Músíkin mín

Ég var að baka í kvöld og stillti á Bylgjuna og það verður að segjast eins og er að þeir sinna gamla fólkinu vel. Ég var bara í rokna stuði. Svo ég nefni dæmi; Gogo’s (það lá við að ég hringdi í Önnu systur og segði henni að stilla á Bylgjuna), Talking heads – ekki það að ég fíli þá eitthvað ógurlega, Haddaway – með What is love, kannski slæmt dæmi því það er auðvitað glatað lag, en það er bara svo mikið 92 eitthvað.

Það vakti mig síðan til umhugsunar þegar ég stillti á Smash hits í sjónvarpinu og þeir voru að  sýna þátt sem heitir „Top 100 party anthems“ hvað mikið hefur breyst síðan ég var upp á mitt, ja ekki besta, en uhm ákafasta eða eitthvað. Blessunin hún Tiffany rataði nefnilega í 8. sætið með „I think we’re alone now“, það góða númer og það vakti athygli mína að hún var kappklædd allt myndbandið, nema einu sinni sá ég skína í bera framhandleggi. Hún var meira að segja í hlýlegum peysum alveg upp í háls. Hvað gerðist?

Annars áttum við mægður góða stund fyrir framan sjónvarpið. Horfðum á tónleikana með Mika. Sóley er afar skotin í honum og var strax farin að leggja plön að því að sjá hann á tónleikum og ráðast upp á svið og kyssa hann 😉 . Svona geta kellur með þrjátíu ára aldursmun náð saman, það verður að virða það við mig að hann er öllu nær mér í aldri en henni…

Montimont

Ég ákvað að gera óformlega lestrarhraðakönnun á Strumpu í gær. Lét hana lesa í eina mínútu og taldi svo atkvæðin. Fyrst lét ég hana ekki vita og hún var ægilega forvitin að vita hvað ég væri að telja og þegar hún vissi það vildi hún láta gera aðra tilraun, því þá ætlaði hún að lesa rosa hratt. Eftir þá umferð taldi ég um 160 atkvæði. Þetta er ekki alveg marktækt því í skólum er líka tekið tillit til villufjölda og annars en þetta sýnir samt hvað hún er orðin ótrúlega dugleg. Ég er ekkert smá montin.

Annars er snillingurinn með mér í skólanum í dag. Hún var sloj í morgun svo við leystum það svona. Hún er meðal annars búin að heimsækja Jón Má, það fannst henni mjög spennandi. Þau hjálpuðust að við að skoða uglu-babúsku sem hann er með á skrifstofunni. Nú og svo heilsuðum við upp á Arnljót, blómið hans Óla Pálma frá því í denn 🙂 .

Ferðasaga – laaaaaanga útgáfan

Fórum suður laugardaginn 15. mars og náðum að heimsóknast aðeins. Hittum þá bræður Helga og Sigga og fórum þaðan til Óla og Eyglóar. Höfðum ætlað að fara með þau út að borða en okkar beið þar pizzuhlaðborð. Síðan tókum við spilakvöld, byrjuðum á Dilbert sem skoraði ekkert sérstaklega hátt hjá mér, því hærra hjá Mumma, enda vann hann spilið. Síðan tókum við Bíóbrot og það var mun skemmtilegra en ég kom sjálfri mér mjög á óvart með því að sökka hræðilega í bíómyndum, needless to say þá töpuðum við hjónin. Næsta dag var það svo Bretland. Eða Litla Bretland eins og ég leit á málið. Helllloooo.

