Greinasafn fyrir flokkinn: Volksmusik

Grand Prix der Volksmusik – Úrslit!

Úrslitaþáttur Grand Prix der Volksmusik var haldinn hátíðlegur í Vín síðasta laugardagskvöld. Þar sem þetta var 25. þátturinn frá upphafi var sérstök júbíleúmsdagskrá, mikið um dýrðir og flestallir sótraftar á svið dregnir af lista sigurvegara síðustu 24 ára. Áhugasömum til eflaust óblandinnar ánægju má benda á að þátturinn er aðgengilegur á vef austurríska ríkissjónvarpsins og er pakkfullur af ógleymanlegum augnablikum. Gerið svo vel að horfa á í fullri lengd.

Hvorki Austurríki né Sviss riðu neitt tiltölulega feitum hesti frá keppninni þetta árið: Marco Ventre og hljómsveit hans sátu með Nicolas Senn og hakkbrettinu hans í fjórða til fimmta sæti, respektíft. Vonarbangsarnir mínir, hinir þýsku Fjallafóstbræður náðu ekki nema í þriðja sæti og verða það að teljast nokkur vonbrigði miðað við árangurinn í fyrra og glæsilega frammistöðu þeirra á úrslitakvöldinu sjálfu. Óvæntustu úrslit kvöldsins (a.m.k. fyrir mig) var firnasterk innkoma hinna suður-týrólsku Niederbachersystkina sem óðu alla leið uppí annað sætið með móðurástaróðinn sinn. Sennilegast er að um hafi verið að ræða samlegðaráhrif tveggja ólíkra markhópa í innhringingum: Aldraðra mæðra annars vegar og einstaklinga með Drindlblæti hins vegar. Dæmi hver fyrir sig. Ég vek líka sérstaka athygli á kolgeitbrosi bassahaldandi bróðurins.

Bergkristallinn, sigurlaun Grand Prix der Volksmusik
Bergkristallinn - sigurlaun Grand Prix der Volksmusik

En úrslit kvöldsins voru svo sannarlega gleðitíðindi: Í fyrsta sinn síðan Henry Arland blés hið angurværa „Echo der Berge“ með sonum sínum þeim Maxi og Hansi árið 1994 er Bergkristallinn kominn heim til Þýskalands. Elsku dúllurassgötin þau Belsy og Florian Fesl tóku þetta af miklu öryggi og allt frá því flutningi þeirra lauk þar til síðustu stig höfðu verið talin var nokkuð víst hvernig myndi fara. Hér fer á eftir keppnisflutningur þeirra á sigurlaginu. Það er nauðsynlegt að horfa á allt til enda og sjá innsigliskossinn þeirra í restina. Þetta bræðir steinhjörtu.

Grand Prix der Volksmusik 2010: Þýsku lögin

Þau fáheyrðu tíðindi áttu sér stað í vor sem leið að ZDF hætti við að senda út skemmtiþátt úr sjónvarpssal þar sem valin væru fjögur lög til að keppa fyrir hönd Þýskalands á Grand Prix der Volksmusik í Vín á föstudagskvöldið eftir viku. Í staðinn var málið sett í hendur dómnefndar sem heimullega valdi fjóra keppendur af þeim fimmtán sem höfðu komist í gegnum forvalið fyrir forkeppnina. Þótt hægt sé að nálgast lista yfir öll fimmtán lögin hafa þau farið lágt á internetinu, ef þá nokkuð hafið sig uppaf jörðinni, svo það er erfitt að leggja mat á hversu vel eða illa dómnefndinni fórst verkið úr hendi miðað við samkeppnina. En ef litið er á útkomuna er kannski óþarft að kvarta of mikið. Það vill segja, núna þessa dagana, þegar loksins er hægt að nálgast öll lögin á einu eða öðru formi – það var miklum erfiðleikum bundið langt frameftir sumri.

En framkvæmdin (eða skortur á henni) er samt náttúrulega til háborinnar skammar og illur grikkur hverjum sönnum aðdáanda vel gerðrar Volksmusik.

– – –

Þar sem ekki er hægt að raða lögunum eftir stuðningi í forkeppninni verð ég bara að raða þeim eftir mínum eigin persónulega stuðningi. Og liggur þá beinast við að byrja á henni Angelu Wiedl sem syngur lagið „Der liebe Gott macht das schon.“ Þetta lag er úr smiðju hins stórfenglega Schlagerkomponist Ralph Siegler, sem hefur verið að síðustu fjóra áratugina og átt ekki ómerkari smelli en „Und manchmal weinst du sicher ein paar Tränen (þarna í lýtalausum flutningi Oswald Sattler) og „Ein bißchen Frieden“ sem Nicole gerði ódauðlegt um árið, að ekki sé minnst á gervallt reppertorí hinnar óviðjafnanlegu diskógrúppu Dschingis Khan eins og það lagði sig (Dæmi eitt. Dæmi tvö. Dæmi þrjú). Lagið sem Angela syngur nær eftilvill ekki alveg sömu hæðum og hann Ralph náði hæst forðum daga, en ég ætla mér nú samt ekkert að leggja neitt geistlegt ljós undir mæliker.

