Í fréttum er þetta helst

Það er lægð yfir landinu. Að þessu sinni bara farin 200 grömm (reyndar 400 fitugrömm, ég er að verða ansi mössuð…) Þetta gengur víst í bylgjum. Enn stefni ég að því að missa 10% af líkamsþyngd en það verður að segjast eins og er, að það markmið fjarlægist heldur. Það kannski bjargar því sem bjargað verður að það er engin veisla (að mér vitandi) framundan.

Ég sukkaði nefnilega hressilega í fermingarveislunni hans Ögmundar í gær. Kökusjokk. Okkar framlag var best, verst að mega ekki taka afgangana að sér, þeir voru hálf munaðarlausir heima hjá tengdamömmu.

Svo erum við Sóley búnar að finna dagmömmu. Hún heitir Ráðhildur (gangi Sóleyju vel að læra að segja það) og býr á okkar gömlu slóðum, í Akurgerði 3A. Við fórum í heimsókn í dag og engum leist illa á neinn svo þetta var fastsett. Stúfan mun því mæta í aðlögun svona eins og aðra viku af ágúst.

Það styttist í brúðkaupshátíðina miklu þann 14. maí. Umsóknum í danska klúbbinn rignir inn, nú vilja allir vera með. Það verður skoðað gaumgæfilega, enda ekki hægt að hleypa hverjum sem er að í svona eðal hóp. Ég verð passlega komin úr megrunarsóttkvínni, svo nú er bara að vera til með kampavín og tertu!

Kúkur í lauginni

Uppákoma dagsins hjá dóttur minni. Það var baðdagur í dag og af því að það þurfti að skipta á henni tók hún baðið frekar snemma. Afrekaði enn einu sinni að pissa á baðherbergisgólfið rétt áður en ég setti hana í baðið. Það hefur svo sem gerst áður. Kom hins vegar með nýtt afbrigði, já ó já, hún kúkaði all myndarlega í baðið. Skyldi svo ekkert í því þegar hún var veidd upp í snarhasti. Fékk síðan að striplast um af því að ég hélt að nú væru allir endar seif. En nei, maður er eins og hundarnir, alltaf smá varasjóður. Þannig að þegar við mægður löbbuðum okkur inn á bað aftur, ég til að þrífa sletturnar, þá náði Strumpan annarri bunu dagsins á sama blettinn.

Annars fengum við Árnýju, Hjörvar og dætur í heimsókn, bæði í gær og í dag. Þær stefna í að verða efnilegar frænkur þær yngri. Nett skotnar hvor í annarri en nauðsynlegt að pota, toga og lemja. Náðum alveg einstaklega góðri mynd af þeim, þar sem Sóley var að kyssa frænku sína, Una hafði greinilega eitthvað annað í huga því Sóleyju mætir hin gríðarlegasta Mick Jagger tunga.

Níunda tönnin brýst í gegn

Þá kom loksins sú níunda, að þessu sinni til vinstri í neðri góm. Það hlaut að koma að því, því Sóley hefur slefað eins og það sé skrúfað frá einhverjum uppsprettum og þess á milli verið með puttana á kafi í munninum. Auk þess sofið illa og verið heldur geðill á köflum. Hún er alls ekki á því að leyfa manni að vera með þreifingar í munni svo það er rétt svo að maður nái að finna fyrir henni.

Kílópóstur dagsins er býsna góður. Sérstaklega í ljósi þess að nú eru bara fimm dagar síðan ég var vigtuð síðast. Jamm nú voru farin 1.2 kíló, því miður náði ég ekki fitukílóshlutfallinu, svo þær fréttir koma síðar. Örugglega allt föstudagsjóganu að þakka.
Afskaplega ánægjulegt. Til öryggis, svo menn séu ekki að gera sér einhverjar hugmyndir, þá er ég enn mjög myndarleg í vextinum. En þetta er allt að koma.

Smá Survivor athugasemd að lokum. Þetta er að verða jafn (ó)spennandi og Formúlan. Nú þarf eitthvað að gerast svo maður deyi ekki úr leiðindum.

Æðisleg tónlist!

Loksins, loksins. Ég var í ræktinni í morgun, við vorum settar í spinning og það var annar kennari en venjulega. Sú venjulega er Abba, konan hans Óla Hitler og tónlistarsmekkur hennar á ekki allskostar við mig. Hún er nefnilega dáldið mikið fyrir kántrý (er nota bene Íslandsmeistari í línudansi), spilar svo sem þess á milli ágæta tónlist, en ævinlega í einhverri voðalegri útgáfu. Nema hvað, í morgun var bara byrjað á A Kind of Magic. Það þekkja allir sem hafa farið í spinning að það er allt annað líf þegar tónlistin er góð. Þá getur maður sungið með (ekkert voðalega hátt) og verið í fíling. Svo spilaði kennarinn líka Prince og Freddie (Living on my own). Sem sagt, djollý tími.

