Hámenning og lágmenning

Sumardagurinn fyrsti var haldinn nokkkuð hátíðlegur á heimilinu að íslenskum sið. Dæturnar voru á sínum stað um morguninn svo við hjónin notuðum tækifærið til að fara í Aros, það var takmarkaður áhugi á að deila þeirri ferð með áhugalitlum dætrum í hlaupagír. Ég hafði svo sem komið inn áður og séð Strákinn ofan frá en ekki meir. Við byrjuðum á því að kíkja á hann. Það var alveg jafn magnað og ég hafði ímyndað mér, hann er alveg ótrúlega vel gerður.

Síðan tókum við rúnt um safnið en slepptum reyndar efstu hæðinni sökum tímaskorts, enduðum í Regnboganum. Ég átti örlítið bágt vegna loftóróleika, vildi ekki labba alveg meðfram glerinu. Safnið allt ýtir reyndar undir þessa tilfinningu, glerlyftur og stigar opnir með útsýni niður allt húsið. Regnboginn var skemmtilegur eins og öll verkins hans Ólafs yfirleitt.

Síðdegis fórum við Strumpan í sirkus. Hún hafði verið mjög áhugasöm um það þegar kom sirkus síðasta sumar en það var haft af henni og því meðal annars borið við að það væri skemmtilegra að fara þegar hún skildi það sem fram færi. Þetta loforð var því efnt núna. Strumpan fékk að hafa með sér pening því ég var búin að lýsa því yfir að ég væri ekki að fara í sirkus til að borða. Hún var ekki lengi að sjá eitthvað freistandi, það var nefnilega verið að selja candy floss. Sýningin sjálf var að mestu leyti skemmtileg, mikið af loftfimleikum sem voru ansi tilkomumiklir. Þar bar hæst fjölskylda sem sýndi listir sínar á fílsbaki. Í hléi var boðið upp á að fara á fílsbak, sirkusfólkinu leggst alltaf eitthvað til í peningaplokki. Strumpan sem hafði ekki beðið þess bætur að hafa ekki fengið að fara á bak úlfalda í sinni fyrstu sirkusferð, þá fjögurra ára, fékk að fara núna, svo það yrði ekki varanlegt ör á sálinni. Því miður var ég ekki með almennilega myndavél, bara símann, svo myndirnar eru meira táknrænar en notkunarhæfar.

Síðustu tvær vikur er Skottan búin að vera vistuð hjá afleysingardagmömmu. Ekki þeirri sömu og hún hefur verið hjá áður, ég var hálffegin því, hafði ekki alveg fundist það virka. Daman var ekkert sæl yfir skiptunum til að byrja með, það munaði samt því að hún grét ekki þegar ég skildi við hana. Svo gekk mjög vel yfir daginn, það voru tveir krakkar þarna sem hún kannaðist við og lék sér með. Hún náði reyndar að veikjast enn eina ferðina, kvefaðist og fékk asma, það hefur þó ekki alltaf verið svo slæmt að hún gæti ekki farið til dagmömmu, oft er hún hitalaus, en núna kom leiðindafylgifiskurinn ælupúkinn líka og að þessu sinni hjá dagmömmunni. Hún var því heima tvo daga. Á hverjum morgni tilkynnti hún líka að hún ætlaði ekki til Gitte, átti það jafnvel til að fara inn í stofu að leika sér áður en við fórum af stað, til að sýna hvað hún ætlaði að hafa það huggulegt. Þetta sama barn faðmaði dagmömmunna alltaf í kveðjuskyni, svo ekki risti þetta djúpt. Nú er aftur komið að rútínunni, hún fer til Marianne á morgun.

Skottan hefur líka átt spretti sem fyndna barnið. Það er verið að æfa hana í að svara þegar hún er spurð að nafni. Aðal brandarinn til að byrja með var að segjast heita Bríet og þvertaka fyrir að heita Sunna, síðan kom nýtt afbrigði sem fólst í að segjast heita Jónsdóttir. Nú er þessi brandari búinn og barnið farið að kynna sig með sínu venjulega nafni, gjarnan hvíslar hún þó svarið.

Það eru líka byrjaðar æfingabúðir í að vera bleiulaus. Ekki ganga þær vel en keppandinn er mjög áhugasamur og vill gjarnan fá að vera bara í nærbuxum. Þetta hefur þó ekki gengið sem skyldi, staðan er nokkurn veginn pissað á gólf 15, pissað í klósett 0. Það er þó engin uppgjöf í gangi og búið að fjárfesta í fleiri nærbuxum. Stefnan er tekin á pissulaust gólf fyrir leikskóla eða fyrir þriggja ára aldur.

