Mótmæli í Möðruvallastræti

Óeirðirnar hafa borist norður og mótmælin gerast við dyrnar hjá mér. Þegar við komum heim í gær var búið að grýta bíl nágrannans með eggjum. Ekki veit ég hvað hann gerði til að verðskulda það. Hann fer reyndar í taugarnar á mér, keyrir upp götuna eins og hann sé á þjóðvegi eitt og heldur (reyndar ekki mjög oft) partý sem enda úti á götu með tilheyrandi sóðaskap og hávaða. Kannski var einhver nágranni að senda honum skilaboð. Gott að hann kveikti ekki í bílnum eins og þeir gera í Grafarvogi.

Jibbý

Ég er að fara að kenna danskan kvikmyndaáfanga næsta vetur. Snilllld. Ég var alveg búin að afskrifa það af því að ég hélt að ég myndi hlera eitthvað ef það væru nógu margir að velja hann, en svo kom Selma í morgun og hafði þessar fréttir af fundi á föstudaginn. Samt klikkuðu litli frændi og skáfrændi á að velja áfangann, ég hafði alveg treyst á stuðning fjölskyldunnar…

Sumardagurinn síðasti

Það sem það er búið að vera gott veður á mann þessa síðustu viku. Algjörlega vonlaust í kennslu reyndar en fínt til að vera úti með unganum. Tókum hjólið hennar fram á sunnudaginn og hjálpardekkin af og nú er hún að ná ágætum tökum á listinni að hjóla. Hún var svo sem ekki sátt á sunnudaginn, fannst þetta ganga hægt og allt vera ómögulegt en svo fórum við á mánudaginn með Ástu vinkonu hennar og þá var Sóley alveg til í að sýna hvað hún gat. Á þriðjudaginn fórum við í sund í Þelamörk en komum áður en það var opnað og Sóley lék sér á leikvellinum við skólann en svo mundi ég að hjólið var í skottinu og hún æfði sig dágóða stund. Sundið var svo yndislegt, ég fór meira að segja á bekk og sólaði mig, í einar fimm mínútur eða svo. Ég hef aldrei haft eirð í mér að liggja í sólbaði, þrátt fyrir að vera heimsins mesti letingi og líður best liggjandi út af…

Í gær fórum við svo og keyptum langþráð trampólín og settum saman í morgun, þrátt fyrir vetrarspá um helgina. Það er ekki hægt að sleppa svona góðum degi eins og í dag. Sóley og Ingunn hafa líka verið úti síðan í morgun, so far stórslysalaust. Ég tók smá hoppusyrpu en fékk hálfgerðan svima. Þar að auki var ég rétt búin að fá mér sænska sumartertu og það passaði ekki við hoppin. Við þurftum reyndar að fórna tré til að koma græjunni á óskastaðinn. Mummi er miður sín en ég hafði alltaf haft horn í síðu þess. Það hefur stækkað ansi mikið síðan við fluttum hingað svo það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá fyrir sér rest. Lóðin okkar þarf víst ekki á einu risatrénu enn… En kannski ég taki upp daglegt trampólínhopp. Þetta er þrusuerfitt og býsna gaman.

Sumarleyfi í útlöndum

Þá er búið að setja sumarleyfið á annan endann og ég verð nærri því meira í útlöndum en hér heima. Við dönskukellurnar, ég og Selma, ákváðum nefnilega eftir ágæta hvatningu að sækja um á námskeið í Danmörku sem lofar óheyrilega góðu. Bara það að í því sé dagsferð til Skagen réttlætir auðvitað allt, jeg glæder mig enormt. Ég verð sem sagt ekki nema rétt búin að henda inn einkunnum, já og vonandi að skemmta mér smá með einhverjum 15 ára stúdentum, þegar ég þarf að leggja í hann. Sumarið lítur því svona út; 18. júní Danmörk. 28. júní Svíþjóð. 9. júlí Ísland – Reykjavík. 13. júlí, eða þar um bil, home sweet home. Þetta verður líklegast lengsta sundur okkar hjóna, hvað þá að nefna okkur mæðgur. En við systur fáum aftur á móti smá gæðasystrastundir….

Út og suður

Skrapp í borgarferð í upphafi viku með samkennurum mínum. Flugum suður í bítið á mánudagsmorgun í ævintýralega fallegu veðri og fengum leiðsagðan túrinn. Ekki valmöguleiki að halla aftur augunum eins og ég hafði planlagt. Þegar við komum í borgina var fyrst haldið í Borgarholtsskóla, þaðan í KHÍ og loks heimsóttum við Keili á Vellinum. Það var afar skemmtileg kynning, bæði lofar skólinn góðu og verður gaman að sjá hvað verður úr en ekki síður gaman að fá að skoða aðstöðuna. Skoðuðum til að mynda tvær íbúðir, hin bælda húsmóðir í mér fékk geðveikt kikk út úr því að sjá ammrísku græjurnar. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að þær hugmyndir hafi í alvöru verið viðraðar að henda þeim öllum út, eða segjum að ryðja öllum húsunum um koll.

