Óvart

Ég ætla ekki að vera svona léleg að blogga. Það bara hjálpast allt einhvern veginn að. Tölvurnar í skólanum í algjöru bulli, virkilega mikið að gera (verið að níðast á nemendum og setja í próf í stórum stíl) og þar fram eftir götunum. Aðallega tvennt sem ég ætla að gera að umfjöllunarefni.
Í fyrsta lagi er það Krøniken. Mikið lofar þátturinn góðu. Sunnudagskvöld undirlögð héðan í frá.
Í þáttunum leikur einn af danska hjásvæfulistanum mínum (ef ég mætti hafa hann í gangi), heitir réttu nafni Anders W Berthelsen en leikur Palla í þessum þáttum. Takið eftir hvað hann er sætur.
Hins vegar hófst aftur danska kvikmyndahátíðin hér norðan heiða. Við þrjár gömlu samstarfskellurnar úr Síðuskóla hittumst heima á miðvikudagskvöld og horfðum á Rembrandt. Hún var býsna skemmtileg (fyrir áhugasama má benda á að hún fæst á betri myndbandaleigum) sem er jákvætt, úr því ég á hana, kaupin hafa verið misgóð.
Annars er afmælisbarn dagsins Árný frænka mín. Hún er þá aftur orðin ári eldri en ég. Til hamingju með daginn!