Þegar við komum á flugvöllinn kom svo í ljós að það var seinkun á vélinni. Við létum það ekki á okkur fá og versluðum okkur til gleði. Ég keypti til að mynda bæði Marimekko tösku (fann nefnilega loksins flotta græna tösku) og gps hlaupagræju, sem mælir til að mynda hraða og vegalengd, mér er því ekkert að vanbúnaði að fara að bæta mig eitthvað. Einnig bættum við í viskýsafnið sem fer að verða nokkuð sannfærandi. Það kom sér vel að vera áhugasamur í búðunum, því biðin á flugvellinum varð fyrir rest réttir sjö tímar L. Flugið var tíðindalítið, við sátum við neyðarútgang og tókum hlutverk okkar mjög alvarlega. Á Gatwick fundum við fljótt lest sem gekk inn á Victoria og þaðan tókum við Tube að hótelinu. Stöðin okkar hét Edgware Road. Hótelið reyndist síðan hið ágætasta. Við vorum komin inn á herbergi um 10 leytið og það var ekkert stuð á okkur svo við átum bara smá súkkulaði, smökkuðum vískýið og fórum að sofa.

Næsta dag tók ég síðan ákvörðun um þema ferðarinnar. Ég ákvað sem sagt að fá mér te, bjór (helst svona alvöru breskan goslausan) og viský á hverjum degi. Þess vegna hóf ég daginn á hótelinu með því að fá mér te og muffins í morgunmat. Algjör snilld. Síðan fórum við niður í bæ. Fyrsta búðin sem við fórum inn í var Apple búðin. Getið fyrir hvern??? Enda fann ég mér bara bekk fyrir rest meðan Mummi lauk sér af. Þaðan gengum við sem leið lá á Regent Street – enda var Lára sérfræðingur (sem kenndi með mér í fyrra) búin að mæla með HM þar og svo vissum við af Hamley’s þar líka. Við náðum að versla lítillega í HM – eða ég sko, keypti smá á mig og Sóleyju og þaðan fórum við í Hamley´s og keyptum smá gjafir handa grísunum okkar, Sóleyju og Sveini Áka sem var að fóstra hana. Þá var okkur farið að svengja og við löbbuðum inn í einhverja hliðargötu. Fundum ekta enskan stað, (mögulega í Carnaby Street) sem heitir Shakespeare’s head og borðuðum þar. Ég fékk mér jacket potato og Mummi fékk sér risa-borgara (Big Ben), með alveg unaðslegum öl. Það var ansi hreint gaman þarna inni, enda Patreksdagur og allt skreytt í grænu. Tókum svo smá rölt í viðbót og fórum svo heim á hótel að chilla. Við ákváðum síðan að finna einhvern stað að borða á fyrir Queen showið. Röltum á Oxford Street og Mummi álpaðist inn í leðurbúð með sölumanni dauðans. Hann bar endalaust af jökkum í Mumma og var ofur tungulipur. Lifnaði heldur betur við þegar hann frétti að við værum frá Íslandi, enda þekkti hann Gunnar sem átti *nsisglsjlslg* búðina í Reykjavík. Ég skildi ekki orð af því sem hann sagði og vissi ekki hvort búðarheitið átti að vera á íslensku eða ensku svo ég sagði bara að við værum ekki frá Reykjavík. En hann bað voða vel að heilsa Gunnari ef við myndum rekast á hann. Alla vega, mánudagar virðast vera réttu dagarnir til að kaupa sér leðurjakka því vinur okkar bauð upp á 20% afslátt af því að mánudagar eru svo rólegir !!! Mummi gat auðvitað ekki staðist mátið og gekk út algjör hustler í nýja jakkanum. Þá var hins vegar farið að styttast í Queen svo við ákváðum að fara inn á fyrsta indverska staðinn sem við sæum. Hann reyndist vera í Danmerkurstræti, how cool  en það runnu samt á okkur tvær grímur þegar við komum inn. Staðurinn var fagurbleikur og við vorum einu gestirnir… lofaði ekki góðu. En við vorum í tímaþröng svo við ákváðum að láta á þetta reyna. Þegar til kom fengum við fínasta mat, ekkert út á hann að setja. Hins vegar kom upp smá vandi þegar við ætluðum að borga, því þá reyndist posinn vera bilaður. Mummi fékk fylgd áleiðis að næsta hraðbanka en ég sat í góðu yfirlæti á spjalli við vini mína frá Bangladesh. Mummi náði næstum að taka hraðleið til himna, fann gustinn af tveggja hæða strætó fara fram hjá sér. En þetta hafðist að lokum, við borguðum og drifum okkur á Queen.