Hún Angela er kannski ekki alveg eins heldri í hettunni, en hefur þó harkað í bransanum síðustu þrjátíu árin eða svo. Líf hennar hefur ekki verið einn samfelldur dans á rósum,  tildæmis missti hún einu dóttur sína fyrir fimm árum, sem þá var fimm ára. Kannski sækir hún í eitthvað af þeirri lífsreynslu við flutninginn, hver veit. Takið eftir skyldubundinni en afar smekklegri notkun orðsins Schicksal í öðru erindi (sbr. lögmál sem minnst var á í síðasta bloggi):

– – –

Önnur þrautreynd söng- og framkomulistakona sem mun troða upp eftir viku er Birgit Langer, sem mun syngja lagið „Komm und fang mit mir den Sonnenschein“ eftir Tommy Mustac, en hann samdi einmitt sigurlag GPdV árið 1998, „Das Feuer der Sehnsucht.“ Það er ekki alveg hlaupið að því að finna þetta lag í fullri lengd, en þó gróf ég upp hráa upptöku af lifandi flutningi hennar Birgitar frá hafnarkonsertinum í Friedrichshafen við Bodensee þann ellefta júlí síðastliðinn. Ég set hana ekki inn hér, en þeir sem hafa einlægan áhuga geta litið á upptökuna og haft í huga að hún er hvorki í fullkomnum hljóð- né myndgæðum; lagið sem um ræðir hefst þegar liðnar eru fimm mínútur og fimmtíu sekúndur. Aðrir geta hlýtt á örstutta Hörprobe hér að neðan, eða bara snúið sér að næsta lagi.

Birgit Langer
Birgit Langer

Birgit Langer – Komm und fang mit mir den Sonnenschein

– – –

Blessunarlega valdi dómnefndin ekki eintómar dívur af eldri kynslóðinni – unga fólkið fær líka sína eigin fulltrúa í ár. Belsy er suður-týrólsk söngkona sem þrátt fyrir að líta út fyrir að vera af austurlensku bergi brotin er þjóðlegri en Currywurst mit Pommes Schranke og hverjum þeim ógleymanleg sem sáu hana og Rudy Giovannini bera sigur úr býtum í GPdV árið 2007 með hið gullfallega „Salve Regina.“ Nú hefur hún parað sig saman við harmónikkuþeytinn og súkkulaðssykurhlunkinn Florian Fesl og túrar með honum vítt og breitt um Evrópu propre. Þau hlutu náð fyrir augum dómnefndar til að flytja lagið „I hab Di gern“ fyrir hönd Þjóðverja í ár. Sjáið bara hvað þau eru sæt saman:

– – –

Die Bergkameraden eru fullir metnaðar í leit að hinu eina sanna Junge, Frische, Moderne Männerköresound. Þeir rétt misstu af sigri á síðustu metrunum í fyrra, þegar þeir sungu „Ich träume von der Heimat“ með sjálfan Oswald Sattler sér til fulltingis. Nú snúa þeir Fjallafóstbræður aftur einir og óstuddir, með ísaxirnar brýndar og blóðbragð í munni, syngjandi digrum karlarómi „Cantata di Montagna“ þannig að steramettaður pungsvitinn drýpur af hverju Umlauti. Ég verð illa svikinn ef þeir standa sig ekki að minnsta kosti eins vel í ár og í fyrra.

– – –

Þá er þetta bara búið. Lokakeppnin verður haldin í Vín eftir slétta viku, og ég er búinn að gera ráðstafanir til að fjölskyldan komist nógu snemma heim úr sumarfríinu til þess að ég missi alveg örugglega ekki af þessum merkisviðburði. Svo mun ég að sjálfsögðu láta vita hvernig fór.

Fjallafóstbræður. Með þeim á myndinni er góðvinur þeirra Oswald Sattler.
Fjallafóstbræður. Með þeim á myndinni er góðvinur þeirra Oswald Sattler.

– – –

Viðauki: Á vafri mínu um vefinn uppgötvaði ég mér til ánægju að komið er nýuppfært vídeó við lagið „Komm Tanzen, mi Amor“ með Die Wörtherseer, sem sárvantaði einmitt í umfjöllun mína um austurrísku forkeppnina um daginn. Gjörið svo vel:

Grand Prix der Volksmusik 2010: Austurríska forkeppnin

Austurríska forkeppni Grand Prix der Volksmusik fór fram laugardaginn 22. maí síðastliðinn, og skilst mér á öllu að hún hafi þótt fara vel fram. Fimmtán keppendur voru skráðir til leiks, og þarsem einungis fjórir fengu náð til að halda áfram í úrslitin voru býsna margir sem lágu sárir hjá garði í lok kvölds. Ég tiltek þar sérstaklega þau skötuhjú Leónu og Sven sem komust í úrslitin í fyrra en urðu að sætta sig við tíunda sætið í ár með lagið sitt „Diese Welt ist wunderschön,“ þrátt fyrir glæsilega hækkun um hálfan og alltsaman. Meðal annarra sem rétt misstu af úrslitasæti voru fljóðin hvert öðru föngulegra: Marlena Martinelli með „Komm doch verführ mich„, Leona Anderson (samt ekki sú sem söng um rottur í herberginu sínu) með „Bitte gib gut auf mich acht“ og Hannah með „Magst mi eh„.

En nóg um það.

– – –

Það gladdi mitt litla hjarta að sjá að Die Grubertaler ná inn í úrslitin fyrir Austurríkis hönd annað árið í röð, hörkuðu sig uppí fjórða sætið með 7,58% atkvæða. Í fyrra sungu þeir Námadalsbræður um hætturnar við það að glápa á stelpur meðan að maður er að keyra bíl. Ég hef ekki lagt mig eftir því hvað þeir Florian, Michael og Reinhard eru að syngja um í laginu „Wenn, dann jetzt“ í ár — hvað það er sem þurfi til að vera núna.  En ef einhverjir eru núna í GPdV, þá eru það tvímælalaust Die Grubertaler, í þessum óvenju smekklegu vestum með útsaumaða hljómsveitarmerkinu og alles. Þótt ég sé ekki frá því að þeir séu í nákvæmlega sömu gallabuxunum og í fyrra, í mesta lagi búnir að þvo þær:

