Gáfulegir prestar

Það er sjaldan að ég finn mig knúna til að tjá mig um landsmálin en nú verð ég aðeins að leggja orð í belg. Ég beið talsvert spennt eftir að sjá hvaða meðferð tillaga prestanna fjörtíuogeitthvað fengi á prestastefnu, ekki það að ég hafi verið bjartsýn, en þetta var amk skref í rétta átt. Nema hvað, útkoman var svo slæm að það voru ekki einu sinni 40 atkvæði með tillögunni!! Merkilegt miðað við orð prestsonar nokkurs sem kom á Vantrúar-fundinn hér í MA, en hann vildi meina að það væru svona ÞRÍR prestar á öllu landinu á móti samkynhneigðum sem hafa þá heldur betur náð að sannfæra starfsbræður sína. Það er svo vitað mál að biskupnum verður ekki haggað og hann á eftir að halda kirkjunni í gíslingu á meðan hann er við völd.

Inför ESC

Það þarf ekkert að orðlengja það að föstudagskvöld eru orðin sparikvöld vikunnar þar sem ég horfi glöð á norrænu vini mína (en sakna þó Josteins sárt). Ég held bókhald yfir lögin en er ekki enn búin að ákveða hvort ég setji athugasemdir mínar á bloggið. Er samt í stressi yfir næstkomandi föstudagskvöldi – verð nefnilega í Rvík ef allt gengur að óskum. Óska hér með eftir heimboði þar sem fyrst er horft á Inför ESC og síðan á Survivor… 🙂  Nú, í leiðinni óska ég eftir frjálsum framlögum í samferðamenn til Þorlákshafnar, ég reikna amk með að fara þangað (eftir samráð við húsráðendur að Reykjabraut, að sjálfsögðu) og ef einhverjir vilja með þá er það velkomið.

Annars verð ég bara að monta mig, ef þetta er ekki vettvangurinn til þess, hvað þá (þeir sem ekki þola mont geta þá bara hætt að lesa hér 😉 Að þessu sinni er það ekki Strumpumont heldur hlaup-mont. Ég hljóp nefnilega áðan svona eins og rúmlega sex kílómetra (þarf að rúnta og mæla nákvæmlega) sem er það lengsta sem ég hef hlaupið síðan í Akureyrarhlaupinu. Enda var ég þreytt. Úffúff.

Sit svo núna og fer yfir ritgerðir, næstum því ekki minna afrek, nema hvað ég geri þetta ekki sjálfviljug heldur neyðist ég til þess en hins vegar er ég búin að humma það ansi lengi fram af mér. Jamm þetta er dagur sjálfsagans!

PS Ég er lukkuleg yfir nýju dönsku prinsessunni. Sú hlýtur að verða sæt með þessa huggulegu foreldra.

Bloggað á ný

Það er ekki að spyrja að mér, ég dey alltaf tímabundnum bloggdauða þegar ég fer í frí. Ég hafði samt frá nægu að segja, leikhúsferð, gönguferð dauðans, partýum og fleiru. En það yrði bara svo ógurlega langt og mikið mál, svo það kemur ekki. Hringið bara ef þið eruð ógurlega spennt að heyra af þessu. Páskarnir voru sem sagt eins og páskar eiga að vera. Mikið spilað, lesið, sofið og borðað, sem og samvistast við vini og ættingja. Ég er orðinn betri pókerspilari eftir stranga spilamennsku, það var líka gripið í önnur spil á milli. Ég las tvær bækur (á ensku!), önnur heitir 31 Dream Street og hin heitir A spot of bother – eftir baukinn sem skrifaði A curious incident of a dog… Báðar alveg þrælfínar og ég afar lukkuleg með enskulesturinn. Ég las meira að segja iðulega fram á nætur.

Strumpan er alltaf kát. Fer líklegast í nýjan sundhóp eftir viku, fær þá að vera án okkar í sundi. Við hjónin hlökkum til að sjá hvernig það kemur út, ekki það að þetta er indæl samverustund en verður fróðlegt að sjá hvort hún tekur ekki framförum. Hún sat í tölvunni í gær og skrifaði alveg sjálf. Ekkert smá krúttlegt „jónguðmundrsdefánsson“ 🙂 Maður er alveg rígmontinn….

Síðan er það bara EikiHauks og có á föstudagskvöld. Ég er búin að bíða eftir norrænu spekingunum síðan í fyrra, svei mér ef þeir eru ekki skemmtilegri en sjálf keppnin.