Letismeti

Jabb, ég hef verið óheyrilega löt að blogga og engar afsakanir duga. Fokkaði kvöldinu hressilega upp, ég ætlaði að sitja á jólatónleikum kirkjukórsins í þessum skrifuðu orðum en nei, ég beit vitlausa tímasetningu í mig og þegar ég fór að tékka á málinu voru þeir byrjaðir. Þannig að ég fór að skrifa jólakortalista í staðinn, ekki er ráð nema í tíma sé tekið, þó svo að skrifin sjálf bíði betri tíma. Ég er einhvern veginn ekki í gírnum og þó svo ég viti að hann kæmi líklega af sjálfu sér, þegar ég væri byrjuð og búin að setja fína tónlist á og það allt, þá ætla ég samt að fresta þessu enn um sinn, enda margir dagar í síðasta sendingardag. Svo er ég bara búin að vera eins og bjáni með netta timburmenn í dag, það fór eitthvað úrskeiðis á útskriftarmatnum í gær, ég varð full eins og bjáni og ég sver að ég drakk ekki neitt að ráði, úthaldið greinilega að bila.
Tíðindi dagsins eru samt þau að elskulegur mágur minn er farinn að blogga og nú plögga ég hann alveg geðveikt fyrir mína fáu lesendur. Þið verðið ekki svikin af því að lesa hann, því þetta er maðurinn sem er fyndinn þó hann ætli sér það ekki. Ég elska alla vega húmorinn hans, enda er hann nú að einhverju leyti ættgengur.