Vondur morgunn

Það þarf ekki mikið til að slá mig út af laginu svona fyrst á morgnana. Í morgun var það fatatengt. Þannig er að ég tók þann pól í hæðina að klæða mig huggulega þegar ég byrjaði að kenna hér í VMA. Það hefur gengið vonum framar og ég á orðið ágætlega álitlegt dragtarsafn. Ég geymi alla jakkana hér í skólanum, enda geng ég nánast ekki í þeim annars staðar. Nema hvað, ég ætlaði að vera í kamellituðu dragtinni í dag og kom í tilheyrandi neðriparti. Setti svo allt á annan endann til að finna jakkann en hann var algjörlega horfinn. Svo ég neyddist til að vera lufsuleg í flíspeysu. Ergði mig alveg stórfenglega, svo mikið, að ég fór heim og leitaði þar, án árangurs. Þannig að ég leitaði betur hér og fann hann loks, mér til mikils léttis. Svona geta krísur orðið til úr litlu.

Svipuð krísa átti sér stað í haust, þegar ég uppgötvaði mér til skelfingar einn morguninn að ég hafði gleymt að mála mig. Sem betur fer var ég ekki að kenna í fyrsta tíma og gat því brunað heim og bætt úr því. Núna var ég að koma mér upp survival kit til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig. Já það er erfitt líf að vera hégómagjarn.