Skólastelpurnar

Stóri dagurinn okkar mæðgna var í gær. Þá var fyrsti dagur Strumpu í skólanum og fyrsti dagur kynningarvikunnar hjá mér. Þar sem taxa-skutlið er ekki komið í gagnið mættum við gallvaskar út á stoppistöð korter yfir sjö í gærmorgun. Lentum í vandræðum með að borga, ég ætlaði að kaupa klippikort af bílstjóranum en hann benti mér á sjálfsala í vagninum. Sjálfsalinn seldi reyndar bara staka miða og tók bara klink eða dönsk kort svo við slepptum því að borga í þetta sinn. Keyrðum í kjaftfullum strætó sem fer með okkur nánast alla leið, en tekur reyndar 40 mínútur í það. Êg skilaði Strumpu inn í skólastofu (með smá hjartsláttartruflanir) og gekk síðan upp í háskóla og fann eftir smá leit rétt hús.

Fyrst á dagskrá var smá útskýring á dagskránni, síðan tók við kynning á námsumhverfi skólans (þar á meðal þessu dásamlega einkunnakerfi -03 til 12). Að loknum hádegisverði fengum við smá tölu um danskt samfélag með augum útlendings, sem fjallaði aðallega um hygge og bjór. Að því loknu fengum við smá skoðunarferð um svæðið og enduðum í velkomstsamkomu (með bjór, en ekki hvað?) Dagurinn var ágætur en ég vandaði mig sem mest ég gat að blanda afskaplega litlu geði og forðaðist sérstaklega Íslendingana eins og heitan eldinn, enda ekki flutt til DK til að kynnast löndum mínum. Ég fann fyrir skrítinni blöndu þess að fíla mig gamla og þó ekki (skiljist sem svo að mér fannst ég í raun ekki standa út úr hópnum en horfði samt á öll þessi börn í kringum mig). Gamlinginn ég lét sig líka vanta í gleðskap kvöldsins á Stúdentabarnum 🙂 .

Leiðin lá síðan að sækja Strumpu í frístund og það var ósköp kát stelpa sem beið þar og vildi endilega bjóða nýju vinkonunni heim. Það er sennilega skrýtið að heimsóknir séu ekki eins frjálslegar og heima. Hún lét vel af skólanum, hafði eignast tvær vinkonur og gekk vel að skilja og fylgjast með. Í frístund hafði hún knúsað kanínur o ggeit auk þess að steikja pönnuköku yfir eldi og fleira. Okkur tókst þó að draga hana burt enda var búið að fylla bílinn af eplum og stefnan tekin á Marselisborgarskóg.

Litla stýrið sat í einhverfukasti aftur í og tautaði dádýr, dádýr – á misjafnlega örvæntingarfullu stigi, stundum var mikil sorg í gangi, enda tók þetta ferðalag að heiman óratíma. Þegar við nálguðumst skóginn kættist daman öll. Við náðum að koma út eplunum okkar og höfðum að auki brauðafganga með handa öndunum en það mátti hafa sig allan við að koma brauðinu þangað, ekki vegna samkeppni við máva heldur ágangi dádýra. Nokkuð ljóst að þessi matur var ekki síðri en forrétturinn.

Það voru þreyttar skólastelpur sem komu heim, pabbi gamli náði þó að herja út hjóltúr í búðina en eftir það var fátt um fína drætti. Litlu dömunum var skellt snemma í bæl en Skottan var alls ekki á svefnbuxunum og hélt vöku fyrir þeirri stóru frameftir. Undirrituð fór með bók í rúmið upp úr níu og las í skamma stund og sofnaði svo.

Î dag var komið að skólastráknum, þannig að þegar ég var búin að koma litlu skólastúlkunni á sinn stað (höfðum náð að kaupa strætókort á strætómiðstöðinni, blessunarlega, því eftirlitsgaurinn mætti á svæðið) þá kom ég mér aftur miðsvæðis og tók við Skottu á meðan skólastrákurinn fór í matspróf til að kanna dönskukunnáttuna. Við mæðgur röltum um bæinn á meðan og náðum meira að segja að versla smá :). Við vissum ekkert hvað okkar maður átti að vera lengi, bara að það tæki allt frá hálftíma upp í þrjá tíma, því betri sem hann væri, því lengur væri hann. Það var ágætt að við höfðum eitthvað að dunda við því hann var tímana tvo í prófinu. Búið að flokka hann í dönskuhólf og styttist í að hann geti sest á skólabekk.

