Horgrísirnir þrír

Við erum öll búin að næla okkur í hið árlega vorkvef. Hóstum, hnerrum og sjúgum í nefið hvert í kapp við annað. Setti svolítið strik í reikninginn um helgina því það var ómögulegt að leggjast í heimsóknir og bera þrefalda smitið um allt. Ég þrælaðist samt í leikfimina á laugardaginn, erfitt var það. Mér leið eins og hérna í gamla daga í leikfimi að hlaupa úti í kulda, þegar maður finnur kuldann nísta alveg niður í lungu. Ég virðist vera að koma til samt því tíminn í kvöld var ekki eins erfiður. Aftur vigtun. Árangur síðustu viku verður auðvitað seint toppaður, núna voru farin 800 grömm, þar af cirka helmingur fita (mér líður eins og Gauja litla að vera að auglýsa þetta fyrir alþjóð, ekki víst að maður verði jafn glaður að auglýsa þegar árangurinn verður minni…)

Annars gleymdi ég að segja frá því að við hjónin vorum með sænska kvikmyndahátíð á laugardagskvöld, horfðum á mynd sem heitir Adam og Eva og systir var svo elskuleg að senda okkur í tilefni afmælis dótturinnar. Það kom nú heldur betur í ljós að ég er ekki eins altalandi á sænsku og ég hélt. En ég hélt þræðinum og gat hlegið af og til. Maður hefur gott af því að æfa sig, veitir ekki af fyrir sænsku sumarbúðirnar.

Við Mummi eigum svo afmæli í dag. Það eru átta ár síðan við kynntumst. Lifi 22. Time flies.

He-man

Af því að maður er nú kominn á kaf í fjölskyldupakkann datt ég inn á barnaefnið í morgun og haldiði ekki að það hafi verið He-man þáttur? Það lá við að ég fyndi spólu og byrjaði að taka upp fyrir Óla. Loksins komin réttlæting fyrir öllum Stöðvar 2 þúsundköllunum! Vakti meira að segja Mumma (sem átti fyrstu vakt í morgun og svaf á meðan þessu stóð) til að sýna honum. Þetta var reyndar ekki einn af gömlu þáttunum, maður sá það vel, en samt býsna líkt. Þarna sá maður alla gömlu kunningjana, He-man sjálfan, Teelu (hét hún það ekki örugglega) Man at Arms, Granger (að sjálfsögðu) og svo þá illu, Skele-tor, Evil-Lyn, Trap-Jaw og hvað þeir hétu nú allir. (Ehemm, það mætti halda að ég hafi verið 6 ára strákur þegar þetta æði hófst en ég hef þá afsökun að ég neyddist oft til að leika við litla bróður…) Og að sjálfsögðu endaði þátturinn á heilræði frá Adam. Ég mun fylgjast með þessu næstu sunnudaga.

Í dag fékk svo litla frænka nafn. Hún heitir Sigríður Fjóla, eins og litla stóra systir. Fínasta nafn og verður bara betra með árunum, eftir því sem hún stækkar og passar betur „í“ nafnið. Ég hef örugglega áður tjáð mig um þá ömurlegu íslensku tísku að skíra einhverjum ónefnum. Þið afsakið öll sem eruð að spá í, eða hafið nefnt börnin ykkar einverjum skrautnöfnum, þetta er ekki minn smekkur. Í sundinu eru til dæmis Natalía Nótt, María Mínerva (mér finnst Mínerva svo sem ágætt en voðaleg samsetning) og Björgvin Tristan (Tristan er eitt af þessum nöfnum sem mér finnst bókstaflega leka væmnin af). Þannig að ég er alltaf voða glöð fyrir hönd barnanna ef þau fá eitthvað eðlilegt íslenskt nafn. Það var nú í DV í gær (eða Fréttablaðinu í dag…?) að það væri botninn að heita Óli af því að maður gæti einhvern veginn ekki vaxið upp úr því, þetta kom frá Huldari Breiðfjörð.

