Nýr kafli

Þá er Strumpan orðin stór, fyrsti skóladagurinn í dag og móðirin upplifir ákveðinn trega. Þó er búin að vera upphitun síðustu daga, fórum í viðtal í skólann á þriðjudag, erum búin að pæla í matarmálum og nestismálum og blokkflautan kom í hús í fyrrakvöld (æfingar hófust að sjálfsögðu strax, móðurinni til ómældrar gleði). Strumpu var svo fylgt í morgun eins og lög gera ráð fyrir og stóð sig eins og hetja (lesist: sat ótrúlega kyrr og talaði næstum ekki neitt…) Foreldrarnir yfirgáfu svo svæðið þegar kom að frímínútum, en ég mætti aftur seinna um morguninn og fékk þá að dást að smíðahæfileikum dótturinnar, nú og sjá hana raða í sig soðnum fiski eins og keppnis. Strumpan hefur verið gríðarlega spennt og skapið eftir því, í fyrradag var allur skalinn tekinn með reglulegu bili allan daginn, en núna upplifir hún líklega spennufall, sagði í morgun að hún tryði varla að hún væri byrjuð!  Hún hlakkar mest til flaututímanna, listasmiðjunnar og íþrótta- og sundtímanna, enda er hitt eflaust svolítið óljóst á stundatöflu, einhverjar vinnustundir??

Það hefur hins vegar gengið upp og ofan með skipulag á áhugamálunum. Það var löngu ákveðið að halda bæði áfram í fimleikum og sundi, enda finnst mér engin ástæða til að velja á milli alveg strax. Foreldrarnir voru búnir að telja hana á að fara í sund í Akureyrarlaug og átti hún að fá að sjá um sig sjálf þar. Þegar til kom rákust auðvitað sundtímarnir og fimleikatímarnir á og ekki svo gott að breyta því, þetta er jú orðin mikil alvara og getuskipt í báðum greinum. Niðurstaðan var þá sú að hún héldi áfram í sundi í Glerárlaug en það þýðir rúnt fjóra daga vikunnar. Við bítum bara í það súra.

Af móðurinni er það að frétta að heilsan er enn eins og best er á kosið… mætti halda að hún væri í sumarfríi og gæti hagað sér að vild 🙂 . Enn eru tæpar fimm vikur í lendingu (ef farþeginn kemur um það bil á áætlun eins og stóra systir) og líklegt að það verði teknir nokkrir vinnudagar í MA í september (verður að ráðast hvaða verk Jón Már finnur mér…). Ég er nú loks að drífa mig í að taka til á vinnuborðinu, það virðist ekki hafa veitt af því þar leynist alls kyns gamalt og óþarfa efni, maður er nú búinn að vera þarna í þrjú ár! Svo er af og til ráðist á „to-do“ lista sumarsins og rétt aðeins byrjað að huga að hreiðurgerð. Um að gera að nota tímann meðan maður er heima.