Leiðindavika

Þessi vika, sem stefndi í óefni með vegna mikilla anna á útstáelsis-sviðinu, varð heldur betur öðru vísi en áætlað var. Á mánudag tóku feðginin upp á því, nánast á sömu mínútunni að veikjast. Mummi labbaði heim um hádegisbilið og Sóley var sótt um kaffileytið. Heilsufarið var svo lélegt að ég þurfti að vera heima á þriðjudag til að hjúkra báðum. Það bráði reyndar fyrr af Strumpunni, hún tók mánudag og þriðjudag í þetta, strax á miðvikudag var heilsan öll að koma til og hún var alveg hitalaus í gær. Mummi hefur hins vegar ekki séð til sólar nema svona útundan sér út um stofugluggann, þar sem hann neyddist til að halda til á miðvikudag og fimmtudag til að hafa Strumpuna sem mest til friðs yfir sjónvarpinu…. Já, uppeldið fer aldeilis í vaskinn við svona kringumstæður.

Við áttum síðan að vera í leikhúsi í gær en frestuðum því svo Mummi gæti farið með (án þess að hósta leikendur í kaf) en í staðinn fór ég á fatakynningu hjá Arnheiði. Síðan hófst páskaleyfið mitt, einum degi fyrr en til stóð reyndar, Mummi pikkaði í mig kl 8.04 í morgun og spurði hvort ég væri ekki að sofa yfir mig. Argh. Svo hann neyddist til að harka af sér og fara með fröken í leikskólann og ég náði svona nokkurn veginn að mæta á réttum tíma til kennslu.

Í kvöld er partý hjá einum samkennara mínum sem við höfðum bæði ætlað í en ég sé nú ekki fram á það, enda er ég svo sem ekki í miklu partýstuði en ætli ég líti ekki inn. Á morgun er síðan djamm með Round Table, það er ekki einleikið hvað sumar vikur verða pakkaðar. Ég var eiginlega bara fegin að fresta leikhúsinu til að minnka aðeins álagið. Hef ekkert verið heima á kvöldin heldur, bara hent Strumpu í rúmið, farið í gönguferð og svo í vinnuna, til að koma ákveðnum verkefnum til nemenda fyrir páskafrí. Sem btw er þá formlega að hefjast eftir tvær kennslustundir eða svo… 🙂

Það má alltaf vona…

Strumpan kom inn korter yfir sex í morgun og tilkynnti okkur það að hún ætti afmæli í dag :). Foreldrarnir voru ekki alveg sannfærðir en sú stutta fullyrti að ég hefði verið að segja það við hana áðan… Hún var tekin upp í og bæld niður aftur og minntist ekki orði á afmæli í vöknun tvö en kom reyndar með smá pælingar á leiðinni í leikskólann hvort það væri mjög langt í næsta afmæli. Ja, það sem tíminn líður stundum hægt.

Annars átti ég smá menningarmóment í gær. Fór á framhaldstónleika (skil nú ekki með þetta nafn samt) hjá gömlu fósturbarni Önnu systur, hún Þóra Kristín var sem sagt með píanótónleika. Það var gaman, stúlkan sú orðin svo sæt (alveg í takt við gömlu prinsessudraumana) og spilaði eins og engill eftir smá byrjunarörðugleika. Ég fór með Auði sem er náttúrulega í þessari fjölskyldu, hún kom síðan með mér í mat heim. Við erum búin að uppgötva nýjan ís, „þökk“ sé Ármanni og Hönnu sem buðu okkur í mat um síðustu helgi. Bónus, af öllum, er sem sagt farin að selja annars vegar jógúrtís og hins vegar gelato og þeir eru hvor öðrum betri. Við gerðum okkur sérstaka ferð í Bónus til að kaupa smakk, keyptum jarðarberjajógúrtís og piparmyntugelato… U-um-umm. Að auki fann ég í Bónus svona pakka með litlum Lakkrísdraumum, ég sem er einmitt á Lakkrísdraumaskeiðinu núna og hafði einmitt verið að spá í því hvort þeir ætluðu nú ekki að fara að setja svoleiðis á markað! Þessi helgi var sem sagt ekki til færri kílóa nema síður sé.

