta ætti að móta einstök ákvæði nýrrar stjórnarskrár. Mér finnst bara að þeir sem setjast á stjórnlagaþing þurfi að hafa þetta í huga.

Hann kunningi minn náði allavega ekki aaalveg að selja mér þetta með ákvæðið um viðskiptabankana.

– – –

Hann sendi mér svo tölvupóst í gær, sagðist vera að bjóða í partý fyrir kvöldið í kvöld og vantaði einhverja framboðssnepla til að ota framan í gestina. „Það verður að vera mjög einfalt,“ sagði hann. „Ég er með sterkan fordrykk.“

Svo ég settist niður og útbjó þetta plagg með helstu áherslupunktum hér fyrir neðan og sendi honum til að prenta út.

Ég útbjó svo reyndar annað eintak bara handa honum, með tveimur punktum í viðbót:

  • Öxlum ábyrgð!
  • Ákvæði um að Íslendingum sé bannað að eiga eða reka viðskiptabanka í útlöndum!

En það var nú bara okkar á milli.

manifesto

Það sem mestu máli skiptir

Það er rétt að ég hnykki á því sem mér finnst skipta allramestu máli við þetta stjórnlagaþing, númer eitt, tvö og þrjú.

  1. Farðu og kjóstu á laugardaginn. Hverja þá sem þér líst best á. Það er mikilvægast af öllu. Stjórnlagaþing mun þurfa sterkt umboð frá þjóðinni.
  2. Það verður að draga eitthvað af tönnum úr framkvæmdavaldinu. Styrkja sjálfstæði löggjafar- og dómsvalds. Efla áhrif forseta til að geta haft taumhald á forsætisráðherra og ríkisstjórn.  Og yfirhöfuð skoða hverja þá leið sem gæti orðið til gagns við að draga úr því sem hefur verið kallað ráðherra- og flokksræðið.
  3. Aftur: Farðu og kjóstu!

Nokkrar þeirra leiða sem eru færar til að draga úr ráðherraræðinu nefndi ég í fyrri pistli í upphafi baráttunnar. Ýmsar aðrar leiðir hafa verið nefndar af mörgum öðrum frambjóðendum. Ég vil sérstaklega nefna hugmyndir sem ég hef séð Gísla Tryggvason ræða, meðal annarra: Að draga úr frumkvæðisvaldi ráðherra til að setja lög og reglugerðir.

– – –

Ég hef ekki gert nein ósköp af því að senda miðlum greinar til birtingar. Þó má nú lesa eftir mig tvær greinar, hvora í sínum heimahagamiðlinum:

Á vef Vikudags á Akureyri lofsyng ég það að vera ekki of viss um það hvernig nákvæmlega eigi að leysa hlutina áður en hafist er handa.

Og á vef Feykis á Sauðárkróki rifja ég upp  bíltúr úr æsku minni í Vatnsdalinn.

Útvarpsviðtal og nauðsyn þess að kjósa

Síðustu vikuna hefur ríkisútvarpið gert stórátak í umfjöllun sinni um stjórnlagaþingið. Það er kominn þessi líka fíni stjórnlagaþingsvefur hjá þeim þar sem meðal annars er hægt að hlusta á viðtöl sem óöfundsverðir starfsmenn RÚV tóku við alla frambjóðendur um liðna helgi.

Á sunnudagskvöldið var hringdi Leifur Hauksson í frambjóðanda #3502 og leyfði honum að ausa úr sálarkeröldunum í fimm mínútur. Hér má heyra afraksturinn:

Viðtalið við RÚV

– – –

Nú síðdegis fer fjölskyldan í bíltúr að heimsækja ræðismanninn í Stuttgart. Það er kjördagur í héraði í dag.

