Ebay

Ég hef hingað til verið svona ebay-virgin (sbr. wax virgin), frekar bara shoppaðígegnumjúessa dýrum dómum. En mér varð á, verð ég að segja, að fara inn á ebay til að skoða búninga af því að Strumpan hefur lýst miklum áhuga á að eiga alls kyns prinsessu og sollubúninga og ég veit ekki hvað og hvað. Og nema hvað, úrvalið er slíkt að það er afar auðvelt að missa sig… ég óttast að enda eins og Fjölnir minn góði vinur og þurfa sérherbergi í húsinu undir allt ebay-dótið mitt! Hvernig líf átti fólk fyrir daga netsins? Maður veltir því reglulega fyrir sér.

Aftur til viðtals

Þá er törninni lokið, svo ekki sé meira sagt. Búin að vinna eins og berserkur (er það ekki fallegra heldur en móðerfokker?) fram á síðast liðið föstudagskvöld! Svolítil pústpása í augnablikinu, fékk til dæmis eina fjóra tíma í vetrarfrí í gær 🙂 Annars var um ýmislegt annað að hugsa, ég er mikið að spá og spekúlera í Finnlands/Svíþjóðar/Danmerkurferðinni í sumar. Jei. Hún lofar nú þegar góðu. Við erum meira að segja búin að fá boð um að gista á Skagen í heila viku en ég ætla nú kannski að tóna það aðeins niður.

Annars fékk ég unaðslega nostalgíu í gær. Byrjaði nefnilega að horfa á 25 myndböndin, náði að horfa á Club Tropicana, Wake me up og fleiri góð og boy oh boy, var það gaman…

Lesandi

Mummi rakst á nýjustu bókina úr seríunni um hana Isabel Dalhousie (Sunday philosophy Club) á sunnudaginn og ég keypti mér hana umsvifalaust enda á ég fyrstu tvær. Þessi heitir The Right Attitude for Rain, minnir mig. Alexander McCall Smith er í miklu uppáhaldi hjá mér, við eigum alla Kvenspæjarastofuna á íslensku en ég keypti þessar á ensku af því að það var ekki byrjað að þýða þær. Maður hefur líka ansi hreint gott af því að lesa smá ensku (aðra en  Harry Potter) inni á milli íslenskunnar og dönskunnar svona til að halda sér örlítið við. Nema hvað, það er með þessar bækur eins og sumar aðrar að ég lendi í klemmu hvort ég á að lesa þær í einum rykk eða í smá bútum til að treina mér lesturinn. Ég er að ná einhverju millibili núna, les nánast á hverjum degi (eða kvöldi) og alltaf meira en ég ætla mér, svo ég fer alltaf seint að sofa, en næ samt að hemja mig að spretta ekki áfram. Þessi bók er amk ekki síðri en þær fyrri en sennilega ekki allra. Það gerist nefnilega ekki svo mikið í þeim, meira svona um spekúlasjónir. Það höfðar hins vegar ægilega til mín.

Annars gengur prófayfirferð hægt og illa. Það tók mig viku að fara yfir eina 2. bekkinn minn svo nú er ég í áhyggjukasti yfir öllum fimm 1. bekkjunum mínum. Ég er bara svo hryllilega löt á kvöldin. Horfði meira að segja á Golden Globe endursýnt á einhverri stöðinni á þriðjudag :S og hékk á netinu fram að House í gærkvöld. Mphr! Dagurinn í dag er að einhverju leyti helgaður bóndanum. Mætti seint og illa í dag til að geta borðað með honum morgunverð. En síðan verður tekið á því!

Síðan eru smá myndir hér í boði ljósmyndarans.

Sirkus í lagi

Ég er býsna ánægð með sjónvarpsstöðina Sirkus þessa dagana. Um síðustu helgi horfði ég á þátt(part) um Freddie Mercury og sömuleiðis part af Wembley tónleikunum og í gær sá ég megnið að tónleikum með Bon Jovi. U-umm. Get ekki sagt annað en að ég hefði viljað vera á staðnum, hann er ofarlega á lista yfir þá sem mig langar á tónleika með, þeas þá sem ég hef ekki séð áður. Svo er hann så söt, så söt, það er eiginlega óhugsandi annað en hann hafi splæst sér í einhverja sléttun, maðurinn er jú að verða 45 en hefur varla verið sætari (eða ég fílaði hann amk aldrei með síða hárið). Þetta var eitt allsherjar nostalgíukast og sum lög kann maður enn frá upphafi til enda (já those were the days) og alveg ljóst að það þyrfti að hafa gömlu söngfélagana með á tónleika. BON JOVI til Íslands. Við viljum VILKO.

Annars verð ég líka að nefna að krimmaklúbburinn frestaði Ævari Erni og horfði þess í stað á bíó – aðalspíran í klúbbnum keypti nefnilega myndina „Rokkað í Vittula“ eða Populärmusik i Vittula eins og hún heitir. Hún er alveg dásamleg, það eina sem skemmdi upplifunina var að sænskan mín var ekki alveg að koma sterk inn þegar var enginn texti svo partar af myndinni fóru fyrir ofan garð og neðan. En ég reddaði því, fékk hana nefnilega lánaða og nú verður horft með undirtextum og Mummi píndur í að horfa – hann þurfti nefnilega að hlusta reglulega á upplestur úr bókinni þegar ég gat ekki hamið kæti mína.

Gleymdi einu…

…afar mikilvægu! Haldiði ekki að ég sé á leiðinni (með fríðu föruneyti, vinum og fjölskyldu) á tónleika með Lisu Ekdahl á Græna hattinum í byrjun mars. Lýsi eftir diskum til láns eða gjafar, ég þarf víst að hita upp (eða æfa mig, ég hef eiginlega ekkert hlustað á hana, nema oggolitla tóndæmið sem Hanna spilaði fyrir mig þar sem hún söng með vini mínum Lars Hug.) Ég er hins vegar viss um að þetta verður gaman, hingað til hefur ekkert klikkað í Grænu tónleikaröðinni.

Gleðilegt bloggár !

Jamm maður byrjar aldeilis af krafti að blogga. Svona getur þetta verið. Eins gott að áramótaheitið í ár var ekki að vera duglegri að skrifa.

Eftir svona langar bloggpásur er erfitt að skrifa færslur því það er svo margt að segja að maður endar í einhverju rugli en það er nánast vonlaust að takmarka sig og fara að skrifa bara um eitthvað eitt.

Það er sumsé allt með kyrrum kjörum. Kennslu haustannar lauk í gær og það er ekki lítið gott að vita að það eru „bara“ próf og yfirferð næstu tvær vikur eða svo. Þetta á allt eftir að líða með ógnarhraða. Veitir nú ekki af, stúfan telur nánast dagana þangað til hún verður fjögurra ára. Það er alltaf þessi eini dagur á árinu sem hefur svo mikið að segja um þroskann – en greyin, hvað eiga þau að halda þegar er alltaf sagt, þú ert nú orðin þriggja.. eða hvað það nú er. Það var fyrsta sund vorannar í gær hjá henni. Gott að byrja aftur þvi ekki hefur framtakssemin verið slík hjá foreldrunum að þau hafi drifið sig í sund um jólin. Onei.