Dominion leikhúsið er ansi magnað. Risastórt og við með sæti á besta stað. Mér til gleði voru Danir fyrir aftan mig þannig að ég sat á hleri á meðan ég beið eftir að sýningin hæfist. Og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Thunder frá fyrstu mínútu, rosalegir söngvarar og gríðleg stemming í salnum. Sérstaklega hafði ég gaman af móður með tvo drengi tveimur bekkjum framan við okkur. Hún var í reglulega góðu stuði en drengirnir reyndu eins og þeir gátu að passa hana svo hún yrði þeim ekki til skammar. Þannig að í lokin þegar stuðið var sem mest og fólk staðið á fætur, syngjandi, dansandi og klappandi þá togaði annar drengurinn í hana þegar hún ætlaði á fætur. En það dugði reyndar ekki til. Annar maður sem ég sá vel var í banastuði allan tímann og klappaði og stappaði út í eitt. Sérstaklega í stuðlögunum, til dæmis Hammer to fall, þá var hann alveg að missa sig. Ég stökk á fætur í lokin og söng og dansaði. Algjör killer-sýning, mæli gjrsamlega með henni. Eftir Queen fórum við í stuði heim á hótel og fengum okkur viský fyrir háttinn.

Næsti dagur var Fat Duck dagur. Mættum á Paddington stöðina, keyptum miða og fórum með lest til Maidenhead, sem er í ca. 45 mínútna fjarlægð vestur af London. Alltaf gaman að skoða það sem fyrir augun ber í lest. Mér finnst sérstaklega gaman að skoða hús. Frá Maidenhead tókum við taxa til Bray, sem er litli bærinn þar sem Fat Duck er. Litli bærinn, ja well, samkvæmt tölum af netinu búa 7000 manns þar, en sá hluti bæjarins sem við skoðuðum bar það alls ekki með sér. Við vorum tímanlega svo við löbbuðum um High Street, þar til við vorum komin út fyrir bæinn og sáum bara hesta og tún. Það var hins vegar skítakuldi svo við fórum á staðinn aðeins áður en við áttum að mæta. Þá hófst upplifun lífs okkar. Fyrst var okkur boðið upp á fordrykk og við fengum okkur bara vatn – pössuðum að láta ekki freistast í vín því nóg vorum við samt að borga :-/ . Síðan var okkur boðið velja okkur kampavín en náðum einnig að humma það fram af okkur. Síðan var það maturinn. Við völdum svokallaðan tasting menu. Ef ég ætti að lýsa öllu yrði það minnst tvöföldun á ferðasögunni en hér er matseðillinn.

Það er varla hægt að segja að neitt hafi staðið upp úr. Maturinn var yfirleitt rosalega góður, ótrúlega fallegur og skemmtilega fram borinn. Við smökkuðum reyndar ýmislegt sem við höfum ekki fengið áður, þar á meðal dúfu, ostrur og trufflur. Svo voru ýmsar samsetningar frekar óvenjulegar, samanber eggogbeikon ís… og te sem var heitt öðru megin og kalt hinu megin. Mjög undarlegt að drekka það.

