Sögulegar mælingar

Það vantar ekki að þessi vika ætlar að verða vika hinna sögulegu mælinga. Fór nefnilega í ræktina (í tíma altså) í gærmorgun kl. 6.10 – sem er auðvitað afrek, það vita þeir sem þekkja mínar svefnvenjur. Ég forðaðist vigtina eins og heitan eldinn, engin ástæða til að mæla sig á fimmtudegi þegar maður á eftir sukk á föstudegi og laugardegi. Hins vegar er hægt að hæðarmæla sig líka og hafandi heyrt að maður sé extra hár að morgni ákvað ég að skoða hvað ég mældist. Það var sem betur fer mjög upplífgandi, ég reyndist hér um bil 1.70 eða einum og hálfum sentimeter hærri en fyrri mælingar hafa sýnt. Þetta var nú hressandi niðurstaða.

Annars er ég afmælisbarn dagsins. Ég á afmælídag, ég á afmælídag, ég á afmælialvegsjálf, ég á afmælídag. Búin að fá mér að borða á Friðriki V. í tilefni dagsins, reyndar bara í hádegissjoppunni hans en samt…

Fitubolla er fædd

Gærdagurinn var frekar vondur. Fór sem sagt í fyrsta tíma í fitubollustríðinu og í mælingu á undan og þar sáust áður óþekktar tölur. Ég er sem sagt orðin 100 grömmum þyngri en við síðustu hámarksþyngd, í mars 2004 – og það sem verra er að þrátt fyrir að vera í MIKLU betra formi þá er fituprósentan mín enn hærri en hún var þá. Búhúhú. Í samræmi við  betra form reyndist tíminn fitubollunni frekar auðveldur, en það má kannski fylgja sögunni að hann var ekkert sérstaklega erfiður. Fitubollan fór svo út í dag og hljóp smá. Nú er bara spurning hvaða markmið maður á að setja… þessi prósenta verður amk að lækka.

Annars er afmælisbarn dagsins hún systir mín. Til hamingju með daginn, hringi í kvöld 🙂 .

Akureyrarhlaup

Þegar ég fór á hlaupanámskeið í vor var meiningin alltaf að vera tímanlega í undirbúningi fyrir Akureyrarhlaupið svo maður gæti kannski stefnt að betri tíma (nú eða vera ekki síðust í mark 🙂 ) en undir lok námskeiðs var ég farin að finna fyrir verkjum í sköflungum eða þar um bil. Þetta heitir eitthvað sem ég man ekki í bili. Þess vegna varð síðasta vikan léleg en ég hélt að utanlandsferðin myndi lækna öll mín mein. Því var öðru nær því strax í upphafi ferðar var ég komin með asnalegan pirring í hægri fótinn og var meira og minna hölt alla ferð. Fljótlega eftir heimkomu fór ég á íbúfenkúr sem lagaði þetta býsna vel. Þá ákvað ég að láta reyna á frekari hlaup, enda alltaf með Akureyrarhlaupið í kollinum. Nú er ég búin að hlaupa þrisvar, fóturinn böggar mig aðeins en ég nenni ekki að láta hann stöðva mig. Áðan tók ég ágætan hring, svona sirka 7 kílómetra og sá að þetta væri býsna vænlegt til að hafa 10 kílómetrana af (sjáum til með tíma…) en þá rifjaðist upp fyrir mér að ég á víst að vera á námskeiði frá 9 til 15.30 þennan laugardag 🙁 . Sem þýðir að það er bara eitt í stöðunni – ég mæti í hlaupafötunum á námskeið og sting svo af til að hlaupa. Við tungumálakennararnir verðum sem sagt í einhverju lotunámi í vetur og það hittir akkúrat á þessa helgi. Bwahh.

Það er líka í fréttum að ég er búin að skrá mig á aðhaldsnámskeið á Bjargi í 14 vikur, byrjar á mánudag. Nú á að endurheimta árans fataskápinn! Að minnsta kosti einhvern hluta hans.

