Þið sem í fjarlægð …

Frekar takmörkuð skrif þessa dagana. Nú er ekkert elsku amma neitt, styttist í borgarferðina góðu og ég þarf að vinna upp allar dönsku syndirnar áður en ég fer. Til dæmis er miðannarmat gefið í fjarveru minni, svo því þarf ég að ljúka fyrir brottför. Og til að geta gefið miðannarmat þarf að hafa eitthvað í höndunum. Helgin og kvöldin hafa því farið í mis-skemmtilegar yfirferðir. Sem betur fer er „haustfrí“ á morgun og hinn svo ég ætti að ná að vinna úr bunkunum. Allt þetta legg ég með glöðu geði á mig vitandi það að ég er að fara til fyrirheitna landsins. Ég næ einnig nokkurri menningu fyrir ferð, annars vegar leikhúsferð að sjá Ökutíma og hins vegar minni ástkæru Nýdönsk á þriðjudagskvöld. Svo það er heilmargt mér til hressingar og upplyftingar þessa dagana.

Tónlistarfréttir af Strumpunni eru þær helstar að debut hennar var vonum framar. Náði að yfirstíga feimnina og spilaði eins og sprenglærð á þríhorn. Maður fékk næstum tár í augun yfir hvað hún hélt fallega taktinum.  Fiðlan er líka öll að koma, hún er nokkurn veginn farin að æfa sama prógramm og við 🙂 , spilar á E og A – ég er komin með kerfi á strengina, fyrst er það Eyþór, síðan Adda amma, þá Dúddi frændi og loks Gylfi afi….

Tónleikar á Glerártorgi

Það er best að plögga. Sú stutta á að spila á Glerártorgi á föstudag – nákvæman tíma veit ég reyndar ekki en frétti líklega af því í dag. Við vorum í hóptíma á mánudag og ég hafði verið frekar skeptísk, sagði Láru Sóleyju að nafna hennar væri nú reyndar ekki byrjuð að læra neitt. Hún átti þá fyrst bara að vera í kór og uppi einhverjar hugmyndir um að hún gæti fengið þríhorn en svo langaði hana svo agalega að spila á fiðlu eins og hinir, svo hún fékk það. Það er hins vegar óvíst hvort það gengur upp, hún veit, blessunin ekki hvernig á að halda á boga, hvað þá að hún þekki A-streng. Sjáum hvað setur.

Meira kaupkaup

Kaupæðið heldur áfram. Nú var ég að enda við að festa kaup á leikhúsmiðum fyrir hele familien í borgarferðinni eftir einn og hálfan mánuð. Við ætlum í Þjóðleikhúsið að sjá Skilaboðaskjóðuna. Ég var búin að segja Sóleyju að það stæði til og hún spyr reglulega hvort ég sé búin að kaupa miða. Ætli ég bíði ekki með að segja henni frá því, 43 dagar eru fullmargir fyrir niðurtalningu. Svo Reykjavíkurferðin verður allsherjar menning, fyrst Kim Larsen á laugardeginum og svo leikhús á sunnudeginum. Gamangaman.

Það sem gladdi mig nú samt enn meira er að ég keypti miða á tónleika með Nýdönsk – þeir eiga 20 ára afmæli og ætla að spila í leikhúsinu 6. nóvember. Ég var snögg að festa mér miða – á fremsta bekk, hvað annað? Það var svo gaman að sínum tíma að sitja framarlega (vorum við á 1. eða 2. bekk í Þjóðleikhúsinu???)

Búin að eyða tveimur dögum í að læra um action research, ný og endurbætt útgáfa af dönskukennaranum er í mótun 🙂 . Við erum með VMA og ME í þessu námi og fórum öll út að borða í gær. Ég kíkti síðan á Græna hattinn með Auði, Sammi í Jagúar með stórsveit að spila. Það var svona lælæ. Litli frændi Eyþór var þarna. Nú er maður orðinn gamall þegar maður er farinn að hitta hann á skemmtistöðunum. Heimapartý hér eftir. Pantaði mér Laphroaig á barnum, það var ýkt kúl. Mæli meððí.