Ég gekk frá endanlegu uppkasti að kjörlistanum mínum í gærkvöldi. Þetta er mun einfaldara mál en búið er að reyna að telja fólki trú um. Með orðum Óla Gneista Sóleyjarsonar:

Ég held að það sé ein leið sem virkar betur en önnur þegar farið er að velja og raða niður frambjóðendum á kjörseðilinn. Sú aðferð er að setja þann sem þér þykir bestur efst, næstbesta í annað sætið og svo framvegis. Ekki hafa sérstakar áhyggjur af öðru.

– – –

Í tengslum við það vil ég vekja athygli á vefnum kjostu.org. Þetta er hugmynd sem kom fram meðal frambjóðenda sjálfra til að hvetja fólk til að kjósa á laugardaginn kemur. Helmingurinn af öllum mínum beinu útgjöldum vegna framboðsins hingað til (eða sem nemur einni Ragnheiði af tíu Brynjólfum) er til að taka þátt í kostnaðinum við þetta framtak.

Því það er gríðarlega mikilvægt að fólk fari og kjósi. Eftir því sem færri kjósa, þess veikara umboð hefur stjórnlagaþingið til uppkastsins að nýju stjórnarskránni þegar það kemur til afgreiðslu alþingis. Ef umboðið er sterkt verður erfitt fyrir alþingi að standa í vegi fyrir afgreiðslunni eða gera sínar eigin breytingar. Ef það er veikt, ja þá. Ja þá.

Það vill segja: Mér er sama hvort ég sjálfur er á listanum þínum eða ekki. Það er ekki það sem mestu máli skiptir. Mikilvægast af öllu er að þú farir og skilir inn atkvæðinu þínu.

Ekki vera fúli kallinn:

Fúli kallinn
Fúli kallinn

Af tveimur tungum

Til hamingju með dag íslenskrar tungu.

– – –

Það eru tvær fréttir sem mig langar að staldra við eftir daginn. Þær eru hvor úr sinni áttinni, þótt þær tengist. Sú fyrri er gleðileg (að mestu) og er einmitt í tilefni af deginum. Gísli Einarsson var í beinni útsendingu í kvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins frá Landnámssetrinu í Borgarfirði:

Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, flutti ávarp og talaði meðal annars um mikilvægi þjóðtungunnar en minnti um leið á að hundruð Íslendinga hefðu annað tungumál,  táknmálið, að móðurmáli og að því þyrfti einnig að hlúa. Einnig talaði hún um mikilvægi þess að nýir Íslendingar hefðu aðgang að íslenskukennslu og að þeim væri sýnd þolinmæði við íslenskunámið.

Að mestu gleðileg, sagði ég. Ég veit nefnilega ekki hversu margir heyrnarlausir hafa frétt af þessu ennþá. Þeir hafa að minnsta kosti ekki komist að þessu gegnum fréttirnar á internetinu. Þar er ekkert um þetta á prenti, það voru bara útvarpsfréttir RÚV klukkan sex sem impruðu á þessu. Sem kemur að takmörkuðum notum við fréttamiðlun til heyrnarlausa samfélagsins.

– – –

Það vilja margir að það verði grein í nýrri stjórnarskrá þar sem kveðið sé á um það að íslenska sé opinber þjóðtunga. Ég er einn þeirra. En það verður þá um leið að tryggja rétt þeirra sem tala hana ekki. Það þarf að ganga kirfilega frá því að víst sé að slíkt ákvæði troði ekki á mannréttindum þeirra sem skilja ekki opinbera tungumálið. Þetta má ekki bara vera einhver grein sem við setjum inn án frekari umhugsunar, til þess eins að geta mært okkur af henni á dögum eins og í dag.

– – –

Önnur frétt sem barst í dag, og ekki alveg eins gleðileg og sú fyrri, er af baráttu heyrnarlausra við Tryggingastofnun Ríkisins. Úr frétt Vísis um málið:

Heyrnarlausir eru að mörgu leyti háðir táknmálstúlkum í samskiptum sínum við Tryggingastofnun ríkisins. Stofnunin lítur hins vegar svo á að henni sé ekki skylt að greiða fyrir túlka og því þurfa heyrnarlausir sem leita til stofnunarinnar sjálfir að greiða reikninginn. Um er ræða tæpar sjö þúsund krónur.

