Ofur góðir dagar

Það hefur ekki vantað blíðuna hér á okkur síðustu daga. Með merkilegum afleiðingum. Haldiði ekki að liðið hafi farið í vorhreinsun í garðinum á sunnudaginn og – það sem meira og merkilegra er auðvitað – málað skúrinn á mánudaginn. Það erum við nefnilega búin að humma af okkur síðan 2005, og tók síðan ca. tvo tíma þegar til kom. Það er bara þannig að á svona dögum er maður bara glaður að hafa eitthvað að gera úti við. Ég var meira að segja að hugsa um að borða úti í gærkvöldi, það var reyndar engin sól en við hefðum getað kveikt á kerti, það bærðist ekki grasstrá í garðinum. Síðan fannst mér það ekki alveg að gera sig – indverski maturinn átti betur við inni í eldhúsi.

Nú eru hins vegar munnleg próf og við sitjum og stiknum í stofu 27 sem hefur baðast í morgunsólinni. Grillum börnin í leiðinni 😉 . Hefðum betur farið í Lystigarðinn og prófað þau þar…

Elíft stuð

Árshátíð KVENMA var með eindæmum vel heppnuð, þó ég segi sjálf frá. Við byrjuðum á að dansa í Fjósinu, alveg hörkupúl sem Hóffa (Bjargs-kennari með meiru) stýrði fyrir okkur. Mikil gleði þar. Nú svo var haldið í rútu í Laufás. Þar er geysilega skemmtilegur salur – svona glerskáli sem er byggður við gamla prestbústaðinn og veðrið var dásamlegt og útsýnið eftir því. Við byrjuðum á að fara í ansi skemmtilegan leik sem ég fann á netinu. Hann fólst í því að áletraður pakki var látin ganga. Þegar leikurinn byrjaði stóð til dæmis utan á pakkanum „til þeirrar með fallegustu fótleggina“ og ég fór með pakkann til þeirrar sem fékk þá nafnbót. Sú opnaði síðan pakkann, þá tók við önnur áletrun… „til þeirrar með blíðasta brosið“…. og svo framvegis. Svona gekk pakkinn svona 10 umganga og að lokum var búið að taka utan af gjöfinni. Að þessu loknu fengum við forrétt. Síðan var farið í myndagetraun, þar sem Mummi var búinn að púsla saman andlitum starfsmanna, þannig að hver mynd samanstóð af andliti með nýjum augum og munni. Síðan átti að þekkja þá sem voru á myndinni (þessa hugmynd fékk ég á miðvikudagskvöldinu og kom sér vel að skólaspjaldsmyndirnar voru aðgengilegar á netinu ;)… Það er skemmst frá að segja að konurnar sökktu sér algjörlega í þetta verkefni, getraunin var hins vegar erfið, sem sást best á því að sumum tókst ekki að þekkja eigin andlitsparta eða makans !! Mesta lukku vakti samsett mynd af Jónasi (andlit) og Kristínu Sigfús. (höfuð og búkur) enda var Jónas eins og nýkominn úr kynskiptiaðgerð. Á meðan þessum leik stóð fengum við aðalréttinn. Lokaskemmtiatriðið var síðan spurningakeppni þar sem var skipt í lið eftir borðum. Það voru bjölluspurningar (hlauparar frá hverju borði stillt upp hlið við hlið), sumar tengdar MA eins og hvað er Jón Már hár, aðrar svona almenn vitneskja eins og hver samdi „Dægurlagasöngkona dregur sig í hlé og hvað heitir aðalpersónan“…
Síðan voru tvær vísbendingaspurningar, svo tók við „þekktu lagið“ þar sem ég las brot úr dægurlagatexta – og bónusstig veitt fyrir að syngja … og að lokum „actionary“ þar sem ýmsar fóru á kostum í leik, sumir nokkuð óvænt en aðrir með þekkta hlið á sér. Við enduðum á happdrætti.
Ég hafði haft samband við nokkur fyrirtæki og fékk frábær viðbrögð frá tveimur, Bjargi og Jóa í Borgarbíó, ömurleg viðbrögð frá sundlauginni, þar sem var ekki heilsað eða kvatt í bréfinu – heldur nánast hreytt í mig að svona samtök (eins og við værum mafían eða eitthvað) væru ekki styrkt. Abaco svaraði ekki einu sinni. Það er alveg óbærilega leiðinlegt að standa í svona betliveseni en mjög fróðlegt að sjá mismunandi svör og frábært hvað sumir eru elskulegir. En fyrir utan bíómiða (sem kosta nú ekki lítið þessa dagana) og Bjargskort vorum við líka með nudd (í boði Ingu íþróttakennara) og köku í vinning, svo þetta tókst vel. Einnig hafði ég kríað út snyrtivöruprufur svo það fengu allar ilmvatn eða krem 🙂 Við keyrðum síðan í bæinn, það myndaðist eitt eftirpartý sem ég mætti ekki í, enda að fara að horfa á fimleikasýningu hjá Sóleyju snemma næsta dag.

