Fyrsta foreldraviðtalið

Jamm, það var sem sagt foreldraviðtal í leikskólanum hjá Strumpu í gær. Það kom betur út en maður þorði að vona. Eftir nokkrar klaganir um bit hér og þar, var ég viss um að það yrði þema fundarins „bitvargurinn Strumpa“ (ég hefði þá bara reynt að snúa mig út úr því og segja að móðursystir hennar hefði átt þetta til líka en væri líklega hætt því núna). En neinei. Þetta var allt á góðan veg, nema hvað hún hefur greinilega njálg í rassinum (ætli það sé ekki frá móðurinni komið?) því hún getur ómögulega slakað á (nei, bíddu, ég kann það svo vel) og er oft mjög snögg að ljúka sér af. Svo þykir hún sjálfstæð svo um munar. Amk ekkert sem ég kannast ekki við á mínu heimili.

Leikfimi í gær – vigtin reyndi að koma einhverjum skilaboðum á framfæri að leikfimi einu sinni í viku og svívirðilegt súkkulaði- og kökuát þess á milli væri ekki ásættanlegt. Árans. Ég þarf sennilega að fjölga ferðunum í tvær á viku. En tíminn var skemmtilegur. Enduðum upphitun á stórskemmtilegri marseringu.