Nýjar tölur

Ég lufsaðist í tíma í morgun – þrátt fyrir háværar raddir púkans sem var óvenju frekur í morgun, vitandi það að ég yrði ekki sótt. Fór að sjálfsögðu á vigtina til að fá morgunmælinguna og viti menn, það munaði hálfu kílói. Svo ég hef, eftir allt saman, lagt af heil 600 grömm í nóvember. Ég sé að það er eina vitið að fara í mælingu klukkan 6 að morgni. Maður er hærri og léttari, mikið asskolli hlýtur maður að líta vel út….

Annars er mikill sjúklingur á heimilinu núna. Prins Valíant nældi sér í slagsmál hér aðfaranótt þriðjudags og hefur ekki borið barr sitt síðan. Er alveg ómögulegur í öðrum framfætinum og er því þrífættur þessa dagana. Læðist ekki um húsið heldur trampar um á þremur fótum svo vel heyrist. Það er nú frekar dekrað meira við hann ef eitthvað er, svo sennilega tekur hann þetta göngulag alveg upp.

Síðasta fimmtudagsvöknunin

Jeijei – nú er átaksnámskeiðið að verða búið í bili og á morgun mun ég vakna í síðasta skipti klukkan hálf sex. Það þýðir að ég mun jafnvel vaka fram yfir tíu á miðvikudags- og fimmtudagskvöldum hér eftir 🙂 . Fór í lokamælingu í dag, þó svo það séu tveir tímar eftir. Heildarkíló farin eru 5,8. Það hægðist ansi mikið á mér í nóvember, svo ekki sé vægar til orða tekið. Allan nóvember er ég búin að missa 100 gr. :-/ . Bjór, vín, sukk… ekki að gera sig. Nú er ég í valkvíða hvað ég á að gera eftir áramót. Er að hugsa um að hætta mér í tíma fyrir viderekomne í næstu viku og sjá hvort ég þoli það. Þar eru ýmsir MA kennarar og makar svo ég verð í góðum félagsskap.

Kláraði Forbrydelsen í gær. Við Kristín hittumst og horfðum á endursýninguna og gæddum okkur á dýrindis konfekti með (allir lokaþættir eru teknir með trompi). Nú er bara að halda andlitinu í lokaðri stöðu næstu vikur. Verð samt að segja að mér finnst mörgum spurningum ósvarað – það veitir amk ekki af að horfa á seríuna aftur til að spekúlera meira.

Og breyting á tónlistarhögunum. Tónleikarnir á Glerártorgi eru á sunnudag en ekki laugardag. Alveg týpískt, þá fær maður ekki að gera sitt laufabrauð í friði og ró heldur þarf að gera hlé til að sinna spileríi. Maður fær samt mont-mómentið sitt, nógu stolt var ég í dag að horfa á litla prikið syngja með súsúkí félögum sínum, lag sem hún lærði á met-tíma. Svo þetta verður bara stuð.

Menningarreisan mikla – den store kulturrejse

Helgin var með miklum ágætum og stóðst allar væntingar. Við gamla tríóið úr MA hittumst á föstudagskvöld (eftir laaaanga keyrslu frá AK). Engin okkar ofurreynd úr skemmtanalífi borgarinnar svo við vissum ekkert hvert væri best að halda til að vera hipp og kúl. Við sáum reyndar Daníel Ágúst á vappi, hefðum getað elt hann en við reyndum við Thorvaldsen í staðinn fyrir DA. Þar voru öll laus borð frátekin, frekar leim. Þaðan fórum við á gamla „góða“ Kaffi París. Nóg af lausum borðum en vond þjónusta og allt of hávær tónlist. Þar sátum við í tvo tíma og ræddum gamla tíma og nýja.