Söngkeppni MA

Söngkeppnin var haldin í gær og hún er orðin svo stór í sniðum að hún var haldin í KA heimilinu. Ég fór með ÖnnuPönnufrönskukennara og við vorum mættar vel tímanlega til að tryggja okkur góð sæti. Vorum með þeim fyrstu í hús og sátum á þriðja bekk og gátum fylgst vel með öllu. Það er alltaf gaman að sjá nýjar hliðar á nemendum sínum, af 22 atriðum var um þriðjungur með gömlum og nýjum nemendum mínum. Ein náði að koma mér algjörlega á óvart. Sú er frænka mín í þriðja lið, heitir Þórunn Rögnvaldsdóttir og ég kenndi henni eina fimm tíma í vor í afleysingum. Þá fór afskaplega lítið fyrir henni en þarna kom fram eitthvert alter-egó, dúndur rokkgella, með þrusurödd og sviðsframkomuna alveg á hreinu. Ég gapti hreinlega af undrum. Því miður var hún ekki í efstu sætunum en örugglega næst inn og ég vona að hún eigi eftir að taka þetta einhvern daginn, hún er nefnilega bara í 2. bekk.

Annars verð ég að láta smá skúringafréttir með í dag. Eygló bloggaði nefnilega um skúringar um daginn og ég kommentaði hjá henni um að ég væri komin með nýja ofurskúringagræju, þar sem maður setur vatnið í skaftið og svo sprautar maður á gólfið. Nema hvað, það er bara allt annað að skúra þegar maður hefur tæknina með sér og til marks um það þá skúraði ég í gær, jamm bara sisona á fimmtudagseftirmiðdegi, og það voru bara liðnar tvær vikur síðan ég skúraði síðast. Ég slít örugglega parketinu með þessu þrifæði. Því miður bera kettirnir takmarkaða virðingu fyrir þrifunum, það eru strax komin kattaspor á gólfið og í morgun voru komnar tvær grasælur, þar af þurfti ég að sjálfsögðu að finna aðra með því að stíga í hana 🙁

Pakkahátíðin mikla

Það voru heldur betur að berast pakkar til Strumpu í marga daga. Síðast í gær fór ég á pósthús og náði í sendingu frá frænkunum í Reykjavík. Sú stutta fór í ofur væmna kastið þegar hún opnaði og sá dúkkuna og skartið sem kom úr pakkanum. Hún á þetta til með dúkkur, dýr og lítil börn, að verða svona líka væmin. Allir pakkar hafa vakið mikla lukku, reyndar var hún tekin í bakaríið um jólin eftir að einhver pakki hafði verið afar ómerkilegur að hennar meiningu. En til marks um alla lukkuna, þá töfrar hún núna við öll tækifæri með nýja töfrasprotanum, þurfti meira að segja að sofa með hann uppi í rúmi fyrstu nóttina og ég rétt náði að stöðva það að hún svæfi með vængina á bakinu!

Ein kisusaga að lokum. Prins Valíant er svo fínn með sig að glugginn sem þeir nota sem flóttaleið frá húsinu dugar ekki sem innkomuleið líka. Kannski er erfiðara fyrir stóra gamla hjassa að troðast inn en út. Sem betur fer hefur hann fundið nýja leið. Á afmælisdaginn reyndi hann að nýta sér þann möguleikann óspart vegna þess að honum var úthýst vegna kökuhlaðborðsins.  Hann stekkur nefnilega upp á gluggasyllu á litla eldhúsglugganum sem er við útidyrnar og þar sem það er hleri í gluggakistunni, þarf hann að standa á afturfótunum svo hann sjáist. Ef enginn tekur eftir honum þar, þá bankar hann með framfætinum. Þetta þótti ógurlega fyndið í afmælinu, örvæntingafulli bankandi kötturinn :).

