Fljúgandi dagar

Þessi vika hefurverið vika hinna miklu fundarhalda, eins og það væri ekki nóg af fundum svona venjulega þá tókst mér að lenda í skólaráði og svei mér ef ég missti mig ekki óvart inn í stjórn kennarafélags MA. Miðvikudagurinn var til dæmis mjög súrrealískur, þá fór ég á kennarafund, beint á foreldrafund á Naustatjörn, út af miðjum fundi til að fara í leikfimi, náði að fara heim að borða og síðan beint á fund um næringarfræði á Bjargi. Ég var komin heim klukkan hálf ellefu og ég fór bara beint í hátt, vitandi að ég ætti að vakna upp úr hálf sex til að mæta í næsta leikfimitíma.

Það er samt ekki eins og það hrynji af mér smjörið. Það drýpur svona rétt af í mesta lagi. Ég reyni að halda ró minni, þetta er jú allt í rétta átt og enn eftir 9 vikur af námskeiði. Fituprósentan dregst aðeins saman og ég þarf ekki að vera alveg jafn hrædd um að setjast í sumum buxum (svona ef þær skyldu nú spretta utan af mér…)

Átti alveg frábæran laugardag fyrir viku. Fór með samkennurunum í Svarfaðardalinn og það var auðvitað ekkert minna en unaður. Keyrðum fyrst á Dalvík, fengum til dæmis innsýn í líf ríka fólksins (sáum nýtt hús sem ku vera um 500 fermetrar, með þreföldum bílskúr) og síðan keyrðum við inn Dalinn að austanverðu, skoðuðum Vallarkirkju, stoppuðum í Tungnarétt til að pissa og keyrðum síðan fram að Skeið og gengum þaðan upp að Skeiðsvatni. Ýmsir fóru hamförum í Landsogsona tilvitnunum, ég sé fram á að þurfa að sjá hana aftur. Gönguferðin var frábær og ótrúlega fallegt upp við vatnið. Snjórinn kominn niður í miðjar hlíðar fallegu svarfdælsku fjallanna. Tignarlegt.

Eftir göngu fórum við í félagsheimilið Höfða og drukkum þar kaffiogmeððí. Þaðan var haldið að Þverá í Skíðadal. Þar býr og starfar brúðuleikarinn Bernd Ogrodnik og hann sýndi okkur sína hæfileika. Hann er meðal annars að vinna að Einari Áskeli og var búinn að gera fyrstu dúkkuna og hún var mjög sæt – lofar góðu. Hann sýndi okkur líka nokkrar stuttsýningar og átti athygli okkar fullkomlega. Ja, ef maður væri svona flinkur í kennslunni 😉 .  Þegar okkur tókst loks að slíta okkur frá Bernd héldum við að Húsabakka og borðuðum þar saman. Á leiðinni heim var sungið (vorum aðeins búin að taka lagið áður, meðal annars syngja Svarfaðardalinn tvisvar) og við Hóa enduðum á dúett þar sem við tókum In the jungle. Alltaf fínt lag.

Lítið hefur gengið í fiðlunámi. Við höfum jú æft okkur að standa rétt og halda rétt og reynt að sýna fröken helstu taktana en þar sem tíminn okkar í vikunni féll niður þá erum við ekki komin lengra en þetta. Fengum reyndar loksloksloks disk í hendurnar með framtíðarmúsíkinni og höfum aðeins hlustað og jafnvel reynt að herma. Maður er svo æstur að ná góðum árangri. Strumpan hefur hins vegar enga þolinmæði og í gær lá við að hún grýtti fiðlunni í gólfið vegna þess að hún gat ekki spilað rétt með laginu sem við hlustuðum á. Það sama gerðist þegar hún var að teikna með pabba sínum, henni gramdist svo þegar hans myndir voru fallegri en hennar að hún fór á orgið.

Einhverjir komplexar eru líka að gera við sig núna. Hún er afar upptekin af útlitinu. Í gær í kvöldmatnum ræddum við hvað fiskur væri góður fyrir vöðva og hún lýsti yfir miklum áhuga á að fá risavöðva. Við gerðum þau mistök að reyna að draga úr því, það væri jafnvel frekar ljótt og þá brast hún í grát og spurði hvort okkur fyndist (eða myndi þá finnast) hún ljót. Í morgun vorum við aftur að ræða útlitið og þá sagði hún að sumum fyndist hún ljót. Þetta uppeldi. Maður reynir og rembist en stundum verður manni orðavant.