Ég missti af tveimur fyrirlestrum á meðan þessu stóð, hraðnámskeiði í dönsku og kynningu á ýmsu félagsstarfi í háskólanum og borginni. Eftir hádegi var skoðunarferð um borgina, þá gengum við í litlum hópum niður í miðbæ og skoðuðum það helsta. Ég var reyndar búin að sjá flest af því en veit þó nú á hvaða kaffihús ég fer til að næla mér í danskan mat og það er vel.

Ég fór í strætó og sótti Sóleyju í frístund. Hún var býsna sátt með daginn en hann var samt ekki eins frábær og í gær, eitthvað höfðu nýju vinkonurnar enst stutt og strákarnir í bekknum eru algjör fífl. En það er auðvitað ekkert nýtt undir sólinni. Við höfum verið í letikasti síðan við komum heim. Ég er í fráhvarfi af því að áskriftinni að Politiken er greinilega lokið. Ætla að sjá til hvort ég jafni mig áður en ég splæsi í áskrift. Það er aukinheldur svo tímafrekt að lesa blaðið að ég efast um að svoleiðis gæðastundir verði á lausu þegar skólinn hefst.

Á morgun slepp ég billega við dagskrá, fer í kynningu á bókasafnið í einn og hálfan tíma en þarf ekki að gera meir fyrst ég er komin með kennitölu. Sem er ágætt þvi Skottan á að líta í heimsókn til væntanlegrar dagmömmu. Hún er hér skammt undan og ef allt gengur að óskum byrjar daman þar um mánaðarmót. Ég vona að allt gangi að óskum því ég er búin að senda svarbréf um að við þiggjum plássið (við fengum tilboð í pósti á laugardaginno g áttum að senda svarbréfið svo það yrði komið í þeirra hendur á fimmtudegi, annars væri litið sem svo á að við vildum ekki plássið). Dagurinn verður því enn og aftur mikilvægur, nú er allt að gerast.

 

Og hófst þá fjörið

Gærdagurinn var þess eðlis að upplýsingamagnið sem flæddi yfir mann var nánast búið að brenna í sundur stöðvar í heilanum. Við fórum fyrst í heimsókn í skóla Strumpunnar og hittum kennarana, þau Lissi og Tonna. Þau virkuðu bæði vel á okkur og virtist sömuleiðis lítast vel á nýja nemandann sem þó átti afskaplega bágt með sig á hliðarlínunni og þurfti mikið að spyrja móður sína þegar hún var í miðjum saðumræðum. Niðurstaða fundarins var síðan sú að Strumpa myndi mæta í skóla á mánudagsmorgunn og eftir að kennararnir höfðu mælt frekar með því að hún færi í frístund í þessum skóla frekar en í hverfisskólanum var ákveðið að líta þangað inn líka. Frístundin er spölkorn í burtu og eini gallinn sem ég sé í fljótu bragði er sá að ég efast um að hann hvetji Strumpuna til dönskunáms, hún mun nefnilega alls ekki vilja flutning frá þessari frístund í hverfisfrístundina.

Þetta er svo allt öðruvísi heldur en það sem gengur og gerist heima. Frístundin er í stóru húsi á tveimur hæðum. Inni er smíðastofa og listasmiðja. Smíðastofan er samt lítið notuð þegar er gott veður því þá eru börnin úti … að byggja eigin kofa. Það er lagleg kofabyggð þarna fyrir utan. Útisvæðið er býsna stórt og þar er meðal annars fótboltavöllur og bandívöllur en líka bálsvæði, þar sem þau baka gjarnan eitthvað til að nasla í. Í gær var til dæmis verið að steikja pönnukökur og Strumpan fékk sjálf að prófa. Síðast en ekki síst eru auðvitað öll útihúsin fyrir dýrin. Jamm, þarna eru geitur, kindur, hænsni, haugur af kanínum og asni. Sem er einmitt ástæðan fyrir því að ég býst við að Strumpan setjist þarna að. Þær voru báðar systur alveg heillaðar, Skottan auðvitað af dýrunum en líka af risasandkassa sem þarna var. Við heilsuðum upp á dýrin, það var hópur af krökkum sem sat með kanínur. Við klöppuðum asnanum og geitinni, asninn beit mig reyndar í hendina en það var víst af því að ég þurfti að heilsa honum vel og vandlega og mér hafði láðst það.

Strumpan fer líka strax á mánudag í frístund og bíður spennt. Tungumálaáhyggjur eru ekki til staðar nema hvað hún spurði móður sína hvernig maður bæði um að láta rétta sér kanínu 🙂 . Leigubílaskutlið hefst reyndar ekki strax, það tekur tíma (en ekki hvað) að fá það í gagnið. Ég er búin að skoða strætó og við getum tekið einn strætó niður í skóla (kl.7.20). Vikan verður því væntanlega þannig að ég fer með Strumpunni í strætó á morgnana og kem mér svo í háskólann, síðan sér Mummi væntanlega um að sækja okkur síðdegis.