Annars var ég blaðburðastúlka í forföllum í gær. Eyþór fór sem sagt suður á skírnina og bað ekki um afleysingu í tæka tíð svo ég bjargaði honum. Ég tók fyrstu götuna með Sóleyju í kerrunni, það var ekki ljóst hvor okkar var pirraðri þá götu því Sóley gólaði út í eitt (að minnsta kosti þær stundir sem ég labbaði frá henni og að húsunum) svo ég skilaði henni til tengdamömmu. Enda tók það mig næstum klukkutíma að bera út þessa götu (Suðurbyggð). Hinar fimm tóku svona álíka langan tíma. Þetta rifjaði upp heilmiklar minningar frá því að ég aðstoðaði Unni við að bera út Dag. Ég stóð mig að því að standa fyrir framan ákveðna hurð og hugsa illar hugsanir af því að íbúinn sem bjó þarna um 85 var svo leiðinlegur (það gekk illa að rukka hann!). Samúð mín fyrir blaðburðabörnum Fréttablaðsins jókst mjög eftir þessa reynslu (Eyþór fær samt aðstoð frá foreldrum sínum svo ég vorkenni honum ekkert rosalega mikið!)

Krimmarnir

Þá var þriðja krimmakvöldið í kvöld. Að þessu sinni Elsku Poona eftir Karin Fossum. Það var full langt síðan ég las hana og sennilega hef ég lesið hana mjög hratt líka því ég var ekki alveg með smáatriðin á hreinu. En þannig var að hún greip mig mjög snemma og ég las fram á nótt því ég varð að klára hana. Það er nefnilega þessi aumingjans maður sem er aðalpersónan, ég vorkenndi honum alveg ógurlega. Það voru ekki allir sammála um ágæti bókarinnar samt, sumir höfðu meira að segja ekki náð að klára hana því þeir sofnuðu alltaf yfir henni! Hún fær mín meðmæli engu að síður. Mér bauðst að fá lánaða aðra bók eftir sama höfung á norsku (og sænsku reyndar, það bíður betri tíma) og ég þáði það, aðeins að dusta rykið af norskunni. Næst á dagskrá er svo danski höfundurinn en ég hef lesið þá bók áður, á dönsku, ætla núna að líta á hana á íslensku.

Við mæðgur vorum í sundi í dag. Sóley tekur stórstígum framförum. Nú er hún farin að synda um allt þegar hún fær armkúta og kippir sér ekkert upp við að gleypa svolítið sundvatn. Hún hoppaði líka út í laug (kannski hljómar þetta meira en það var, hún sat í efstu tröppunni og hlunkaði sér fram af, en hún fór á kaf) og ég var svo montin að ég lét hana endurtaka það tvisvar.

Þvílíkt svindl

Ég deildi því með ykkur hér fyrir stuttu að ég hefði látið verða af því að panta mér Grand Prix diskinn frá Danmörku svo ég gæti hlustað á hann Tómas og leyft litlu nemendunum mínum líka að njóta. Nema hvað, það bólar ekkert á honum. Ég fékk tölvupóst frá bookland.dk í síðustu viku þar sem þeir sögðu að það væru svona tveir virkir dagar í hann. Ég bíð enn og veit ekki hvert ég á að beina gremju minni. Hallast helst að Íslandspósti, það er sívinsæll óvinur.

Átti annars undarlegan dag í vinnunni í dag. Ég veit reyndar ekki hversu djúpt ég má ræða málin en læt þetta flakka. Ég var sem sagt að henda nemanda úr áfanga hjá mér. Hann var kominn yfir á mætingum og átti þá, samkvæmt reglunum, að fara til kennslustjóra og gera grein fyrir sínum málum. Ég nefndi það við hann fyrir 2 – 3 vikum en hann var ekki búinn að fara enn. Það sem meira og verra er, að hann sýnir enga viðleitni að vera að taka sig á, mætir seint (meira að segja inn úr frímínútum), gerir ekki baun í tímum og svo framvegis, svo ég tók af skarið í dag og tilkynnti honum að hann þyrfti ekki að mæta meira. Viðbrögðin hjá viðkomandi dreng voru þau að benda með fingri á hausinn á sér, ég veit ekki hvort hann var að meina að ég ætti að skjóta mig eða ég væri heimsk (eða það sem ólíklegra er að hann ætti að skjóta sig / væri heimskur). Það sem böggar mig mest í þessu samhengi er að ég hafði vott af samviskubiti. Samt var þetta borðleggjandi dæmi um gæja sem þurfti að draga mörkin.