– – –

Í þriðja sæti með 8,90% atkvæða lenti hljómsveitin  Die Wörtherseer. Þeir Charly, Seppi, Wolfi og Tommy hafa spilað sig saman í fjölda ára og slógu loks í gegn á austurrískan mælikvarða með laginu sínu „Komm tanzen, mi amor.“ Því miður virðist ekki hægt að finna vídeó af flutningi þeirra frá undanúrslitakvöldinu, en í staðinn fann ég eitthvað fríkað þjónvarp þar sem sá fáheyrði atburður á sér stað að Volksmúsíkurlistamenn bresta sjálfir í söng ósvikinni röddu í lifandi flutningi. Heyrn er sögu ríkari, segi ég nú bara. Svo hvetur hann Seppi áhorfendur til að vera duglegir að kjósa þá í undanúrslitunum (sem greinilega hefur borið árangur) og í restina er örstuttur hljóðbútur af laginu eins og það á að vera, ekki sungið hrárri röddu eins og af einhverjum andskotans amatörum:

– – –

Það voru tvö lög sem skáru sig úr á austurríska kvöldinu, a.m.k. hvað varðaði vinsældir hjá innhringjendum. Í því sem greinilega hefur verið æsispennandi símakosning fyrir þá sem fylgdust með númerunum hrannast inn um kvöldið urðu strákarnir í Junge Paldauer því miður að láta sér duga annað sætið með 18,83% atkvæða fyrir lagið „A Bass, a Gitarr und a Ziehharmonika.“ Þeirra helsta sérstaða ku felast í því að bjóða uppá Das Top Live Erlebnis, hvorki meira né minna. Ef rétt er, þá er það aldeilis ekkert til að hæðast að, í þessum bransa. En flutningur þeirra hér á laginu um bassann, gítarinn og dragspilið er þó blessunarlega eins ólifandi á allan máta og hugsast getur, svo sannir aðdáendur Volksmusik þurfa engu að kvíða:

– – –

Hver man ekki þá daga þegar Útvarpið með stórum staf var eitt um hituna á öldum ljósvakans og flutti landsmönnum reglulega nýjustu tíðindi úr þýska Volksmúsíkurgeiranum. Þá riðu hetjur um héruð og enginn þótti maður með mönnum í bransanum nema hann hefði hljómsveit hans sér til fulltingis. Þeir dagar virðast nú löngu liðnir og langt síðan alvöru hljómsveitarstjórar leiddu sína meðlimi til frækinna sigra á tónlistarsviðinu. Þó lifnaði aðeins í gömlum glæðum á austurríska úrslitakvöldinu, þarsem sjarmörinn Marco Ventre og hljómsveit hans rétt mörðu Junge Paldauer með 19,11% atkvæða fyrir lagið „Sehnsucht war gestern,“ eða „Söknuður er svo í gær eitthvað.“

Lagið er náttúrulega bara argasti Schlager, frekar en alvöru Volksmusik. En uppfyllir þó það frumskilyrði allrar sannrar Volksmúsíkur að í það minnsta einu sinni í textanum verður að bregða fyrir minnst einu af þessum þremur orðum: Sehnsucht, Heimweh eða Schicksal. Ég get ekki boðið uppá neina hreyfimynd með laginu, bara stillimyndina af hljómsveitarstjóranum. En hann tekur sig vel út með hökutoppinn, greinilega sannur hljómsveitarstjóri af gamla skólanum hér á ferð:

– – –

Þá er ekki eftir nema þýsku lögin. Af ókunnum ástæðum sé ég framá að geta ekki fjallað um þau hérna fyrr en eftir þetta tvær til þrjár vikur. Ég get þó sagt nú þegar að það var nú meiri skandallinn maður.

Svo þangað til næst.

Grand Prix der Volksmusik 2010: Suður-týrólska forkeppnin

Svæðissjónvarp RAI í Bozen (Bolzano) hélt úrslitakvöld suður-týrólsku forkeppni Grand Prix der Volksmusik þann 21. maí síðastliðinn í smábænum Algund. Borið saman við svissnesku forkeppnina sem ég sagði frá um daginn var ekki mikið um dýrðir í umbúnaðinum, og ef litið er til fyrri forkeppna RAI í Suður-Týról verður að segjast að nú er Snorrabúð stekkur: Allt mun smærra í sniðum en undanfarið og hausinn bitinn af skömminni með því að kynna lögin eingöngu með forklipptum kynningarmyndböndum og snuða þannig áhorfendur um ánægjuna af því að sjá listamennina mæma undir pleibakki í sjónvarpssal.

En fram fór þó keppnin, og var sosum ekki mesta hneisan í GPdV í ár. Meira um það síðar.

– – –

Die Bergdiamanten eru engir nýgræðingar í Volksmúsíkinni, þeir náðu til dæmis alla leið í úrslit GPdV árið 2008 með lagið sitt „Ein bißchen Gottvertrauen.“

(Ég hlekki þarna á upptöku frá forkvöldi RAI Bozen árið 2008 þar sem afturförin leynir sér ekki í samanburðinum: Þarna var hátt til lofts, vítt til veggja, og listamennirnir stóðu sjálfir á sviðinu undir flutningnum og mæmuðu í eigin persónu fyrir áhorfendur í sjónvarpssal. Berið þetta saman við kjallarakytruna þar sem atburðinum var holað niður í ár, og sára vöntun á alvöru líflíkisflutningi. Fyrir utan að 2008 höfðu þau sjálfan Rudy Giovannini til að afkynna herlegheitin.)