Ég fór svo eftir þessa heimsókn að hitta mentorinn minn. Það er ung stúlka frá Ungverjalandi sem heitir Susanna. Við gengum saman frá miðbænum upp í háskóla og hún sýndi mér hvar ég á að mæta á mánudaginn og hvar stofurnar eru sem ég verð í, auk þess að sýna mér vinnuaðstöðu nemenda og bókasafnið. Þetta var talsvert yfirþyrmandi. Plúsinn var samt sá að ég var nokkuð stöðug í enskunni, skipti ekki nema einu sinni yfir í dönsku og sagði reyndar alltaf nei á íslensku. Ég óttast að tungumálaskiptin verði svolítið brengluð hjá mér.

Annars hafði ég fyrr um daginn komið við á alþjóðaskrifstofu háskólans og sótt stúdentaskírteini. Þar beið manns gjafapoki með alls konar nauðsynjum, korti af Árósum og bók um hvað er hægt að gera (þá sjaldan maður er ekki að læra). Frelsiskort í símann (sem virkaði reyndar ekki þegar til kom), ruslapoki til að setja yfir sig í regni sem og alls kyns praktískar upplýsingar varðandi námið, sem ég á eftir að fara í gegnum.

Það telst svo til tíðinda að það verða miklar gestakomur hér eftir viku. Anna Steina og Martin ætla að koma á laugardaginn og vera tæpa viku en svo fengum við óvænta viðbót þegar Árný boðaði komu sína sama dag. Það er víst George Michael sem heillar hana svo við förum þrjár frænkurnar á tónleika með honum á mánudaginn. Sænsku hjónin eru spennt fyrir Legolandi og Ljónagarðinum í Givskud, það verður að koma í ljós hvernig gengur að púsla því fyrst að skemmtigarðsaðdáandinn verður kominn í skóla.

Mánuður í fyrirheitna landinu

Afmælisfærsla, aðeins í seinna fallinu. Í fyrradag vorum við búin að vera einn mánuð í DK og sló ég þar með gamalt met. Áður hafði ég mest verið 24 daga (held ég), árið 1994. Og hvernig er svo nýja lífið? Eins og lesendur hafa glögglega tekið eftir þá finnst mér hægagangurinn hér frekar mikill. Hafði þó búið mig undir að hlutirnir myndu taka lengri tíma en maður er vanur og það var ein ástæða þess að við fórum af stað með löngum fyrirvara, fimm vikum áður en nokkuð færi af stað hjá mér. Ég hélt í sakleysi mínu að það myndi duga, amk þannig að Strumpan yrði komin í skóla, kannski ekki að Skottan yrði komin á leikskóla, en að það væri þó komið í góðan farveg.

Nú hefur fátt gerst í þessum málum, þó fékk ég loks símtal frá skóla Strumpunnar í morgun og við förum í viðtal á morgun. Með Skottuna er allt óvíst, okkur barst þó bréf þess efnis að hún fengi í síðasta lagi pláss 1. nóvember!  Ég byrja í skólanum næsta mánudag, eða fer sem sagt í kynningarviku, mér sýnist þó að ég þurfi ekki að sinna henni 100%, býst til dæmis við að sleppa öllum kvölduppákomum. Það er því lán í óláni að Mummi er enn bara í tímabundnum verkefnum sem taka bara þann tíma sem þarf. Bankamálin hafa svo gengið betur en á horfðist í fyrstu, Danske bank á reyndar eftir að senda okkur kortin en það tekur vonandi ekki óratíma.

Og er þá eitthvað sem undirrituð er ánægð með? Mummi spurði mig að þessu í fyrrakvöld og svarið var sem betur fer jákvætt. Það er einkum tvennt sem stendur upp úr. Annars vegar er dönskunördinn ég í alsælu. Það er dásamlegt að hafa svona óheftan aðgang að unaðslegri dönsku alla daga. Nokkrar sjónvarpsrásir, bókasafnið á heimilinu, áskriftin að Politiken sem ekki er runnin út enn og svo þetta frábæra bókasafn hér í bæ. Ég veit að ég á eftir að fá fráhvarfseinkenni þegar áskrift þeirra hjóna að Pol lýkur. Þar er endalaus uppspretta góðra greina og enginn bölmóður (nema hann sé þar sem ég fletti yfir). Blaðamennirnir kryfja ýmis mál, þeir fara dýpra í það sem hæst ber úti í heimi en skrifa líka athyglisverðar pælingar um það sem er á döfinni innanlands. Það er orðinn algengur frasi á mínu heimili … það var svo góð grein í Politiken um…. Síðan er það auðvitað það að vera allt í einu að nota dönsku til allra hluta. Þurfa að segja alls konar hluti sem maður hefur aldrei gert áður. Finna leiðir til að spyrja um eitthvað sem maður veit alls ekki hvernig á að orða.Inn í þetta allt fléttast síðan léttirinn yfir að vera ekki að fylgjast með fréttum á Íslandi….

