Selurinn

Það bregst nánast ekki að þegar ég sit í eldhúsinu og fer yfir verkefni þá kemur Selurinn, leggst yfir pappírana mína og vill fá athygli og knús. (Fyrir þá sem ekki vita þá er Selurinn yngsti köttur heimilisins, gengur stundum undir nafninu Úlfur). Sem ég sat á þriðjudagskvöld og fór yfir ritgerðir þá kom hann og var í þvílíku gæðaskapi. Ég veitti honum talsverða athygli og við náðum svo samkomulagi um að hann fengi að liggja ofan á yfirförðu ritgerðunum og þvo sér en ég fengi að halda áfram í óunna bunkanum. Þetta gekk vel þangað til Selurinn flutti sig til og ég sá torkennilegan blett á efstu ritgerðinni. Við lyktarskönnun kom í ljós frekar úldin fýla sem hlýtur að hafa komið frá drengnum í þvotti. Ég skilaði ritgerðinni í dag en sem betur fer gekk úldna ritgerðin ekki út, eigandinn var ekki mættur. Enda – hvað á maður að segja? Kötturinn minn missti út sér á ritgerðina þína, sorrý?

Sem við Úlfur Selur áttum þessa góðu stund okkar, áður en ég fór í fýlu – bókstaflega – varð mér hugsað til þess að það eru ákveðin líkindi milli katta og eigenda. Þannig erum við Úlfur par. Erum vel í holdum, þrátt fyrir að borða nokkuð reglulega og oft eitthvað hollt, og stundum þó nokkra útivist. Mummi og Prinsi eru par, þeir hafa smá auka hold en ekkert ótæpilegt. Þeir borða hins vegar meira heldur en sest utan á þá, þrátt fyrir að stunda frekar takmarkaða hreyfingu og alls ekki markvissa. Strumpa og Skessa eru síðan þær penu. Borða mikið þegar vel liggur á þeim og eru reglulega í útivist en eru frekar of penar en hitt.

Nágrannapólítík

Já, það er gaman að samsæriskenningunum. Þegar rýnt er í stigin sem Eiríkur fékk kemur í ljós að af þessum 77 eru 46 stig frá norrænu vinum okkar og 17 til viðbótar frá Eystrasaltslöndunum. Það er vel af sér vikið hjá þjóð sem á ekki landamæri að öðrum. Við erum best! Svo verður þetta snilldar forkeppni á næsta ári. Það verða bara vinir okkar úr Vestur-Evrópu þar – garanterað gott gengi 😉

Svo lítill tími…

… og mikið að blogga!

-Ég er í fýlu við Sigmar! Líkur George Michael hvað? Wannabe-inn mætti prísa sig sælan að hafa litlafingurinn svipaðan og lillaputta á GM…. langt í land…

-Sátt við Eika, að mestu sátt við úrslitin, hafði 60% rétt fyrir mér. Líst afar vel á Ungverjaólánskonunu og Trukkalessuna frá Serbíu.

-Forrest Gump sneri aftur á mánudag, hljóp 4 km á nýju meti, rúmlega 25 mínútum og í gær 5 kílómetra á ögn síðri tíma, enda mótvindur í upphafi sem setti strik í reikninginn.

-Sótti um Suzuki-nám fyrir Strumpu næsta vetur.

-Náði nýjum hæðum um síðustu helgi, þegar í ljós kom týnda handavinnugenið, ég þæfði þetta líka fína ullarstykki, á eftir að ákveða í hvað það brúkast (eða hvort það fer bara beint upp á vegg) og fann auk þess golfleikarann minn, lék púttvöll á aðeins 12 yfir pari!

-Og hversu glatað er það að sitja yfir fjarkennslu klukkan hálf ellefu á föstudagskvöldi? Eigðu þér líf kona!

-Lýsi eftir flokki. Hann má vera með góð málefni (betri – en ekki styttri – framhaldsskóla) og vönduðu fólki á lista. Eitt atkvæði fæst á góðum prís.

Þetta verður að fá að flakka…

Gat ekki á mér setið að taka þetta próf og fannst niðurstaðan fyndin 🙂 Bróðir og mágkona eru kannski að verða búin að heilaþvo mig!

Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 0%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 30%
Stuðningur við Samfylkinguna: 37.5%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 56.25%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 19%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 40%

Skoðanir þínar eru í mestu samræmi við skoðanir Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs!

 

                                                    

Draumur á Jónsmessunótt

Þar sem ég var svo séð að taka forskot á sæluna í gærkvöld og horfa á Inför ESC þá hef ég smá stund aflögu núna til að deila með ykkur skemmtilegri leikhúsferð minni í gær. Þannig er að LMA (Leikfélag Menntaskólans) setti upp Draum á Jónsmessunótt – óskiljanlegt í ljósi þess að þetta sama leikfélag setti þetta sama verk upp fyrir nokkrum árum, og þá með undirritaða í einu af burðarhlutverkinu. Vissulega er verkið gott og með mörgum safaríkum hlutverkum en viðbúið að ekki sé hlaupið að því að slá út fyrri uppsetningunni sem var með því flottasta sem sést hafði. Gott og vel, ég ákvað að gefa þessu séns og bauð Elísu sérstaklega með, sem einmitt var á sínum tíma í álíka stóru og bitastæðu hlutverki og ég. Við tókum alla stórfjölskylduna okkar með til að geta leyft þeim að ganga veg minninganna með okkur. Sóley búin að lofa hátíðlega að hún réði vel við að fara í fullorðinsleikhús, ég búin að komast að því að sýningin var bara 70 mínútur og hægt að hafa Mumma í viðbragðsstöðu til að yfirgefa svæðið ef unginn stæði ekki við fögur fyrirheit. Gaman að því að sýningin leitaði mjög á mig síðustu nætur og dreymdi mig iðulega að þetta yrði ömurlegt flopp. Afar Shakespeareish 😉

Kvöldið reyndist síðan vel heppnað. Ég gróf upp handritið og rifjaði upp nokkrar gullvægar setningar (þessi hundur hundurinn minn….) og söng lagið góða (járntunga næturinnar taldi tólf… höfundur þess er víst í Ljótu hálfvitunum núna) og svo fórum við öll. Sýningin var síðan vonum framar og slagaði hátt í fyrri uppsetningu. Var jafnvel að sumu leyti fremri, greinilega meira splæst í búninga (álfarnir til dæmis í akrýldúk – vá hvað Rúmfó hefur breytt miklu) og tónlistin kannski svolítið fágaðri, strengir og svona. En hins vegar hafði leikstjórinn gert nokkrar breytingar sem ekki féllu mér í geð (!), meðal annars fellt út línuna góðu með hundinn, nú og fært mál handverksmannanna til nútímans (kúl…) og bætt inn söngkonu í handverksmannaleikritið. Allar mínar athugasemdir beinast því að leikstjóranum (Guðjóni Karli) en ekki að leiknum. Mér fannst krakkarnir æðislegir, ég átti meira að segja smá í þeim nokkrum og ótrúlega gaman að rifja þetta upp. Strumpan var nokkurn veginn til fyrirmyndar (hvíslaði dálítið mikið en ég held ekki að það hafi truflað nema smá radíus í kringum okkur) og er því komin aðeins lengra í menningaruppeldinu.

PS Mér finnst lögin frá Svíþjóð og Finnlandi ekkert spes en alveg geggjaðir flytjendur. Hlakka þvílíkt til veislunnar í næstu viku.