Ég fór líka í jóga í gær eftir langt hlé. Það var verulega indælt ekki síst vegna þess að við vorum bara átta og Helga gat þess vegna labbað á milli og leiðbeint okkur. Það er nefnilega tilfellið að þó maður sé gríðarlega góður (eins og ég er) þá getur maður alltaf betrumbætt stöðurnar. Hún hefur ekkert getað sinnt þessu í vetur. Svo fann ég bara gríðarlegan mun hvað ég var öll lipurri.

Æðislegur Tarantino

Frábært að hafa Quentin Tarantino sem gestadómara í Ædolinu. Klikkar ekki. Maður fær hann í stórum skömmtum þessa dagana, hann var jú hjá Jay Leno í gær og var alveg óhemju skemmtilegur þar. Nú bíður maður bara eftir Vol. 2!

Afsakið hlé

Eitthvað er langt á milli skipta hjá mér þessa dagana (ég fer að verða jafn slæm og Eygló!). Þar af leiðandi langar færslur, nóg að segja.

Ef ég byrja nú á framhaldssögu af Strumpu þá er hún ólm að ganga þessa dagana. Ótrúlega gaman að fylgjast með framförunum hjá henni, bæði tækni og öryggi. Hún uppsker líka gríðarlega athygli og mikið klapp svo það er eðlilegt að hún fórni sér. Hún hefur annars verið með einhverja ræmu í hálsinum svo við fórum ekkert í sund í gær.

Kílóin eru í góðum gír. Ég fór í vigtun á miðvikudag, vægast sagt með öndina í hálsinum (nema það hafi verið leifarnar af páskaegginu) yfir tölunum eftir Páskana. Nema hvað, þetta leit allt ljómandi vel út, 0.9 kíló farin, þar af hálft fitukíló. Skil þessar tölur engan veginn. Ég fór líka í sentimetramælingu. Ég veit ekki hvort mér líst eins vel á þróunina þar, ég er að verða enn meiri pera í laginu. Það hrynja af mér sentimetrar um brjóst (auðvitað…) og mitti en þeir sitja sem fastast þegar neðar dregur. Þetta verður skrautleg útkoma. Mig er farið að klæja í lófana að kaupa mér buxur, því maður finnur þetta fyrst og fremst á þeim (þrátt fyrir læri/mjaðmir) en ætla að sitja á mér þangað til námskeiðinu lýkur (og kaupi mér þá buxur sem ég passa í í mánuð…hehehe).

Þá eru það húsamál. Ég hef svo sem ekkert verið að útmála mig um þau hér, en við settum íbúðina okkar á sölu fyrir nokkru. Þetta byrjaði eiginlega af því að ég fór í klippingu, og sem við Bjössi vorum að spjalla segir hann mér að þriggja herbergja raðhúsaíbúðir hafi rokið upp í verði. Svo við fórum að kanna málið og það stóðst nokkuð hjá honum. Við létum því meta íbúðina okkar og fórum að svipast um eftir stærra (alltaf þegar ég vísa í stækkandi fjölskyldu heldur Mummi að ég sé ólétt, en ég er bara að meina að Strumpan fer að fá eigið herbergi).
Nema hvað, við skoðuðum tvær íbúðir, hæðir í gömlum húsum á fínum stað og það allt, hvorug íbúðin heillaði okkur alveg upp úr skónum. En sem ég fór að fylgjast með framkvæmdum þeirra móðurbræðra minna á húsinu afa og ömmu og það barst í tal að þeir ætluðu að láta meta það, fórum við að spá í hvort við ættum ekki að kaupa það. Fyrst svona bæði í gamni og alvöru en nú virðist alvaran vera orðin meiri. Það er komið verð á húsið og næsta skref er að athuga hvað bankinn segir við okkur.

Sem sagt, nóg að gerast. Ég lofa að flytja reglulegri fréttir!

Góðir Páskar

Maður er aldeilis búinn að hafa það huggulegt í fríinu. Ég hef reyndar ekkert sleppt mér í mat og drykk, nema hvað ég fórnaði mér í páskaeggið sem Mummi fékk frá vinnunni og óverdósaði hressilega á súkkulaði. Það er bara jákvætt, ég hef þá ekki lyst á því í nokkra daga á eftir.

Annars eru engar fréttir af kílóum. Tíminn féll niður í gær, spurning hvort maður reyni að mæta extra snemma á morgun til að komast að í vigtun þá. Það er margföld mæling því það eru líka sentimetrar. Einhverjir hafa fokið, það er ljóst, að minnsta kosti get ég komið mér í gamlar flauelsbuxur og sest án mikilla átaka. En kílóin hafa ekki fokið í vikunni.

Strumpan öll að koma til í labbinu. Var mjög áhugasöm um að ganga fram og tilbaka í dag, ég tók hana meira að segja upp á vídeó. Við keyptum skó á hana í dag, svona ægifína rauða, sem eru opnir á ristinni, nema með þverbandi. Mjög sætir. Mátuðum líka sandala, sú var áhugasöm um það. Góndi yfir sig hrifin í spegilinn í skóbúðinni. En það er erfitt að ganga í skóm, þetta er svona álíka eins og að setja dýr í sokka.