Á eftir fengum við okkur te og það var rosa seremónína hvernig það var borið fram. Fyrst telauf í vatni í einni könnu, heitt vatn í annarri könnu og svo glær skál/bolli til að drekka úr. Heita vatninu var hellt yfir hana og yfir hina könnuna og svo var teinu hellt yfir í tómu könnuna. Þetta var afar spes og mjög gott. Þegar þessu lauk tókum við aftur taxa til Maidenhead og snerum aftur til London. Því miður var svo kalt að við nenntum ómögulega að labba meira og svo þráði maður líka ”afslöppun” eða meltu eftir að borða í hartnær fjóra tíma. Enda fórum við beint á hótelið, fengum okkur lúr, vöknuðum, fengum okkur meiri lúr, vöknuðum pínu svöng og fórum niður til að fá okkur snarl og bjór (mig vantaði nefnilega bjórinn til að ná markmiðinu), fengum okkur viský og fórum að sofa. Það var ótrúlega mikið áreynsla að borða svona mikið. En þessi dagur fór sem sagt í þetta eitt og mun alveg lifa í minningunni. Við laumuðumst til að taka myndir af ýmsum réttum en mér skilst á Mumma að það sé ýmislegt á netinu líka. Þarf eiginlega að fá frekari lýsingar frá honum.

Jæja, að morgni miðvikudags ákváðum við að fara í gönguferð með gæd. Það var búið að benda okkur á fyrirtæki sem heitir Original London Walks og ég prentaði út þrjár lýsingar á gönguferðum. Sú sem mér leist best á var um hverfi sem kallast Little Venice. Mumma leist ekki eins vel á það og mér því í lýsingunni stóð að það yrði mikið um ”name dropping”. Og það reyndust engar ýkjur J. Hverfið var reyndar stutt frá okkur, tvö stopp í underground en samt eins og að koma í nýjan heim. Gædinn okkar hét Peter og var alveg unaðslegur. Með ekta kaldan breskan húmor og mjög skemmtilegt að hlusta á hann segja frá. Meðal þeirra ”frægu heimila” sem við sáum voru heimili Dave Stewart (Eurythmics…. muniði ekki?) og Joan Collins en einnig nefndi hann að okkar eigin Björk hefði búið þarna. En burtséð frá fræga fólkinu, ég þekkti hvort eð er ekki nema brot, þá var þetta geysi skemmtilegt hverfi með gríðarlega flottum húsum, eins og gefur að skilja, en inni á milli bara nokkuð týpiskar blokkir, meðal annars ein sem hafði verið með félagslegum íbúðum. Endaði sagði hann að Madonna hefði boðið í hús á svæðinu, en þegar Lord of the dance bauð hærra þá sagðist hún hvort eð er ekki vilja búa innan um fátæka fólkið 😉 . Við löbbuðum svo til dæmis meðfram Regents Canal, sem var einu sinni gríðarleg samgönguæð. Núna er reyndar hægt að taka vatnabúss til Camden, svona þegar Camden er opið amk. Anyways, eftir gönguna fórum við niður í bæ til að borða. Fórum á mexíkanskan stað, af því að ég var svo hrædd við að borða á Bella Italia, því mig minnti að það væri staðurinn sem Óli mælti alls ekki með. Þessi staður hét Chiquitos eða eitthvað álíka og var alveg þokkalegur. Við vorum samt alltaf að lenda í vandræðum með hvernig maður átti að borga og hvort tips væri tekið með og það allt…

Síðan fórum við að versla meira (þrátt fyrir ískyggilegar fréttir af hlutfalli íslenskrar krónu og bresks punds….). Fyrst fórum við í dvd búð sem Óli mælti með, Fopps held ég að hún heiti. Þar keyptum við 5 dvd, Little Britain 3 og Little Britain live, Zoolander 🙂 og Dogma og handa Strumpu Mr. Men (sem er reyndar verið að sýna á RÚV núna). Þaðan fórum við í ofurnördalega búð, Orchs eitthvað, sem var með pínu spilum en mest svona hlutverastuffi. Síðan fórum við í Forbidden planet sem var líka nördabúð, aðeins skemmtilegri af því að það var til alls konar cool Harry Potter stuff og Mummi gat skoðað Star Wars og LotR dót en hafði hemil á sér. Mig vantaði svona ”aumingjaeiginkvennabekk”. Það var bara einn stóll og hann var upptekinn allan tímann.