Ég er nefnilega mikið að spá í þessu með skólagjöld. Ok, nú var ég ekki heimsins besti nemandi á sínum tíma, en algjör hátíð miðað við það sem viðgengst núna. Reynsluboltarnir í kennaraliðinu tala um mikla breytingu á svona tíu árum (kannski eru þeir svona kalkaðir að þeir muna ekki lengra aftur…) Ég er alla vega á því að það þarf eitthvað mikið að gerast í kerfinu. Erum við ekki komin út í öfgar, þegar „menntun fyrir alla“ þýðir að þú mátt vera jafn latur og óábyrgur og þig lystir í náminu?

Léttpóstur

Fyrstu mælingunni er lokið og ég má til að monta mig. Ég hef lést um tvö kíló, þar af 1.1 fitukíló. Júhú, góð byrjun. Enda er ég ógeðslega ströng. Það var meira að segja nammi í vinnunni í morgun og ég fékk mér ekki! Það er nauðsynlegt að setja svona tölfræði inn svo þið sjáið örugglega mun þegar þið sjáið mig næst 🙂

Enn er ég að hlusta á dýrindis tónlist. Ég er með svona „hygge“ folder í Itunes, hann er bara alveg firna góður. Óskar Péturs, útvalin lög með Queen, Páll Óskar og Monika og fleiri góð. Fínt, ég er í betra jafnvægi þegar ég fer yfir léleg dönskuverkefni.

Alltaf gaman á Ólympíuleikum

Jamm, í gærkvöld voru Litlu Ólympíuleikar Tölvumynda (sem eru árvissir en ekki á fjögurra ára fresti). Eins og búast má við, þegar maður fer á djammið með jafn fínu liði og góðum frændgarði og ég bý að í vinnunni hans Mumma, þá var þetta ljómandi fín skemmtun. Það kom að vísu í ljós enn eitt árið að ég kann ekki bobb og mun aldrei ná neinni leikni í að spila það, eins eru hæfileikar mínir í þythokký minni en ég vildi. Hins vegar kom ég sterk inn í golfi (fór holuna á 10 höggum) og í pílu, en það var verra með húllað en gamli stærðfræðikennarinn minn, hann Sigvaldi malaði mig í því. Það er sárt að tapa í húlla fyrir karlmanni, en helmingi verra þegar það er gamli stærðfræðikennarinn manns!

Farbror Willy fór á kostum í sænskunni og var jafnvel ofvirkari á myndavélinni en Óli og Mummi til samans, en hann virtist hafa mestan áhuga á að ná miðhluta karlmannanna á mynd og svo stöku auga og handlegg hér og þar. Bjarni dansaði, sem mér finnst teljast til tíðinda, mér telst til að hafa séð það einu sinni áður, en þá dró ég hann út á dansgólfið. Þarna dansaði hann af sjálfsdáðum (kannski má ég ekki einu sinni blogga um það? – þetta gæti verið eitthvað tromp sem hann vill luma á seinna meir.) Það sem meira var, um tíma vorum við tvær dömurnar að dansa við fjóra karlmenn, ég hef ekki lent í svona hlutfalli á dansgólfinu áður.

Ég ákvað í gær að á næstu Ólympíuleikum verð ég ekki ólétt, með barn á brjósti eða í aðhaldi (það voru hamborgarar í matinn, dettur ykkur nokkuð í hug að Mummi hafi verið í skemmtinefndinni?)

Í dag var ég svo á dönskukennaranámskeiði, kannski hljómar það ekki skemmtilega en það var ótrúlega gaman. Ein af þessum stundum þar sem maður nennir gjörsamlega ekki fyrirfram, en svo er ótrúlega gaman þegar maður er kominn á staðinn. Og fyrir þá lesendur mína sem vita hver Steina gamla bekkjarsystir er (hinn dönskukennarinn úr 4.B) þá upplýsist að hún er ólétt og væntir sín í ágúst.

Nú er ég með litla frænda í fóstri. Eyþór minn (sem er víst orðinn 14 ára) hefur gist reglulega í gegnum tíðina, mér finnst hálf trist að það fer væntanlega að síga á seinni hlutann á gistinóttunum hans. Enda fær hann lúxusgistingu í nótt, venjulega hefur hann fórnað sér á sófann í stofunni en núna fær hann uppbúna flatsæng inni í herbergi og hótanir um að þurfa að taka við strumpu strax í fyrramálið með leiðbeiningum um hvernig maður sýður hafragrautinn. Ekki seinna vænna en að fara að innheimta gamlar skuldir!