Stórtónleikar

Sit fyrir framan sjónvarpið og nýt þess að hafa beina útsendingu frá Laugardalsvelli. Í augnablikinu eru Todmobil að spila og þetta er afar spes. Ég skil reyndar ekkert hvað þau eru að gera þarna því kombakkið þeirra hefur verið frekar dapurt. Samt spila þau í raun og veru ágætlega og það vantar ekkert upp á röddina hjá Andreu – hún rokkar feitt. Ég er þó ekki alveg að fyrirgefa henni tannviðgerðina… finnst hún hafa misst aðeins af persónuleikanum. Svo er skrýtið að horfa á Eyþór, hann syngur svo sem bærilega og hamast á sellóinu og er þrátt fyrir allt betri rokkari en pólítíkus, en sumt er geymt en ekki gleymt. Snillingur sviðsins er Óli minn Hólm sem spilar enn glaður á trommur en væri líklega glaðari með Nýdönsk. Ekki virðast þau ná miklu sambandi við tónleikagestina, meira að segja Helgi Björns tók það bara eins og í gamla daga, í raun alveg lygilegt hvað hann komst upp með að vera gömul stjarna – hann meikaði það en þau ekki.

Verð að kommenta líka á Luxor, þeir voru alveg ógurlega sætir (nema sá sem var svona Steve Buscemi lookalike) og sungu eins og englar, allt eins og það átti að vera. Ætli markhópurinn verði húsmæður eins og raunin er með Garðar Thór eða ætli eigi að reyna með þá eitthvað neðar?

Kjánahrollur kvöldsins so far er Nylon, er samt skeptísk á Bo…

Ástarsamband

Ég er algjörlega fallin fyrir Alexander McCall Smith!! Það virðist vera sama hvað maðurinn skrifar, ég er alltaf jafn hrifin. Gerði reyndar þau mistök á sínum tíma að kaupa Kvenspæjarastofuna á íslensku svo nú þarf maður alltaf að bíða eftir þýðingum en sem betur fer keypti ég Sunday Philosophy Club á ensku, þá þarf maður bara að bíða eftir honum sjálfum. Og það er sko engin Rowling-bið, maðurinn ryður bókunum upp úr sér. Ég fer að halda að hann hafi her manns í því að skrifa undir sínu nafni… hvað á maður að halda? Það er væntanleg ný um Isobel fljótlega en á meðan ég bíð er ég að lesa 44 Scotland Street seríuna, er sem betur fer nýbúin að uppgötva hana og er bara í Espresso Tales í augnablikinu og á því eina enn inni – nú og svo er ný á leiðinni líka. Ég er alltaf hrædd við að verða fyrir vonbrigðum þegar ég byrja á nýrri seríu eftir hann, þess vegna beið nú Scotland Street óvenju lengi en ég held að ég fari bara að treysta á okkar góða samband. Mig dreymdi hann meira að segja um daginn, þá var hann (eða reyndar hún í draumnum) að árita bækur og það vildi svo vel til að ég var með Scotland Street á mér, en þegar til kom fann ég hana ekki. Annars er bara nóg að gera í lestri. Ég keypti mér ansi margar bækur í útlandinu og smá geng á staflann – eins gott að vera í fríi. Og svo uppgötvuðum við mæðgur hana Fíusól, sem ég keypti handa henni fyrir sunnan. Það er skemmst frá að segja að við kláruðum bókina á tveimur dögum og ætlum á bókasafnið á eftir til að athuga með hinar.

Fram og tilbaka

Ég ætla að bæta upp fyrir skortinn á fríbloggi og blogga um helgina sem leið, en sú verður að teljast félagsmálahelgi sumarsins. Hún hófst á fertugsafmæli hjónanna Hönnu og Ármanns á föstudagskvöld. Veislan var haldin í Gamla Lundi og telst nú líklega fámenn miðað við annað sem gengur og gerist og telst það vel sloppið með stóra fjölskyldu í allar áttir. Það var mikið stuð og gaman, aðallega vegna þess að skemmtiatriðin voru svo fjölskyldumiðuð, Helgi spilaði á hljómborð, og ýmsir sungu, þeir bræður Ármann, Ingimar og Svavar tóku lagið með pabba gamla og Ingimar söng með sinni konu, henni Miriam, Ásdís tók Leoncie eins og henni einni er lagið, Hanna tók frumsamda lagið um ljótu rottuna við eigin undirleik og síðla kvölds líka heyrnleysingjabrandarann. Þetta var á köflum svo lókal húmor að það var eins og maður væri heima í litlu partýi. Og sem uppbót fyrir fiskisúpuáDalvíkleysið fengum við fiskisúpu að hætti Ármanns sem myndi sóma sér vel á Dalvík.  Við hjónin vorum við litla skál og annað okkar minna en hitt en það kom fyrst og fremst til vegna þess að þetta var bara fyrsta vers.