Svo röltum við bara um, kíktum í tvær búðir, önnur var eitthvað stjörnubull en hin var alveg dásamleg Crocs búð. Crocs venjulegir og venjulegir með bandi aftur fyrir hæl, crocs stígvél, crocs spariskór og loðfóðraðir crocs. Þrátt fyrir ofurgengi pundsins voru þeir aðeins ódýrari en hér heima eða á um 4500 en við keyptum samt ekkert. Jæja, eftir miðbæinn var ákveðið að fara í Harrods, af því að afi og amma voru í London fyrir 19 árum (mig minnti 20 en áreiðanlegar heimildir sögðu 19) og voru svo skotin í Harrods svo ég þurfti að sjálfsögðu að fara þangað. Þegar við komum upp úr Tube fundum við reyndar frábæra töskubúð, við sem vorum reyndar að spá í að kaupa nýja ferðatösku, hin var nefnilega teipuð saman. Þar var nóg úrval og meira að segja á viðráðanlegu verði en við geymdum öll kaup af því að við vorum að fara í stórverslun. Þegar þangað kom þyrmdi algjörlega yfir mig. Þvílíkur mannfjöldi í einni búð og það á venjulegum miðvikudegi. Við ráfuðum um á fyrstu hæðinni og vorum alveg að hníga niður þegar við fundum te-hús Harrods og splæstum þar í rándýrt te – en aftur, afskaplega fallega fram borið. Þá vorum við aftur komin með svolítið þrek svo við fórum og versluðum lítillega, aðallega gjafir en fundum reyndar alveg dásamlegt ”lemon curd” sem við keyptum handa okkur. Það sveik amk ekki. Skoðuðum síðan næstu hæðir aðeins. Fundum til dæmis töskudeildina þar sem töskurnar voru alls ekki á viðráðanlegu verði, allt upp í 100 þúsund fyrir tösku, en þær voru sumar ansi flottar. Sérstaklega ef þú hefðir alls ekki þurft að halda á þeim sjálfur, það voru til að mynda svona gamaldags koffort, mjög töff. Rönkuðum allt í einu við okkur að klukkan væri að verða margt, þutum í ferðatöskubúðina og keyptum tösku og þaðan í Underground, heim á hótel með töskuna og svo niður í bæ. Enginn tími til að fara út að borða, fórum á Starbucks (first time) og ég fékk mér kaffi og muffin og hringdi heim í Strumpu. Sú stutta var auðvitað í góðu yfirlæti og hafði nóg af segja af dvöl sinni. Þaðan fórum við svo í Prince of Wales theater. Það var öllu minna en Dominion leikhúsið. Við vorum með miða á fimmta bekk, mátti varla nær vera, satt best að segja, en við fengum svo sannarlega allt beint í æð. Sýningin alveg frábær, mikill húmor, ég hló eins og fífl reglulega. Tónlistin æði, en ekki hvað og þær tvær sem sungu mest alveg fínustu söngkonur en hópurinn ekki alveg jafn þunder og sá í Queen. Líka aðeins meira samhengi í leikritinu, þó þetta sé keimlíkt, svo það var ekki alltaf hægt að klappa á eftir öllum lögum, eins og var gert í Queen showinu. Leikritið endaði svo á að hópurinn flutti þrjú lög og þá var slatti staðinn á fætur og farinn að dansa og syngja með og þar á meðal ég. Eftir að prófa það á Queen var ég harðákveðin í að gera það líka á ABBA. Áhorfendur svona í eldri kantinum samt og kannski ekki alveg þess legur að standa og dansa. Brosið alveg fast á eftir sýninguna. Við heim á hótel og fengum okkur öl á barnum. Leituðum ráða hjá hótelstarfsmönnum hvernig væri best að koma sér á Gatwick og lentum á fyndna gæjanum. Hann var nefnilega alveg ótrúlega líkur Adda, vini hans Mumma, ekki nóg með að brosið væri eins og munnsvipurinn heldur sagði hann algjöra Adda brandara. Honum fannst alveg borðleggjandi að taka frekar leigubíl heldur en lest, enda ekki ljóst hvenær Gatwick-lestin færi að ganga. Við enduðum á að taka hann á orðinu og pöntuðum leigubíl.