Fjallademantarnir koma úr afdalnum Gsiesertal sem er lengst uppí uppsveitum Suður-Týróls. Allir sinna þeir tónlistinni í hjáverkum: Rafvirkinn Werner syngur og spilar á gítar, pípulagningamaðurinn Jóakim þenur dragspil og syngur með, og rafmagnsverkfræðingurinn Erwin blæs í lúðra. En þeir eru líka duglegir að troða upp við hin ýmsustu tækifæri og bjóða ekki einungis uppá bæði Volksmusik og Schlager, heldur líka ítalska standarda og popp og rokk úr alþjóðlegu deildinni. Þeir náðu fjórða sætinu með 9,72% greiddra atkvæða með laginu „Teures Heimatland,“ sem þeir segja að sé ekki aðeins „ein Heimatverbundenes Lied,“ heldur líka „ein Bodenständiger Marsch,“ hvorki meira né minna. Þeir ráðast sko ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, Fjallademantarnir:

– – –

Í þriðja sæti lenti einn af mínum uppáhalds Volksmúsíkurlistamönnum. Hann Alex Pezzei lítur einhvernveginn alltaf út eins og hann sé með eitthvað syndróm, greyið, en það er nú ekki honum að kenna. Eins og ég rakti í pistli á síðasta ári er hann borinn og barnfæddur Suður-Týróli sem hefur verið á fullu í tónlistinni frá því á leikskólaaldri. Hann er frá litlu svæði í grennd við Dólómítana þar sem töluð er ladína (fornt tungumál skylt retórómönsku), en hann er einnig altalandi á þýsku, ítölsku, ensku og spænsku. Á leið okkar fjölskyldunnar um Suður-Týról síðasta sumar ókum við gegnum heimaþorpið hans í Grödnerdalnum, þar héngu borðar yfir aðalstrætum honum til stuðnings og allir greinilega yfir sig stoltir af stráknum. Sem má alveg vera.

Ég er ekki frá því að hann Alex sé minn keppandi í ár. Hér er hann mættur með lag sem er jafnvel enn betra heldur en lagið hans í fyrra (svo ég kveði nú ekki fastar að orði) og heitir „A Narrischer, a Boarischer,“ sem ég hef ekki hugmynd um hvað þýðir og get varla ímyndað mér, þótt mér heyrist hann nú vera að syngja á einhvunnlags þýsku. Hitt get ég upplýst að hann lenti í þriðja sæti með 10,36% greiddra atkvæða. Og ekki skemma Alpahornablásararnir úr Grödnerdal fyrir:

– – –

Ég veit ekki mikið um Niederbachersystkinin. En vel taka þau sig út saman eins og sjá má í uppstillingu fyrir framan nákvæmlega sama rúmið þar sem Fjallademantarnir sungu áðan um átthagana dýru:

Niederbachersystkinin
Niederbachersystkinin

Þau eru af annarri kynslóð tónlistarfólks í Niederbacherfjölskyldunni: Hans faðir þeirra byrjaði að spila og syngja með Walter bróður sínum fyrir allmörgum áratugum og það leynir sér ekki að ástin á fagurri tónlist hefur gengið í arf til barnanna. Það fer fáum sögum af tónlistarhæfileikum móður þeirra, en hún hefur að minnsta kosti veitt þeim innblástur til lagsins sem þau náðu þriðja sætinu (með 11.63% atkvæða) með í ár: „Ein Lied für Mama.“ Því miður er hvorki hægt að finna myndbands- né hljóðupptöku af laginu í fullri lengd, en á heimasíðu GPdV má þó hlusta á þrjátíu sekúndna bút til að finna nasaþefinn af því. Til að bæta upp fyrir myndbandsleysið er hérna önnur svona líka afskaplega falleg mynd af þeim systkinum:

Geschwister Niederbacher
Geschwister Niederbacher

Geschwister Niederbacher – Ein Lied für Mama

– – –

Sigurvegarar suður-týrólsku forkeppninnar í ár voru þeir sömu og í fyrra: Hressu strákarnir í Volxrock tóku sig til og rokkuðu keppnina uppúr skónum annað árið í röð með laginu  „Was macht das Edelweiß in meiner Supp’n,“ eða „Þjónn, það er Alparós í súpunni minni.“ Þeir aldeilis burstuðu þetta með 12,89% greiddra atkvæða, og má telja næsta víst að unga fólkið af suður-týrólsku klámkynslóðinni hafi verið duglegt að smassa á Handy-símana sína, enda allt yfirfullt af kynferðislegum vísunum í bæði texta og vídeói. Það á þó eftir að koma í ljós hvort þetta falli í kramið hjá hinni innhringjandi eldri kynslóð á stór-þýska menningarsvæðinu á úrslitakvöldinu í Vín, eða hvort eitthvað meira í ætt við móðurástaróð Niederbachersystkinanna eigi eftir að gera meiri lukku. Og allir syngja með núna: „Wos mocht des Edelweiß…

Grand Prix der Volksmusik 2010: Svissneska forkeppnin

Nú þegar Evróvisjónsöngvakeppninni er lokið leggjast allir unnendur vandaðrar dægurtónlistar í kör og vesaldóm þartil undirbúningur kemst á skrið fyrir keppnina að ári. Víðast hvar er ekki farið að huga að slíku fyrr en líða fer að jólum, eða þar uppúr, svo framundan er hálfsárslöng eyðimerkurganga fyrir söngvakeppnisfíkla.

Nema maður sé svo heppinn að tilheyra þýska menningarsvæðinu.

Úrslit Grand Prix der Volksmusik söngvakeppninnar verða haldin í Vín í Austurríki þann 28. ágúst næstkomandi. Þar verður mikið um dýrðir, hátt til lofts og vítt til veggja og enginn hörgull á lystisemdum, enda nú þegar orðið uppselt á herlegheitin. Þar munu keppa 16 lög frá Þýskalandi, Sviss, Austurríki og Suður-Týról, fjögur lög frá hverju landi. Þau voru valin af áhorfendum í símakosningum eftir undankeppnir sem haldnar voru í hverju landi fyrir sig nú í maí sem leið. Þá var svo mikið að gera hjá mér að ég hef ekki komist til að setja mig inní keppendurna fyrr en nú.

