Lasna Bína

Þá kom að því að heilsufarið lenti í áföllum, í takt við annað. Strumpan gaus í nótt með tilheyrandi litlum nætursvefni og ófögnuði. Er þó óðum að ná sér og móðirin búin að planta henni dyggilega fyrir framan sjónvarpið og grípur í vinnu og tölvu á meðan. Vonir standa til að þetta taki skemmri tíma en þjóðarkrísurnar. Sú stutta er alsæl að vera heima í dekri, aldrei er hugsað jafn vel um mann og þegar maður er lasinn (kók og vídeó er alveg málið…). Unglingurinn gerði annars vart við sig um daginn. Við vorum nefnilega í heimsókn hjá Kristínu og Árna og sex ára unglingurinn þar var búinn að skrifa aðvörun utan á hurðina sína um að það ætti að banka, með hauskúpu og tilheyrandi. Mín gat ekki verið minni manneskja og skrifaði líka reglu fyrir sitt herbergi, örlítið minna ógnvekjandi reyndar, því myndskreytingin var af regnboga og hjörtum, meðal annars.

Ég vinn frameftir öll kvöld núna, hið hroðalega miðannarmat framundan og eitthvað þarf að vera konkret á bakvið stafinn sem maður slettir fram um nám barnanna. Hlakka ekkert smá til þegar kvöldvinnan einskorðast við einn til tvo tíma aftur. Ég átti líka snilldarleik í síðustu viku. Ætlaði að breyta leikhúsmiðunum okkar til að Mummi þyrfti ekki að fórna balsa-stund en komst að því að ég hafði átt að vera í leikhúsi nokkrum kvöldum fyrr. Hummaði það lengi fram af mér að gráta í miðasölunni enda skrifaðist þetta alfarið á eigin heimsku. Fór loks og grét undir rós og miðasölukonan vorkenndi vitlausa kúnnanum og græjaði nýja miða. Svo hápunktur vetrarfrísins eftir viku verður leikhúsferð á Músagildruna. Strumpan að sjálfsögðu mjög ósátt við að fá ekki að fara með og var lítið gagn að loforðum um jólasýninguna um Láp, Skráp og jólaskapið. Hitt er mun meira spennandi.

Klukkiklukk

Óli klukkaði mig…

1. Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
– Við kjötvinnslu í Kjötiðnaðarstöð KEA
– Á kassa í Hagkaup, fæ enn martraðir
– Stuðningsfulltrúi á sambýli
– Alt muligt kennari (danska, enska, íslenska, tónmennt, lífsleikni)

2. Fjórar íslenskar bíómyndir sem ég held upp á:
– Sódóma Reykjavík (á hana á DVD)
– Með allt á hreinu (á hana líka á DVD)
– Mýrin var þokkaleg

3. Fjórir staðir sem ég hef búið á:
– Akureyri (en á mjög mörgum stöðum þar)
– Reykjavík (á þremur stöðum)

4. Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
– Danmörk, vítt og breitt, en ekki hvað?
– Svíþjóð, hér og þar
– Finnland
– Tékkland
5. Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
– Klovn
– House
– How to look good naked
– Little Britain
6. Fjórar síður sem ég skoða daglega:
– Google Reader
– Google Mail
– Facebook
– ma.is

7. Fernt sem ég held upp á matarkyns:
– Önd
– Hörpuskel
– nammi
– ís
8. Fjórar bækur sem ég hef oft lesið:
– Anna í Grænuhlíð
– Harry Potter
– Dægurlagasöngkona dregur sig í hlé
– Bróðir minn Ljónshjarta
9. Fjórir staðir sem ég myndi helst vilja vera á núna:
– Í rúminu mínu, sofandi
– Að versla í HogM á gamla genginu
– Í Kaupmannahöfn

10. Fjórir bloggarar sem ég klukka:
– Erna Erlings  – veitir ekki af hvatningunni
– Ásdís
– Villi – hann þarf líka hvatningu
– Dagný

(rétt náði að merja í fjóra lesendur… svona til að sanna að ég kann alveg að telja upp í fjóra).