Vöknuðum síðan upp úr hálf fimm um morguninn og tókum leigubílinn. Hann svínkeyrði í gegnum London enda engin umferð og við urðum bæði að gefast upp á að horfa í kringum okkur, slíkur var gauragangurinn. Ég sem er yfirleitt aldrei slöpp í bíl var bara farin að sjá stjörnur. Á hraðbrautinni lá hann iðulega í kringum 100 mílur, ég held að hámarkshraðinn sé 70 mílur. Við vorum amk mjög lukkuleg að komast heil á leiðarenda. Check inn tók svo rúmlega hálf tíma, síðan fengum við okkur morgunverð og náðum svo að versla svolítið…. nokkrar bækur og úrvals viský í þessari líka fínu viskýbúð. Fórum í loftið aðeins á eftir áætlun og lentum heima um 12. Mummi heyrði á tal saklausra túrista að plana ferðalag á Íslandi. Einn ætlaði að skjótast á norðurlandið og þegar hann var spurður hvort það væri ekki svoldið langt þá sagði hann að Ísland væri svo lítil eyja að maður væri bara nokkra klukkutíma að fara í kringum hana….. Ææææææ. Tókum smá hitting í Reykjavík, hittum þá bræður, Helga og Sigga og Sigrúnu. Fengum síðan skutling á Reykjavíkurflugvöll, ætluðum bara að hanga þar, áttum flug hálf sex og vorum þarna um þrjú. Sáum síðan að fluginu okkar var frestað til hálf sjö. Það var hins vegar verið að tékka inn í vél til Akureyrar og Mummi fór og athugaði hvort það væri laust. Jú vissulega var laust en það var ekki séns að hleypa okkur í hana nema við borguðum fullt verð. Jamm, þeir eru liðlegir hjá Flugfélagi Íslands maður. Búnir að seinka fluginu manns en samt ekki hægt að gera neitt fyrir mann. Enda var flugvélin okkar enn seinni en þetta, við vorum lent á Ak um átta, frekar ergileg en samt ljúft að koma heim. Við boðin í mat til Kristínar og Árna, ekkert smá þægilegt. Strumpan býsna kát að hitta okkur en fannst við hafa verið full hógvær í gjöfum…

 

Frábær frammistaða

Mikið óskaplega var ég montin af mínu fólki í Gettu betur. Ja, nema fíflinu sem argaði úr salnum þegar Konni ætlaði að svara 100 metrar. En þau tóku frábæran endasprett, sýndu æðislegan karakter og komu drengilega fram undir lokin. Ég var hins vegar búin að spá því að hraðaspurningarnar yrðu þeim að falli. Klárlega ekki þeirra sterkasta hlið. En ég átti líka góðan endasprett, svaraði Duran Duran þegar Konni var að tala um Black Sabbath… 🙂 Sorgin var samt mikil á heimilinu, Sóley grét í góða stund eftir að úrslitin lágu fyrir. Erfitt að lifa sig inn í alla leið.

Annars er það bara lokaundirbúningur fyrir ferðina. Ekkert smá geggjað. Verst að pundið er ískyggilega hátt.

Myndatakan búin…

Ég kom sterk inn í myndatökunni, hafði á tilfinningunni að ég blikkaði augunum í hvert sinn sem Finnbogi smellti af en fékk svo að sjá að það hafði ekki verið svo slæmt. Hann skammaði mig samt fyrir að sitja með herptar varir, ég sem reyndi að vera svo afslöppuð. Hann fær síðan að hafa lokaorðið og velja rétta mynd. Enginn valkvíði hjá mér sem sagt. Það var líka auðveldara að brosa fallega til hans en Palla, Finnbogi er svo mikið krútt.