– – –

Svissneska forkeppnin var fyrst í röðinni þetta árið, hún var haldin strax þann fyrsta maí síðastliðinn. Þeir eru svo nútímalegir á Schweizer Fernsehen að þar má finna alla keppnina í fullri lengd. Áhugasamir ættu endilega að kynna sér herlegheitin, ef þeir eru alveg vissir um að hafa ekkert skárra að gera (og ekki setja tungumálið fyrir ykkur – þótt það minni afar takmarkað á þýsku stendur tónlistin alltaf fyrir sínu). Þarna var mikið um dýrðir, allir sótraftar á sjó dregnir og ástsælustu sigurlög fyrri ára rifjuð upp milli keppnisnúmera. Hápunkturinn var þegar Nella Martinetti steig á svið og tók sigurlagið úr allrafyrstu GPdV árið 1986, Bella Musica. Það var greinilegt að hún hefur engu gleymt og syngur enn nákvæmlega sömu engilþýðu röddinni og hún gerði fyrir 24 árum. Og svo var Semino Rossi þarna, þar fer listamaður sem er einn í sínum klassa.

Keppnin sjálf var samt náttúrulega aðalmálið, og hún var hörð. Til dæmis sætir furðu að ekki ómerkari listamenn en sjálfir Pläuschler-bræður hafi dottið út (en þeir áttu einmitt ógleymanlegt lag í úrslitum í fyrra) þrátt fyrir ágæta frammistöðu í sjónvarpssal og þaraðauki með stórkanónurnar Marcel Schweizer og Regina Engel til að bakka sig upp.

– – –

Í fjórða sæti með 10,51% atkvæða í símakosningunni lenti Original Voralpen-Express með lagið „Pfeif einfach drauf.“ Þrátt fyrir að hafa skyggnst um á heimasíðunni þeirra strákanna hef ég ekki enn getað komist að því hvort það sé einhver önnur Voralpen-Express sem er svona miklu meira Un-Original en þeir. Þetta mál er allt hið dularfyllsta. En lagið er hresst:

– – –

Í þriðja sæti með 12,98% lentu þau skötuhjúin Stixi & Sonja og höfðu sér til fulltingis ekki ómerkara kompaní en jóðlklúbbinn Alpablóm (takið sérstaklega eftir hvað þeir strumpa engilblítt í kynningunni á undan flutningnum hér að neðan). Lagið, „Bete zu unserem Herrgott,“ samdi Sonja sjálf og má með sanni segja að hún sé mikil hæfileikakona (hún átti annan entrans í keppninni þetta kvöldið, fluttan af ellibelgjunum í Tomaros). Ég vil hrósa róturunum á SF fyrir stórglæsilega sviðsmynd undir þessu lagi, þeir á RÚV gætu tekið sér þessi vinnubrögð til fyrirmyndar:

– – –

Yasmine-Mélanie er ein skærasta stjarnan á svissneska Schlager-himninum. Þessi tvítuga snót („Hallo zamme! Ich bid Yasmine-Mélanie, ich bid zwanzki!“) söng sig inn í hjörtu Svisslendinga með hugljúfum óð um það að það fylgja jú sorgir öllum sigrum. Að lífið er ekkert eintómur dans á rósum og ekki nóg með það, heldur væri það okkur ekki þess virði sem það er nema fyrir tárin sem fylgja með í kaupunum. „Tränen gehören zum Leben“ í flauelsmjúkum flutningi Yasmine-Mélanie lenti í öðru sæti svissnesku forkeppninnar með 13,74% greiddra atkvæða:

– – –

Sigurvegari kvöldsins með 15,72% greiddra atkvæða var tvítugur stráklingur, útlærður í því að spila á hakkbretti (Hackbrett), einhvunnlags slaghörpu sem leikið er á með þartilgerðum kjuðum (Svisslendingar virðast haldnir blæti fyrir þjóðlegum hljóðfærum – skemmst er að minnast Geni Good og félaga með Chlefele-lagið sitt í fyrra). Höfundar sigurlagsins í ár, Carlo Brunner og Philipp Mettler (en hann samdi líka lagið sem hún Yasmine-Mélanie söng upp í annað sætið) dæla þessu útúr sér eins og heimavöfðum vindlingum aftanúr silfursleginni styttu af Hjaltlandshesti: þeir sömdu með Maju Brunner (systur Carlos) lagið „Bliib doch bi mir“ sem lenti í öðru sæti í svissnesku forkeppninni í fyrra. Að síðustu er hér sigurlag svissnesku forkeppni Grand Prix der Volksmusik í ár, „Feuer und Flamme“ með Nicolas Senn, fyrsta manninum til að leika á hakkbretti á toppi Kilimanjaro. Ég vek sérstaka athygli á smekklegu eyrnaskrauti:

Temavika lágmenning (seinni hluti): „Leðjan til Lettlaaands!“

Höfum þetta stutt.

– – –

Ef kosið yrði á morgun eftir eftir því hver hefur sýnt besta og öruggasta flutninginn, þá ætti Íris Hólm að taka þetta. Hún er sá flytjandinn í úrslitunum sem skilaði lýtaminnstri frammistöðu í undanriðlunum: hún bar af  öðrum sem komust áfram (verst að ég er ekki nema rétt svo hrifinn af laginu…). Svo mæli ég með að kjóllinn hennar annað kvöld hæfi henni betur en sá sem hún var í síðast.

– – –

Af öllum sem komust áfram, sagði ég. Mér finnst reyndar hálfgerð synd að Anna Hlín hafi ekki komist áfram – hún kom mér ánægjulega á óvart. Hefði alveg átt skilið að vera kosin áfram frekar en hvor heldur sem er af hinum tveimur flytjendunum það kvöldið.

Eina dæmið um slíkt í þetta skipti, finnst mér. Og má telja vel sloppið.

– – –

Bæði Matti Matt og Sjonni Blank verða fagmannlegir og án stórslysa, sosum. En mun ekki fara af þeim meiri sögum.

– – –

„Stóru Evróvisjónstríðin“ hafa náttúrulega verið milli tjaldbúða Heru Bjarkar og Jógvans. Hálfhláleg vitaskuld, eins og öll önnur stríð á skerinu þessi dægrin (les: síðustu sextíu árin).

Þau eru bæði ágætir flytjendur, þótt hvorugt hafi verið uppá sitt besta í sínum flutningi þetta árið. Sem skýrist kannski af því að lögin þeirra beggja eru óttalegt miðjumoð.