Sú opinbera stofnun sem sér um málefni almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar lítur sem sagt ekki á það sem sitt mál — hvað þá réttindi skjólstæðinga sinna — að þeir fái þjónustu á öðru tungumáli en íslensku, jafnvel þótt sama fötlun og veldur því að þeir leita til stofnunarinnar geri þeim erfitt um vik að eiga samskipti við hana öðruvísi en á táknmáli með aðstoð túlks.

Og þetta er án þess að þurfi að tilgreina íslensku sem opinbert tungumál í stjórnarskrá.

– – –

Þetta er gömul saga og ný. Í Mílanó var árið 1880 haldin alþjóðleg ráðstefna um menntun heyrnarlausra, sú önnur í sögunni. Fundargestir voru 164. Þar af var einn þeirra heyrnarlaus. Eftir viku fundahöld var ákveðið með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða að notkun táknmáls væri skaðleg raddmótun og vitsmunaþroska heyrnarlausra, og því skyldi hætta að nota táknmál við menntun þeirra. Í staðinn skyldu heyrnarlausir öðlast menntun og fræðslu gegnum raddmál eingöngu.

Þessari stefnu var fylgt í þaula víðast hvar í heiminum — meðal annars á Íslandi — með þeirri mismunun og félagslegu einangrun sem hægt er að sjá í hendi sér. Þannig liðu meira en hundrað ár og sú saga verður ekki rakin hér. Ég vil þó minnast á þá uppreisn sem heyrnarlausir Íslendingar fengu haustið 2009, þegar Jóhanna Sigurðardóttir tók skýrslu Breiðavíkurnefndarinnar þar sem m.a. var fjallað um Heyrnleysingjaskólann fyrir á Alþingi og baðst afsökunar fyrir hönd íslensku þjóðarinnar og íslenskra stjórnvalda á því sem þar kom fram.

Í júlí 2010 var svo 21. alþjóðlega ráðstefnan um menntun heyrnarlausra haldin í Vancouver. Í lokaályktun hennar voru allar ályktanir Mílanóráðstefnunnar dregnar til baka, beðist afsökunar á afleiðingum hennar, og stjórnvöld hvött til að taka tillit til allra tungumála og samskiptamáta við mótun menntastefnu sinnar.

Hér má aftur gleðjast yfir fyrri frétt dagsins.

– – –

Í ýmsum stjórnarskrám er hugað að réttindum heyrnarlausra og annarra málminnihlutahópa. Í finnsku stjórnarskránni frá 1999 er ákvæðið um opinber tungumál (finnsku og sænsku) fyrsta málsgrein sautjándu greinarinnar, „Um rétt til eigin tungu og menningar.“ Í framhaldinu er m.a. talað um að réttur málminnihlutahópa (Sama og Rómafólks) og réttur þeirra sem tala táknmál eða þurfa á túlkaþjónustu að halda vegna fötlunar skuli tryggður með lögum.

Takið eftir að greinin heitir ekki „Um þjóðtungu.“ Það er ekki til þess sem hún er.

Fyrir fleiri dæmi má benda á ljómandi góða samantekt Erlu Hlínar Hjálmarsdóttur, annars frambjóðanda til stjórnlagaþings. Þau spanna allt frá því að tryggja rétt fólks fyrir dómi og í samskiptum við opinbera aðila, yfir í að táknmál viðkomandi lands er viðurkennt sem opinbert tungumál til jafns við raddmál.

Í öllum álitamálum við ritun nýrrar stjórnarskrár eru fleiri en ein fær leið. Það á líka við hér. En að hnykkja á rétti heyrnarlausra til eigin tungu og eigin menningar finnst mér sjálfsagt og nauðsynlegt. Með einum hætti eða öðrum.