Hitt sem stendur upp úr var eitthvað sem ég sá auðvitað að einhverju leyti fyrir, meiri samvistir fjölskyldunnar þegar er ekkert annað sem tekur tíma frá manni (sjáum svo til hvernig fer með námið þegar þar að kemur). Við erum búin að vera stanslaust saman í mánuð. Ég sinni dætrunum mest yfir daginn, er ekki með endalausa skemmtidagskrá því þær sjá auðvitað um sig sjálfar líka en það er gripið í bók og spil á hverjum degi. Síðan tekur Mummi við og svo eyðum við kvöldinu oftar en ekki í að spila við Strumpuna. Og þetta er ljómandi fínt. Þolinmæðin er reyndar mismikil og stundum er eins og maður sé staddur á samkomu ofvirkra en þrátt fyrir það er þetta betra en ég bjóst við.

Loksins rann upp tívolídagur

Langþráður dagur hjá Strumpunni að kvöldi kominn, við búin að eyða deginum í Djurs sommerland. Fórum með rútu í morgun með nágrönnum okkar en áttum að öðru leyti engin samskipti við þá fyrr en á heimleiðinni. Strumpan náði að fara í allt sem hugann girntist, nema auðvitað krúnudjásnið, sjálfan Piraten. En það voru aðrir rússibanar, þrír vatnsrússíbanar af mismunandi stærðum og gerðum, sem hún fór í með okkur foreldrunum til skiptis, og svo einn alveg ágætur, þrátt fyrir að vera meinlítill, sá kallast Þórshamar. Að auki fór hún í báta, bæði hjólabát með pabba sínum og „flúðasiglingu“ með mér, einn fallturn með mér sem leit út fyrir að vera alsaklaus en þegar ég var komin upp fannst mér nóg um og skildi í raun ekki hvernig ég fór að því að fara í Gullturninn fyrir 10 árum. Hún fór ein í þrjú andstyggileg tæki, eitt þeirra eru sæti sem hanga niður úr keðjum (þó ekki í sömu hæð og Himmelskibet í Tívolí) og Örninn, sem bæði snerist og sveiflaðist og síðan í áttavillta skipið sem sömuleiðis snýst í hringi og vaggar. Ég saknaði þess ekki að fara ekki með. Svo voru líka trampólín, kóngulóarnet og klifurbraut. Skottan fékk reyndar lítið að gera, þó var þarna stubbaland fyrir þessa minnstu. En ef maður miðar við hvað hún er fíkin í rólur þá hefði það hitt svo vel í mark að við hefðum ekki átt afturkvæmt svo það fór svo að henni var ekki hleypt að neinum tækjum.

Það var þokkalegasta veður á okkur, sólarlaust og hefur eflaust hangið í 20° þegar heitast var. Hins vegar skildi ég ekki í þeim sem lögðu í vatnslandið, svo indælt var veðrið nú ekki. Að hætti Dana höfðum við með okkur nesti en það dugði skammt fyrir svona langan dag svo við þurftum að kaupa okkur aukabita og svo hinn skylduga ís, vinir mínir Benni og Jenni eru með útibú þarna. Við lögðum íann heim um sex, þá settist hjá Strumpunni stelpa sem er jafngömul henni, en reyndar ekki í hverfisskólanum svo þær kynnast víst ekki þar. En ég held að hún hafi líka verið hálf lömuð eftir að sitja undir dömunni minni tala endalaust alla leið, á milli þess sem hún sýndi önnur skemmtiatriði (það vakti mikla lukku í rútunni þegar hún bretti upp á augnlokin á sér). Ég þurfti svo að þýða það mikilvægasta svo að eitthvað af flaumnum skilaði sér alla leið. Það er spurning hvort María vilji eiga eitthvað saman að sælda við þetta skrýtna ofvirka barn sem hún sat hjá! Við enduðum á því að borða hjá vini okkar MC enda ekkert til í kotinu og engin orka til að elda.