Trøsteshopping

Ég er búin að vera svo spæld að komast ekki á námskeið sem ég sótti um – það átti nefnilega að vera í Køben eftir mánuð. Var búin að sjá fyrir mér smá kig í HogM og svona. Mér reiknast svo til að Sóley hafi til að mynda aldrei fengið jólakjól keyptan á Íslandi. Kannski á maður ekki að hæla sér af því? En sem sagt, í sorg minni yfir kaupleysinu þá hef ég beint verslun minni til íslenskra kaupmanna. Hef þannig keypt 6 skópör á um tveimur vikum, nú og fór á Friendtex fatakynningu á laugardaginn og keypti þar bæði túniku (vont orð) og jakka. Þetta verður dýrt spaug.

Fiðlan gengur hægt. Tímarnir okkar falla niður aðra hverja viku svo framfarirnar eru alls ekki eins örar og gæti verið, þrátt fyrir stífar æfingar. En aðhaldið gengur ágætlega þrátt fyrir fáar afrekssögur á blogginu. Fór í hálfleiksmælingu í morgun, man svo sem engar tölur en það eru farin ríflega 5% af líkamsþyngd – og fituprósentan er líka ríflega hálfnuð. Godt gået 🙂 .

Svo erum við fósturforeldrar þessa dagana. Tókum Ingunni Erlu að okkur fram yfir helgi í utanlandsfjarveru foreldranna. Það tók á að rusla þremur börnum út í morgun… Annars slepp ég billega því ég er á námskeiði á morgun og hinn.

Ég var einu sinni nörd

Ég er búin að uppgötva nýjan Jón sem gæti verið með stand-up undir þessu heiti. Og nei, það er ekki minn ástkærasti Jón Guðmundur, jafn hnyttinn og hann nú er. Ég var nefnilega á tónleikum í gær með Jóni Góða. Það var alveg magnað að sitja þarna og sjarmi hans er augljóslega mikið, ég er jú alltaf veik fyrir góðum húmor. En hann var náttúrulega einu sinni nörd, eða amk með nördaútlit. Síðakrulluhárið, það var ekki alveg að gera sig.

Þið sem munið könnunina frá því hér um árið þar sem ég spurði fyrir hverjum ég væri veikust í Nýdönsk – það voru nokkrir alveg vissir um að það væri Jón Ólafs. Og svei mér, mér leið þannig í gærkvöld. Hann á náttúrulega mörg alveg æðisleg lög, en það sem lyftir þessu upp á hærra plan eru notalegheitin sem geisla af honum. Og þessi frábæri húmor. Hann talar nánast meira en hann syngur, sagðist reyndar alltaf segja sömu brandarana en ég hef svo sem ekki farið á tónleika með honum áður. Hann sagði meðal annars í kynningunni um „Tunglið mitt“ að hann hefði sent það inn í undankeppni Eurovision 1986, en þegar hann heyrði Gleðibankann áttaði hann sig á því um hvað keppnin snérist – um gleði en ekki þunglyndi. En hann reyndi síðan að senda lagið í Landslagið ’89 og því var heldur ekki tekið fagnandi. Jón fullyrti að það hefði bara verið búið að spila svona 10 – 15 sekúndur af TDK spólunni sinni, svo það var afskrifað strax.  En kvöldið var sem sagt, hreinn unaður. Gott að maður drífur sig stundum af stað, eins gott að Mummi ýtti við mér.

Síðan var annar í fiðlu í gær. Við hjónin fengum að æfa okkur að spila á A streng og E streng í gær (G strengurinn er fyrir lengra komna 😉 ). Það hljómaði ekkert unaðslega hjá okkur en við erum svo áköf í fiðlunáminu að við æfðum okkur bæði heima í gær. Strumpan fékk lítið að gera í tímanum, aðeins að sýna hvernig maður stendur og heldur, svo hún var frekar óþolinmóð. Þetta kemur með kalda vatninu.