Laugardagurinn var framan af með rólegasta móti. Ein lítil Kringluferð og síðan í heimsóknir hingað og þangað, mislangar þó og ævinlega endanna á milli í borginni, því ekki gátum við skipulagt þær miðað við hagstæðustu keyrslu hverju sinni. En það var gaman að hitta tengdaliðið. Enduðum í forpartý og mat hjá Sigga og Sigrúnu og þau tóku líka Kristínu og Árna Hrólf að sér og dekruðu við okkur öll. Þaðan lá leiðin í Vodafone höllina, á gömlu hetjuna. Það er engu logið í blöðunum þegar honum er hrósað. Gamli var ansi sprækur og Kjukken svona bráðskemmtileg hljómsveit. Við Kristín vorum alsælar með okkar menn (og Mumma og Árna 😉 ). Við Mummi buðum síðan í eftirpartý – gott að hafa heila íbúð fyrir sjálfan sig! En það stóð nú ekki ósiðlega lengi og við spiluðum enga músík svo þetta hefur ekki truflað marga. En það skýrir allar bjórflöskurnar sem bíða Eyglóar…

Við hjónin vöknuðum svo seint og síðar meir á sunnudag, gengum bærilega frá eftir okkur (og mundum eftir að skrifa í gestabókina Eygló!) og fórum til Árnýjar og Hjörvars þar sem unginn hafði dvalist í góðu yfirlæti. Fengum þar að borða (við meiri fyrirhöfn en til stóð, held ég) og svo fór hersingin – kvenfólkið og Mummi, í Þjóðleikhúsið að sjá Skilaboðaskjóðuna. Sóley var búin að hafa uppi stór orð um hvað hún væri hrædd við Nátttröllið svona fyrirfram en þegar til kom var það minna en yfirlýsingarnar. Leikritið stórskemmtilegt og Strumpa að fylgjast með allan tímann. Við splæstum svo bók og disk, diskurinn náði tæplega fjórum umferðum á leið norður, við fengum smá pásu í Húnavatnssýslu og Skagafirði, en skapið og heilsufarið afturí var líka með besta móti. Við vorum í mjög stöðugu sambandi við tónleikafélaga okkar, sem keyrðu þetta 5 – 40 mínútum á undan okkur, amk eru 36 sms í símanum mínum frá norðurferðinni 🙂 .

Nú er bara bölið framundan, ritgerðir, spóluverkefni, próf… neim it – nema árshátíð MA á föstudagskvöld, tónleikar á Glerártorgi á laugardag og líklega laufabrauð á sunnudag. Nú og síðasta vika í átaki – þrír tímar eftir!

Löngu komin heim í heiðardalinn

Raunveruleikinn tekinn við. Ekki lengur min elskede København sem umlykur mig. Þarf varla að taka fram að í vinnunni beið bingur svo dagarnir hafa farið frekar hratt. Náði þó leikhúsferð á föstudagskvöld, á Ökutíma. Get mælt með stykkinu, þetta er listavel gert hjá LA. Við hjónin fórum svo á villibráðarhlaðborð með RT – svona í heimahúsi þar sem fólk kom með ýmsa rétti. Mummi fór á kostum í sósugerð, ég á ekki lengur neitt svið sem ég skara fram úr í eldhúsinu 🙁 .

Erum svo á leið suður – fyrst eru það gömlu vinkonurnar á föstudagskvöld, svo Kim vinur minn á laugardagskvöld – det var en lørdag aften 🙂 og endað á Skilaboðaskjóðunni á sunnudag áður en ég bruna aftur norður. Verst að ég missi af lokaþættinum af Forbrydelsen á DR. Þarf að sjá endursýningu.

Það er annars komin ný eldavél á heimilið. Mummi fékk ósk sína uppfyllta og keypti span eldavél. Maður þarf að leyfa honum að hafa réttu græjurnar … hann er núna alsæll með global hnífana sína, Le creuset pottana sína og eldavélina. Mesta furða að hann skuli fást úr eldhúsinu. Enda keypti ég nýju Hagkaups-bókina með ítölsku réttunum handa honum svo honum falli eitthvað til.