Í gær fórum við á bókasafnið hér í Egå, það er reyndar frekar lítið en hægt að fá millisafnalán eins og maður vill og má skila hjá þeim líka. Það gekk líka svona vel, við tókum öll bækur sem á annað borð erum læs. Strumpan fékk sér Harry Potter og Fönixregluna, bæði sem hljóðbók og lesbók, Mummi fékk sér Stieg Larson og pantaði hljóðbók með, ég fékk mér bókina um hana Ellen 100 ára, sem var þáttur um á DR fyrir einhverju síðan. Það var krúttleg kelling og frábært að lesa um hana enda kláraði ég bókina strax. Mín bíður svo krimmi líka, nýjasta Sara Blædel.

Ég kom svo við í útibúi Danska bankans og spurðist fyrir um að fá Dankort þar. Það reyndist ekki vera í boði en hins vegar máttum við gerast kúnnar og fá Mastercard án þess að skila neinum pappírum svo ég sendi um hæl póst á þjónustufulltrúann í Lánum og sparnaði og afþakkaði viðtalstímann þar. Við gerumst væntanlega kúnnar Danska bankans á mánudag.

Þess má geta að við hjóluðum þetta, loks voru allir komnir með hjálma og Skottan fékk að prufukeyra hjólakerruna. Það vakti ómælda lukku og Strumpunni fannst við hjóla heldur stutt, enda voru þetta ekki nema tveir kílómetrar, það tók sig varla að fara á hjóli. Þarf að henda inn eins og einni mynd af hjólafjölskyldunni við tækifæri.

 

Baráttan við skrifræðið

Jæja, langþráðar kennitölur komu í pósti nokkrum mínútum eftir síðustu færslu. Hófst þá umsóknarferlið mikla. Ég fékk hringingu frá skólanum hennar og fékk að vita að ég fengi tölvupóst þar sem væri skjal sem ég þyrfti að fylla inn upplýsingar um Sóleyju. Það gæti ég sent til þeirra um hæl og síðan myndi kennarinn hennar hafa samband og boða okkur í viðtal. Svo liðu nokkrar mínútur og þá fékk ég tölvupóst um að það væru tæknivandamál og ekki hægt að senda þetta skjal í tölvupósti og að ég fengi það sent í sniglapósti. Þá svaraði ég og sagðist frekar vilja sækja þetta skjal og fylla það út í skólanum til að spara tíma. Ég fékk leyfi til þess, renndi niður í bæ og græjaði þetta þar (reyndar var búið að loka skrifstofunni en ritarinn sem hafði spjallað við mig deginum áður reddaði mér). Upplýsingarnar sem ég þurfti að gefa hefði ég leikandi getað sent í tölvupósti en það var greinilega ekki í boði að hafa það svo óformlegt, það var jú til sérstakt eyðublað fyrir þetta. Svo nú bíðum við enn eftir að kennarinn hringi í okkur og vitum því ekkert enn um hvenær daman byrjar. Það var þó staðfest að hún verður flutt fram og til baka í leigubíl og má fara í frístund í hverfisskólanum ef hún vill.

Síðan var það litla daman. Það er ekki hægt að sækja um pláss á netinu nema maður hafi rafræna undirskrift og það tekur nokkra daga að fá svoleiðis svo ég fyllti bara út umsókn á gamla mátann og sendi í pósti. Bíð eftir staðfestingu á móttöku. Þessa umsókn mátti reyndar líka senda í tölvupósti en það kom bara hvergi fram á hvaða netfang ætti þá að senda hana. Afskaplega gáfulegt sem sagt.

Bankamálum reyndum við að redda í gær. Það er alveg glatað að hafa ekki Dankort, hér taka flestar búðir aukagjald þegar maður borgar með útlensku korti og þá er nú tilboðssparnaðurinn manns fljótur að fara. Ódýrustu bensínstöðvarnar taka heldur ekki annað. Við mættum í bankann sem leigusalarnir okkar höfðu mælt með. Pínulítill, bara með útibú í bænum. Það var einn kúnni inni fyrir utan okkur. Samt gat þjónustufulltrúinn ekki gengið í þetta af því að það var svo mikið að gera. Hún boðaði okkur í viðtal og það gat gengið á mánudag. Svo fengum við tölvupóst með upplýsingum um það sem við þurftum að taka með. Nota bene, þetta er bankinn sem við ætlum að biðja um að geyma peningana okkar. Það sem við þurfum að koma með er afrit af skattframtali, launaseðlar síðustu þriggja mánaða, yfirlit yfir föst mánaðarleg útgjöld, útprentað reikningsyfirlit, auk passa eða annarra persónuskilríkja. Mér finnst þetta óskiljanlegt, ég sendi henni póst og spurði hvort þetta væri virkilega nauðsynlegt, við værum jú ekki að fá lánaða peninga en jú, þetta þarf þegar er verið að stofna okkur sem kúnna. Argh. Mér er skapi næst að athuga annars staðar.

