Stuð á ættarmóti

Ég er bara lukkuleg með góða helgi, ættarmótið var hin besta skemmtun eins og ég hafði vonast til. Ég er að vísu dæmd í næstu skipulagsnefnd en ef maður lítur björtum augum á það þá er það fyrirtaks tækifæri til að kynnast amk nefndarmeðlimum betur. Það er að vísu hálfgert munaðarleysingja yfirbragð yfir nokkrum okkar – kannski eigum við að bonda alveg sérlega vel í munaðarleysinu??

Það ber svo helst til tíðinda að ég er komin með nýjan uppáhalds mat. Þannig er að Mummi er farinn að gera þetta líka forláta kjúklingasalat, svo ferskt og gott og að sjálfsögðu svo hollt að maður getur borðað heilu fjöllin án þess að svo mikið sem roðna ögn yfir átinu. Enda vil ég helst borða það oft í viku :))
Og talandi um að roðna. Þó að svarfdælska sólin hafi svikið mig, þá sveik sú akureyrska ekki í gær, ég er rauðbrún að framan- og ofanverðu. Kannski svona full rauðbrún meira að segja.

Unaður

Fórum í gær á tónleika með Oktett Ragnheiðar Gröndal á Græna Hattinum. Fyrirfram ekki alveg viss við hverju væri að búast – jasstónleikar og svona og ég kannski ekki alveg í heitum fanklúbbi. Ragnheiður er bara svo mikið æði að það var klárlega þess virði að kíkja. Reyndist síðan 100% þess virði. Þetta var algjör sæla. Tónlistin frábær þó svo ég velti vissulega fyrir mér hvað ég væri hrifin ef það væri enginn söngur. En það var söngur og hann var alveg eins og krem á köku, akkúrat það sem framkallaði sérstakan unað. Þetta er bara dúndurflott söngkona. Svei mér ef ég gerist ekki nettur jassaðdáandi fyrir hana 🙂 Plötu!!Plötu!!!
Annars er stórhátíð í dag. The big five. Fimm ár siðan við gengum í það heilaga. Áttum af því tilefni notalega morgunstund og ætlum út að borða á Fiðlarann í hádeginu. Svo er það bara Öndvegi íslenskra dala sem bíður í kvöld. Ættarmót með skemmtilegasta fólkinu.

Nema hvað

Það kom að því. Í gær fékk ég tilboð um stundakennslu í MA á haustönninni. Einmitt það sem ég hef stefnt að (vissulega frekar heilli stöðu en þetta er áttin.) Og ég neitaði pent. Búin að gefa algjört veiðileyfi á að það megi þjóðnýta mig næsta vetur af því að við erum að dekka fæðingarorlof. Þar fór það. Eins og það hefði verið gaman að prófa þetta til að sjá svart á hvítu muninn. Maybe next time.

Óvænt brúðkaup

Haldiði ekki að ég hafi bara misst af brúðkaupi sisona á fimmtudagskvöld? Alveg seinheppin. Hafði þó ítrekað í síðasta jólakorti að ég vildi vera með. En sem sagt, svo ég komi þessu nú út úr mér. Okkur var boðið í „innflutningspartý“ og ég set það svona innan gæsalappa af því að flutningurinn var í apríl í fyrra, til Hönnu og Ármanns. Alveg grunlaus og ekkert óeðlilegt við að halda innflutningspartý. Þarna var sem sagt nánasta fjölskylda og vinir og ein vinkona Hönnu segir voða sniðug við mig að þau hafi örugglega gift sig fyrr um daginn. Þegar hún nefndi þetta fannst mér það augljóst. Nema hvað, þegar líður á veisluna er liðinu smalað út í garð og ég notaði tækifærið að fara með Sóleyju heim að sofa. Þegar ég er að labba upp að húsinu okkar heyri ég í símanum hringja inni og þegar ég kem inn hringir gemsinn. Þá var það Mummi að spyrja hvort ég vissi af hverju ég væri að missa. Þá var búið að gifta þau. Ótrúleg tímasetning hjá mér. Þannig að ég náði bara í rest af brúðkaupsveislu.
Anyways, ég var líka mjög óróleg yfir reunioninu – alveg óþolandi að vera ekki á hverju ári. Svo ég ákvað að kíkja bara óboðin og óumbeðin og fór frá Hönnu (öll tíu skrefin) yfir í Höll. Hitti að sjálfsögðu fullt af fólki, spjallaði, dansaði og skemmti mér. Sá reyndar fáa af gömlu fjórðubekkingunum mínum en þeim mun fleiri af gömlum og núverandi vinnufélögum og allmarga kunningja úr 10 ára afmælishópnum. Mæli með þessu 🙂