– – –

Að lokum er hér ljóð í tilefni dagsins. Það er flutt á íslensku táknmáli en er þýtt úr bandarísku táknmáli (ASL). Ensk þýðing fylgir:

Handhafi Jónasar

En allt frelsi, jafnt þjóða sem einstaklinga, krefst aga. Agi hvers einstaklings, í hugsun og hátterni, getur aldrei leitt til annars en farsældar allrar þjóðarinnar. Við megum aldrei ganga svo lengi á sjóði, hvorki andlega né veraldlega, að ekkert sé lengur eftir til að gefa. Við höfum þegið góðar gjafir frá fyrri kynslóðum og öðrum þjóðum. Mesta gæfa okkar væri sú að gefa ekki minna.

Þetta er úr setningarræðu sigurvegara dagsins, fyrsta ágúst árið 1980.

Fagur texti, tímalaus og dagsannur.

Einhvern tíma á síðustu tveimur árum (kannski kringum áttræðisafmælið hennar í vor sem leið) var athygli okkar hjóna vakin á þessum orðum. Okkur fannst nógu mikið um þau til að skrifa þau upp og hengja á vegginn í stofunni okkar. Ég rifja þau upp hér í tilefni dagsins.

Til hamingju Vigdís, þú ert vel að þessu komin.

Lítil þúfa…

Síðasta laugardag varð saklaus póstur velmeinandi stúlku til allra frambjóðenda (með hlekk á stjórnarskrá Bútan) lítil þúfa sem velti stóru hlassi. Fyrst komu einn eða tveir póstar þar sem henni var þakkaður áhuginn, svo annar hlekkur til baka, þá var allt í einu eins og frambjóðendur áttuðu sig á því að þeir væru allir komnir með tölvupóst hver hjá öðrum, fleiri bættust í hópinn til að tjá sig og áður en við var litið var hávaðinn eins og í fuglabjargi.

Í bestu merkingu þeirra orða.

Þegar hér var komið sögu var næsta skref að stofna póstlista og fara að ræða málin fyrir alvöru. Ekki hefur sljákkað í bjarginu nema yfir blánóttina síðan. Og hughreystandi hve vel fer á með öllum. Auðvitað ekki allir sammála um allt, en alltaf þannig að hægt er að ræða málin.

– – –

Fyrir rúmum mánuði var uggur í mér. Mér leist ekkert á þetta. Þess vegna bauð ég mig fram. Svo kom í ljós að ég var ekki sá eini, við vorum yfir fimm hundruð, flest með mikið til sömu hugmynd í grunninn um það hvað þyrfti að gera, þótt eitthvað greindi á um útfærslurnar.

Enn um sinn hafði ég þær áhyggjur að það væri hægt að velja saman 25 manns sem allir hefðu góðar, skýrar og mótaðar hugmyndir um úrbætur á stjórnarskránni, og ekki einu sinni svo frábrugðnar hver frá öðrum, en allt gæti samt farið handaskolum fyrir þessi vandræði með það sem virðist oft vera okkur svo erfitt: að opna hugann fyrir hugmyndum annarra, að taka gagnrýni þeirra á manns eigin.

En eftir að hafa fylgst með umræðum á póstlista frambjóðenda er mér farið að líða mun betur með þetta.

– – –

Það fyrsta sem sprettur af þessu er undirskriftalisti frambjóðenda (eitthvað á annað hundraðið þegar þetta er skrifað) þar sem skorað er á RÚV að taka sér tak og bæta úr umfjöllun sinni um kosningar til stjórnlagaþings. Það er grátlegt að sjá hvernig útvarp allra landsmanna situr með hendur í skauti meðan minni miðlar eins og Svipan og DV mala samkeppnina í umfjöllun.

Mér skilst að listinn verði afhentur með viðhöfn síðdegis á morgun. Enda tíminn fyrir ríkisútvarpið nógu naumur héðan af.

– – –

Og að síðustu: Mér er nánast sama hverja þú kýst – þetta er ágætt fólk upp til hópa. Svo lengi sem þú ferð og kýst einhverja. Það er það sem mestu máli skiptir.