Afmælisveislan í gær var ágæt. Ég tók meðvitaða ákvörðun um að hafa engin prógrömm fyrir börnin og það hafðist sem betur fer. Fyrst léku þau sér prúð inni í herbergi með lokað að sér og ég vissi ekki af þeim. Síðan borðuðu þau, afar hollar veitingar, ein fiðrildakaka, muffins og svo bara hollusta, jarðarber, bláber, ananas, saltstangir, ostbitar og þess háttar. Þau lifnuðu samt við eftir að borða og voru farin í eltingarleik um allt hús en þetta hafðist allt því það var ekki svo langur tími eftir í slíkan hasar. Við fórum síðan á Greifann og borðuðum og Sóley tilkynnti öllum þjónum að hún ætti afmæli. Fékk líka þennan væna afmælisís og borðaði vel af honum. Mér var hætt að lítast á blikuna og minnti hana á að hlusta á hvað maginn segði en þá kom hann víst með skýr skilaboð um meiri karamellusósu 🙂 . Eftir Greifa fékk hún svo seinni afmælisgjöfina sína frá okkur foreldrunum. Við keyptum handa henni skauta, sem þýðir það eitt að við þurfum að hysja upp um okkur og drífa okkur með henni á skauta… ég hef aldrei getað neitt á skautum svo það verður skrautlegt. Strumpan var samt alsæl, mátaði þá og fékk að æfa sig að standa á handklæði á gólfinu. Ég var farin að halda að hún myndi sofa í þeim en það slapp.

Já og ps

Myndatakan fyrir skólaspjaldið er á morgun. Ég er því miður ekki í mínu besta formi, með hor í nös svo það er heldur dökkt útlit. Ég drekk samt viský á hverju kvöldi til að reyna að ná fullri heilsu svo það er ekki öll von úti enn.

Afmælisbarnið

Þá er maður orðin 5 og alles og mikil gleði með það. Frændsystkini henndar sáu til þess að það var nóg af pökkum að opna í morgun, foreldrarnir voru seinir til framkvæmda og Strumpu beið þess vegna bara einn lítill pakki frá þeim (innihaldandi disk til að læra dönsku, sjáiði fyrir ykkur ör á sálinni í framtíðinni…) Hún fór svo glerfín í leikskólann og verður síðan sótt tímanlega til að geta skreytt fiðrildakökuna og skellt sér í bað áður en gestirnir koma. Síðan ætlum við út að borða á Greifann eftir veislu. Símtöl mega þá berast milli hálf sjö og sjö, svona um það bil.

Ég er á endalausum þvælingi hins vegar. Horfði í fyrrakvöld með litla kvikmyndaklúbbnum á mynd sem heitir Prag. Hún hefur það sér til ágætis að það sést í rassinn á Mads Mikkelsen og vel þess virði að horfa á hana bara fyrir það. Annars var hún mikið drama, góð reyndar sem slík en ekki var maður mjög jolly þegar henni lauk. Í gær fór ég síðan á Söngkeppni MA sem var ágæt skemmtun. Nokkur atriði sem stóðu upp úr. Frændfólk mitt, þau Þórunn og Sindri Rögnvaldsbörn, barnabörn hans Þorsteins afabróður míns, komu fram. Sindri minnti mig á köflum á Óla bróður, ekki beint útlitið en eitthvað. Það fannst mér skondið. Í öðru sæti var ansi góð stelpa, ég held hún eigi að syngja í Gettu betur annað kvöld. Gaman að því að hún söng „Litli tónlistarmaðurinn“ sem Jónsi tók fyrir MA hér um árið – ’96 líklega. Stelpan sem vann söng Coldplay lag sem heitir Fix you. Hún var mjög flott og örugg á sviði, með þvílíku strengjasveitina með sér.

Annars eru tveir dagar í Rvík og þrír dagar í London. Yeah baby yeah.