Soddan hrat.

Lagið hans Örlygs Smára kannski ekki stolið, bara óttalega mikið eins. Gleymum þessari Kate Ryan; mér finnst ég alltaf vera að hlusta á ódýrt og handabakalega útfært rippoff af „This is my life“ þegar ég heyri það.

Og mér er fyrirmunað að muna eftir lagi frá Bubba sem er hvorttveggja, grípandi og góð lagasmíð, síðasta… tjah… hálfan annan áratuginn, sirkabát.

– – –

Þá sem þekkja mig þarf ekki að undra að ég held með Hvanndalsbræðrum. Langskemmtilegasti entransinn í ár. Minnir mig dálítið á Leðjuna frá því þarna um árið (án þess að vera að ræna neinu, haha). Og fiðlusólóið er innblásin himnasæla. Ef ég væri að fara að hringja inn á morgun myndi ég hringja í númerið þeirra.

– – –

En ég þori samt nánast að veðja að annaðhvort Hera Björk eða Jógvan á eftir að taka þetta.

– – –

Æ fokkitt. Ég er farinn að hlusta á Semino Rossi.

Punktar frá Vestur-Þýskalandi

Merkilegt hvernig lífið gengur einhvernveginn í bylgjum alltafhreint.

– – –

Ég hef átt yndislegt sumarfrí frá því ég var hérna síðast: Svissnesku Alparnir, ítölsku Dólómítarnir, Suður-Týról, Svartiskógur og Rínardalurinn.

Segið svo að maður noti ekki tækifærið til að skoða sig um meðan maður er hérna úti.

– – –

Það lítur æ meir út fyrir að ég muni skreppa upp á skerið í rétt rúma viku einhverntíma í október. Þó er það enn á huldu. En ekki eins mikið á reiki og mögulega fyrirhuguð för mín til Toulouse í sama mánuði.

Þetta skýrist alltsaman.

– – –

Íslensk þjóðmál? Nei. Ég reyndi það nokkrum sinnum síðan síðast en fannst það einhvern veginn ekki þess virði. Það er eins og völlurinn hafi verið tekinn yfir af viðrinum og öskuröpum.

Þessu óskylt: Ég veit ekki hvort ég á að hryggjast eða gleðjast yfir nýjasta slúðrinu ofanúr Hádegismóum. Mestanpart er mér þó bara sama – það er orðinn óratími síðan mér fannst mark á Mogganum takandi. Og það eru nokkrir mánuðir síðan mbl.is datt úr fyrsta sæti þeirra veffréttamiðla sem ég fletti. Geri ráð fyrir að það þokist enn neðar héðan af ef fréttirnar standa heima. Mér og mínum að meinalausu.

– – –

Finnst þetta bara sýna enn betur en áður (var það hægt?! ég hélt ekki) að Morrissey karlinn er með þetta – hversvegna enginn elskar okkur lengur og allir eru svona dónalegir og vondir við okkur. Hann segir þér hversvegna, hann segir þér hversvegna, hann segir þér hvehehehehehersvegna (þótt þú trúir honum ekki):

Annars er líka alveg ágæt útgáfa af sama lagi með henni Kirsty MacColl á þjónvarpinu. Sem ég vissi ekki að væri til fyrr en um daginn.

– – –

Voðalegt hvað ég er farinn að ruglast á lyklaborðinu. Í vinnunni er ég með stillt á þýska lyklaborðið a.m.k. hluta úr deginum. Einna verst hvernig það víxlar á y og z. En skorturinn á þ og ð og almennt flakk á ýmsum þörfum táknum hjálpa ekki til heldur.

– – –

Einhverntíma langar mig til að skrifa um skemmtilega karaktera hér í bæ: Sundskýlumanninn í Gamla Lystigarðinum og Hressa karlinn í Franska Hverfinu. En þeir munu þurfa heila færslu hvor.

– – –

Skruppum sumsé í helgarferð niður Rínardalinn um helgina sem leið. Gistum á farfuglaheimilinu í hinum stórfenglega Stahleck-kastala yfir þorpinu Bacharach á föstudagskvöldið áður en við héldum áfram niðreftir. Á laugardagskvöldinu bauðst okkur næturstaður hjá vinafólki í Bonn.

Dálítið skrítin tilfinning sem kom yfir mig á sunnudagsmorgninum. Við fórum öll niður í stærðarinnar skemmtigarð niðri á Rínarbökkunum. Suðuraf sást grilla í Deutsche Post turninn yfir trjátoppana. Við tíndum kastaníuhnetur og fengum okkur ís. Krakkarnir príluðu á leikvellinum. Svo gengum við um garðinn og það var eitthvað við skýjaþekjuna yfir okkur held ég (þótt veðrið væri ágætt) eða kannski bara það að það var eitthvað óáþreifanlegt en þó furðulega sterkt kaldastríðsvæb þarna í garðinum, eitthvað við bogalínurnar í stöllunum í hlíðinni eða blómin í beðunum niðri á völlunum – maður átti von á að sjá skuggalega menn hvíslast á um ríkisleyndarmál á einhverjum trébekknum.

Í smástund leið mér eins og ég væri í Vestur-Þýskalandi.

Það vill segja, mér leið eins og það væri ennþá Austur-Þýskaland þarna hinumegin. Og ég væri staddur í höfuðborginni hins.

Svo leið það hjá eins og annað.

– – –

Eiginlega ekki annað hægt en að enda þetta á sigurlagi Grand Prix der Volksmusik árið 2009. Þeir tóku þetta á lokasprettinum þeir bræðurnir, Vincent og Fernando. Og erfitt að vera mjög fúll fyrir hönd hans Oswalds, enda voru þeir bara hreinlega betri þarna á kvöldinu sjálfu. Það small eitthvað hjá þeim sem hann vantaði karlinn:

Svo held ég að ég láti duga af þýskum söngvakeppnum í bili. Að minnsta kosti þangað til líður að Bundesvision keppninni hans Stefan Raab í febrúar á næsta ári.