Opið bréf til Biskupsstofu og Aðskilnaðar ríkis og kirkju

Ágætu viðtakendur.

Nú fyrr í dag bárust mér tvö bréf með stuttu millibili, eitt frá Biskupsstofu og annað gegnum síðu og póstlista sem ég er „lækari” og áskrifandi að á Fasbók, um Aðgerðir til aðskilnaðar ríkis og kirkju.

Í bréfinu frá Biskupsstofu sagði eftirfarandi:

„Kæri frambjóðandi til stjórnlagaþings,

Biskupsstofa vill stuðla að upplýstri umræðu um skipan kirkjumála í stjórnarskrá Íslands en ein grein hennar fjallar sérstaklega um þjóðkirkjuna.

Frambjóðendur til stjórnlagaþings, sem ætlað er að að endurskoða stjórnarskána, hafa gefið mismiklar upplýsingar um stefnumál sín og áherslur svo sem um afstöðu sína til sambands ríkis og þjóðkirkju.

Það hlýtur því að skipta kirkjuna og söfnuði landsins máli hver afstaða einstakra frambjóðenda er til þessarar greinar og eins hvernig þeir vilja að sambandi ríkis og þjóðkirkju sé háttað. Það skiptir raunar máli fyrir öll trúfélög í landinu.

Biskupsstofa fer þess visamlegast á leit við þig að þú gerir í stuttu máli grein fyrir afstöðu þinni til 62. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:

„Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.”

1. Telur þú þörf á að breyta þessari grein? Ef svo er hvernig?
2. Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?

Svör frambjóðenda verða birt á vef þjóðkirkjunnar, kirkjan.is, eftir því sem þau berast og kynnt fjölmiðlum.

Könnuninni er svarað á vefnum og við munum senda hana út á morgun. Ef þú hefur frekari spurningar um þetta, vilt ekki svara könnuninni eða fá frekari skeyti frá okkur biðjum við þig að láta okkur vita með tölvupósti …“

Skoðanir mínar á því hvort skilja eigi að ríki og kirkju eru í sjálfu sér ekkert leyndarmál. Þær má meðal annars sjá á kosningavef dómsmálaráðuneytisins („Ég er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju…“), á kosningavef Svipunnar („Ég er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju…“), á kosningavef DV („Sp: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að hafa ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi í stjórnarskránni? – Sv: Frekar andvíg(ur)“) og í bloggi sem birtist þann áttunda nóvember síðastliðinn, „Um þjóðfund, kirkjumál og sitthvað smálegt“ þar sem ég sagði meðal annars:

„… ég er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. En þrátt fyrir það – og þrátt fyrir að Þjóðfundur virðist hafa sent ansi skýr skilaboð um hið sama – þá er þetta ekkert sem ég set á oddinn.Ef fólki finnst mjög mikilvægt að ríki og kirkja verði aðskilin í stjórnarskrá, þá á það að kjósa einstaklinga sem finnst það mikilvægt. Einnig, þeir sem vilja vinna allt hvað þeir geta til að halda í sína gömlu góðu þjóðkirkju verða að kjósa sér fulltrúa til að gera akkúrat það. Sjálfum finnst mér mikilvægast að sátt náist um málið – að þetta mál verði ekki ásteytingarsteinninn fyrir því að allt fari í vaskinn.

Ef ekki næst breið sátt um afnám ákvæða um þjóðkirkju úr stjórnarskrá, þá ætti að vera hægt að setja ákvæði sem segði eitthvað á þá leið að alþingi sé heimilt að setja lög um þjóðkirkju – að leyfilegt sé að hafa hana samkvæmt stjórnarskrá, þótt útfærsla hennar sé ekki bundin í stjórnarskrána sjálfa.