Í dag fékk ég loks fína Grand Prix diskinn minn og er búin að hlusta nokkrum sinnum á hann Tómas Þórðarson í gleði minni. Þetta er með síðustu skipum til að geta glatt nemendurna. Í sumum hópum á ég bara örfáa tíma eftir, sem fara í alls kyns próf og enginn tími fyrir glens.

Sæludagar

Það fer ekkert voðalega mikið fyrir átakinu í augnablikinu. Í gær vorum við í hádegismat hjá Kristínu og Árna Hrólfi, ég borðaði svona ívið meira en réttlætanlegt er, fæst af því svo sem mjög óhollt nema hvað ég lét eftir mér að fá mér eitt páskaegg. Í dag fengum við Árnýju, Hjörvar og dætur í kaffi og ég snaraði í eina köku, sömuleiðis ekki mjög óholla en samt…

Í kvöld fengum við svo tengdó, mága mína og svilkonu í mat, ekkert af því svívirðilega óhollt nema einhver guðdómlegur ís sem Helgi kom með – ef ég hefði ekki verið í aðhaldi hefði ég borðað miklu meira af honum. Á morgun er svo brunch hjá Ægi og Dagnýju, að öðru leyti ætti dagurinn að vera sársaukalaus en hámarkið verður væntanlega á sunnudag. Þetta er allt fært samviskusamlega til bókar svo það verður fróðlegt að sjá hvaða komment ég fæ við þessari viku.

Annars var voða gaman að fá Árnýju og Hjörvar í heimsókn. Þær strumpurnar býsna kátar saman svo það stefnir í athyglisverða viku í Danmörku. Við Árný lögðum fram pöntum að þeir pabbarnir tækju dæturnar að sér dagpart á meðan við færum í barnafataleiðangur, fyndið að Árný skyldi nefna þetta vegna þess að ég var sjálf farin að bollaleggja svipað, meðal annars að skoða H og M í Århus á Netinu.

Eins var líflegt að fá þá mága mína hingað. Þeir klikka svo sem ekki. Gleðin náði hámarki þegar menn sýndu listir sínar í jóga á stofugólfinu, meðal annars og aðallega í höfuðstöðu. Þvílíkar lipurtær sem þeir eru.

Í gærkvöldi fór ég á kaffihús með Elísu og Jónu. Kannski ekki gríðarlega í frásögur færandi, en það er til marks um í hversu lítilli þjálfun ég er, að ég var ónýt í hálsinum þegar ég kom heim, eftir að sitja í reyk í þrjá tíma. Fyrir utan að þola ekki við án þess að fara í sturtu. Á Amor var leikaraliðið úr Eldað með Elvis, í gríðarlegri sýningarþörf, ekki aðeins þurftu þau að tala hærra og hlæja hærra en allir aðrir gestir heldur þurftu þau líka að spretta úr sætum til að dansa við barinn. Að auki var líklega eitthvað fitness lið, að minnsta kosti nokkrir gestir svo kaffibrúnir að ég fékk nánast húðkrabbamein við að líta á þá!

Hinn vikulegi megrunarpóstur

Eflaust hafa margir saknað þess að fá ekki hið vikulega öppdeit á megruninni í gærkvöld – einhverjir jafnvel haldið að ég væri farin að þyngjast og vildi ekki ræða málin, en svo er ekki. Vissulega lítur línuritið ekki nógu hagstætt út, því núna voru bara farin 500 grömm og þar af – og það versta – aðeins 100 fitugrömm (ég hef í gleði minni hugsað um smjörlíkisstykki þegar ég hef hugsað um fituna sem er að fara en núna verð ég greinilega að fara að hugsa í litlu smjörstykkjunum, þá munu þetta vera tæplega sjö lítil stykki…) Og það sem verra er, dagarnir framundan verða erfiðir, að finna hinn gullna meðalveg að lifa hinu ljúfa átlífi versus að hafa bara einn nammidag.
Ég sá það líka í hendi mér að það er ekki að virka að mæta bara þrisvar í viku, maður verður að fara eitthvað aukalega, svo ég dreif mig í body balance í kvöld. Þessi tími var skárri en sá síðasti, því þá voru margar glansgellur sem finnst það ógeðslega fínt að fara í body balance en núna var bara venjulegt lið eins og ég.

Smá eitís getraun

Til gamans og inspíreruð af Popppunkti; Hver var upprunalegi söngvari Duran Duran og nefndu tvö lög sem hann gerði síðar fræg sem sólóisti? (Hér liggur við að ég banni Önnu Steinu að taka þátt því ég veit að hún veit!)

Ein lítil saga af Prinsinum fylgir með. Eins og dyggir lesendur vita slær Prinsi Bakkakettinum út anyday. Í gær horfði hann öfundaraugum á okkur hjónin borða Nóakropp (það var jú nammidagur) svo Mummi bauð honum eitt. Prinsi þáði Kroppið sæll og glaður og japlaði á því þar til það gaf sig og fór oní maga (með tilheyrandi slefi, það er mjög ópraktískt að borða með opinn munninn og snúa niður!)