Allt að smella :)

Hér allt svo innilega á réttri leið. Ekkert eftir nema að pakka inn öllum jólagjöfum til fjölskyldunnar á Akureyri, sömuleiðis skrifa á öll jólakort sem fara innan bæjar, baka síðustu sortina (fékk innblástur að horfa á Birgittu baka blúndur í Innlit/útlit), kaupa örfáar jólagjafir, ákveða enn færri jólagjafir, þrífa smá og fara í bað og þá mega jólin koma. Alt under kontrol som man siger. Ég er reyndar enn í valkvíða með jólagjöfina hans Mumma. Akkúrat þegar ég fann loksins upp á einhverju með góðum fyrirvara, þá laust andanum aftur niður og nú er ég með tvær frábærar hugmyndir sem kosta nánast það sama. Báðar bráðnauðsynlegar og gleðja manninn væntanlega álíka mikið. En fulldýrar til að splæsa báðum. Ég ætla amk ekki að endurtaka mistök síðasta árs og segja honum hvað stóð til að gefa honum. Brandarinn var bara of góður í fyrra til að segja hann ekki. Sjávarkíkirinn sko… 😉

Jólafrí handan við hornið :)

Sú var tíðin að nemendur MA fengu í allra síðasta lagi jólafrí 19. desember. En nú er öldin önnur og bókhaldið strangt og því átti að vera „kennsla“ til hádegis á morgun. Í morgun tóku nemendurnir samt upp á því að syngja frí. Ég hélt að það væri bara söngsalafrí og átti hvort eð er að vera í eyðu og var salíróleg. EN nei. Einhver jólaandi læddist í Jón Má og hann gaf morgundaginn eftir 🙂 . Svo ég á bara eftir að kenna tvo tíma og fara á einn kennarafund eða svo… en júhú, ég verð í fríi á morgun. Í kvöld er síðan hið árlega jólakaffi kennara. Meira át. Ég ætlaði reyndar að skrifa jólakort og senda pakka, sá fram á að ná því fyrir 10 í  kvöld, en þá lokar pósthúsið á Glerártorgi. Áætlunin krefst því aðlögunar. En það er ljóst af ef eitthvað kemur manni í jólaskap, þá er það jólafríið…

Uppskeruhátíð (eða var það átið?)

Það tókst. Um helgina bökuðum við hjónin sörurnar sívinsælu. Allt lagt undir, hvorki meira né minna en 200 kökur gerðar. Fengum fyrsta fólk í smökkun strax að kvöldi fyrsta sörudags og var gerður góður rómur að útkomunni. Svo nú er uppskeruát – og uppskeruhátíð á hverjum degi. Enginn dagur án Söru…

Jólaundirbúningur stendur sem hæst. Búið að skrifa 3 jólakort, því miður hefur enn bara tekist að senda eitt þeirra enda þurfti það að fara lengst. Hin eru erfiðari af því að ég fékk svo frábæra hugmynd að senda jólapistil með og skreytti með dýrindis myndum úr Danmerkurferðinni en það sem sagt gengur hægt og illa að prenta út. Ég ætlaði að misnota vinnuna en prentarinn er húsbóndahollur og sá við mér svo hér hefur ekkert gerst. Mummi ætlar að reyna að redda mér en sennilega klikkar hann bara sjálfur því hann mun örugglega ekki bíða bætur á fegurðarskyninu við að sjá myndirnar útprentaðar… En ég er sem sagt farin að huga að öllu. Spáið í hvað er ótrúlegt hvað ég skrifa ágæt jólakort miðað við að það er allt á síðustu stundu. Talandi um að fleygja bara Hafdís, Mummi og Sóley Anna neðst í kortið og láta það duga!

Næsta krísa er líka hvort ég eigi að fara í jólaköttinn eður ei. Er varla í stuði til að leita mér að fötum. Kannski kemur ofurstuð, man vet jo inte… ef ekki þá er bara að grípa eitthvað út skápnum. Þar leynist hvort eð er ýmislegt.