Sjálfur held ég að aðskilnaðurinn muni verða, einhverntíma. En þetta byði þá upp á meira þrepaskipt aðlögunarferli.“

Glöggur lesandi hnýtti útí orðalag mitt um að setja „á oddinn,“ og réttilega. Það var kauðslega orðað hjá mér (má e.t.v. skrifa á persónulegt reynsluleysi mitt í pólitík) og ég hef strengt sjálfum mér dýran eið að nota þetta orðalag aldrei framar. Ég reyndi að útskýra betur hvað ég væri að fara í athugasemdaþræðinum í framhaldinu:

„Mér finnst mikilvægt að gerðar verði breytingar á stjórnkerfi ríkisins til hins betra, og að um þær náist breið samstaða á stjórnlagaþingi svo alþingi hafi síður umboð til að krukka í breytingarnar eftir sínu höfði eftir á. Ég er líka hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. Maður tiltekur fyrst það sem sett er á oddinn, annað kemur þar á eftir. Bæði hér, á Svipunni og annarsstaðar.

[…]

En það stendur sem ég sagði áður: Ég vil losa tengslin milli ríkis og kirkju. Ég vil bara gera það á þann hátt að sem best sátt náist um það, ef hægt er. Það finnst mér líka ríma fullkomlega við annað sem ég sagði á Svipunni.“

Þetta er semsagt það sem mér finnst, fyrst spurt var. Það er ekkert leyndarmál. Öllum hlekkjum má síðan fylgja til að ganga úr skugga um samhengið.

Að því sögðu vil ég tilkynna fulltrúum biskupsstofu að ég hef alvarlegar efasemdir um að svara spurningunum í könnun þeirra á vefnum kirkjan.is og mun ekki gera það nema að vandlega íhuguðu máli. Þetta svar er ekki sent með það fyrir augum. Ég dreg í efa heilindi þess að þjóðkirkjan, sem aðili með beina og augljósa hagsmuni af því hver afstaða stjórnlagaþingmanna til 62. greinar stjórnarskrárinnar verður, ætli sér að fara að beita sér í aðdraganda kosninganna.

Svo ég nefni hliðstæðu: Ég efast um að ég myndi taka þátt í könnun á vegum L.Í.Ú. þar sem frambjóðendur til stjórnlagaþings væru spurðir um afstöðu þeirra til þess hvort hafa ætti ákvæði um náttúruauðlindir sem þjóðareign í stjórnarskránni.

Sem borgari þessa lands hef ég af þessu áhyggjur.

Þá langar mig að taka til umtals bréfið sem mér barst gegnum áðurnefnda Fasbókarsíðu um aðgerðir til aðskilnaðar ríkis og kirkju, þar sem vísað var á síðu sem sett hefur verið upp með það fyrir augum að flokka aðskilnaðarsinnana á annan veginn og íhaldsfólkið á hinn. Tilgangur síðunnar er útlistaður skilmerkilega á forsíðu hennar:

„Þessarri [svo] vefsíðu er ætlað að upplýsa kjósendur hvaða frambjóðendur til stjórnlagaþings eru aðskilnaðarsinnar (græni listinn) og hverjir eru ríkiskirkjusinnar (rauði listinn). Listarnir voru miðaðir við opinberar yfirlýsingar frambjóðenda á eftirfarandi vefsíðum …“

… og svo er vísað á þær þrjár síður sem ég hlekkjaði á og vitnaði í undir máli mínu hér að framan. „Græni listinn,“ sá sem er aðstandendum síðunnar þóknanlegur, er kynntur með þessum orðum:

„Eftirfarandi frambjóðendur eru þeir sem þorðu að taka skýra og opinbera afstöðu MEÐ aðskilnaði ríkis og kirkju.  Þeir sem sögðust vilja “endurskoða samband ríkis og kirkju” eða eitthvað álíka tvístígandi orðalag komust ekki inn á listann. Ekki heldur þeir sem vildu lýsa yfir prívat stuðiningi [svo] en ekki hafa það part af opinberri lýsingu.“

Kynningin á „Rauða listanum“ er svohljóðandi:

„Eftirfarandi frambjóðendur taka skýra og opinbera afstöðu GEGN aðskilnaði ríkis og kirkju. Við mælum með að aðskilnaðarsinnaðir kjósendur forðist þá eins og heitan eldinn.“

Þegar ég renndi augunum yfir þennan síðari lista rak ég þar augun í nafn frambjóðanda númer 3502, Hjörvars Péturssonar. Þegar þessi orð eru rituð er það þar enn.

