Myndatakan búin…

Ég kom sterk inn í myndatökunni, hafði á tilfinningunni að ég blikkaði augunum í hvert sinn sem Finnbogi smellti af en fékk svo að sjá að það hafði ekki verið svo slæmt. Hann skammaði mig samt fyrir að sitja með herptar varir, ég sem reyndi að vera svo afslöppuð. Hann fær síðan að hafa lokaorðið og velja rétta mynd. Enginn valkvíði hjá mér sem sagt. Það var líka auðveldara að brosa fallega til hans en Palla, Finnbogi er svo mikið krútt.

Afmælisveislan í gær var ágæt. Ég tók meðvitaða ákvörðun um að hafa engin prógrömm fyrir börnin og það hafðist sem betur fer. Fyrst léku þau sér prúð inni í herbergi með lokað að sér og ég vissi ekki af þeim. Síðan borðuðu þau, afar hollar veitingar, ein fiðrildakaka, muffins og svo bara hollusta, jarðarber, bláber, ananas, saltstangir, ostbitar og þess háttar. Þau lifnuðu samt við eftir að borða og voru farin í eltingarleik um allt hús en þetta hafðist allt því það var ekki svo langur tími eftir í slíkan hasar. Við fórum síðan á Greifann og borðuðum og Sóley tilkynnti öllum þjónum að hún ætti afmæli. Fékk líka þennan væna afmælisís og borðaði vel af honum. Mér var hætt að lítast á blikuna og minnti hana á að hlusta á hvað maginn segði en þá kom hann víst með skýr skilaboð um meiri karamellusósu 🙂 . Eftir Greifa fékk hún svo seinni afmælisgjöfina sína frá okkur foreldrunum. Við keyptum handa henni skauta, sem þýðir það eitt að við þurfum að hysja upp um okkur og drífa okkur með henni á skauta… ég hef aldrei getað neitt á skautum svo það verður skrautlegt. Strumpan var samt alsæl, mátaði þá og fékk að æfa sig að standa á handklæði á gólfinu. Ég var farin að halda að hún myndi sofa í þeim en það slapp.