Menningarmolar og fleira

Aldrei hef ég lifað jafn aktívu félagslífi og undanfarið eða það komu amk nokkrir dagar þar sem ég var nánast ekkert heima hjá mér. Fór til að mynda á tvenna tónleika í Laugarborg með fimm daga millibili. Fyrst á Bergþór Pálsson, með tengdamömmu og mátti vart á milli sjá hvor okkar var skotnari í honum, hann var náttúrulega yndislegur. Söng eins og engill og gantaðist þess á milli. Síðari tónleikarnir voru hins vegar á Mannakorn og þá með Auði spænskukennaravinkonu minni og Kristínu dönskukennaravinkonu minni. Svoldið nýtt move hjá mér að fara á þá, það kom til að mynda verulega flatt upp á Mumma að ég hefði þennan áhuga, en fyllilega þess virði. Öll fallegu lögin þeirra gera ferð að sjá þá algjörlega þess virði.

Í liðinni viku fór ég líka á LC fund. Sá var reyndar nokkuð tíðindalaus og helst til ótíðinda að það var krimmakvöld á sama tíma. Krimmaklúbburinn lá alveg niðri síðasta vetur en nú á að reyna að reisa hann úr öskustónni. Mér til mikillar gleði var fundartímanum breytt svo ég geti verið með. Næst á að lesa finnskan krimma sem ég man ómögulega hvað heitir. (Í raun þyrfti ég að koma með langt og mikið bókablogg, því slíkar bækur hef ég lesið í sumar en vonlaust að ég nenni því, fyrst það er ekki orðið enn.)

Nú svo var ég í allsherjarafmæli hjá Þóru í konuglega danska félaginu og danska kvikmyndaklúbbnum á laugardaginn var, (afmælisdeginum hans afa). Það var allt hið einkennilegasta þar sem ég þekkti afar fáa og hafði engan til að eiga sem móðurstöð. Það tókst samt alveg.

Framundan er matarboð hjá Kristínu á laugardagskvöld. Ég verð spræk eftir að hlaupa 10 kílómetrana. Jamm það er nefnilega að koma að því. Ég er pollróleg. Hljóp 9 kílómetra á laugardaginn eins og ekkert væri. Reyndar á óratíma en það voru líka alls kyns brekkur til að tefja mig og gera mig þreytta.