GPdV 2009: Austurríki

Síðasta forkeppni Grand Prix der Volksmusik fór fram þrítugasta maí. Þar kepptu fimmtán þátttakendur um hylli landa sinna í Austurríki til að komast í úrslitakeppnina í München tvær vikur héðan í frá. Þetta var hörð og spennandi keppni og má með sanni segja að úrslitin hafi komið í opna skjöldu, enda sátu eftir með sárt ennið í lok kvölds ekki ómerkari nöfn en Steirerbluat, Zellberg Buam og Bernd Roberts.

Leona & Swen er dúett sem rétt marði Steirerbluat í blóðugri keppni um fjórða sætið með laginu „Mach das noch mal mit mir“ (7,42% greiddra símaatkvæða). Það er fyrsti smellurinn af plötunni „My Love“ sem væntanleg er í allar betri tónlistarbúðir 28. ágúst næstkomandi. Þau Leona og Swen eiga sér annars afskaplega sæta sögu – þau eru hjónakorn til átta ára og eiga sér sameiginlegan einlægan áhuga á listforminu, auk tveggja barna: þeirra Phillips (8) og Önnu (6).

Þótt ótrúlegt megi virðast var framkoma þeirra á undanúrslitakvöldinu frumraun þeirra í sjónvarpssal. Lagið sjálft sækir að vísu meira í Schlager og spænska þjóðlagahefð, frekar en þá þýsku, en við flutninginn er fagmennskan ein í fyrirrúmi. Eins og þau segja sjálf, þá hafa þau fært Volksmúsíkurgeiranum alveg nýja dúett-upplifun:

Þriðja sætinu náði stuðgrúbban Die Grubertaler með lagið „Du darfst beim Autofahr’n nit auf die Mädels schau’n“ (9,28%). Þeir Florian, Michael og Reinhard  eru bræður og leikfélagar frá uppsveitum Týról sem hafa, þrátt fyrir ungan aldur (22-25 ára) troðið upp við góðan orðstí í meira en sjö ár núna.

Die Grübertaler
Die Grübertaler

Lagið þeirra er holl áminning þeirra til allra ungra sveina sem nýbúnir eru að fá bílprófið: Það má ekki glápa á stelpurnar þegar maður er að keyra – það á að hafa bæði augun á veginum. Auglýsingastofa Umferðarráðs ætti endilega að setja sig í samband við þá strákana:

Andreas Gabalier er ungur og hjartahreinn lögfræðistúdent frá Graz sem hefur sungið sig inn hug og hjörtu Austurríkismanna með laginu „So liab hob i di,“ sem lenti í öðru sæti (12,36%) á téðu kvöldi. Hann semur öll sín lög og texta sjálfur (sem ku vera soddan rarítet í kreðsunum) og er auk þess býsna slyngur á harmónikku.

Lagið sem um ræðir er nokkuð greinilega ástarljóð, en hvað „So liab hob i di“ annars þýðir hef ég ekki minnstu hugmynd um. Sama segir reyndar gervallur þýskumælandi málheimur, enda er þetta sungið á einhverjum heimulegum Graz-díalekt. En það geta allir tekið undir með kynninum í Musikantenstadl in Tulln hér á eftir: Ástarljóð skilur maður fyrst og fremst með hjartanu.

Þá er það bara sigurlagið. Öllum að óvörum kom óþekktur katólskur prestur að nafni Franz Brei, sá og sigraði. Pfarrer Franz Brei & Signum hreinlega möluðu þetta (24,15%) með laginu „Das Leben.“ Ég kann ekki á því neina haldgóða skýringu, nema að það hlýtur að vera hátt hlutfall katólskra eldri kvenna með opinn símreikning og sterkan bent fyrir Volksmusik. Ekki samt það að ég ætli að kasta fyrsta steininum:

GPdV 2009: Þýskaland

Þýska forkeppnin í í Grand Prix der Volksmusik var haldin 21. maí og var með dálítið öðru sniði en í öðrum löndum, þar sem úrslit réðust ekki beint úr innhringiprósentum, heldur var skipt upp eftir stigagjöf frá Norður-, Suður-, Austur- og Vestur-Þýskalandi. Keppendurnir voru 15 og fékk hver frá einu upp í fimmtán stig frá hverjum landsfjórðungi. Ég hef áður minnst á þessa keppni og má til með að geta að ég sýti að Isartaler Hexen skyldu ekki hafa komist áfram.

Í þriðja til fjórða sæti voru tvö lög jöfn með 48 stig. Annars vegar voru það þau skötuhjú Claudia og Alexx með sinn hugljúfa móðurástaróð, „Mama, danke.“ Rétt er að vekja athygli á að þetta verður ekki eina lagið í úrslitum sem lofsyngur móðurástina (sjá sigurlagið í svissnesku forkeppninni) – ég hef rökstuddan grun um að þetta hafi meira en lítið að gera með það hverjir eru helstu markhópar keppninnar. Claudia og Alexx eru svo sannarlega ungur og ferskur slagaradúett sem hefur svo sannarlega tekið fólksmúsíkurheiminn með trompi síðan þau fóru að syngja saman fyrir fjórum árum. Og þau eiga svo sannarlega framtíðina fyrir sér, enda yngri en ég sjálfur, samanlagt. Og hafa útlitið svo sannarlega með sér – svo sannarlega draumapar hverrar tengdamömmu:

Claudia und Alexx – Mama, Danke

Það er nú meira en hægt er að segja um hrukkudýrin og hjónakornin þau Judith og Mel sem deildu með þeim þriðja til fjórða sætinu með laginu „Liebe gibt – Liebe nimmt.“ Þau hafa nú verið að í tuttugu ár og – eins og þau segja sjálf frá – standa á hápunkti ferils síns. Gegnum þykkt og þunnt, súrheit og sælu og það álag sem fylgir því að tjalda á hinum kalda og einmanalega toppi  þýskrar Volksmúsíkur, þá lafa þau enn saman, alltaf jafn ástfangin. Það er greinilegt að hér er sungið frá innstu hjartarótum um þeirra eigin persónulega reynsluheim (upptaka frá keppniskvöldinu sjálfu):

