Afmælisbarn dagsins

Þá er Skottan orðin sjö mánaða og óhætt að segja að ýmis þroskamerki hafi komið með afmælinu. Þannig er að matartímarnir hafa ekki verið nein hátíð fram að þessu eins og áður hefur verið lýst og þannig var allur mánuðurinn búinn að vera, frekar óskemmtilegur. Það tók langan tíma að gefa henni, hún opnaði ekki munninn og hryllti sig og kúgaðist yfir flestu sem henni var boðið. Í dag ákvað ég að fara svona „back to basics“, gerði þunnan hrísmjölsgraut og hvort sem það gerði gæfumuninn eða þessi nýi, hái aldur, þá opnaðist munnurinn loksins þegar skeiðin kom að. Vissulega borðaði hún ekki mikið en ansi mikill munur að þurfa ekki að bora skeiðinni inn í munninn. Ég ákvað svo að reyna enn frekar á lukkuna í kvöldmatnum og gaf henni banana/mjólkurþeyting og það rann nokkurn veginn niður líka. Engin ósköp en án mikillar dramatíkur. Síðara þroskamerki dagsins var svo svefninn. Það er nefnilega alveg ægilega erfitt að fara að sofa og ef maður er ekki þeim mun þreyttari þá kostar það heilmikil mótmæli þegar á að bæla. Í kvöld söng ég og söng í von um að hún sofnaði í fanginu á mér, það hefur nefnilega tekist síðustu kvöld. Það hafði ekkert að segja, hér var gleðin ein við völd svo ég lagði hana og dólaði aðeins inn í herbergi. Hún var klárlega ekki á leiðinni að sofna svo ég prófaði að fara fram og viti menn, eftir að dúlla sér í svolitla stund og reka bara upp eitt píp, þá sofnaði daman alveg sjálf. Ég er algjörlega að vona að þetta sé það sem koma skal, bæði í mat og svefni, því þetta er það sem hefur verið í mestu rugli. Nú bíð ég bara eftir að hún stökkvi fagnandi í fangið á öðrum en okkur þremur og þá er allt komið.

Skottan er líka komin með fleiri tennur, núna eru framtennurnar tvær að ofan að ryðjast niður. Mér sýnist, mér til ómældrar gleði, að það stefni í frekjuskarð. Þá væri það nú komið frá móðurinni og veitir ekki af að bæta í þann pott. En sú stutta á líklega langt í land að ná frænda því Gunnsteinn skartar ansi myndarlegu frekjuskarði. Og hvað er líka sætara?

Strumpan leikur líka við hvurn sinn fingur. Hún var að vísu ansi mæðuleg á þriðjudag þegar hún fattaði að það væru tvö próf næsta dag. Hún átti nefnilega að fara í fiðlupróf og það sem verra var, einnig í lestrarpróf. Ég skildi ekki áhyggjurnar yfir lestrarprófinu en við yfirheyrslur kom í ljós að það var ætlast til þess að maður sæti kyrr OG hefði hljóð. Þetta gekk nú allt þokkalega, ég var viðstödd fiðluprófið og það var voða stór stund, enda fara fiðlukrakkarnir venjulega í fyrsta prófið 9 ára.

