Fúli fýlupósturinn

Þá er komið vel á aðra viku síðan Prinsi hvarf og er satt best að segja frekar tómlegt á heimilinu, þrátt fyrir að enn séu tveir kettir á staðnum. Okkur er algjörlega hulin ráðgáta hvað hefur gerst, hann er ekki vanur að leggja nein lönd undir fót og venjulega afar heimakær og finnst best að lúra. Ég er búin að tala við lögregluna, Dýraspítalann og dýraeftirlitið en án árangurs. Spurning hvort það veit á gott eða vont? Við brugðum líka á það ráð að setja auglýsingu í Dagskrána en þar á bæ ráða menn ekki við svona flókinn hlut að para saman mynd og texta sem kemur í sama tölvupóstinum. Svo auglýsingin var sem sagt með mynd af læðunni Lödu sem er meira hvít en grá og svo kemur þessi afar passandi lýsing af grábröndótta kettinum með. Ég er í stórkostlegri fýlu við bjánana sem ekki ráða við starfið sitt. Bæði munar um að auglýsa eftir kisunni sinni hálfum mánuði eftir hvarf (sárabæturnar eru altso ókeypis auglýsing að viku liðinni) og svo verðum við komin til útlanda þegar hún loks birtist í réttu formi. Það var bara kurteisin sem kom í veg fyrir að ég urraði í símann þegar ég hafði samband út af vitleysunni.

Sem betur fer hafa verið ánægjulegir dagar inni á milli. Ég fékk til að mynda að taka þátt í x-partýi á sunnudagskvöld, sem var alveg ljómandi gaman, góð þátttaka og gaman að frétta af mörgum fjölgunum væntanlegum þar á bæ. Í framhaldinu fórum við nokkur í Höllina á 16. júní – aftur bara X bekkurinn sem hélt uppi heiðri árgangsins. Það var auðvitað snilldargaman í góðum selskap, sérstaklega voru 20 ára stúdentar með frábært skemmtiatriði. Í gær var síðan útskrift og hátíð í Höllinni um kvöldið og það var líka ljómandi fínt. Ekki nennti ég að dansa við tónlist Milljónamæringanna, er eiginlega of lítil latínó í mér svona á venjulegum degi. Svo farþeganum var alveg hlíft við öllum hristingi en ætti nú að kunna Skólasöng MA utanbókar 🙂 . Ég var líka í útskriftarveislu hjá Árna Pétri, gaman að fá að taka þátt í henni og leyfa Strumpunni að hitta frænkurnar fjörugu.

Vinnu er svo að verða lokið, ég sit við skýrsluskrif og skemmtilegheit en áfram mun vinnuborðið bíða með tilheyrandi rusli. Framundan er ættarmót um helgina, sem ég ætla að taka svona hálfa leið, nenni til dæmis ekki að gista, svo ég læt duga að sýna mig á laugardaginn. Um leið ætla ég að hlaupa í Kvennahlaupinu og draga dótturina með eins og hefðin býður. Annars er utanlandsferðin að bresta á og ekki laust við að það verði ljúft (utan Prinsa auðvitað) að hverfa aðeins úr amstri hversdagsins. Pallurinn bíður svo betri tíma, sem og hurðin sem loks er tilbúin en mun þá ekki fara í fyrr en í júlí. Ólíklegt að hér birtist færslur fyrr en að ferð lokinni en þá verður maður auðvitað að demba inn ferðasögu, hvort sem það verður stutta eða langa útgáfan.

Setið á pallinum

Sumarið leit aðeins við í gær. Það kom sér vel, því dekkið er komið á pallinn og ég notaði auðvitað tækifærið og fór út að lesa. Komst reyndar fljótt að því að mig vantaði almennilegt húsgagn, þar sem væri gert ráð fyrir því að gera með lappir upp í loft. Því var auðvitað reddað síðdegis, fór í Rúmfatalagerinn og keypti stól með framlengingu fyrir fætur og mjúka sessu undir bossann og verður þetta húsgagn eingöngu í boði fyrir óléttar konur þetta sumarið.

Strumpunni var bjargað frá leiðindadegi í selskap foreldranna. Afinn og amman drifu hana með í bæinn þar sem hún fór á kaffihús eins og fín frú og heilsaði svo upp á Ljótu hálfvitana, illa sátt þegar hún var að segja frá … „það eru ekki margir krakkar sem fá að hitta frægt fólk“. Ekki spillti fyrir að heyra lag með félögunum í útvarpinu. Strumpan hefur nefnilega átt afar bágt síðustu dagana, leikfélagar af skornum skammti, allir á einhverjum þvælingi og það er sannarlega ekki gaman að eyða tímanum með foreldrunum, sem ýmist fara yfir próf eða smíða pall.

Annars flýgur tíminn og skrýtið að hugsa til þess að eftir tvær vikur verði maður í Danmörku, eða kannski meira í Svíþjóð. Allt að verða rólegra í vinnunni, vissulega eftir sjúkra- og endurtökupróf, auk skemmtilegheita eins og funda og skýrslna en kvöld- og helgarvinna búin. Sóley er mjög beggja blands enn með leikskólann, það er greinilega ekki tóm gleði að hætta. Hún sofnaði seint og illa í gær eftir óreglu helgarinnar, náði þó að gala í mig undir svefn að það væri tækjalausi dagurinn á morgun. Þetta kom svo aftur á dagskrá í morgun og vakti litla gleði þegar móðirin sagðist mundu keyra hana í leikskólann þrátt fyrir þetta. Á leiðinni þangað mættum við ýmsum foreldrum að koma frá því að keyra börnin svo ég benti henni á að flestir væru nú greinilega að keyra þrátt fyrir tækjalausa daginn. Þá kom upp úr dúrnum að þetta var tækjalausi dagurinn hjá henni og engum öðrum og hafði hún fengið hugmyndina frá Fíusól. Ég bað hana vinsamlegast að hafa foreldrana með í ráðum næst þegar hún ákvæði tækjalausan dag, þá væri kannski hægt að finna dag þar sem ekki þyrfti að drösla tösku og stígvélum í leikskólann og þar af leiðandi auðveldara í framkvæmd.