Klaufabárðarnir

Ég nefndi í síðustu færslu hvað Sunna flaug snilldarlega niður stiga svo eftir blæddi. Hún var með mjög snyrtilegt sár fyrir neðan nefið og náði í gær að fljúga á hausinn eftir að príla upp á stól og lenti að sjálfsögðu á nefsárinu svo það rifnaði upp. Við erum farin að íhuga að láta hana ganga með hjálm eða aðrar hlífar svo sárið sé ekki komið til að vera.

Það eru fleiri klaufabínur á heimilinu, ekki þó þannig að það hafi orðið stórslys. Neibb, nú er það húsmóðirin sem brýtur glös við öll tækifæri sem gefast og ef hún er ekki að brjóta glös þá tekur Skottan það að sér. IKEA ferð er fyrirsjáanleg til að bæta eigendum hússins skaðann. Við mæðgur erum búnar að stúta 5 glösum hingað til, ég held að það séu fleiri glös en hafa brotnað á jafnmörgum árum heima hjá mér (og þá eru það yfirleitt aðrir en ég). Mummi heldur því fram að ég sé enn að læra á húsgögnin. Ég vona að minnsta kosti að þetta sé að fjara út, það er komin vika síðan síðast.

Sóley hefur alveg sloppið við slys, nema auðvitað átökin við brenninetlurnar. Hún hefði átt að byrja í skólanum í dag en kennitölurnar voru loks að koma í hús og vonandi fer því eitthvað að gerast. Ég sendi þeim tölvupóst á mánudaginn og fékk ekkert svar um hæl svo við fórum í ferð þangað í gær. Þá var auðvitað starfsdagur og enginn við sem gat sagt okkur neitt. Hún heldur auðvitað að það sé vafamál hvort hún fái að fara í skóla yfirleitt.

Annars hefur hún staðið sig með mikilli prýði. Hún sinnir systur sinni yfirleitt vel (þó henni finnist Sunna vakna of snemma á morgnana) og þær hafa til að mynda farið margar ferðir í rólurnar, sem eru reyndar bara 10 metra frá útidyrunum okkar og blasa við úr borðstofunni. Hún er farin að æfa sig aðeins í dönskunni, las til dæmis fyrir mig á dönsku í gær og eins og ég sagði henni þá yrði ég ánægð sem kennari ef nemendur mínir væru allir að minnsta kosti jafn góðir og hún í framburði. Annars er hún orðinn heitasti Rocky Horror aðdáandi heimilisins og eflaust þótt víðar væri leitað. Hér er hlustað á lögin úr leikritinu allan sólarhringinn og sungið með af ástríðu. Ég veit ekki hvað nágrannakonu okkar þykir um Rocky Horror en hún fær tónlistina að minnsta kosti beint í æð þessa dagana.

Kaup dagsins

Nú er allt að gerast í fararskjótamálum. Mummi keypti sér hjól á laugardaginn, af Erasmus skiptinema svo hjólið var sótt á kollegie – þar fékk undirrituð opinberun. Sem hún stóð og þakkaði í huganum fyrir að vera ekki að fara að búa á Görðum áttaði hún sig á að hún verður algjör gamla í hópnum, innan um smákríli rétt skriðin yfir tvítugt. Það var nett áfall. 🙂 Mummi prófaði þarna tvö hjól og keypti annað þeirra. Við tókum síðan krók niður í bæ og hittum fyrrum vinnufélaga Mumma og fjölskyldu og náðum einni ísferð, þaðan var farið til að sækja nýja fararskjótann sem Mummi hjólaði á heim.