Nú er einmitt öllum tómstundum hennar að ljúka. Fimleikasýningin á laugardaginn var skemmtilegt, enn og aftur sýndi Sóley að hún getur talað við öll tækifæri. Svo eru langþráðir tónleikar í leikskólanum á föstudaginn – hún er mjög spennt að verða aðalstjarnan þar. Hún er ákveðin í að halda áfram í fimleikum og fiðlu næsta vetur. Ég hef líka verið ánægð með hvoru tveggja svo mér finnst gott að hún hafi áhuga á báðu. Sú stutta var einmitt í 5 ára skoðun í gær. Glansaði þar eins og við var að búast. Samt ekki ánægð með sprautuna, þótt það æmti ekki í henni. Lenti í gríðarlegri valkrísu þegar hún var að velja verðlaun, það voru svona 10 hlutir sem hana langaði í. En þegar hún fékk að vita að það mætti fá bæði dalmatíu-mömmu og hvolp þá var valið auðveldara, þó svo að það væri úllað til öryggis.

Svo er það bara síðasta kennsluvikan og próf og allt sem þeim tilheyrir næstu tvær – þrjár vikurnar. Sem þýðir auðvitað að það styttist í Danmörk/Svíþjóð. Að nógu að huga núna samt, þrjú Eurovisionkvöld (ég var nokkuð sátt í gærkvöld og loks kom að því að við mægður sameinuðumst yfir keppninni, ég hef hlakkað til þess í mörg ár), lokahóf Ladies Circle á föstudagskvöld og konunglegt brúðkaup á laugardag með hittingi hjá konunglega félaginu mínu (Anna, getur þú skotist eða verðurðu með okkur í anda?….) Þetta verður fljótt að líða.

Árshátíðarstúss

Jæja, þá er komið að árshátíð nr. 2 þennan mánuðinn. Nýbúin að standa í undirbúningnum fyrir LC/RT árshátíðina sem var náttúrulega frábær – nú er komið að árshátíð KVENMA sem er félagsskapur hér innan skólans. Ég er sem sagt í nefnd og finnst sjálfri að þetta lofi voða góðu. En þar sem þetta verður óvissuferð get ég engu ljóstrað upp hér, aldrei að vita hverjir slysast hér inn. Öll smáatriði verða birt þegar hátíðin er afstaðin.

Í vikunni komst ég líka á kvikmyndahátíð Hafdísar, Kristínar og Þóru. Loks loks. Nú ákváðum við að horfa á góða rómantíska gamanmynd svo við færum örugglega ekki grátandi heim eins og eftir síðustu mynd. Sú sem fyrir valinu varð heitir „Den store dag“ og var líka svona ljómandi skemmtileg, með mörgum kunnuglegum andlitum, ég var reglulega að kveikja á einhverri peru „já þetta er bróðir hennar Önnu Pihl“ og svo framvegis. Alltaf gaman að hitta vini sína. Við píurnar skildum líka með bros á vör.

Annars er bara vinna af ýmsu tagi. Eitt situr algerlega á hakanum. Garðurinn er enn eins og óræktarbeð með mosaræktunarívafi. Það hefur líka varla verið þurr dagur til að sýsla, að minnsta kosti ekki þegar ég er á lausu, ég nenni nú ekki út til að blotna…. Við erum skömm hverfisins, það er engin spurning. Sennilega er það ástæðan fyrir því að Tolli setti á sölu (og er kannski búinn að selja).

Þar fór það…

Myndirnar fyrir skólaspjaldið eru klárar… og ég er ekkert of hress með útkomuna. Mér finnst ég skyndilega líta út fyrir að vera tileygð, veit ekki til þess að það hafi hrjáð mig áður. Eina huggun mín er sú að ég hefði líklega verið enn asnalegri ef ég hefði ekki lagt í allar fegrunaraðgerðirnar. Dýrðina má berja augum hér. Neðst á síðunni er hið fallega starfsfólk. Margar myndirnar eru flottar og lygilegasta fólk brosir. Ég meina, hver (annar en Finnbogi) hefur séð Sigurð frænda minn Ólafsson brosa? Ég ætlaði varla að þekkja kallinn.