Við fórum okkar árlegu jólaferð (þetta er jú annað árið í röð sem við förum) í Jólahúsið í gær. Það var að venju góð ferð. Þó rifjuðum við upp stemminguna í fyrra þegar við ókum að og það var eins og að lenda inn í bíómynd. Jólasveinninn fyrir utan að sópa nýfallna mjöll. Í gær var bara rok og rigning. Það fer að vísu að verða jólalegra en hitt…  Ég keypti að vanda nokkrar karamellur en einnig afar smekklegan poka fyrir jólakort. Nú er það ekki happa-glappa hvar ég set kortin og hvort þau finnast aftur 🙂 . Pokinn er kominn upp á vegg og sómir sér vel. Alltaf gott að gera góðar ferðir.

Enginn saknar mín

Jæja, það hafa ekki dunið á mér skammir í kommentakerfinu fyrir bloggleysið…. ég er óbærilega sár.  Mér hefur annars lagið dottið eitthvað í hug að skrifa, nú til dæmis ætlaði ég auðvitað að dreifa brosköllum yfir endurkomu Daníels í Nýdönsk. Get ekki annað en kæst yfir því, þó svo ég hafi kunnað vel við þá án hans og hef áhyggjur af Ingva sem verður þá kannski sisona bara fleygt úr bandinu. Sá annars Daníel á árshátíð MA. Þar spilaði nefnilega GusGus. Þeir hefðu betur fengið Nýdönsk, ekki vakti GusGus að minnsta kosti mikla lukku og kennurunum fleygt frá borðunum sínum að ástæðulausu. Já heimur versnandi fer. Við fengum ekki fyrst að borða og urðum að láta okkur það lynda að fórna borðunum okkar undir dansgólf. Ég var svo súr að ég fór heim. Enda búin að sjá Daníel og aldrei hef ég verið hrifin af þessu verkefni hans. Eitthvað voru menn að gera því skóna að hljómsveitin hefði meira og minna verið á einhverju. Ég er svo einföld sál að ég hélt bara að Daníel væri svona skrýtinn…

Annars er ég búin að gera laufabrauð í tvígang. Fyrst upp á gamla móðinn þar sem ég stóð og breiddi út. Síðan með aðkeyptar, mislukkaðar kökur, þar sem ég skar út. Hvoru tveggja ljómandi fínt. Búin að hefja jólaátið með formlegum hætti, fór út að borða með LC á föstudag og í jólahlaðborð með MA á laugardag. Borðaði vel og mikið yfir mig.

Er enn óákveðin hvort ég á að baka Sörur. Klúbburinn minn virðist vera dáinn og þá er það spurning hvort hjónabandið þoli álagið sem fylgir því að eiga Sörur á heimilinu…. og svo veit maður alveg hvert þær fara, ekki bara upp í munn og ofan í maga, það er alveg ljóst. Leikfimin búin og ekkert hlaupafæri. Það myndi bara enda með grenjum.

Annars dönsuðum við hjón í gærkvöld. Kellurnar voru fengnar á RT fund og svo var danskennsla. Alveg frábærlega gaman og við hjón smellum saman sem danspar. Má ekki á milli sjá hvort trampar betur á tær hins. Allir upprifnir og talað um að skella sér á námskeið eftir áramót. Hver veit… það væri gaman.

Og í kvöld er mikil menning. Danskur kvikmyndahittingur heima hjá Hildu, fyrrverandi vinnufélaga úr Síðuskóla. Henni áskotnaðist hvorki meira né minna en „Kunsten at græde i kor“ – framlag Dana til Óskarsverðlaunanna, sem komst reyndar ekki áfram. En á sem sagt að vera mikið stykki. Veit ekki hvað hún þurfti að gera til að fá hana, ég vissi amk ekki að hún væri komin út. Missi reyndar af bíókvöldi þýskunnar í staðinn en þegar valið stendur á milli dönsku og þýsku, þá er ójafnt á metunum.