Hún á ammælídag

Vöktum Strumpu upp með söng í morgun. Sjaldan hefur hún verið jafn fljót að rísa upp og vakna, sérstaklega með tilliti til þess að augun voru lengi að leggjast aftur í gær. Hún tók síðan upp pakka (í fleirtölu) frá Svíþjóð við mikla lukku. Sérstaklega held ég að henni finnist fallega hugsað að senda sér nammi og hugsar sér gott til glóðarinnar að smakka á því. Enn hefur enginn sagt henni að sænskt nammi sé yfirleitt ekki gott (svona eins og danskt nammi). Gjafaþemað var útvíkkað úr Mjallhvítarþema í prinsessuþema, því hún fékk bæði litabók með prinsessum og púsl með öskubusku. Að auki fékk hún fiðrildi og töfrasprota (eða þannig túlkaði hún vængina sem voru í pakkanum með töfrasprotanum). Að upptekt lokinni var hún mæld og sjá!, hún hafði stækkað í nótt. Hún fór alsæl í leikskólann með þessar fréttir, hvort mælingarnar voru nákvæmar kemur líklegast í ljós á fimmtudag, amk var hún akkúrat mæld í gær á leikskólanum og við fáum örugglega niðurstöðurnar í foreldraviðtali sem við förum í . Hún verður síðan sótt snemma í dag því við ætlum að taka á móti fleiri gestum og þurfum að ná því fyrir sund.

Að lokinni afmælishátíð

Já, það er ekki laust við að fólkið á bænum sé þreytt. Ja, allir nema heimasætan, that is. Fröken sofnaði seint og síðar meir um tíu leytið og þá var gamla settið búið að geispa í klukkutíma og bóndinn (sem er reyndar lasinn) búinn að fá sér lúr. Öll erum við samt sæl eftir daginn, því hér fór allt vel fram. Við bökuðum allar uppáhalds kökurnar okkar og þær kláruðust hérumbil alveg, nú, Strumpan fékk margt góðra gjafa og var nú býsna dugleg að muna að þakka fyrir sig. Hún á enn tvo pakka til góða sem verða geymdir fram á þriðjudag, annars vegar frá Svíþjóð og hins vegar frá Gylfa afa og Öddu ömmu. Ég get ekki verið annað en sátt við viðbrögðin við ebay gjöfinni góðu. Ekki nóg með að Strumpa hafi verið orðlaus í morgun, hún vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og lenti í þvílíkum valkvíða að máta. Búningar slógu nefnilega þvílíkt í gegn í afmælinu og var mikil tískusýning og frændsystkinin treg í taumi að fara heim. Þema dagsins var Mjallhvít. Ekki nóg með að maður fengi búning heldur fékk hún líka púsl, bók og mynd. Skemmtileg tilviljun.

Annars er ljómandi gott að alvöru afmælið er á þriðjudaginn. Þá er tómleikinn hjá henni ekki eins algjör eftir veisluna. Við fáum líka gesti þá og svo er Eyþór væntanlegur í gistingu þessa vikuna. Um nóg að hugsa.

Síðan verð ég að láta það fljóta með að ég fór á spilakvöld með U-30 kennurum á föstudagskvöld. Fyrir þá sem ekki átta sig á, þá stendur þetta fyrir undir 30 🙂  Ég fæ náðarsamlegast að fljóta með. Kannski ég bjóði þeim heim næst til að tryggja mig enn frekar í sessi. Ég passaði mig á að vinna ekki (þurfti að vanda mig sérstaklega…) og teiknaði og lék alltaf illa til að sýna ekki yfirburðahæfileika mína. Ég meina, ég var í LMA!

Rétt si sona

Heimilislífið markast þessa dagana afar mikið af væntanlegu afmæli sem haldið verður upp á næsta sunnudag. Stefnir í metfjölda þátttakenda, þrátt fyrir að Svíþjóðarslegtið sjái sér ekki fært að koma. Þau fengu annars gott boð á sunnudag og var bent á að flugvélar væru fundnar upp þegar þau færðust undan! Stúfan náði sér aftur á strik þegar hún frétti af því að það væri væntanlegur pakki í pósti.