Þema vikunnar

Stend í ströngu í æfingabúðunum. Ekki einasta fór ég á Netið til að finna Duran Duran texta (það þarf að leiðrétta ýmislegt, virðist sem The Reflex sé ekki einkabarn heldur einmana barn) heldur horfði ég á flest lögin á DVD disknum. Og það var bara hreinn unaður. Í fyrsta lagi gleðst maður alltaf yfir að sjá eighties dansa. Svona ætla ég að dansa einhvern tímann í ellinni. Í öðru lagi bættu þeir ögn upp vöntunina á The Chauffeur á geisladisknum og það er þetta fína erótíska myndband við það. Í þriðja lagi tóku þeir Reflex af Arena og það var bara nostalgíukast að horfa á það. Ég meina, við áttum tónleikana á videó og ég held að ég hafi kysst amk Simon, John og Nick vandlega á sjónvarpsskjánum. Þetta var, held ég, röðin á því hver var sætastur. Og svo Andy og Roger einhvers staðar langt á eftir. Núna finnst mér John hafa elst best. Hann er orðinn ögn karlmannlegri en hann var. Ég mun því hiklaust fylgja ráðum leggjalöngu stúlkunnar og stilla mér upp vinstra megin til að sjá hann sem best.

Greitest

Ég splæsti mér í Duran Duran greatest í gær, ofurprís, 1599 fyrir geisladisk og dvd. Nema hvað, er hægt að kalla disk með þeim greitest ef það vantar bæði The Chauffeur og The Seventh Stranger?? Varla. Eina huggun mín er sú að Planet Earth er á sínum stað, þó að það sé andstyggilegt lag hef ég haldið mikið upp á það síðan ég sá það flutt á ódauðlegan hátt í Röskvupartýi hér um árið 😉 Alltént, ég er þá enn og aftur að reyna við upphitun fyrir tónleikana, ég kemst að vísu aldrei meira en eina umferð, þá þarf ég hvíld.

Hetjan ég !!

Ég náði gríðarlegu afreki í dag. Í fyrsta skipti ever (held ég, að minnsta kosti í manna minnum) fór ég í leikfimi á föstudegi. Og það vitandi að ég væri að fara í tíma hjá Óla Hitler. Tíminn var erfiður eins og hans var von og vísa og bringan á mér er langt upp í loft af monti. En samt, svona til að það fari ekkert á milli mála, þá er auðveldara að fara í tíma í hádeginu heldur en seinni partinn. Það mun ég líklegast aldrei geta, þrátt fyrir góðan ásetning. Og svo er það bara Kvennahlaupið á morgun. Við mæðgur búnar að skrá okkur og mætum eins og venjulega (ekkert smá kúl að vera nú þegar komin með svona mother/daughter hefð).

Krísulok

Þá er búið að taka ákvörðun um að fara fjórðu utanlandsferðina. Það sem gerði útslagið var útspil að sunnan um að konurnar hér í bænum fengju að fara með beinu flugi. Sem þýðir að ég styrki flestar tilraunir með beint flug frá Akureyri þetta haustið 🙂

En svo þarf ég að láta eina montsögu fljóta með. Ég var spurð í gær á leikskólanum hvort ég væri mikið með Strumpu bleyjulausa heima og sagði að það væri allur gangur á því (enda koma regluleg slys – sérstaklega ef hún reiðist, þá ræður hún ekkert við bununa). Þá er hún svona framtakssöm í leikskólanum að hún losar af sér bleyjuna og fer sjálf á klósettið. Ekkert smá dugleg. Ég sem hef tregast við að æfa hana til þess að geta haft hana enn með bleyju í Svíþjóð (fyrir allar búðarferðirnar sko).

Bongóblíða

Júhú, þá er sumarið komið. Ég heilsa reglulega upp á það þessa stundina, á milli þess sem ég sem málfræðiæfingar af miklum móð. Það er alveg unaðslegt að setjast út í skot hér fyrir framan innganginn og fá sér D vítamín skammt dagsins. Verst að vera ekki með ís eða eitthvað gott pallavín 🙂 Og svo er bara að finna sér eitthvað að gera úti við eftir hádegið. Hmm. Slátra fleiri fíflum (af gulu sortinni)? Hjóla? Labba í bæinn og fá sér eitthvað gott? AHa.

Utanlandskrísan

Svo það fari ekkert á milli mála hver aðal krísan er, þá snýst þetta fyrst og fremst um hversu gáfulegt það er að splæsa 55 þús í ferð, þegar maður er líka að fara aðra ferð mánuði seinna og enn aðra tveim mánuðum eftir það. Plús auðvitað allt sem manni dettur í hug að kaupa.