Longlongtimeago

Svona líður tíminn hratt. Ég hef ætlað að blogga ansi lengi og hef haft margt að segja en einhvern veginn ekkert orðið af því. Þá lendir maður í krísu af því að manni liggur of margt á hjarta. Ég ætla að reyna eftir bestu getu að tæpa á því helsta, eins stuttlega og mér er unnt.

Í fyrsta lagi vorum við með Sigrúnu og Eric í heimsókn í einn og hálfan sólarhring eða svo. Sá tími gekk aðallega út á át, þannig að á föstudagskvöld (eftir að hafa farið á Bláu, Greifann og í Brynju…) elduðum við algjöra gourmet máltíð. Geðveika hörpuskel a la Sælkerabúðin/Mummi í forrétt, unaðslega nautasteik a la Mummi/Munkaþverárbelja og æðislegan eftirrétt a la Sigrún og Eric, balsamicjarðarber. Með þessu splæsti Eric dýrindis kanadísku rauðvíni, með því betra sem ég hef smakkað. Bjarni var með okkur í matnum og það verður að segjast eins og er að það jafnast fátt á við að borða góðan mat í góðum félagsskap.

Í öðru lagi er mikið útivistarátak í gangi. Ég reyni að fara í daglega göngutúra (þó ekki nema niður í bæ til að sækja bílinn…) og nú erum við líka búin að kaupa stól fyrir Sóleyju á hjólið mitt og fröken finnst alveg ævintýralega gaman að hjóla. Í gærdag fór ég með Sóleyju og afa út á Gáseyri. Það stendur alltaf fyrir sínu, þetta er staður sem á sér virkilegan sess í hjarta mínu og nú verður maður bara að vera duglegri að fara með Sóleyju. Hún fór með skóflu og fötu og skemmti sér konunglega við að moka sand, ýmist með skóflu eða höndum. Hún var orðin ein sandhrúga og ekki bætti úr skák að hún var aðeins að dýfa tánum í sjóinn. Hún varð ansi spæld að fara heim. Við fórum þaðan á kaffihúsið á Dalvík, en eins og allir vita er það í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég splæsti síðbúnu afmæliskaffi á afa, 85 ára afmæliskaffið hans var einmitt þarna fyrir réttu ári.

Í þriðja lagi er aðeins að lifna yfir húsnæðisskoðurum. Það kom kona í dag og par á sunnudaginn. Ekkert sem bendir til þess að það hafi skilað sér en í áttina samt. Við höfum ekkert skoðað meira en spurning hvort maður kíki aðeins meira í kringum sig.

Ýmislegt fleira mætti flakka með en best að reyna að hafa þetta ögn reglulegar og minna í hvert sinn…