107196187640236480

Jæja. Strax er ég farin að vitna í aðra bloggara sem vitna í mig. Hruff. Ég tek fram að ég er ekki að reyna að komast í bloggklíku með Villa, þó hann hafi linkað á mig, en ég ætla samt að setja link á hann. Þar er ég bara sönn mínu linkasafni – linka á þá sem ég les. Villi er greinilega aktívari en þær tvær, Erna og Svansý svo það er um að gera að fleygja honum inn. Og eins og ég sagði frá hér fyrir nokkrum dögum, þá er maðurinn einfaldlega höfðingi. Enginn étur að minnsta kosti einn með honum.

Eini maðurinn sem ekki fer inn á link listann, sem ég les samt, er Sverrir Páll. Seint mun hann komast þar inn.

Annars sit ég uppi með ættingja. Hér eru Anna, Óli og Eygló, voru í mat (sem Óli bauð upp á í öllum skilningi), hann var eflaust góður en bragðlaukarnir eru eitthvað að spara sig fyrir aðal átökin. Svo horfðum við á Popppunkt, við Anna í Kátra Pilta horninu, en hin héldu með leiðindapésunum í Vínyl.
Ég veit ekki hvað það er með þessa kappþætti nú orðið. Ég er hætt að geta haldið með nokkrum. Má vart á milli sjá hvort ég held minna með Vínyl eða Ensími.
Nú sitja þau að spilum. Eru í Fimbulfambi en ég baðst undan, enda í miðri kremgerð til að undirbúa næsta Sörubakstur, sem að þessu sinni dreifist á tvö kvöld.

Fékk gríðarlegar gleðifréttir í kvöld. Gamall „vinur“ hefur tengst inn í fjölskylduna. Það kom í ljós að hann Palli (ekki Palli Freyr NB) er í raun Manni, eða öfugt öllu heldur.
Þannig var mál með vexti að á mínum ungdómsárum, þegar ég stundaði 22 eins og ég væri lesbísk, var þar fastagestur, sem mér og Valgerði vinkonu minni, líkaði svo vel við. Hann dansaði ævinlega einn úti í horni, kátur, stuggaði aldrei við neinum og söng af hjartans list með lögunum. Við kölluðum hann Manna okkar á millum. Nema hvað, Árný komst að því í dag (litli heimur) að hann er fjölskylda. Velkominn í fjölskylduna, Palli!

Strumpan er enn hundveik. Gekk svo langt að ég hringdi í lækni til að ráðfæra mig. Ekkert að gera nema bíða og láta vírusinn hafa sinn gang.