Aukafærsla

Það er ekki úr vegi að skella inn aukafærslu fyrir febrúarmánuð í tilefni dagsins. Eitt og annað sem hefur drifið á dagana þessar tvær vikur hvort eð er.

Fengum góða gesti, eins og fram kom í síðustu færslu. Gylfi afi og Adda amma komu hér á leið sinni til Norðmanna. Dæturnar alsælar að fá selskap, Skottan var vissulega feimin í svona korter eftir að gestirnir létu sjá sig en það var of erfitt að vera feiminn þegar var farið að skoða bækur og ræða Bamse og Kylling. Við eldri mæðgur fórum með gestunum í bæinn í smávegis búðarleiðangra og örlit inn í Aros í frekar köldu veðri (það var enn vetur þegar þetta var). Gestunum var svo komið í lest á föstudagsmorgni.

Á laugardagskvöldi fórum við eldri mæðgur síðan á tónleika með Rasmussi vini okkar Seebach. Skemmtum okkur fyrst vel í strætó sem var sneisafullur af öskudagsklæddum ungmennum. Þegar við mættum á tónleikastaðinn fórum við eins nálægt sviðinu eins og hægt var án þess að troðast og var þá um hálftími í tónleikana. Strumpan þurfti að sjálfsögðu að fara á klósettið (hafði þó verið rekin á klósett fyrir brottför) en tímdi ekki að missa kannski þessa fínu staðsetningu svo við ákváðum að sjá til hvernig partýblaðran stæði sig. Klukkan átta byrjaði svo upphitunarpiltur, Ankerstjerne og var hinn þokkalegasti, Strumpan komst í gott skap aftur og gleymdi aðeins að vera þreytt á að standa. Þegar hann hætti tók aftur við bið og þá var daman aftur að örmagnast. Goðið kom svo fram korter í níu. Sem betur fer höfðum við þokkalegasta útsýni en ég lyfti Strumpunni þó af og til svo hún sæi betur. Um hálf tíu var partýblaðran full og ég átti raunar von á hléi hvað úr hverju svo við tróðumst til baka og tæmdum blöðruna, auk þess að fylla á hana aftur. Ákváðum að troðast ekki aftur inn í þvöguna og komum okkur fyrir aftast í salnum og vorum þar það sem eftir leið. Undir lokin hafði stelpa sem stóð við hliðina á okkur svo mikla samúð með okkur (mér fyrir að halda af og til á Strumpu og Strumpu fyrir að sjá ekkert) að hún rak kærastann sinn til að taka Strumpuna á háhest, svo hún hafði gott útsýni fyrir rest. Við stungum svo af eftir fyrsta uppklappið, keyptum bol handa dömunni á útleiðinni og náðum strætó fljótlega. Það er óhætt að segja að við höfum báðar verið alsælar, mér finnst pilturinn sem betur fer góður en aðallega fannst mér gaman að fara með henni.

Viku síðar áttum við hjónin smá gæðastund, fórum í útsýnisflug í þyrlu. Það var jólagjöfin til Mumma. Túrinn var reyndar stuttur og ég hafði reyndar séð fyrir mér að við sætum hlið við hlið og horfðum djúpt í augu hvers annars svona á milli þess sem við horfðum á Árósa, en ég sat við hliðina á flugmanninum og Mummi fyrir aftan mig svo hann gat í mesta lagi horft í aðdáun á hnakkann á mér. Þannig að rómantíkin fór fyrir lítið en reynslan var engu að síður frábær. Mig langar að fljúga aftur í þyrlu, það er skemmtilega frábrugðið flugvélum.