Fiðlusóló

Litli fiðluleikari heimilisins var með tónleika í dag. Þeim hafði reyndar verið frestað um viku en stóra stundin rann loks upp í dag. Öllu var tjaldað til, farið í rauða sænska kjólinn frá Önnu Steinu og bleika slaufunælan sett upp. Sú stutta var nefnilega með sviðsskrekk í fyrra svo ég lagði alla áherslu á að gera þetta að stórri stund. Hún var svo fyrst á svið, Tiina spilaði undir á píanó og Strumpan tók E-strengslagið með bravör. Foreldrarnir og Sigga amma í fremstu röð, eflaust öll að springa úr stolti. Það var Sóley líka. Kláraði dæmið óvenju örugglega. Við höfum æft það undanfarið að hafa höfuðið kyrrt þegar er spilað og það hafðist ótrúlega. Ekki nema smá auka tónar í laginu og takturinn alveg til fyrirmyndar. Hún fékk heilmikið hrós á eftir og fékk í leiðinni smá kennslustund í því hvernig á að taka hrósi. Hún hafði svo orð á því á leiðinni heim að henni liði svo vel í hjartanu. Ég skrapp síðan inn í Pennann til að kaupa handa henni bók í verðlaun fyrir góða frammistöðu. Hún mátti fá eftirmat (sem móðirin græddi auðvitað á líka) og við fengum okkur heimagerðan sjeik, svona eins og ég gerði með mömmu í gamla daga.

Það má segja að dagarnir séu ólíkir. Dr. Jekyll var nefnilega hér í gær og var settur grenjandi í rúmið eftir að það gekk hvorki né rak með kvöldmatinn. Þá voru foreldrarnir að springa af öðrum orsökum og ég var svo úrvinda að ég kom mér ekki að neinni vinnu. Sem betur fer eru þessir dagar færri…

Um helgina verður algjör stórhátíð. Fimmtugsafmæli hjá Öddu ömmu og af því að ég er með þráhyggju á háu stigi, eru það einnig tónleikar með Nýdönsk seint sama kvöld. Svo það stefnir í algjört jömm. Get ekki beðið.

Fullnýtt borgarferð

Fór í sólarhringsferð til borgarinnar um helgina og náði að afreka meira en ég þorði að vona. Heimsótti Árnýju í mýflugumynd á föstudagskvöld og hitti foreldrana líka. Gisti hjá Sigga og Sigrúnu og náði smá spjalli þar fyrir háttinn. Var á Ladies circle fundi frá 11 til 14.30. Hann var bara býsna skemmtilegur, gaman að fá smá innsýn í klúbbinn á lands- og heimsvísu. Fór eftir fundinn í örheimsókn til Önnu og Benna og þaðan í Kringluna að hitta Elísu og Jónu. Síðan í flug heim. Held að ég hafi aldrei afrekað annað eins í stuttri ferð. Annars er helgin búin að vera róleg. Horfðum á endursýningar á Skjá einum í gærkvöld og tókum tvær heimsóknir í dag, Akurgerði í morgunkaffi og Skólastígur í síðdegiskaffi. Enda var bara drasl í kvöldmatinn nema þessi forláta ís sem Mummi gerði í gær en náði aldrei almennilegum hæðum í nýju ísgerðarvélinni og var hent í frost upp á gamla mátann. Afar áhugaverður. Takk fyrir ísvélina Sigrún. Það hlýtur að ganga betur næst. Nú bíð ég bara eftir nýja diskinum með Nýdönsk. Spennt.

Og vænkast nú hagur Strympu

Ég sé ekki annað en RÚV ætli að sinna dönskuáhugafólki prýðilega áfram. Anna Pihl og Klovn hafa verið fastir liðir hjá mér undanfarið og nú er sjónvarpið farið að auglýsa Nynne og Sommer líka. Ég sá að vísu alla Sommer þættina síðasta vetur á DR og er byrjuð að horfa á seríu númer tvö þar en ég hef oft horft á dönskuefnið tvisvar, svona til að vera betur inni í samræðum á vinnustað eða þannig. Nynne hef ég lítið séð en datt inn í svona tvo þætti í sumar þegar ég var á námskeiðinu. Á reyndar myndina og bók nr. 1 og þetta er svona þokkalegt efni. En það veitir ekkert af smá dönskuefni, ekki mun ég panta mér neitt frá Danmörkinni í bráð. Var að ljúka við að horfa á Kronprinsessen, sem er reyndar ljómandi fín sænsk-dönsk sería og tími alls ekki að  kaupa næstu seríu eins og staðan er. Hvað þá þegar bók 3 kemur út núna síðar í mánuðinum. Verð að geyma hana til betri tíma.

Af heimavígstöðvunum er það helst að frétta að enn er beðið eftir að tönn númer 2 gefi sig. Við mæðgur erum líka komnar saman í nefnd ;), erum í umhverfisnefnd Naustatjarnar. Svo er von á ættingjum í bak og fyrir um helgina. Óli og Eygló elta Tý og mágar mínir koma til að fagna föður sínum sextugum í dag. Ekki les tengdapabbi bloggið mitt en samt fær hann hamingjuóskir hér. Ég hef nefnilega ekki kunnað við að svífa á hann hér í vinnunni, veit ekki hvernig hann tæki slíkum fagnaðarlátum.