Ekki við dauðans dyr

Nú hafa lesendur mínir örugglega haldið að líkamsræktin væri alveg að fara með mig fyrst ég hef ekkert látið í mér heyra síðan 1. í nýju lífi. Neinei mikil ósköp, ég lifi enn. Einhvern veginn er samt óskaplega mikið að gera en samt lítið að segja svo það útskýrir allt saman.

Ég er búin að fara tvisvar í ræktina síðan ég bloggaði síðast. Í gærkvöld í venjulegan tíma, sem var mjög fínn, ég var stoltust af að það var stanslaust verið að í 45 mínútur og ég tók mér enga pásu (nema svona 3 – 4 vatnspásur). Í kvöld fór ég svo til að læra á tækin. Það er öllu síðra. Helst af öllu vildi ég vera ein og spila einhverja brjálaða tónlist til að drífa mig áfram.

Annars er ég að hlusta á Eddie Skoller. Sá maður er bara snillingur og ekkert minna. Ég er að reyna að vera með skemmtilegan tíma á morgun og ætla að spila smá með honum. Auðvitað hið klassíska „What did you learn in school today“ en til að leyfa ykkur að vera með fáið þið tvo brandara.

Der er noget der hedder Århushistorier men så er der også noget der hedder finnehistorier.
Når finnerne får en lille én, eller et par tyve, så har de nogle specielle lege som de ynder at lege, blandt andet er der en leg der hedder JOKKA.
Hvordan skal man spille JOKKA?
Då skal man væra en sju otta personar og dom skal drikka en stor kassa sprit.
Och sen skal varja person få en lång skarp kniv og då skal man släkka ljuset og då skal varja person kasta kniven ud i luften og den som först bliver truffet av kniven, han er JOKKA!

Då finnas en annan lek, man skal vära tre personar. Och dom skal drikka en stor kassa sprit. Sen skal den ena personen gå ut av rummet og då skal de tvo andra rekna ut vem det var som gik ut av rummet
Den kan också lekas ut af tvo, men det krevar mera sprit.

Med kærlig skoller-hilsen!

Nýtt líf

Já það er ekki um að villast. Í kvöld fékk ég staðfestingu á því að ég er fitubolla. Ég hef lengi lifað í blekkingu og reynt að líta sjálfa mig jákvæðum augum en vísindalegar tölur á blaði ljúga ekki. Nefnum engin númer samt.
Ég var sem sagt að skrá mig á lífsstílsnámskeið á Bjargi (8 vikna aðhaldsnámskeið með þessum voðalegu mælingum með reglulegu millibili). Kannski væri mesta aðhaldið að birta nákvæma matardagbók ásamt þessum tölum öllum but I’m not quite there yet. Reyndar ætti ég ekki einu sinni að segja frá þessu námskeiði. Mér er illa við að vera lúser, hvað þá svona í opinberri umræðu. Ég færði gríðarlega fórn og sleppti Survivor til að fara í vigtunina, þá er maður langt leiddur í aðhaldsaðgerðum.

Annars er nóg að gera. Vorum óvenju dugleg um helgina – Mummi lagaði til í geymslunni, sem alltaf er visst afrek og ég fór að pakka niður lánsbarnafötum, sem er líka vel af sér vikið. Sú stutta var í mælingu í dag. Við erum, held ég, sloppin af svarta listanum yfir barnasveltara í bili, hún hafði þyngst um 600 grömm á vikunum átta (eða 75 grömm á viku, sem er met í all-langan tíma). Og þó svo ég hafi reynt að láta barnasveltis-stimpilinn ekki á mig fá þá finn ég að það er ákveðnu fargi létt af mér.

