Síðasta færsla ársins

Ætla endilega að ná einni færslu svona í lok árs. Hef náttúrulega bara verið löt að blogga í fríinu en það hefur hins vegar verið eins og jólafrí eiga að vera. Ég hef sofið vel og lengi, og þess á milli hef ég étið, lesið og spilað, sönn uppskrift að góðum jólum. Fékk margt góðra gjafa, Mummi fór, eins og mig grunaði, í útivistarþemað, svo nú á ég GPS til að rata á ferðum mínum um hálendið en hann laumaði nú GM á dvd með, sem ég á reyndar eftir að horfa á, er enn í sæluvímu eftir tónleikana sem þeir sýndu á Sirkus 22. des. Jólakortin voru enn sem fyrr mjög skemmtileg. Bæði myndir og árspistlar eru alltaf vel þegin. Kortin voru reyndar að berast aðeins fram yfir jól en gott og vel, ég get ekkert sagt og sannarlega betra að fá þau seint en aldrei.

Náði einu afreki – fór út að hlaupa 28. des. eftir að vera alltaf og ævinlega að sjá hlaupandi fólk um allan bæ. Tók svona rúmlega 5 kílómetra, sem var meira en ég þorði að vona, í ljósi þessi að það eru rúmir tveir mánuðir síðan síðast. Uppskar vondan verk í mjöðm alla næsta dag og svo strengi dauðans þegar verkurinn fór og sýnist mér að það dugi ekki að hlaupa á tveggja mánaða fresti. Verð að endurskoða það.

Búin að lesa tvær (jæja eða þrjár, ein telst varla með nema fyrir harða royalista) bækur, Mummi fékk nefnilega bæði Konungsbók og Aldingarðinn í jólagjöf frá TM. Báðar alveg ágætar, ég kann alltaf vel við Ólaf, ætli það sé ekki bara uppeldið frá ömmu að skila sér? Hins vegar verð ég að auglýsa þá ágætu bók – Undantekningin – sem ég fór og keypti mér bara sjálf og prívat eftir jól. Er reyndar ekki búin með nema svona fjórðung eða þar um bil en sú lofar góðu, ja amk fyrir þá sem eru hrifnir af svona mannlegstúdíubókum.

Ég ætla ekki að skrifa neina uppgjörspistla eftir árið. Þið hafið hvort eð er lesið um allt það sem bar hæst, efast um að ég hafi fengið marga nýja lesendur síðustu daga. Verð þó að nefna mann ársins í mínum huga, var of löt að hringja eitthvurt. Andri Snær, takk fyrir að vekja mig ærlega til umhugsunar!

Góðir vinir í útlöndum

Jamm, vinur minn hann Ruben Gonsales hefur önnur jólin  í röð ákveðið að senda mér jólakort og virðist ekkert hafa móðgast þótt ég sendi honum ekkert í staðinn. Eitthvað er hann samt ryðgaður, því hann stílar það á Stekkjargerði 6 en það eru víst komin 7 ár síðan ég flutti þaðan. Gott að hann hugsar fallega til mín. Verst að ég veit ekkert hver þetta er.

Annars átti ég ágæta jólastund í gær – þið vitið þá hvað það er ef þið fáið jólakort seint og illa, ég er bara úti öll kvöld núna. Það var sum sé jólakaffi í MA í gærkvöld og það var afar indælt, hinir ýmsu gömlu starfsmenn og kennarar, Árni gamli á skrifstofunni, Ásmundur og fleiri sem var voða ljúft að sjá. Kökuhlaðborð, spjall (jess Unnar samkennari minn hélt að ég væri álíka gömul og hann, sem sagt fædd um 1980, jólunum er reddað) og svo söngur og sýning á myndum frá gömlu þorrablóti kennara árið 1970, Rafn þar á meðal afar ungur og grannur 😉 Já, það er ekki að ástæðulausu að ég elska skólann minn. Það er svo falleg sál í honum.

Í fyrrakvöld fórum við einnig út, í það skiptið í jólaglögg til Ægis og Dagnýjar. Það var einnig góð stund og góðar veitingar. Svona á desember að vera – bara að ýta jólakortunum á undan sér og eiga þess í stað ljúfar stundir með vinum. Sorrý vinir á jólakortalista ef kortin koma eftir jól!

Allt að gerast…

Jæja, ég náði að byrja jólakortaskrifin á sunnudagskvöld. Reif upp jólastemminguna eftir tómleikatilfinninguna sem greip um sig eftir að Ørnen var búinn fyrir fullt og allt. Þannig að Norðurlandakortin fóru í póst á mánudag. Ég er líka búin að skreyta lítillega í viðbót, fór nefnilega í Bakgarðinn, sem er unaðsleg búð í kjallaranum á Zíon. Mikið af sætu skandinavísku jólaskrauti þar, ég var næstum búin að kaupa jólagrís sem var ógurlega sætur. Hins vegar eru verðin ekki alltaf við mitt hæfi þannig að ég neyðist til að hemja mig.