Að morgni laugardags flugum við til Reykjavíkur. Við vorum nefnilega boðin í brúðkaupsveislu þeirra Palla og Rolands á laugardagskvöld og þar sem við flugum svokallað punktaflug þá stóð einungis til boða að fljúga með fyrstu vél. Við áttum slæptan dag í borginni, nenntum ekki einu sinni á Gay Pride, þrátt fyrir að langa til að sjá skrúðgönguna. Við höfum ekki verið viðstödd hana síðan fyrsta árið (eða fyrstu tvö, hvernig er þetta aftur?) enda hefur Fiskidagurinn lokkað síðustu ár. Veislan þeirra var haldin heima hjá foreldrum Palla í Kópavoginum og var tekin með trompi. Dagurinn búinn að vera svo fallegur, veðrið var yndislegt fram á kvöld svo það var opnað út í garð og þar gátum við verið lengi vel. Við hittum nokkra fyrrverandi x-ara sem er alltaf gaman og síðast en ekki síst náði ég góðu ættfræðispjalli við frú Emilíu, ömmu hans Palla, en hún er frænka mín, amma hennar og langafi Gunnlaugur voru systkin. Ég hef ekki hitt hana áður en heyrt sögur og hún stóð sannarlega undir þeim. Ótrúlega hress og skemmtileg og það var alveg frábært að spjalla við hana. Hún var enn spræk þegar við fórum heim um tvö leytið 🙂

Í gær var síðan komið að því að skíra Kristleif Heiðar, hér fyrir norðan þannig að eftir að líta í morgunkaffi til Adda (hressan eftir kvöldið) og Lindu, flugum við aftur heim. Skírnin fór fram á Munkaþverá, minn góði Blandon skírði og fórst það vel úr hendi eins og hans er von og vísa. Síðan var veisla í Holtateig þar sem við átum á okkur gat. Vorum eins og druslur þegar við komum heim, þreytt eftir mikla helgi. Erum síðan að verða ein, ekki bara í kotinu heldur í bænum, Helgi, Ásdís og Kristleifur búin að vera hér í viku og eru farin, Siggi og Sigrún farin, Kittý og Siggi að fara til Svíþjóðar í kvöld, Ármann og Hanna farin austur, tengdapabbi að fara suður. Að auki er Kristín að byrja í vinnu á morgun, mér finnst eins og ég sé Palli var einn í heiminum. Þá verður víst ekki umflúið að fara að sinna heimilisverkum …

Ég geri það sem ég vil…

Alias, Frelsið er yndislegt eða öllu heldur sumarfríið er yndislegt. Ég nota tímann í flest annað en að blogga. Stundum finnst mér eins og svefninn sé í fyrsta sæti en ég býst við að ég sofi svipað lengi og á veturna, ég er bara búin að hnika sólarhringnum til og sef með hléum til svona tíu, hálf ellefu, stundum lengur ef vel liggur á mér. Þess á milli les ég (búin með Harry og 44 Scotland Street, langar núna í Espresso Tales) enda er bunkinn hár eftir utanlandsferðina. Ég sinni svo því sem til fellur á heimilinu, til dæmis er nú loks eftir langa bið búið að þrífa gluggana að utan, það hefur borið mikið á skítnum í sólinni 🙂 og við búin að fatta hvernig er skrúfað frá vatninu hér úti. Hva! við erum bara búin að vera hér í tæp þrjú ár… Þreif ruslakistu dóttur minnar, það var afrek, aðallega samt andlega því það tók svo sem ekki langan tíma þegar til kom.

Ég veit ekki hvað ég á að segja mikla ferðasögu… er einhver sem vill fá löngu útgáfuna? Mér fannst bara æðislegt, leist vel á Finnland og selskapurinn var alveg einstaklega góður, hefði ekki getað pantað skemmtilegri ferðafélaga held ég. Átti góðar stundir í Svíþjóð og needless to say líka í Danmörku.

Síðan er bara komin hataðasta helgi ársins. Ef ég nennti að keyra eitthvað í umferð dauðans og þyrði að skila húsið mitt eftir aleitt þá væri ég ekki í bænum. Annars lofa ég að blogga oftar í ágúst en samanlagt síðustu tvo mánuði 🙂