Við vorum fyrir sunnan um helgina, ég var á LC fundi, bæði sem formaður og einnig af því að ég er að fara í landsstjórn, er orðin vefstjóri (og já, ég veit, það er óskiljanlegt að ég, þetta mikla tölvugúrú, sé í slíku embætti). Það er spennandi að takast á við þetta samt og aldrei að vita nema ég læri eitthvað nýtt í leiðinni. Annars vorum við löt í ferðinni, fórum bara í heimsókn til mága minna og svilkvenna enda svo kvefuð hjónin að við vorum vart húsum hæf. Fórum þó með Strumpu í leikhús, að sjá Fíusól. Það var svona lælæ, hitti vissulega í mark hjá þeirri sem það átti að gera og þá er auðvitað allt í sómanum. Ég fór líka með henni í húsdýragarðinn og þar varð slys, hún var bitin í fingurinn af kiðlingi (fingurinn var af einhverri ástæðu staddur í munninum á honum) svo stórsá á… Ferðirnar gengu vel, þó þurfti ég að stilla til friðar á suðurleiðinni, settist á milli þeirra systra í Hreðarvatnsskála. Á norðurleiðinni sprakk samkomulagið á Moldhaugnahálsinum og grátkórinn á fullu alla leið heim. En það er býsna vel sloppið. Skottan var samt svo fegin að komast heim, hún lét alveg eins og api, hef ekki séð annað eins. Strumpan var að hamast í henni, þær voru hvor sem önnur en Skottan þó sínu æstari, var alveg að missa sig af kæti og við mægður hlógum auðvitað eins og fífl að henni. Algjör svefngalsi.

Fögur fyrirheit

Það fór ekki svo að það næðust tvær færslur í mars, þrátt fyrir að ég hafi margoft hugsað um að blogga 🙂 . Enn er það vandamálið hvar á að byrja og hvað á að skrifa þegar svona langur tími er liðinn. Jæja, tökum Skottufréttir fyrstar.  Sú stutta fór í sex mánaða skoðun á mánudaginn og hægist enn á vexti. Var 68,4 sentimetrar og 6,6 kíló. Fór í svínaflensusprautu og bólusetningu og stóð sig eins og hetja, það var eiginlega erfiðara fyrir stóru systur að endurupplifa sína svínaflensusprautu. Skottan gargaði auðvitað framan í Pétur, hann hlaut ekki náð fyrir augum hennar frekar en aðrir.

Við byrjuðum að gefa henni mat um síðustu helgi. Það gengur ágætlega, rísmjölsgrauturinn er greinilega ætur en varla hægt að segja það sama um fína sætukartöflumaukið sem undirrituð gerði. Það voru grettur og hrollur sem blöstu við móðurinni, hins vegar var í dag reynt að blanda saman graut og sætum kartöflum og það var greinilegra strax betra og rann nokkuð ljúft niður. Það eru komnar tvær tennur í neðri góm og stöðugar kannanir í efri góm enda orðinn mjög hvítur gómurinn hægra megin. Í samanburði við systurina er hún aðeins seinni að fá fyrstu tennur en ef þær í efri góm koma fljótlega hefur hún vinninginn þar. Það gengur yfirleitt mjög vel með dömuna  nema hvað það er erfitt að hafa góða rútínu á svefni, til þess er móðirin of mikið á flandri, meðal annars auðvitað sem hobbýskutlmamma. Svo má auðvitað ekki gleyma að félagsfælnin er enn á háu stigi, það stendur ekkert á því að brosa sínu blíðasta til allra úr öruggu fangi mömmu eða pabba en það snarversnar í því ef einhver gerist svo djarfur að halda á manni. Þá telst viðkomandi góður ef það líða um 10 sekúndur áður en skelfingarsvipurinn brestur á. Þetta er þó í lagi ef fólk gætir þess að halda henni frá sér svo hún geti lifað í blekkingu að hún sé í sömu góðu höndunum og venjulega. Þannig reyndum við litla fjölskyldan að bregða okkur á skíði um síðustu helgi. Það var sögulegur dagur, við Mummi að fara í fyrsta sinn saman á skíði og við öll þrjú fórum í fyrsta skipti í Fjarkann. Sú stutta var sett í vagn og síðan í geymslu hjá ömmu en vaknaði að sjálfsögðu fljótlega og var ekki par hrifin af því partýi. Á endanum var hringt neyðarsímtal í fjallið og móðirin (reyndar köld inn að beini) brunaði heim. Þá hafði amma, sem auðvitað er eldri en tvævetur í svona málum, kveikt á sjónvarpinu og rétt dömunni fjarstýringu svo það voru að minnsta kosti ekki skerandi óp sem mættu mér. En fegin var hún að sjá móður sína og kreisti hana fast þegar í fangið var komið. Að öðru leyti lukkaðist skíðaferðin vel og var öll fjölskyldan sæl, þó ekki væri ferðin löng. Hins vegar er auðvelt að passa fröken eftir að hún sofnar á kvöldin því þá má nokkurn veginn ganga út frá því að hún sofi sæmilega fast. Við brugðum okkur til að mynda af bæ í gærkvöld og fórum að spila við okkar góðu spilavini Kötu og Jóa og á meðan voru traustu barnapíurnar mínar með þær systur. Við skiluðum okkur heim um hálf tólf, þá hafði Skottan reyndar vaknað og starði í forundran á Auði sem sat við rúmið. Ég leyfði henni að koma á fætur og kveðja þær systur og þær fengu blíð bros að launum.

