Árshátíðarstúss

Jæja, þá er komið að árshátíð nr. 2 þennan mánuðinn. Nýbúin að standa í undirbúningnum fyrir LC/RT árshátíðina sem var náttúrulega frábær – nú er komið að árshátíð KVENMA sem er félagsskapur hér innan skólans. Ég er sem sagt í nefnd og finnst sjálfri að þetta lofi voða góðu. En þar sem þetta verður óvissuferð get ég engu ljóstrað upp hér, aldrei að vita hverjir slysast hér inn. Öll smáatriði verða birt þegar hátíðin er afstaðin.

Í vikunni komst ég líka á kvikmyndahátíð Hafdísar, Kristínar og Þóru. Loks loks. Nú ákváðum við að horfa á góða rómantíska gamanmynd svo við færum örugglega ekki grátandi heim eins og eftir síðustu mynd. Sú sem fyrir valinu varð heitir „Den store dag“ og var líka svona ljómandi skemmtileg, með mörgum kunnuglegum andlitum, ég var reglulega að kveikja á einhverri peru „já þetta er bróðir hennar Önnu Pihl“ og svo framvegis. Alltaf gaman að hitta vini sína. Við píurnar skildum líka með bros á vör.

Annars er bara vinna af ýmsu tagi. Eitt situr algerlega á hakanum. Garðurinn er enn eins og óræktarbeð með mosaræktunarívafi. Það hefur líka varla verið þurr dagur til að sýsla, að minnsta kosti ekki þegar ég er á lausu, ég nenni nú ekki út til að blotna…. Við erum skömm hverfisins, það er engin spurning. Sennilega er það ástæðan fyrir því að Tolli setti á sölu (og er kannski búinn að selja).