Seinni partinn sama dag lagði fjölskyldan í’ann til Skagen, þar áttum við enn og aftur dekurhelgi í vændum. Og þrátt fyrir að ég útskýrði að ég hefði bætt á mig tveimur kílóum í síðustu heimsókn var engin undankoma frá því að éta á sig gat. Við tókum hefðbundið prógramm, göngutúr í miðbænum og rölt niður að sjó í frábæru veðri. Skottan fékk meira að segja að halda í tauminn hjá Boss og þótti það ekki ónýtt, hljóp við fót á eftir honum. Strumpan græddi mikið á bæjarferðinni. Ég hafði asnast til að segja frá því hvað hana langaði í topp en ætti bara svo erfiða móður. Kim og Bente tóku þá auðvitað til sinna ráða, eins og hver önnur afi og amma og keyptu nærföt á barnið svo örið á sálinni ætti einhvern séns að lagast. Á sunnudeginum kom síðan í ljós að Skottan var farin að steypast út í bólum, hlaupabólan mætt á svæðið. Stóra daman að auki hóstandi. Þær hafa því báðar verið heima þessa vikuna og við reyndar beðið í ofvæni eftir að sjá hvort sú stærri fengi líka hlaupabólu, því það er frekar óljóst hvort hún hafi fengið vægustu mögulegu útgáfu af henni eða bara ekki. Nú er því bóluleit daglega. Skottan lætur þetta reyndar lítið á sig fá, hefur bara bætt þessu gagnlega orði í orðaforðann. Ég er eiginlega dauðfegin að ljúka þessu af, sérstaklega af því að þetta er átakalítið.

Skólinn minn er bara stuð ennþá. Ég er að lesa Strindberg í stórum stíl núna, það gengur svona upp og ofan. Svara þó stundum í tímum og bíð bara eftir að það komi eitthvað á sænsku, svona í hita leiksins. Hlakka mest til tímans þar sem við tökum Bröderna Lejonhjärta, þarf ekki einu sinni að lesa heima fyrir þann tíma þar sem ég gæti nánast farið með hana utanbókar (kannski ekki á sænsku þó 🙂 ).

Kominn tími til

Nú er spurningin hvort ég sé góð að muna hvað hefur gerst síðan síðast. Það sem er kannski hvað markverðast er að ég tók ákvörðun varðandi námið, ég ætla ekki að halda áfram næsta vetur og þar af leiðandi er ég líka búin að ákveða að fara ekki í próf í vor. Svo nú er lífið heldur náðugra en var. Ég lagðist undir feld og komst að þeirri niðurstöðu að þó að mér hafi fundist námið mjög áhugavert þá er það mér ekki slíkt hjartans mál að ég vilji skilja fjölskylduna að, jafnvel þó ég kæmist upp með að fara heim um jól. Þar spilar eflaust fortíðin inn og líka sú vitneskja að þó þetta væri ekki langur tími, þá er hann samt drjúgur hluti af þeim tíma sem maður hefur börnin hjá sér. Og svona er forgangsröðunin núna, börnin mín fyrst og síðan ég. Sérstaklega þegar ég brenn ekki meir fyrir þessu en raun ber vitni.

Ég var annars býsna sátt við einkunnirnar mínar, fékk 7 í áfanganum sem ég klúðraði prófinu í, það hlýtur að þýða að ritgerðin sem gilti helming á móti prófinu hefur verið all þokkaleg. Ég fékk svo 10 (af 12 NB) fyrir stóru ritgerðina sem var námsmat í tveimur kúrsum. Reyndar er meðaleinkunnin há í báðum þessum fögum og það dró aðeins úr gleðinni en skítt með það, þetta er alveg til að una við.

Nú er ég byrjuð í áfanga sem var óskaáfanginn minn frá því að ég fór að skoða nám hér úti. Hann heitir Skandinaviske studier og er norsku- og sænskuáfangi. Það eru tveir kennarar, annar norskur og hinn sænskur og við eigum að lesa bókmenntir á norsku og sænsku. Mér líst ljómandi vel á byrjunina, það er æðislegt að hlusta á norskuna og sænskuna en ég verð að viðurkenna að mér gengur betur að skilja sænskukennarann, enda þaulvön að hlusta á sænsku. Norskan er hins vegar að jafnaði auðveldari í lestri.