Borgin mín

Ja, jeg er forelsket i København, det må man sige. Það er ótrúlegt að labba hérna um og hver taug kallar „ég elska þig“ til borgarinnar. Og nu viser de George Michael på TV2 så det er helt perfekt. Jeg har haft en vidunderlig aften, og hvor er det dejligt med at kommunikere på de nordiske sprog. Jeg har svært ved at tale dansk  med svenskerne, så vil jeg bare prata svensk. En dagurinn hefur verið langur. Við fórum af stað frá hótelinu klukkan 8, tókum fyrst strætó og svo havnebus að óperunni á Holmen og gengum síðan að Den danske filmskole. Þetta er æðislegt svæði, svona blanda af gömlu og nýju og allt er þetta undirlagt listum – hér er listaháskólinn, tónlistarskóli, kvikmyndaskólinn og svo framvegis. Í kvikmyndaskólanum fengum við frábæra fyrirlestra, reyndar einn frá „Hvíslaranum“ – hann talaði svo lágt að það var engin leið að fylgjast með nema færa sig beint fyrir framan hann. En annað í dag hefur verið frábært. Samt finnur maður hvað maður er ógurlega lítið kúnstnerískur. !! Í kvöld var svo sameiginlegur kvöldverður. Við dönsuðum meðal annars færeyskan dans, sem minnti mig á afmælið hennar ömmu. Ég spjallaði við Færeyingana, sagði þeim einmitt frá Orminum langa í afmælinu, og það var einn sem var kunningi þeirra í Tý – veit nú samt ekki hvað hann heitir eða neitt – Jan eða eitthvað. Á morgun er það svo on location hjá Nordisk film og jeg glæder mig helt vildt til det. Næ reyndar að fara á Fisketorvet fyrst ef ég er heppin. Nåh, men nu skal jeg op på mit  værelse og se George Michael. Mere i morgen 🙂 .

ég er nýdönsk

Það þarf ekkert að orðlengja það að ég var alsæl eftir tónleikana í fyrrakvöld. Ég er auðvitað búin að vera hluti af hljómsveitinni í 20 ár svo þetta var auðvitað líka afmæli fyrir mig. Og omg ég varð 16 á ný. Hringdi þrisvar til Svíþjóðar til að leyfa systur að vera með, hún er líka nýdönsk. En þeir voru alla vega í fantaformi. Efast eiginlega um að þeir hafi verið betri fyrir sunnan. Og stemmingin í salnum alveg frábær. Ég á eftir að lifa lengi á þessu, verst að núna langar mig á ball með þeim. Ekki spillti svo fyrir að ég var samferða Óla Hólm og Ingva vara-bassaleikara suður daginn eftir og rétt náði að hemja mig að ráðast að þeim…

En nú er ég í DK og vá hvað Köben er æðisleg, ég geng um í sæluvímu. Námskeiðið lofar líka góðu. Við byrjuðum daginn á því að horfa á mynd, sú heitir Supervoksen og er alveg últrafín unglingamynd. Síðan voru fyrirlestrar og eftir það tæplega tveggja tíma pása. Ég þaut upp á Köbmagergade, fór fyrst í HM kids og keypti slatta á Sóleyju, til dæmis mjög efnilegan jólaskokk, en síðan fór ég í HM women og keypti smá á mig. Dragt, pils, nærföt, sokka. Sem sagt, bara þetta nauðsynlega. Svo fór ég í vínbúðina okkar Mumma, en mér gekk reyndar illa að finna hana því hún er komin með nýtt nafn. En þar fann ég sumsé 15 ára Laphroaig, svo hann fengi örugglega eitthvað fyrir sinn snúð. Endaði svo í bókabúð – hafði reyndar byrjað daginn þannig líka, keypti bing af bókum, en í þessari ferð var það slúðurbók um Kongefamilien. Við borðuðum svo úti, á veitingastað á Det danske filminstitut. Hér er í augnablikinu rigning en veðrið í morgun var mjög indælt. Á morgun förum við eldsnemma af stað, út á Holmen (þar sem Óperan er – við förum reyndar í Den danske filmskole) og ég hlakka þvílíkt til. Næ líklega smá búðarferð eftir það ef ég er heppin en ég er reyndar frekar sátt við afraksturinn í dag. Kemur sér vel að vera þrautþjálfaður shopper 🙂 .