Í gær fórum við svo og skoðuðum hjólakerru handa Skottunni sem okkur leist ógurlega vel á. Til marks um það hvað ég er að verða dönskumæĺt sagði ég Mumma að húsið væri númer sexogþrjátíu. Kerran var hin fínasta en komst hins vegar ekki í bílinn og beið því betri tíma því við vorum á leið til Álaborgar (eða nánar tiltekið smábæjarins Vilsted) þar sem Ellen, fyrrverandi vinnufélagi Mumma býr. Hún var búin að bjóða okkur í heimsókn, Mumma til skrafs og ráðagerða og okkur svona í leiðinni. Mættum þangað í danskan frokost, alveg hreint dásamlegan. Mummi og Ellen áttu svo vinnustund en við mæðgur dunduðum okkur á meðan. Fengum síðdegishressingu og fórum síðan í gönguferð í kring. Hún er með frábært útsýni, býr við vatn sem er nýbúið að veita í aftur, eftir að hafa verið þurrkað upp fyrir löööngu síðan. Þegar hún flutti hafði hún útsýni yfir tún og símastaura og tré en því var fórnað og núna er þetta bara eins jógatími að sitja á svölunum hjá henni (það blés að vísu svo hressilega í gær að það var ekki beinlínis setið úti á svölum). Vorum líka boðin í kvöldmat og dagurinn hefði verið hinn fullkomnasti ef Skottan hefði ekki tekið upp á því að hrynja niður stiga (við það að elta Sóleyju). Hún fékk laglega byltu og heljarinnar blóðnasir og var frekar lítil um stund á eftir. Gestgjafarnir Ellen og Holger voru miður sín og vildu helst að farið yrði til læknis en foreldrarnir voru alveg rólegir enda jafnaði daman sig og var farin að hlaupa og ólmast eftir smá stund, þó nefið væri aumt lengur (og maður frekar ólánlegur í dag með skrámu undir nefinu).

Í dag fór ég svo hjólandi til að sækja nýju kerruna. Það var heilmikið púl, 7.5 kílómetrar og stór hluti upp í móti, en þar af leiðandi ósköð þægilegt á heimleiðinni. Kerran er hin fínasta og nú á bara eftir að græja hjálm á feðginin og þá er okkur ekkert að vanbúnaði. 🙂 Verðum ekki öllu danskari. Kennitölurnar eru þó ekki komnar enn og ég farin að óróast því Sóley á að byrja í skólanum á miðvikudag og ég veit ekkert enn svo ég sendi tvo illa tölvupósta í dag, einn á borgaraþjónustuna og annan í skólann hennar Sóleyjar (sem enn hefur ekki svarað bréfi sem ég sendi í júlíbyrjun, svo það er spurning hvort ég neyðist ekki til að hringja).

 

Ný ævintýri

Á miðvikudaginn var haldið á vit ævintýranna á Himmelbjerget. Strumpunni var skipað að skima eftir fjallinu á leiðinni og hún var allan tímann að bíða, skildi ekkert í þessu þegar við lögðum á bílastæðinu og vorum uppi á fjalli. Þetta var reglulega indæl ferð. Ég kom þarna síðast fyrir 20 árum, þá í mars og allt miklu grárra en við vorum í yndislegu veðri og fegurðin alveg óskapleg. Það er frábært útsýni þarna af Alpabrúninni, vötn og skógar þarna í kring. Við Strumpan gerðum okkur meira að segja ferð alla leið upp turninn (svo ég tæki aðeins meiri minningarpakka á þetta) og inni í turninum voru 3 svöluhreiður.

Dömurnar voru síðan alsælar með leikaðstöðu sem þarna er, Sunnan getur auðvitað rólað allan daginn ef hún hefur nægilega þolinmóðan félagsskap. Komst reyndar að því að rennibrautir eru afskaplega skemmtileg uppfinning. Við höfðum með okkur nesti að hætti Dana, þurftum að vísu að flýja undan ágangi geitunga (sem ég hef annars engin samskipti átt við fram að þessu). Við eigum alveg örugglega eftir að teyma aðra gesti á þessar slóðir og vonandi förum við síðar í siglingu um Silkiborgarvötnin eins og mig dreymir um.

 fimmtudag var svo komið að Skagen. Við vorum búin að boða komu okkar til okkar gömlu vina, Kim og Bente og eins og þeirra er von og vísa var okkur boðið í hádegis- og kvöldmat. Þegar við komum um hádegisbilið (eftir að ná að hrista tengdapabba af okkur) beið okkar „stjerneskud“ sem er óhemju ljúffengt smørrebrød með rauðsprettu og rækjum. Eftir mat byrjuðum við á að fara á Grenen, næstum því nyrsta odda Danmerkur, þar sem Skagerak og Kattegat mætast og mynda röst eina tvo kílómetra út. Stubburnar voru báðar afskaplega kátar, sú stutta hegðaði sér ósköp líkt Strumpunni þegar hún kom fyrst hingað, fjögurra ára gömul, kepptist sem sagt við að krafsa og grafa í sandinum. Enda er hann æðislegur, svona bíómyndahreinn og hvítur 🙂 .