Nú langar mig að biðja aðstandendur síðunnar adskilnadur.is um að upplýsa mig um eftirfarandi:

Hvað nákvæmlega var það á kynningarsíðum Dómsmálaráðuneytis, Svipunnar og DV sem varð til þess að þið dróguð þá ályktun að ég tæki „skýra og opinbera afstöðu GEGN aðskilnaði ríkis og kirkju“ og bæri því að forðast „eins og heitan eldinn“ af þeim sem vilja rjúfa tengsl ríkis og kirkju?

Ég get kannski skilið, í ljósi síðustu bloggfærslu minnar um málið, að ykkur finnist ég ekki eiga skilið að komast í hóp þeirra sem eru á „Græna listanum.“ Það er mér að meinalausu. En ég geri mér ekki grein fyrir hvað í orðum mínum og stefnumálum gerir mig að andstæðingi aðskilnaðar ríkis og kirkju.

Eða var þetta kannski bara eitthvað klúður hjá ykkur?

Ef svo er, þá myndi ég gjarnan þiggja að vera fjarlægður af „Rauða listanum“ ykkar við fyrsta tækifæri, ef það væri ekki of mikil fyrirhöfn. Afsökunarbeiðni væri líka falleg. Og þið mættuð þá líka renna aftur yfir báða listana ykkar til öryggis og lúslesa fyrirliggjandi gögn til að útiloka að nöfn einhverra annarra frambjóðenda séu skrifuð þar sem þau eiga ekki að vera. Það er ykkar verk að hreinsa það upp, ekki þeirra.

Ef, hins vegar, aðstandendum síðunnar finnst mega draga þá ályktun af orðum mínum að ég sé harður andstæðingur þess að skilja að ríki og kirkju, þá þætti mér ágætt að fá skýran rökstuðning á því með vísun í mín eigin orð.

Það má vera að markmiðið með listunum sé að skipta öllum frambjóðendum í tvö horn, ég veit það ekki. Að þeir sem ekki lýsi yfir einörðum ásetningi til þess að skilja að ríki og kirkju séu þarmeð sjálfkrafa á móti því. Að þetta sé ætlað til þess að skilja hafrana frá sauðunum. Sé sú raunin, þá er það akkúrat það sem mér finnst ekki þurfa á þetta stjórnlagaþing. Megn andúð mín á slíkri flokkadráttahugsun og þverhausamennsku var einmitt ein af höfuðástæðum þess að ég bauð mig fram til að byrja með. Ef svo, þá hafið skömm mína fyrir.

Ég hef reyndar litlu minni ímugust á þessu framtaki ykkar en því sem ég frétti af með bréfinu frá Biskupsstofu. Þótt hugsunin að baki sé virðingarverðari.

Að lokum vil ég benda fulltrúum Biskupsstofu á að þeir geti sparað sér ómakið af könnun sinni og í staðinn einfaldlega sent þá sem vilja láta vísa sér í rétta átt inn á síðu Aðskilnaðar ríkis og kirkju, með öfugum formerkjum. Ættu þá báðir að geta unað við sitt.

Með virðingu og þökk,

Hjörvar Pétursson, einnig þekktur sem 3502.

Sent Árna Svani Daníelssyni og Steinunni Björnsdóttur (fyrir hönd Biskupsstofu) og Reyni Erni (föðurnafn óþekkt, fyrir hönd Aðskilnaðar ríkis og kirkju). Einnig birt á bloggsíðu minni (http://truflun.net/hjorvar) og í greinasafni mínu á stjórnlagaþingsvef dv.is.