Strumpan er nú orðin árinu eldri, varð sjö ára 13. mars. Dugði ekkert minna en Fjósið til að halda upp á afmæli fyrir vinkonur. Það tókst reyndar gríðarvel, burtséð frá því að það reyndi mikið á foreldrana að bera borð og stóla neðan úr Gamla skóla. Annars hægt að mæla með þessu, þær gátu skottast um í eltingarleikjum, dansað, hlaupið með blöðrur og svo framvegis. Foreldrarnir voru samt ósköp sælir þegar þessir dagar voru liðnir. Hrærivélin dó í bakstrinum fyrir fjölskylduafmælið (já það eru svo veglegar veislur að hrærivélar lifa það varla af) og þegar var farið með hana í viðgerð kom í ljós að það höfðu liðið 8 dagar frá því að ábyrgðinni lauk þar til hún bilaði. Sem betur fer og þetta er nú ótrúlegt, þurftum við samt ekki að borga fyrir viðgerðina.

Það líður að páskaeggjaáti og af því tilefni fórum við mægður af stað fyrir allnokkru og keyptum okkur egg. Strumpuna langaði allra mest í Draumaegg (líklega var það fígúran á toppnum sem heillaði mest) og móðirin hafði fulla samúð með því og splæsti í það. Var sjálf á báðum áttum hvort hún ætti að kaupa sér egg númer 6 eða7, í henni blundar alltaf draumur um að fá egg af STÆRSTU gerð, en hún lét ekki undan freistingunni að þessu sinni og lét sér nægja egg númer 6. Mæðgurnar keyptu líka egg handa húsbóndanum, hann er lítill súkkulaðikarl og hefur yfirleitt gefið frúnni páskaeggið sem vinnan gefur honum. Vinnan klikkaði reyndar í fyrra, þess vegna splæsti frúin í þetta egg handa sér núna. En það fékkst sem sagt egg með núggati og það vorum við vissar um að myndi hitta beint í mark. Földum það vandlega þegar heim var komið. En síðan fór húsbóndinn að ræða það í gær að hann langaði svolítið í svona núggategg, svo þá var ekki annað hægt en að sækja leynieggið og sýna það … kom nokkuð vel á vondan sem kvartar ævinlega yfir sjálfsbjargarviðleitni frúarinnar, því þá hefur alltaf staðið svoleiðis á að hann hefur ætlað að kaupa handa henni vænt egg. Reyndar má segja honum það til hróss að hann gaf henni óvænt Draumaegg í fyrra, og það tókst af því að hún vissi ekki betur en að þau væru uppseld (að minnsta kosti á því verði sem hún kærði sig um). Endanlega páskaeggja“surpriseið“ kom svo í gærkvöld við spilaborðið. Þá uppljóstraði Jói um egg númer 6 sem biði Mumma í vinnunni. Mummi hótar að borða það sjálfur en ég veit ekki annað en hjón eigi að deila öllu svo ég hlýt að eiga minnst helminginn í því líka. Ég get lengi á mig blómum bætt.