Eftir þetta fórum við í miðbæinn og röltum þar. Hann er afar sjarmerandi, með lágreistum, fallegum húsum og  haug af fólki. Hér búa bara um 8 – 9000 manns en ferðamannafjöldinn á sumrin er vel á annað hundrað þúsund. Úr bbænum fórum við svo á Skagen Museum til að skoða verk Skagen málarana. Þar höfum við komið áður og það verður ekkert síðra. Dásamleg sýning í gangi með verkum úr einkaeigu.

Við enduðum daginn svo í allsherjar grillmat hjá Kim og Bente og fórum að venju vel útkýld frá þeim (við erum vön því hvernig þau moka í mann mat en ég held að tengdó hafi nánast fengið áfall). Lentum reyndar í algjörri skítarigningu á leiðinni heim svo það var andstyggilegt að keyra á köflum.

Í gær var farið í pínulitla verslunarferð í Bruuns Galleri, aðallega verslað á Strumpuna sem náði að slíta næstum öllum buxum áður en við héldum út, svo það þarf að birgja hana vel upp.

Við áttum síðan von á að fá kennitölurnar okkar í hús í síðasta lagi á fimmtudag. Þær hafa ekki sést enn, en mér til mikillar gleði beið mín bréf í gær þar sem ég var boðuð í krabbameinsskoðun (þar sem kennitalan mín kom fram). Þetta er einkennileg forgangsröðun en gott að þeir vilja fylgjast svona vel með mér. Ég er að hugsa um að þiggja boðið og spara mér því næstu heimsókn til hans Orra.

Gestirnir okkar yfirgáfu svo kotið í bítið í morgun. Það er búið að vera ósköp ljúft að hafa gesti og dömurnar hafa svo sannarlega notið þess að hafa afa og ömmu. Amma syngur fyrir Skottuna og og afi skreppur með hana í göngutúra, bæði spila þau við Strumpuna. Það verða viðbrigði að hafa þau ekki lengur.

Sólskinsfréttir

Hér er búin að vera brakandi blíða í svo sem eina viku enda var strandferð þrjá daga í röð. Í gær fórum við með tengdó í Randers Regnskov og báðar dæturnar voru að rifna af gleði, Strumpan jós upp úr sér upplýsingum en Skottan var helst spæld að fá ekki að klappa og sagði reglulega meiri dýr. Strumpan var líklega heilluðust af sækúnni sem við sáum en var samt ægilega sátt þegar api straukst við hana. Sunna var mjög hrifin af öpunum en horfði yfirleitt heilluð á allt sem henni var sýnt og fékk meira að segja að klappa slöngu. Strumpan fékk að smamma steikt skordýr, beit agnarlítinn bita af bjöllu og var snögg að fá sér kartöfluflögur á eftir. 🙂 Það var, eins og við er að búast, ansi heitt þarna inni en svo tók ekki betra við þegar við röltum upp í miðbæ Randers, enda var 29° hiti og sól. Það var því ansi hreint magnlítið fólk sem sneri heim.

Í dag fórum við svo klifjuð eplum (bæði úr garðinum og keyptum) í Marselisborgarskóg og þá var nú kátt á hjalla því það var slegist um að vingast við okkur. Nú vitum við hvernig tilfinning það er fyrir ríka fólkið sem á bara vini vegna þess að það á pening 🙂 Við vorum varla komin inn fyrir hlið þegar stór hópur hafði umkringt okkur og gúffaði í sig eplum. Dömurnar voru alsælar með þessa vini. Við tókum hefðbundinn hring í garðinum, reyndum að treina birgðirnar eins og við gátum og þetta entist okkur svona hálfa leið í skóginum. Þurftum að þurrka okkur vel og vendilega eftir að eplin voru búin enda útötuð í dádýraslefi. Þau voru meira að segja svo dugleg að bjarga sér að það þýddi ekki að geyma eplapokann undir sætinu hennar Sunnu, þá var óðara kominn haus að reyna að næla sér í.

Eftir þetta tókum við smá rölt í miðbænum, fórum á kaffihús og fengum okkur ís. Sunnan er alsæl í kerrunni því það er nóg af hundum að dást að. Hér heima við er mest setið úti við í skugganum, annað er ólíft og verst af öllu að vera inni. Við höfum aðeins borðað úti síðustu daga, þegar það hefur verið sem óbærilegast inni við og við hjónin sofum með sængurverið án innihalds. Í dag byrjaði dagurinn reyndar frekar dimmur þó að það væri 20° hiti og ég tók með mér flíspeysu niður í skóg en svo dró frá og sést varla ský á himni núna.