Skottufréttir

Þá er maður enn kominn í pakkann þar sem lífið snýst um tölur og maður bíður í ofvæni eftir nýrri vigtun. Í morgun var fyrsta heimsókn frá ungbarnaeftirlitinu. Sunna Bríet svaf enn á sínu græna þegar hjúkrunarfræðingurinn kom en rumskaði passlega þegar var búið að fara yfir praktísku hlutina. Hún reyndist vera búin að þyngjast um rúm 200 grömm eftir vikuna, 30 grömm á dag sem er vel gert en talsvert undir stóru systur sem náði góðu tímabili með 50 grömmum á dag. Við áttum hálfpartinn von á hærri tölum, það finnst að hún er búin að stækka (þegar búið að leggja fyrsta náttgallanum) en þetta er vel ásættanlegt. Hún var auðvitað eins og yndi í skoðuninni, ekkert að kippa sér upp við umstangið.

Við fórum með hana í sína fyrstu heimsókn á laugardaginn, litum aðeins inn til ömmu og afa en Sunna Bríet lét sér fátt um finnast og svaf megnið af tímanum. Sóley Anna var á meðan í fyrsta afmæli vetrarins. Sögurnar eftir á voru slíkar að móðirin íhugar nú að flýja land í mars og sleppa þannig við að halda afmæli fyrir bekkjarsysturnar – hafi hún haldið að stelpuafmæli væru rólegri en strákaafmæli þá benti þessi frásögn ekki til þess. Aðal stuðið virtist fólgið í eltingarleik um húsið. Það stækkar jafnt og þétt vinkvennahópurinn og mikið sótt að komast í heimsóknir hingað og þangað.

Það á svo að jarða langafa á morgun og engin pössun fáanleg svona á vinnutíma svo það á bara að taka sénsinn á að góða skapið og rólegheitin haldist og taka litlu fröken með. Sóley Anna verður líka með í för, auðvitað alltaf spurning hvenær er tímabært að fara með í jarðarfarir en hins vegar höfum við rætt líf og dauða á mjög eðlilegum nótum síðustu vikurnar, enda hringrás lífsins sjaldan blasað betur við okkur.