Afmælisbarn dagsins

… er dóttir mín. Sú stutta orðin eins árs og stór dagur hjá fjölskyldunni. Við hófum daginn á afmælissöng uppi í rúmi, reynið að ímynda ykkur okkur sönghjónin að syngja dúett.. ehemm. Það féll að vísu í góðan jarðveg hjá dömunni, hún sat skælbrosandi undir söngnum. Þar sem hún var fyrir lifandis löngu búin að fá afmælisgjöf frá okkur (bleika pæjubílinn) kom sér vel að við vorum búin að fá nokkrar afmælisgjafir í hús, svo við sóttum sænsku afmælisgjöfina og tókum hana upp. Sóley er í mikilli framför frá því um jól og sýndi kortinu mikinn áhuga og tætti svo reyndar í gegnum öll fötin sem leyndust í pakkanum. Við foreldrarnir vorum veikust fyrir sætu mínipilsi (sem er ekki þess eðlis að það eigi betur heima á 18 ára hóru, eins og sumt fyrir þennan stubbamarkhóp). Næsta gjöf var frá Unni og Ágústi (mjög svo óvænt gjöf það) og þar kom glæsileg regnkápa, hefði ekki getað valið hana sætari sjálf.

Við settum strumpu í pass til ömmu um hádegisbil til að fá frið að undirbúa veisluna. Ég er nefnilega ægilega kresin sjálf, vil helst allt nýbakað og þess vegna eru allar veislur undirbúnar á síðustu mínútunum. Við náðum að vísu að undirbúa smurbrauðsterturnar og baka marensinn í gær. Auðvitað fór það svo að síðasta kakan fór ekki inn í ofn fyrr en fyrstu gestirnir voru mættir á svæðið og ein kakan náði ekki að kólna tilhlýðilega til að hægt væri að setja á hana súkkulaðirjómann en að öðru leyti var bakkelsið vel heppnað og kláraðist næstum alveg. Við Mummi erum í eilífri samkeppni í smurbrauðinu, ég með rækjutertuna og hann með hangikjötstertuna, síðast vorum við að hugsa um að hafa samkeppni þar sem gestirnir áttu að kjósa um fegurstu kökuna en féllum frá því (enda vissum við auðvitað bæði að okkar kaka var fallegust).

Það var sungið fyrir Sóleyju, hún var frekar hissa á þessu tilstandi. Ég var nánast með tárin í augunum undir söngnum, ekki að spyrja að vælinu í mér… einhvern veginn var það yfirþyrmandi að litla barnið væri orðið eins árs.
Ég þurfti síðan að taka að mér að blása á kertið – það er meira mál að slökkva á einu kerti en maður heldur – þetta er einhver sérframleiðsla með ofurkveik. Hún fékk ýmsar góðar gjafir, „læknisbrúðu“ frá Bjarna sem hún faðmaði og kyssti, bók frá Kittý og co, peysu og sokka frá Hönnu og co, peysu frá Óla og Eygló, skokk frá Gumma og Helgu sem mættu frekar óvænt og voru einu fulltrúar minnar fjölskyldu á staðnum, ásamt fleiru.

Fékk að taka þátt í leiknum með hinum krökkunum, var meðal annars keyrð um „alla“ íbúð í pæjubílnum og var ekki lítið lukkuleg með það. Enda var hún alveg búin á því þegar veislunni lauk og var komin í háttinn upp úr hálf átta. Í tilefni dagsins dró ég fram gamla svæfilinn minn (og eina koddaverið sem ég á sem passar utan um hann, það er gult af elli – svona er maður gamall) og setti undir höfuðið. Hún hefur bara sofið með bleyju undir höfðinu hingað til en nú er maður orðinn svo þroskaður að það er kominn tími á alvöru kodda. Passing the torch.

Ofurát

Mummi stóð sig aldeilis vel í eldhúsinu í kvöld. Eldaði alveg dúndurgóðan kjúkling, indverskan, með nan-brauði (heimatilbúnu).
Ofboðslega góða jógúrtsósu með og ekki spillti fyrir að hafa rauðvínstár með, Blue Opal eða Black Opal man ekki hvort það hét og er aldeilis of löt til að labba fram og lesa mér til. Manni leið bara eins og það væri eitthvað hátíðartilefni en ekki bara venjulegt miðvikudagskvöld.

Sat og hlustaði á Hauk Morthens og rifjaðist upp fyrir mér að í gær voru 2 ár síðan afi dó. Enn finnur maður fyrir hvað tíminn er fljótur að líða. Mér finnst svo stutt síðan. Enda sakna ég hans óskaplega og hugsa oft um hvað hann myndi segja við hinu og þessu. Hann væri amk mjög hrifinn af tónlistinni sem er undir hjá mér. Núna eru Hvítir mávar – algjör klassíker.