Ég humma það samt fram af mér eins lengi og ég get að hóa í barnaafmæli. Er á meðan er. Sóleyju fannst nú aldeilis kjörið að fá einhverjar leikskólavinkonur en blessunarlega er afmælishrúga um helgina og í næstu viku, heilar fjórar dömur að fagna the big four, svo ég sagði henni, sem satt er, að vinkonurnar yrðu nú mikið uppteknar í eigin veisluhöldum.

Annars var leshringur í gærkvöld. Fámennt og menn mismikið lesnir, þar á meðal ég. Við áttum að lesa bókina Atburðir við vatn, eftir Kerstin Ekman. Hún er bara svo lítið grípandi að ég hef lítið haft mig áfram. Gerði að auki smá feil, fór nefnilega að lesa Sendiherrann eftir Braga Ólafsson – hina margrómuðu. Sú var nú aldeilis ekki að ná til mín. Bæði gerðist lítið og svo vakti aðalpersónan engan áhuga hjá mér. Þannig að ég gafst upp í miðjum klíðum, eða ákvað öllu heldur að tíma mínum væri betur varið í eitthvað annað. Frekar les ég góðar bækur oft en lélega bók einu sinni. Jæja, en þrátt fyrir að ég væri ekki full-lesin þá urðu umræður afskaplega skemmtilegar og sannast þá hið fornkveðna að bækur þurfa ekki að vera skemmtilegar til þess að það sé hægt að ræða þær. Við lögðumst í alls kyns pælingar um persónur og ekki síst staðhætti, því sagan gerist í smábæ í N-Svíþjóð. Afar áhugavert. Reyndar hafði leshringurinn fórnarkostnað í för með sér. Í skólanum var nefnilega fyrirlestur um Finnland fyrir utanfarana og var gerður mjög góður rómur að. Týpískt, maður er bókaður tvö kvöld í mánuði, að jafnaði og það hittir annað á einmitt þau kvöld!

Krísa

Það er komin upp stór krísa. GM er nefnilega með tónleika aftur í sumar. Og júhú, reyndar í Helsinki á meðan ég er þar… það gerist ekki betra. Nema að ég vil auðvitað hafa Önnu Steinu með mér. Það eru hins vegar tónleikar í Stokkhólmi nokkrum dögum fyrr. Þá er AS með strumpuna í pössun (og eins og hún benti á er því miður 13 ára aldurstakmark, það er ekki seinna vænna en að hefja tónlistaruppeldið). Þannig að þó við förum yfir, þá er strumpan munaðarlaus. Er einhver á leið til Stokkhólms 29. júní sem getur passað hana í nokkra klukkutíma 😉

Full mikið félagslíf

Það er ekki þverfótað fyrir félagslífi þessa dagana. Ekki nóg að maður sé búinn að fara vikulega að hlusta á fyrirlestra með tilheyrandi pössun, heldur eru föstudagskvöldin núna undirlögð. Síðast var það árshátíð hjá vinnunni hans Mumma, haldin í Gamla Lundi. Mjög gaman en frekar voru nú skötuhjúin róleg í tíðinni, komin heim um hálf eitt. Annað kvöld er hvorki meira né minna en þrennt í boði. Það er reyndar bara eitt sem kemur til greina, því nú er komin að tónleikunum með Lisu Ekdahl. Þar af leiðandi missi ég af Gettu betur, MA á móti Versló, sem verður sent út beint frá Íþróttahöllinni. Ég er frekar leið yfir því, enda á ég sælar minningar síðan við tókum VMA í nefið hér í gamla daga. Að auki stendur mér til boða að fara í partý til Auðar. Svona er þetta alltaf.

Annars standa mér líka ferðalög til útlanda í boði. Jamm. Ég má fara til Rhodos í tvær vikur í haust. Eini böggullinn sem fylgir því skammrifi eru svona eins og 100 snarvilltir 19 ára unglingar. Svo ég bauð mig ekki fram. Maybe next year, sérstaklega ef það verður boðið upp á örlítið meira spennandi stað.