Óvitar

Við fórum í leikhús í gær, með Sóleyju og tengdamömmu að sjá Óvita. Það var búið að leggja mikið upp úr góðri hegðun í leikhúsi, enda mikið mál að fara á alvöru stykki að kvöldi. Svo var búið að telja niður, nánast síðan miðarnir voru keyptir fyrir um mánuði síðan og Strumpa var óspör á auglýsingar og tilboð til samnemenda sinna að koma með. Ekki nóg með það að þetta væri ógurlegur hátíðisdagur að fara í leikhús, við fórum fyrst á Greifann, sem olli því að þetta var orðið eins og jólin sjálf. Hún elskar að fara á Greifann, vill helst fara þangað oft í viku og skilur ekkert í dræmum viðbrögðum okkar þegar hún fær þessar góðu hugmyndir.

En já, að stykkinu. Fyrst verð ég eiginlega að deila eigin upplifun og síðan upplifun dóttur minnar. Ég var alveg í skýjunum með leikritið. Mér finnst uppfærslan alveg mögnuð, mjög skemmtilega unnið með rýmið og gaman að hafa tónlist með, maður fann smá Jónsáhrif inni á milli. Leikararnir voru margir hverjir alveg frábærir. Guðjón Karl með sinn venjulega performans eiginlega en það átti bara einstaklega vel við. Sumir krakkarnir alveg lygilega góðir og býsna flinkir að syngja. Verkið sjálft þörf pæling.

Strumpan iðaði í sætinu og spurði á mínútu fresti hvað klukkan væri fram að sýningu. En þegar leikritið hófst var hún með ólíkindum róleg. Horfði bara. Spurði reyndar í hvert skipti sem ljósin slokknuðu hvort þetta væri búið núna. Hló ekki sérstaklega mikið, aðallega að skrípalátunum og margt sem fór örugglega fyrir ofan garð og neðan hjá henni. En til marks um það að hún fylgdist þó með þá brast hún í grát í seinni hluta verksins þegar kemur smá sorglegur kafli og við foreldrarnir reyndum eins og við gátum að hugga hana þar sem hún sat á milli okkar. Hún var samt alsæl – og mjög þreytt – þegar sýningin var búin og greinilegt þegar við komum heim að það var mikið spennufall. Hún fékk bol merktan sýningunni frá ömmu sinni og ætlaði þvílíkt í hann í dag enda var hún líka að fara á ömmu leikskóla, því Naustatjörn er lokuð í dag.

Fyrsti í fiðlu

Í gær var komið að fyrsta fiðlutímanum okkar hjóna. Ekki var okkur ofboðið með lærdómi, við lærðum að standa rétt, hneigja okkur (afar nauðsynlegt) og halda á fiðlunni. Bæði í hvíldarstöðu og í spilastöðu. Nú og að æfa bogagripið – án bogans. Það fer ekkert á milli mála að Mummi er meira efni í þetta allt en ég. Hann verður eflaust farinn að spila lög áður en ég veit af. Í dag er síðan hóptími, þá má Sóley koma með (til nöfnu sinnar Láru Sóleyjar) og fylgjast með hvernig tímarnir fara fram.

En talandi um Mumma. Hann er auðvitað afmælisbarn dagsins. Árinu yngri en hann heldur, hann er eitthvað að smitast af aldri gömlu eiginkonunnar sinnar. Við mæðgur vöktum hann í morgun með söng, Sóley uppástóð það í gærkvöld að við skyldum syngja ensku útgáfuna. Söng hana fyrir mig, reyndar allar fjórar línur eins.

Afrek ársins

Ég var að skoða úrslitin í Akureyrarhlaupinu og held að ég fari að stunda hlaupin fílefld. Ekki nóg með það að ég væri ekki síðust (takk, þú sem fórnaðir þér í ár 😉 ) heldur bætti ég tímann um tvær mínútur. Ég er í skýjunum. Sérstaklega af því að ég var asnaleg í mjöðminni (hætt á íbúfeni) og ég var alls ekki eins þreytt og í fyrra. Náði meira að segja að auka hraðann á áttunda kílómetranum en þá kom Rio með Duran Duran í i-podinn og takturinn hentaði svona líka vel til að gefa aðeins í. Versnaði reynar þegar One með Metallicu kom. En ég held pottþétt áfram á þessari braut. Sóley var líka sátt við gærdaginn. Jónsi var nefnilega að hita upp, litli aðdáandinn náði að stilla sér upp fyrir framan sviðið og mæna á hann.