Öðru sætinu (með 52 stig) náði fjórtán ára fermingardrengur frá Karlsruhe, hann Rico Seith (heimasíðan hans er algjört cutting edge í Volksmusik-geiranum) með lagið „Tausend Augen Hoffnung.“ Fyrsta platan hans er væntanleg núna síðar í mánuðinum og mun eflaust renna út eins og heitar lummur, enda þétt pökkuð af slögurum sem hafa nú þegar gert það gott, svo sem „Santa Rosa“ og „Hallo Mam“ (samanber markhópun), að ógleymdu silfurlaginu. Ég hef því miður ekki séð hvernig hann stóð sig á þýska keppniskvöldinu, en hér er klippa sem ég hef sýnt áður frá öðru söngvakvöldi í sjónvarpssal:

Sigurvegari kvöldsins var Volksmusik-goðsögnin Oswald Sattler sem hafði sér til fulltingis fjallafóstbræðurna Die Bergkameraden til að kyrja átthagamærðina „Ich träume von der Heimat.“ Þeir möluðu þetta með næstum fullt hús stiga (59 stig) og stigið sem uppá vantaði fór frá norðurhlutanum til þeirra Judith og Mel, enda er það þeirra heimabyggð (mafía og klíkuskapur). Ég hef séð a.m.k. þrjár klippur af flutningi þeirra í sjónvarpssal og þeir eru ekkert um of að hrista upp í forminu – alltaf stilla þeir sér eins upp og sömu tveir fóstbræðurnir halda á sigvaðnum og ísöxinni. Sjáið hvernig þeir gersamlega áttu salinn á kvöldinu sjálfu:

GPdV 2009: Suður-Týról

Ég held að mig langi til að skrifa eitthvað um pólitík. En ég þyrfti þá fyrst að sofa á því nokkrar nætur í viðbót. Þangað til skal talað um eitthvað sem skiptir máli.

Suður-týrólska forkeppnin fyrir Grand Prix der Volksmusik fór fram þann 8. maí. Fimmtán keppendur mættu til leiks en einungis fjórir hlutu nægjanlega náð fyrir eyrum símnotenda til að taka þátt í úrslitakeppninni í München þann 29. næstkomandi. Og má með sanni segja að keppnin hafi verið hörð, enda mikið af hæfileikafólki og ástríðufullum Volksmusiköntum í héraði. Enn eitt árið stefnir í sterka keppendur frá Suður-Týról.

Hann Alexander Pezzei er ekki nema rétt nýskriðinn á þrítugsaldurinn, hann er borinn og barnfæddur Suður-Týróli og talar meiraðsegja ladínu (ladínsku?) að móðurmáli. Hann hefur helgað líf sitt Volksmusik allt frá sex ára aldri og þetta er að minnsta kosti þriðja skiptið sem hann tekur þátt í GPdV. Núna náði hann fjórða sætinu inn í úrslitin (með 11,64% atkvæða) með aðstoð þriggja gjörvulegra alpahornablásara. Sjáið Alex und die grödner Alphornbläser flytja lagið „Wenn i auf Bergeshöhen steh“ (sem ég held að þýði „Er ég stend á fjallstindi“ – hann er ekki að syngja á móðurmálinu heldur á einhvunnlags þýðversku):

Það eru ekki síður stórar kanónur sem náðu sér í þriðja sætið inn í úrslitin (með 14,34% greiddra atkvæða): söngvabræðurnir Vincent og Fernando með lagið „Die Engel von Marienberg“. Þeir eru hinir suður-týrólsku Simon og Garfunkel fyrir Volksmusik – syngja engilþýðum tvíröddum við settlegan undirleik og eru þessutan alltaf svo smartir í tauinu:

Vincent og Fernando

Þvímiður hef ég ekki náð að grafa upp hvernig þeir tóku sig út á landskeppniskvöldinu, en í sárabætur má hlusta á brot úr laginu um engilinn af Maríufjalli sem þeir sungu sig með inní úrslitin. Mér sýnist þetta á öllu vera alveg rosalega gott lag:

Vincent & Fernando – Der Engel von Marienberg

Sem er meira en ég get sagt um annað sætið (með 15,15% atkvæða), lagið „Mein Reschen am See“ með hljómsveitinni Sauguat (sem vill þó svo skemmtilega til að þýðir einmitt rosalega gott). Þeir sem hafa brennandi áhuga geta hlustað á lagið eins og það leggur sig með glærusýningu af hljómsveitinni og túrhestamyndum á þjónvarpinu. Öðrum ætti að nægja að sjá hvernig þeir taka sig út strákarnir, með ofurstuttu hljóðbroti úr téðu lagi:

Sauguat
Sauguat

Sauguat – Mein Reschen am See

Sigurvegari kvöldsins var fólksrokksveitin Volxrock (ég hef ekki hugmynd um á hvaða tungumáli þessi heimasíða er), sem hlaut 18,77% innhringdra atkvæða með laginu „Wenn du kannst.“ Og það fyllilega verðskuldað, verð ég að segja. Þetta eru mjög hæfileikaríkir strákar og með víðari tónlistarsmekk en maður sér vanalega í þessum bransa: Þeir geta troðið upp með allt frá hefðbundnu Volksmúsíkurgömludönsunum, gegnum Schlager og allt útí argasta rokk og ról: Status Quo og Creedence Clearwater Revival. Jafnvel AC/DC fyrir unga fólkið. Sigurlagið er léttur og leikandi slagari sem hrífur alla með í söng og dans sem það geta (wenn du kannst):

Þeir gera þetta vel, strákarnir.