106997110637458938

Þá eru það loksins kisusögur og ekki annað hægt þegar maður hefur þennan titil.
Enda fátt annað hægt í dag, þar sem ég er ekki heil heilsu og hef ekkert farið út fyrir hússins dyr.

En þannig er mál með vexti að inni í tölvuherbergi er gamla dýnan okkar. Hún er reist upp við skenk svo það sé hægt að ganga um og kisurnar eru svona óskaplega lukkulegar með þetta. Og það er ekki ferðast í hoppum upp á hana, neinei, það er miklu skemmtilegra að spássera upp og niður, eða þegar mikið liggur við, hlaupið upp og niður. Með tilheyrandi klóruförum. Og af og til dettur dýnan að sjálfsögðu niður, þegar sérlega mikið hefur gengið á. Nú gæti einhver sagt að það sé lítið mál að geyma dýnuna bara annars staðar – við erum jú með stóra og mikla geymslu. En nei, fyrir það fyrsta er þetta svo ljómandi þægilegt ef við skyldum einhvern tímann fá fólk í gistingu, þá er ekkert að gera nema smella dýnunni á gólfið (eða fá kettina til að gera það). Í öðru lagi er geymslan ekki vel fær um að taka við meira drasli. Það er nú fyrst og fremst allt barnaviðhengið sem fyllir hana en ef einhvern vantar svartan sjónvarpsskáp, svart hornborð (60×60 minnir mig) eða hvítt tölvuborð þá má viðkomandi snúa sér beint til mín. Kannski ættum við líka að hætta að kaupa húsgögn án þess að losa okkur við þau gömlu fyrst.

Talaði svo við Önnu vinkonu í kvöld. Eitt af þessum símtölum sem hafa verið lengi að fæðast. Enda stóð það í einn og hálfan tíma. Neyddist þar af leiðandi til að taka upp Lars Ulrich. En á hann þá til góða yfir kaffinu og súkkulaðinu á eftir (já já, lúxusgrís, ég veit…)