Við fórum líka í Kjarnaskóg á laugardaginn og keyptum minnsta jólatréð sem við fundum og nú er bara að sjá hvernig við komum tveimur jólatrjám fyrir. Hins vegar sveik ég dóttur mína um jólasveinana á svölunum, mundi vitlausa tímasetningu og sú stutta var ekki kát. Í öllum klögunum minnti ég hana á hvað við værum búin að gera margt skemmtilegt og þá væri nú kannski við hæfi að muna það og vera glaður en hún svaraði bara um hæl að það væri í lagi að vera leiður þegar maður hefði misst af einhverju. Hún er hins vegar á Litlu jólum í dag á leikskólanum, fór í jólasveinadressinu frá Önnu Steinu, alveg alsæl og fullviss um að slá í gegn hjá jólasveinunum.

En já, í tómleika mínum vegna Arnarins fór ég á vef RÚV og fann út að það á að sýna tvo síðustu þættina af Krøniken um jólin, annars vegar annan í Jólum og hins vegar annan á nýju ári. Meira að segja bara degi síðar en á DR. Og á vef DR fann ég út að það er að koma ný sería þaðan, hefst í janúar svo nú eru laugardagskvöld frátekin danska sjónvarpinu. Þetta er krimmasería og heitir Forbrydelser. Gott að hafa eitthvað að hlakka til.

Desember á hraðleið

Desember þýtur hjá og ég er ekkert farin að koma mér að verki. Vissulega eru jólakortin klár til skrifta en ekkert farið að skrifa í þau enn, þó eiga tvö að fara til Danmerkur, og það er víst síðasti skiladagur í dag. Mér hefur bara ekki tekist að finna neinn jólaáhuga enda er desembermánuður með skrýtnasta móti, Sörubakstur féll niður, það var kannski aðallega átið á þeim sem kom mér í gott skap en síðan hef ég heldur ekki kennt í desember síðan 2001. Fjarkennslupróf og spóluverkefni hrynja inn, þeim hef ég líka alltaf getað sinnt á daginn en  svoleiðis lúxus er nú ekki til lengur.

Ég held að ég verði að fara að setja Palla og Móniku á og vona að það gerist eitthvað í kollinum á mér. Það eina sem gleður mann svona jólalega séð er Strumpan. Jólasveinninn lumar á ýmsu handa henni og það þarf ekki að vera mikið til að gleðja mann. Hann var reyndar býsna stórtækur í morgun og kom með nýja Barbapabbabók, hún hafði einmitt haft orð á því í gærkvöld að sig langaði svo í fleiri. Annars held ég að hún hafi nánast haft ör á sálinni svona framan af, allir í götunni öflugri í jólaskreytingum en við, sennilega hefur hún haldið að við værum í Vottunum eða eitthvað. Við bættum samt úr þessu og hentum seríum í gluggana í stofunni en það er svona varla að það dugi. Henni finnst líka ógurlega skrýtið að við eigum gamalt jólatré sem langafi bjó til og hún segist staðföst aldrei hafa séð það. Þó er það fyrir allra augum á neðri hæðinni.

Ég hlakka til næstu viku. Þriðjudagurinn fer meira og minna í jólastund hjá mér, ætli ég smelli ekki Kim Larsen á fóninn og spili Et barn er født i Bethlehem, hann fer svo vel með það. Síðan er ég búin að panta mér nudd, klippingu og plokkun svo þetta verða dekurdagar. Eina krísan í dekurspekúlasjóninni er hvort ég eigi að skoða jólaföt. Mig svona hálf langar í nýjan kjól… einhvern svona gamaldags sætan. En kannski ætti ég bara að draga upp gamla kjólinn hennar ömmu sem ég var í á árshátíðinni hér um árið?

PS Ég skrifaði langa og skemmtilega færslu á mánudag en einmitt á meðan datt ég út af þráðlausa netinu og allt hvarf. Þess vegna setti ég bara inn mynd frá Parken, GM er mér enn ofarlega í huga og það var einmitt mánuður frá tónleikunum.

