Upprifjunarblogg

Þá er það upprifjun á síðustu viku eða svo. Hún hefur verið dálítið þétt skipuð. Fyrst skemmtanalífið, sextugsafmæli einnar sem vinnur með mér var fyrir viku, haldið með pompi og pragt í Sjallanum – alveg ógurlegt stuð, og svo kennaraþing á föstudag, ekki alveg eins mikið stuð, en gaman þó eftir að þinginu sjálfu lauk. Þá var matur og djamm á Breiðumýri í Reykjadal.

Síðan fórum við skötuhjúin í langþráða kaupstaðarferð, barnlaus og fín. Gistum á Hótel Nordica í dásamlegu yfirlæti, komumst reyndar ekki í Spa af því að það var búið að loka þegar við tékkuðum okkur inn, en við vorum í indælis herbergi.

Sunnudagurinn fór að mestu í heimsóknir og át, með öðrum orðum, ákaflega vel heppnaður dagur. Kaupstaðarferðin sjálf var svo á mánudaginn. Við keyptum eitt og annað, aðallega hluti handa fröken dekurrófu, nýjan barnastól til að bjarga fegurðartilfinningu minni í eldhúsinu (og jájá, ég losnaði við risaljótaflykkið) og aðal dæmið – nýtt rúm. Prinsessurúm, hátt, með leiksvæði undir og það sem meira er, það er yfirbyggt hús og turnviðbygging. Þetta settum við að mestu saman í gærkvöldi og nótt (já ég segi og skrifa nótt, við ætluðum að klára þetta en gáfumst upp þegar við lentum á gallaðri ró en þá var klukkan líka að verða tvö). Svo strumpa er ekki búin að sjá fíneríið og verður fyndið að sjá hvernig hún bregst við.

Til heimilisins keyptum við smotterí. Aðalerindið gekk að minnsta kosti, við fundum háf í eldhúsið og hann ætti að fara að berast okkur hvað úr hverju. Það þarf að vísu að leggja í framkvæmdir til að koma honum upp svo það verður kannski ekki á næstunni.

Ferðin var að minnsta kosti dásamleg. Dýr en vel þess virði. Enough said.