Um kvöldið fórum við að borða á Þrem frökkum. Þar hef ég ekki borðað áður og valdi viturlega, við gátum valið um steinbít eða lamb og í ljósi þess að steinbítur er ein sú fisktegund sem reglulega er á borðum hjá mér, ákvað ég að fá mér frekar lamb. Það kom svo í ljós að lambafólkið var mun sælla en fiskifólkið.

Að morgni þriðjudags fórum við allflest í heimsókn í Hraðbraut, það var gaman að fá innsýn þar. Síðan fórum við á hið nýja háskólatorg, ég var vægast sagt með blendnar tilfinningar, því það er búið að byggja svo mikið í kringum elsku Nýja Garð að hann er orðinn eins og krækiber inn um öll hin húsin. Hitti Óla bróður í mýflugumynd á Þjóðminjasafninu. Síðan lögðum við í hann upp í Borgarnes. Það var líka skrýtið að koma þangað. Það er búið að byggja svo mikið niðrí bæ, maður hefur jú séð öll nýju húsin í hinum enda bæjarins en ekki þarna í gamla hlutanum. Og svo eru hin og þessi hús að drabbast niður, eins og gamli sparisjóðurinn og fleiri. Við borðuðum í Landnámssetrinu og það var mjög gaman, skemmtilegt umhverfi og fínasti matur.

Að síðustu litum við inn í Menntaskóla Borgarfjarðar, fengum að spjalla við skólameistara og skoða húsið sem enn er reyndar í vinnslu. Samt gaman að sjá hvernig það er að verða til og hvaða pælingar eru í gangi. Og staðsetningin er frábær, hvað sem verður svo um tjaldstæðið.

Síðan var rúntað í rútu norður, einn ágætur samkennari minn fór hamförum með krossgátur í beinni, las upp vísbendingarnar úr rugl-gátu Moggans og hún var leyst í sameiningu. Þó var engin aðstoð frá mér, ég sem er glötuð í venjulegum krossgátum á mér ekki viðreisnar von í þessari… ég næ bara ekki að hugsa á svona undarlegum nótum.

Við Selma erum svo orðnar glóðvolgar að fara á námskeið í DK í sumar, það kom nefnilega dönskukennari svífandi á Selmu í Borgó og hvatti hana til að koma á námskeið. Það skýrist fljótlega hvort af verður.  Egilsstaðir bíða svo á föstudag, þá fara tungumálakennarar úr MA og VMA austur í síðustu lotuna okkar í vetur. Maður er bara ekki heima hjá sér frekar en ráðamenn þjóðarinnar 🙂 .

why god – why?

Það er ball með Nýdönsk í Sjallanum annað kvöld und ich möchte…. En þrátt fyrir fallega mætingaráskorun í dagskránni til allra þeirra sem hafa dansað með Nýdönsk síðustu 20 árin þá sé ég það ekki gerast. a) Ég er gömul. b) Ég er framhaldsskólakennari. c) Þetta er Sjallinn. Þetta þrennt á afleitlega saman. Ég auglýsi eftir balli með Nýdönsk með 30 ára aldurstakmarki. Þá gæti maður sko tjúttað.

Og þetta kallar sig dönskukennara!

Ég verð að játa eina býsna stóra synd. Þannig er að sjónvarpið hefur um nokkurt skeið sýnt danska þætti sem kallast Klovn. Ég er rétt svo nýlega farin að horfa á þá, reyndar til ómældrar ánægju, en ástæðan fyrir því að ég horfði ekki á þá frá upphafi var sú að ég þurfti að velja á milli þess að horfa á House og Desperate Housewifes eða á hann Frank. Jafn illa og mér er við að velja frekar amerískt sorp en danska gæðaþætti þá er gleði mín með áðurnefnt sorp mörgu öðru sterkari, sérstaklega á Hugh Laurie stað í hjarta mínu. En nú er enginn House að trufla mig og ég hef því helgað fimmtudagskvöldin Frank Hvam. Hann er yndislegur líka. Ég held ég verði að kaupa þættina á dvd. Var að skoða að fyrsta sísonið kostar bara 1000 kall (á þessum síðustu og verstu… reyndar fæ ég alltaf nett áfall þegar ég fer inn dvdoo.dk því þeir sýna núna verð í íslenskum og ég held alltaf fyrstu hálfu sekúnduna að það sé danska verðið.)