Nú var gott að eiga súkkulaði

Maturinn í skólanum er alla jafna góður, oft einhverjir girnilegir grænmetisréttir, gjarnan eitthvað sem kemur ekki endilega við sögu á matmálstímum heima. En í dag varð heldur betur misbrestur á. Okkur var boðið upp á súpu, sem samanstóð af vatni, avókadó og cashew hnetum. Allt eitthvað sem er ágætt svona eitt og sér. En það kom sumsé í ljós að þessir hlutir ganga ekki saman ;). Sjaldan hef ég slíkt ómeti smakkað. Og eftirbragðið var ekki betra heldur en ámeðanbragðið svo ég gladdist mjög að luma á einu piparmyntubrauði. Er í þessum töluðu orðum að vinna að því að losna við óbragðið úr munninum. Átti það nota bene skilið, því ég kláraði heilan disk, Þorlákur sem stærði sig mjög af úthaldi langhlaupara gafst eftir 10 og hálfan kílómeter að eigin sögn og fór yfir í skyrið. En þetta var amk vinsælt umræðuefni og gaman að fylgjast með hinum borða.

Árshátíðarfærslan

Þá er fyrstu (eigum við ekki að vona að þær verði fleiri) kennslukonu-árshátíðinni minni lokið. Það er skemmst frá að segja að hún olli engum vonbrigðum. Fatakrísan endaði ágætlega, það er að segja, Filippa K komst utan um mig en reyndar var kjóllinn flegnari en mig minnti. Til að gæta alls velsæmis hafði ég sjal með, gladdist þó þegar kom á staðinn og sá að ég var ekki með lengstu brjóstaskoru kennslukvennanna. Maturinn kom á óvart – ótrúlegt en satt – að þessu sinni ekki boðið upp á moðsteikt lamb, heldur hlaðborð með hinu og þessu. Og dásamlegt að vera kennslukona og fá að fara strax að fá sér í gogginn, grey fyrstu bekkingar sem eru neðstir í goggunarröðinni máttu hafa sig alla við til að komast líka í ábót. Skemmtiatriðin voru mjög skemmtileg, alls kyns tónlistaratriði, dans og „MA skaupið“. Að ógleymdum öllum ræðunum, minni karla og kvenna, ræða skólameistara, formanns Hugins, heiðursgests (sem var Sigmundur Ernir, með MA-pepp-ræðu-ársins, það var vel smurt á hvað skólinn væri dásamlegur og reyndar, eins og rétt er, benti hann á að það væri nóg eftir enn – með hans orðum ‘you ain’t seen nothing yet’). Síðan var Jagúar að spila, weeelll, ekki alveg kannski við mitt hæfi. Ég dansaði smá með villtum samkennslukonum mínum í upphafi en eftir þrjú lög, sem voru öll eins, gafst ég upp. Hafði með naumindum sloppið við að gera mig að algjöru fífli, við dönsuðum nefnilega við sviðið, ég með rassinn í það og í stuðlaginu „Disco Diva“ ætlaði söngvarinn að fá góðar undirtektir og lætur hljóðnemann síga niður, beint fyrir framan munninn á mér. Blessunarlega var ég ekki að syngja með…

Við fórum heim um hálf eitt, hjónin, ljótt að segja frá því. Ég tímdi bara ekki að vera lengur á fótum af því að það var laufabrauð framundan næsta dag og mig langaði að ná að „sofa út“ eða amk eins mikið og hægt var.

Laufabrauðsgerð fór vel fram. Ég skar reyndar ekki út svo mikið sem eina köku, næ því væntanlega heima hjá tengdó. Mummi og Eyþór sáu alfarið um útskurð, Sóley fékk aðeins að prófa en var áhugasamari um að breiða út og fékk að grípa í það, var í raun alls ekki óefnileg við það. Við fórum svo í bæinn á eftir að fylgjast með upptendrun á jólatré, reyndum að mæta seint og síðar meir en það dugði ekki til, við þurftum að standa undir ræðum og alls kyns atriðum áður en aðalnúmerin mættu. Ótrúlega óbarnvæn dagskrá. Sennilega verið að venja börnin við leiðinlegar ræður strax. Strumpan var kát yfir þessu en komst svo sem ekki í neitt návígi við sveinkana. Hún hafði líka smá ranghugmyndir áður en við lögðum íann, var eiginlega sannfærð um að þeir myndu vera með pakka handa sér, það þurfti aðeins að draga úr væntingunum.

Horfðum svo í rólegheitum á mynd í gærkvöld, Kiss kiss bang bang, ágæta ræmu en skrýtna á köflum. Eilífar þakkir fyrir VOD – gott að þurfa ekki út úr húsi. DVD spilarinn nefnilega í fýlu yfir að það gleymdist að slökkva á honum á föstudag. Það fer illa í hann. Og illa í mig reyndar. Ömurlegar þessar nútíma græjur sem hafa líftíma upp á tvö ár eða eitthvað. Hann er sem sagt búinn að vera í þessu ástandi í svona eittoghálft til tvö ár. Ég auglýsi eftir laghentum raf-manni (sem hefur ekki svívirðilega mikið að gera) sem er til í að kíkja á gripinn. Það er nefnilega þannig að ef spilarinn fer, nýtast hátalarnir ekkert. Ógeðslega drasl.