Alvara lífsins

Ágústmánuður er alvarlegur mánuður. Ekki nóg með að ég sé að vakna upp við vondan draum að nú verði ég hreinlega að fara að gera eitthvað til að undirbúa háskólakennsluna (þó ég ætli að gera sem minnst verð ég víst að leggja höfuðið í bleyti og finna eitthvað handa áhugasömu nemendunum…) og vinnan bara almennt að bresta á (sem er kannski ekki voðalegt eftir langt og gott sumarfrí) heldur er Strumpan að fara út í lífið líka. Hún er sem sagt að byrja í aðlögun á mánudaginn. Við Mummi fórum í fyrsta foreldraviðtalið í gær, áður en maður veit af verður hún unglingur og við að fá kvartanir yfir að hún tali mikið í tímum. Það er nettur hnútur í mömmuhjartanu þó svo ég viti innst inni að þetta fari allt vel. Hún verður eina stelpan í hópnum og verður sjálfsagt farin að stjórna með harðri hendi áður en ég veit af.

Útivistaræðið heldur áfram. Í gær fórum við Kristín í langa og góða göngu. Það lygilega við svona góða göngutúra er að maður gengur hálfan bæinn þveran og endilangan og samt tekur það enga stund. Ég held alltaf að það hljóti að vera liðnir margir klukkutímar þegar ég hef gengið í hálftíma.
Við fórum líka í sund í hádeginu í dag. Alltaf jafn gaman að fara með Sóleyju í sund. Hún er æst í rennibrautirnar. Fórum einmitt í sund á Dalvík á laugardaginn, að vísu í skítakulda, afi hefur ekki átt nógu gott spjall við veðurguðina. Við vorum fljót að gefast upp og svo tók steininn úr þegar kaffihúsið góða var lokað. Þessi opnunartími er eitthvað dularfullur. Síðasti séns fyrir þá að standa sig á laugardaginn, stefnan er að sjálfsögðu tekin á fiskidaginn mikla.

Svo sáum við Some Kind of Monster á sunnudaginn. Ekkert nema gott um hana að segja, nema mig langaði afskaplega mikið á tónleika aftur. Eyþór stúfur var með, myndin var ótextuð, svo ég hafði svolitlar áhyggjur af honum en ég held að hann hafi nokkuð haldið þræði. Hápunktur myndarinnar var hinn mjög svo furðulegi Torben Ulrich, pabbi hans Lassa. Varla séð skrýtnara eintak og til að kóróna furðulegheitin talaði hann sína fínu densku (sem er afbrigði af dönsku og ensku).