Í löngu máli

Það er frá svo mörgu að segja núna að annað hvort er að hefja alvöru ritskoðun og velja og hafna hvað á að fara með, nú eða taka bara einn Hallgrím Helgason á þetta. Sjáum til hvort verður, stefnan er tekin á HH. Ég er að hugsa um að rekja mig aftur í tíma og sjá hvað setur. Dagurinn í dag var algjör Skottu- dagur. Hún fór í 10 mánaða skoðun og það bar fátt til tíðinda þar, er núna 73,5 sentimetra og rétt 7,5 kíló. Svöruðum öllum spurningum játandi um hæfileika hennar nema hvað hún væri ekki byrjuð að standa á fætur. Þremur tímum seinna ákvað daman að það væri tímabært, móðirin var ekki ánægð að hún skyldi ekki tímasetja þetta aðeins betur! Skottan var sem sagt sett sitjandi í rúmið sitt og átti að dunda þar á meðan móðirin sýslaði við þvottinn. Það sem reyndist hins vegar mikil hvatning fyrir þá stuttu til að standa á fætur var að hún gat speglað sig svo vel þannig. Stefnir bara í sömu átt og systirin sem getur eytt ómældum tíma í spegiláhorf. Það höfðu önnur stórtíðindi nýlega átt sér stað, á laugardaginn sagði Skottan kisi alveg ítrekað þegar einhver kattanna vappaði um rúmið að morgni. Þetta er reyndar mikið leyndarmál með kisa, amk hvíslar hún þessu alltaf. Mammmammamm var alveg dottið upp fyrir á þessum tíma en það er eitthvað verið að flagga því aftur svo það er aldrei að vita. Hæfileikarnir svoleiðis margeflast þessa dagana, hún náði tökum á skriðinu í Svíþjóð, það er ýmist farið á hefðbundinn hátt eða með annan fótinn í hálfstandandi stellingu. Sem betur fer er hún nokkuð til friðs en hefur afrekað það tvisvar á stuttum tíma að fá sér tyggjó, í fyrra skiptið heyrði ég bara þegar hún hóstaði á einhverju og þegar ég athugaði málið var hún ansi andfersk, daginn eftir skiluðu sér nokkrir litlir hvítir bitar. Í seinna skiptið var hún að leikja með tyggjó systur sinnar, hubba bubba í plastöskju og ég fullyrti við Sóleyju að hún gæti alls ekki opnað hana, en viti menn, stuttu síðar sé ég plastöskjuna opna og tóma og náði að rífa út úr henni væna klessu af tyggjói.

Af mér er helst að frétta að ég ákvað að skoða nýjar leiðir í linsumálum, eftir að ferðafélagar mínir í Svíþjóð sögðu mér frá silikon linsum sem má sofa með í mánuð. Það er nefnilega ansi böggandi að vera sjónlaus á nóttunni þegar er verið að sinna prikinu. Ég ákvað af þessu tilefni að skella mér í sjónmælingu enda langt síðan síðast (tæp fimm ár, kom reyndar í ljós, aðeins lengra en mig minnti). Það reyndist vera frekar gáfulegt því sjónin hafði enn dalað verulega og aðrar eins tölur hafa varla sést né heyrst áður. Nú, ég pantaði linsurnar og fæ þær á næstunni, enda sér hver heilvita maður (nema þeir séu jafn nærsýnir og ég) að það er bagalegt að eiga við blindu að stríða. Ég vona bara að þær reynist vel.

Við erum fátt eitt búin að hafa fyrir stafni eftir heimkomu nema hvað við tókum á móti gesti strax á fyrsta degi heima. Það var vinkona okkar hún Sigrún, komin alla leið frá útlandinu í vestri. Hún kom færandi hendi með Gryffindor skikkju og trefil auk töfrasprota sem ég hafði beðið hana fyrir. Strumpan var alsæl og til marks um það svaf hún í múnderíngunni fyrstu nóttina. Við erum rétt búnar að klára bók númer sex og ég reikna með að við hefjumst handa við síðustu bókina um næstu helgi, þegar er búið að horfa á mynd númer sex. Fer þá að sjá fyrir endann á ansi löngum framhaldslestri. Við reyndum auðvitað að gera vel við Sigrúnu í mat og drykk og fórum með hana út að borða á RUB. Það var ógurlega góður matur og gaman að skreppa að heiman. Skottan hafði einmitt tekið umskiptings-númerið mikla í svæfingu. á þetta til og helst hægt að rekja það til þess að hún er of þreytt til að sofa. Hún er núna komin í æfingabúðir við þessum vanda. Við settum á nýtt svefnkerfi fyrir daglúra, nú tekur hún tvo stutta í stað þess að taka einn (mis)langan. Þetta hefur reynst vel hingað til, hún fer mun kátari að sofa og í kvöld yfirgaf ég meira að segja svæðið fljótlega eftir að hún fór í bæl og leit svo bara inn til hennar með jöfnu millibili, henni til mikillar gleði. Stundum þurfti reyndar að leggja hana aftur en þetta fór friðsamlega fram og alveg ólýsanlegt hvað þetta er mikill munur. Vonandi verður framhald á þessu. Hún var reyndar líka veik þessa helgi sem Sigrún var, það bætti auðvitað ekki úr skák og minnkaði auk þess möguleikana hvað varðaði gestinn.

Nú, Svíþjóðarferðin var ekkert nema ljúfa lífið. Snilldar veður allan tímann, þetta á bilinu 20 – 25 gráður sem verður að teljast afar hæfilegt. Við vorum fyrri vikuna í félagsskap Kristínar, Árna og Sveins Áka og þá síðari með Sigga og Sigrúnu og það var ljúft. Allir eru að minnsta kosti enn vinir. Dagskráin var svona hæfileg blanda af leti og leik. Ýmislegt gert fyrir Sóleyju, fórum í Tosselilla, sem er „Skånes sommarland“ – þaðan fórum við og borðuðum í Ystad og leituðum í leiðinni að Wallander. Við fórum einnig á ströndina, í sirkus og kanósiglingu, auk þess að nýta sundlaugina á svæðinu og spila kubb og boccia. Ég náði svolitlu versli, fékk mikla athygli þegar ég bað um tax-free og barst í tal að ég væri frá Íslandi (fékk reyndar líka mikla athygli vegna magninnkaupa :)) í Danmörku náði ég ekki að versla alveg eins mikið og ég hafði ætlað mér, dagurinn okkar þar fór í annað. Við mæðgur fórum meðal annars í Sívalaturn og Ripleys believe it or not. Ég náði þó að kaupa mér einar 8 bækur og tvo dvd diska en lenti í því ótrúlega svekkelsi að eftir að undirbúa mjög vel bókar- og dvd innkaup með mikilli heimildavinnu í vinnunni gleymdist minnismiðinn góði. Við gistum eina nótt með Árna og Kristínu í orlofsíbúð KÍ – vel staðsett á þvergötu við Istedgade, mikil gleði að teyma krakkana niður hana. Við fórum út að borða á ágætan stað á Frederiksberg Allé, bara nokkuð ódýran meira að segja. La Fiesta Mexicana heitir hann ef mig misminnir ekki, alveg óhætt að mæla með honum. Annars var sænska sumarið ljúft, með jarðarberjum og nýjum kartöflum og núna líður manni eins og maður búi í Rússlandi, slíkt er úrvalið (eða skortur á) í búðunum. Það mætti venjast því vel að búa í Svíþjóð. Látum gott heita í bili.