Búin að vera í sjö daga vinnuviku so far. Námskeið föstudag og laugardag, eða vettvangsnám, þetta verður víst í allan vetur. Það lofar reyndar góðu, ég vona að það verði eins praktískt eins og byrjunin lofar. Skólasetning í dag. Þekkti nokkra foreldra – maður er orðinn þetta gamall. Meira að segja eru tvö börn í umsjónarbekknum mínum sem eiga mæður, jafngamlar mér. Það varð mér nokkuð áfall. Mummi heldur að ég muni fara í trøstespisning þegar mæðurnar fara að verða yngri en ég!

Maður fær ekki alltaf það sem maður vill

Það er óhætt að segja að það séu alltaf einhver ótíðindi í vigtun og mælingu. Góðu tíðindi vikunnar eru þau að ég verð ekki ár að losa mig við 5% fitu en vondu tíðindin eru þau að vigtin haggaðist lítið. Þetta er þó allt í rétta átt og oftast er ég býsna samviskusöm að borða hollt. Ýmislegt verður þó til þess að gera manni lífið erfiðara, í afmæli Evu í gær var til dæmis tvöföld súkkulaðikaka, bæði með dökku og hvítu súkkulaði og það var sorglegt að geta bara fengið sér eina nös af henni. Í dag var soðiðbrauð með laxi og randalína í skólanum í morgunkaffinu, sem ég slaufaði reyndar alveg og nagaði dýrindis rófu í staðinn og þetta var kórónað í hádeginu með lambakjöti með feitu kartöflusalati og feitri sósu og ís í eftirmat. Þegar þriðjudagar og miðvikudagar eru svona þá er ekki von á góðu.

Ég er sem sagt byrjuð á fullu í vinnunni, vægast sagt á fullu, það er lítil aðlögun að vera að koma úr sumarfríi. Jú vissulega höfum við ekki byrjað fyrr en 9 en ég þarf líka að stökkva út klukkan fjögur og rúmlega það til að sækja Strumpu. Að því ógleymdu að það er auðvitað vinna á laugardag og sunnudag líka. Og sjálfskaparvítið mitt, fjarkennslan, á kvöldin. Það er sælt að lifa.

Við hjónin hefjum fiðlunám í næstu viku. Ég held að ég sé ekki efnileg. Við fengum fiðlu-ungann með okkur heim eftir fund á mánudaginn. Hann er oggolítill, eiginlega þannig að maður segir bara gútsígú við hann. Við hófumst strax handa við æfingar og þetta var óttalegt pín sem kom þegar ég lék en Mummi sýndi strax efnistakta ENDA hefur hann lært á píanó. Og Strumpa getur ekki beðið, hún var ekkert smá skotin í fiðlunni þegar hún skoðaði hana í gær. Þetta verður athyglisvert.

Einstefna

Ég er frekar óspennandi félagsskapur þessa dagana held ég. Orðin ein af þessum líkamsræktar-obsessed kellingum 🙁 .Hugsa um fátt annað þessa dagana en hvenær ég borðaði síðast og hvenær ég eigi að borða næst og hvernig ég ætla að hreyfa mig næstu daga. Sem betur fer sef ég hálfan sólarhringinn sem einfaldar þetta mikið en það versnar í því á mánudag þegar ég byrja að vinna alvöru vinnuna mína (er búin að dunda mér í fjarkennslunni þessa vikuna, það væri nú gott að sinna henni ef maður hefði ekki svona alvöru vinnu við hliðina.) Þá verður minni tími til svefns, ætli ég byrji ekki á að skera hann niður og sé svo til hvað annað verður undan að láta. Það er amk ljóst að aðhald er á ákveðinn hátt auðveldara þegar maður hefur tíma til að sinna því almennilega. Ég náði btw góðu starti í fyrstu mælingu og vona að það haldi aðeins lengur áfram. Nema hvað að fituprósentan lækkaði einungis um 0.1% sem þýðir að ég verð eitt ár að ná skammtímamarkmiði mínu…

Smá Strumpufréttir, sú stutta (sem hefur reyndar verið alsæl þessa vikuna að fá að fara í pössun á Bjarg) er að fara að byrja í fimleikum á laugardag og… það sem er ekki síðra, komst inn í Suzuki og fer að læra (ja eða við foreldrarnir kannski) á fiðlu í næstu viku. Mikil gleði og tilhlökkun í gangi.