Ég átti frábæra helgi með LC klúbbnum mínum í janúar. Við fórum í sumarbústað í Ebeltoft, sá allra flottasti sem ég hef komið í, nema hvað það var enginn heitur pottur og þá brugðum við nokkrar á það ráð að baða okkur í sjónum, án baðfata, hahaha. Um hábjartan dag, hahaha. Annað kvöldið var svo Sing star keppni þar sem ég fór auðvitað á kostum, því miður ekki fyrir fallegasta sönginn en alveg pottþétt fyrir mestu innlifun og góða textaþekkingu. Nema þetta smáatriði að það sé í raun ekki sungið „I guess it rains down in Africa“ sem er auðvitað miklu betri texti en „I bless the rain…“.

Lenti síðan í því óstuðlega atviki að keyra niður hjólreiðamann. Með öðrum orðum, það er enn innbyggt í mig þegar ég hjóla að passa mig svakalega vel á bílunum en ekki eins vel innbyggt í mig þegar ég keyri að passa mig svakalega vel á hjólreiðamönnunum. Vona að ég læri af reynslunni. Blessunarlega var þetta eins lítið og hægt var, hjólreiðastúlkan var heil og hjólið þurfti bara smá viðgerð. Bíllinn minn er kominn með enn eina rispu í safnið. Frekar glatað samt og ég hefði nánast þurft að fá áfallahjálp en það sem drepur mann ekki (eða hjólreiðamanninn) styrkir mann bara.

Dæturnar eru síkátar, eða svo gott sem. Strumpan unir sér reyndar misvel í skólanum og leikur lítið við bekkjarfélagana. Hún fór samt í gistipartý með bekkjarsystrunum og skemmti sér ágætlega og vildi endilega fara í vistun þessa vikuna, þó það sé vetrarfrí. Það var vetrarhátíð í skólanum í síðustu viku, krakkarnir komu í búningum (daman sem Scarlett O’Hara, sá kjól í auglýsingabæklingi sem var merktur svona og leist ægilega vel á hann) en Skottan sem dalmatíuhundur. Bekkurinn + foreldrar borðuðu saman, svo voru alls konar þrautabásar, draugahús og kötturinn sleginn úr tunnunni.

Skottan er enn alsæl hjá dagmömmunni og myndi eflaust fara um helgar ef það væri í boði. Þær eru bara tvær þar enn þá, þó af og til komi aukakrakkar. En þetta er mikill lúxus eins og er. Hún var mjög sátt við (allan) snjóinn sem kom þó mamman væri löt að fara út að leika, lét bara fagfólkið um það. Það tínast alltaf inn ný orð, op at sidde, vanter på og fleira og hún skilur rosalega mikið, ég prófa stundum að tala dönsku við hana og henni finnst það ekkert dularfullt. Hún er aðdáandi Strumpunnar nr. 1 og elskar að brasa með henni en er samt, eins og áður, alveg rosalega dugleg að leika sér ein.

Mummi er allan daginn í einangrunarbúðum, situr og vinnur frá morgni til kvölds. Ég fæ hann annað slagið til að horfa á eitthvað danskt með mér til að æfa hann, keypti mér Matador um daginn og það hentar prýðilega af því að hann missti af þessu í sjónvarpinu hér um árið. Eitthvað verður hann að verða danskari af búsetunni 🙂 .

Við fáum svo gesti á morgun og hlökkum svakalega til, Gylfi og Arnheiður ætla að líta við hjá okkur á leið upp til Noregs. Síðan förum við mægður á tónleika með Rasmus Seebach á laugardagskvöldið, smá dekur mæðgnastund og helgina þar á eftir förum við líklega til Skagen að líta á vini okkar Kim og Bente. Og tíminn líður.