Fyrsti í afmælishátíð

Gærdagurinn var vellukkaður. Troðfullt hús af fólki, gestir voru samtals 20 en ekki alveg allir á sama tíma. Varla að það komist fleiri með góðu móti í húsið. Kökur gengu sæmilega út, afmæliskakan sem varð á endanum fyrir valinu var Kalli kanína og tókst hún vel hjá Mumma. Gott að hafa listamann sem getur dundað sér við skreytingar. Ég er meira fyrir að drulla einhverju á… Afmælisbarnið mjög lukkulegt, afar ánægð með afmælisgjafirnar og fór meira að segja að leika sér í morgun, frekar en að horfa á sjónvarpið, sem er nú ánægjuleg tilbreyting. Hún hefur svo fimmtudaginn til að djamma áfram, gott að hafa framhald.

Ég tók næstu dönsku seríu með trompi í gær. DR að sýna nýja, hún heitir Album. Lofar ágætu, gerist á þremur áratugum og skondið að sjá áttunda áratuginn í gær. Nokkuð stíft prógramm í vikunni, litli kvikmyndaklúbburinn á morgun og söngkeppni MA á miðvikudaginn. Afmæli 2 á fimmtudag, GB á föstudag, suður á laugardag og út á sunnudag. Þetta verður amk fljótt að líða.

GB gleði

Það var stemming í vinnunni í dag, allir lukkulegir með gærdaginn. Jónas lagður í einelti að eigin sögn, fékk nefnilega viðurnefnið El Ninjo… 🙂 Ég fór í fegrunaraðgerðirnar tvær í dag til að vera við öllu búin eftir helgina. Nú er ég með öllu styttra hár, enda var það svo sem farið að þvælast ansi mikið fyrir mér, nánast trufla svefn því ég lá alltaf svo asnalega á því. Og með fagurlega mótaðar brúnir, eins og venjulega ansi hvöss svona á fyrsta degi en það ætti þá amk að vera búið að jafna sig. Vinnufélagar mínir hafa líka farið í aðgerðir, þrátt fyrir stór orð en sennilega erum við nýgræðingarnir spenntastir. Það getur bara endað illa.

Stór stund nálgast

Ótrúlegt en satt, ég er ekki að vísa í afmæli dóttur minnar sem er eftir rúma viku. Heimilislífið snýst samt mikið til um það og sú stutta skiptir svo ört um skoðun á afmælisköku að það er engin leið að fylgjast með. Við ætlum að halda upp á það fyrir fjölskylduna á sunnudaginn kemur, hún fær svo að bjóða fáum útvöldum á afmælisdaginn. Maður verður að smá hita sig upp í þessi ægilegu bekkjarafmæli *hrollur*.

Mál málanna er sem sagt ekki afmælið, heldur skólaspjaldið… það er sem sagt komið að hinu þriggjaáravissu spjaldi og nú er málið að toppa síðasta spjald. Ég hreinlega verð að vera sætari en ég var í 4. bekk svo ég pantaði mér snarlega klippingu og plokkun og litun svo ég eigi einhvern séns. Það að fara í plokkun og litun er strax plús því svoleiðis var ekki uppfundið þegar ég var í 4. bekk, það hlýtur að muna ansi hreint miklu. Ég er búin að æfa sama sæta brosið en því miður hef ég ekki aðgang að sömu, sætu fjólubláu peysunni. Anna systir á – átti hana nefnilega. Annars hefði ég getað tekið „finnið 5 villur“ á dæmið. Miðað við hvað ég fríkkaði mikið frá 1. bekk til 4. bekkjar hlýt ég að vera orðin margfalt fegurri í dag…. annars held ég að ég sé eina manneskjan í kennaraliðinu sem bíð spennt, hinir eru allir komnir á það stig að þeim finnst vera tvær vikur síðan síðasta spjald var tekið og sumir hafa jafnvel á stefnuskránni að vera sem ljótastir 🙂 .

PS Annars er það Finnbogi sem tekur myndirnar versus Palli í gamla daga. Það hlýtur að vera manni í hag líka.