Kreppa hvað?

Ég tók stórt skref í gær eftir að reita hár mitt og skegg svo stórsá á. Sagði upp fjarkennslunni í VMA og kyssti þar með nokkra þúsundkalla bless. Eða Danmerkurferð eða eitthvað. Brann út fyrir svo löööngu síðan, ótrúlegt en satt þá er nefnilega skemmtilegra að vera með nemendurna fyrir framan sig en í tölvusambandi! En þrjóskaðist sumsé við, hugsandi bara um peninga. Nú er hins vegar tvennt. Annars vegar sé ég fram á að valið standi um seðla eða geðheilsu. Ég er búin að sinna fjarkennslunni fimm kvöld vikunnar á kostnað annars, gönguferða með Kristínu, bókalesturs, samveru við eiginmanninn … og finnst nóg komið (og nefnum ekki að þetta er svo …. að ég þarf að éta nammi á hverju kvöldi til að hafa einhverja huggun). Hins vegar eru stjórnendur VMA á þeirri skoðun að fjarkennsla verði auðveldari með hverju ári og hverjum nemanda. Þeir vilja því semja um 25% launalækkun svo þeir þurfi ekki að borga þessi ósköp fyrir eitthvað sem er hvort eð er meira og minna sjálfvirkt. Sem sagt, ég sendi bréf í gær og bað kennslustjóra um að leita að öðrum. En er samt á hliðarlínunni ef enginn fæst í starfið. Og þó að launin mín lækki ósköp á meðan lánin mín fara hina leiðina þá líður mér alveg æðislega vel. Kannski ekki í febrúar með jólavísa og enga fjarkennslu en den tid den sorg.

Var annars í borginni. Til að leita að spariyfirhöfn á dótturina meðal annars. Það var mislukkuð ferð. Eina spariflíkin sem ég fann, var í Benetton, sem einnig er á Ak, og það sem meira er, þar var 20% afsláttur. Svo ég sendi útsendara á Glerártorg og keypti sallafína kápu á dótturina. Dýra. En hún er einkabarn :). Sú stutta á svo von á jólakjól frá Svíþjóð á næstu dögum og bíður í ofvæni.

Ég náði að spila og hitta fólk. Ekkert marga, mest svona seimóld seimóld. Sem er gott og blessað. En sumir voru í útlöndum, aðrir á fæðingardeildinni og ég kunni ekki við að ryðjast inn svona á þriðja degi, enn aðrir alveg glænýfluttir (líklega) í nýtt húsnæði og ég kunni heldur ekki við að ryðjast þangað inn. Svo það voru bara bræður okkar hjóna og frúr sem nutu návistar okkar. Snilldarferð.

Sjónvarpskvöldið mikla

Það er að verða fastur liður að horfa á Útsvar með Strumpunni, misjafnlega erfitt því stundum er innlifunin mikil og þar af leiðandi sorg ef hennar lið tapar. Við reynum að banna henni að halda með öðru liðinu en það hefst ekki alltaf. Í kvöld hélt hún reyndar með Kópavogi svo það var sæmileg ánægja með úrslitin. En omg hvað liðin voru eitthvað mislukkuð. Kópavogsliðin með lögfræðingana tvo sem taka þetta svo alvarlega að þeir skemma um leið alla ánægju manns að fylgjast með. Kristján Guy, minn gamli skólabróðir var ekki mikið skárri. Í hinu liðinu var það einmitt ungi lögfræðineminn sem var álíka stemmdur en hinir bættu það vel upp svo ég hélt eiginlega frekar með þeim frekar. Og það var óbærilega fyndið hjá Kópavogi að klikka á fuglahljóðunum, ég sökka alveg rosalega en ég þekki svona beisik fugla eins og krumma. Það hlakkaði illilega í mér.

Nú er það Singing Bee. Eins og sérsniðið fyrir mig í kvöld, textar með Nýdönsk og George Michael. Hins vegar er þátturinn lélegur að því leyti að það eru æði oft rangar upplýsingar. Til dæmis frá hvaða árum lögin eru. Ég hef reglulega rekist á það, þegar maður á annað borð veit hvenær lögin komu út. Ég er bara svona lælæ í textunum. Betri en meðaltalið þarna leyfi ég mér reyndar að fullyrða :/. Ég syng náttúrulega helst alltaf með í lögum en æði oft eitthvað heimasmíðað svo ég færi ekki langt á því. Í kvöld hnaut ég hins vegar um textavillu hjá þeim í þættinum. Ég hef amk alltaf kunnað Dagnýju þannig að það væri „með sumar í hjörtunum unguM“ – sem rímar nefnilega við sungum. Og gúglið segir það sama. En þeir hjá Singing Bee hafa það nefnilega bara svona ungu. Nú er ég orðinn besserwisser af verstu sort.

Allt um menningu

Af því að mér dettur ekkert í hug að skrifa en vil samt taka mig svolítið á þá kemur hér lítil færsla um menningarstörf Hafdísar um þessar mundir. Þar ber hæst að ég fór í leikhúsið í síðustu viku til að sjá Músagildruna. Leikritið var hið ágætasta, ég held að það hafi verið afar nauðsynlegt að vera í Agöthu Christie stellingum til að reikna ekki með neinni ofurspennu. Þetta var allt mjög Agöthulegt. Það sem skyggði helst á gleði mína var það að sem við Mummi gengum Glötunarveginn að leikhúsinu, heyrðum við ámátlegt kvein í ketti og blóðslóð á stígnum og ég hafði meiri áhyggjur af örlögum kattarins dularfulla en persónanna í leikritinu. Svo mjög að á eftir fór ég í rannsóknarleiðangur eins og alvöru spæjari í leit að kettinum en fann hann ekki. Svo ráðgátan sú leystist ekki.

Í gær fór ég svo og keypti miða á næsta menningarviðburð. Palli og Monika ætla að halda jólatónleika eftir mánuð og það er nú svo klassísk desemberupplifun að ég læt það ekki fram hjá mér fara. Strumpan fær að fara með, hún er nú orðin svo stór að hún treystir sér til að fara og sitja eins og fullorðin manneskja og vaka frameftir á fimmtudagskvöldi. Það þarf ekki að orðlengja það að hún er afar spennt. Ekki minnst fyrir því að berja goðið augum, hún var frekar sár að ég skyldi hafa séð Palla en ekki hún. Eitt af því sem er svo ósanngjarnt þessa dagana.

Hins vegar missi ég af Villa og lúðrasveitinni annað kvöld því ég er að fara á indverskt kvöld með manninum mínum og Round Table. Þeir ætla að dekra við konurnar. Ég mæli hins vegar með því að fólk skelli sér á Villa. Hann var á ferðinni í skólanum í dag og sat um stund á kennarastofunni og spjallaði. Lofaði amk skemmtun og ef allt færi vel, skemmtun og flottum tónleikum.