Þetta sama barn er líka að breytast í forhertan nammiglæpamann og hefur í því skyni þróað afburðagott nammiþefskyn. Það eina sem upp á vantar er að fela slóðina ögn betur og láta ekki góma sig fljótlega eftir að glæpurinn hefur verið framinn, svo hægt sé að njóta þýfisins betur.

Í gær var farið í bæjarferð, eiginmaðurinn búinn að panta sér rakstur, mæðgurnar ætluðu að eiga góða stund í bænum á meðan. Stundin var ekki jafn ljúf eins og stefnt var að. Ekki nóg með að það væri skítakuldi (sem var ekkert alslæmt því það afsakaði auðvitað HogM ferðina) heldur tók Skottan upp á því að fara í feluleik í HogM og var ekkert á því að láta góma sig. Hún náði þó að finna sér kjól, sem hún neitaði að leyfa móðurinni að halda á og dró á eftir sér um alla búð. Þessi nýja HogM íþrótt var móðurinni ekki að skapi, hún hefur frekar viljað stunda íþróttina „kaupum sem mest á sem stystum tíma“ og átt þokkalega spretti í henni. Það bætti þó úr skák að undir lokin var hægt að renna á lyktina af íþróttaálfinum, svo hann fannst og var gerður upptækur.

Eftir þessa „góðu“ ferð (þar sem glæst fortíð móðurinnar í HogM reddaði því sem reddað varð, kauplega séð) var Strumpunni komið í vinkvennaheimsókn og fór svo að hún gisti þar, hjónin áttu því notalega kvöldstund með sushi, hvítvíni og danskri eðalmynd. Unglingurinn var svo sóttur um hádegisbil í dag, hefði að sjálfsögðu viljað fá að vera lengur.

Í vikunni er stefnt að framhaldsferð í HogM, án barna í þetta sinn og síðan taka við siglingar, þegar Noregur verður sóttur heim í fyrsta sinn.

Góðir gestir

Þá eru MA kennarar komnir og farnir. Fyrst fengum við dönskudeildina og heiðurmeðlimi í mat (Selmu og Þengil, Ragnheiði og Jónas og Gunnu). Mummi skellti í fiskefrikadeller, það verður auðvitað að halda í danskt þema. Við vorum leyst út með gjöfum, stelpurnar fengu sælgæti og við líka auk þess að fá Gammel dansk. Áttum ágæta kvöldstund í þessum góða selskap.

Í gær fór allur hópurinn í heimsókn í Egå Gymnasium sem er hér í næsta nágrenni, svo ég skottaðist til fundar við félagana þar. Skólinn er hreint magnaður frá a – ö, alveg nýr og húsnæðið algjör draumur, íþróttasalurinn er til að mynda hluti af húsinu og hægt að horfa á tíma, því hluti salarins er glerveggur. Það er stór aðstaða til að matast, það er fyrirlestrasalur sem hægt er að breyta eftir þörfum, litlir krókar og kimar hér og þar til að vinna í hópum, raungreinastofurnar eru með græjum sem ég ímynda mér að enginn framhaldsskóli á Íslandi hafi, allar stofur með skjávörpum og snjalltöflum og útsýni af kennarastofunni sem slagar upp í útsýnið úr Gamla skóla (bara ekki af kennarastofunni). Nemendurnir voru ekki síður til fyrirmyndar, ég fór til að mynda inn í tvo bekki, í dönskutíma og enskutíma. Í dönskutímanum var sérlega áberandi að allflestir nemendurnir tóku virkan þátt, þegar kennarinn spurði yfir bekkinn voru alltaf nokkrar hendur á lofti og ekki alltaf þær sömu, nemendurnir svöruðu þegar á þá var bent, enginn greip fram í, þeir hlustuðu hver á annan og fóru svo djúpt í söguna sem þeir voru að lesa að manni fannst frekar að þessi tími ætti sér stað í háskóla. Satt best að segja var þessi hópur meira á háskólaplani en þeir hópar sem eru með mér í tímum.

Eini gallinn á gjöf Njarðar var að við fórum án þess að fá vott né þurrt (nema þeir sem báðu um vatn og fengu það náðarsamlegast) svo það var svangur hópur sem hélt með mér heim. Veðrið var því miður ekki eins og pöntunin hafi hljóðað upp á (og var búið að lofa dagana á undan) en það hélst þurrt, svo þeir hörðustu komu sér fyrir í garðinum, öðrum var púslað þétt í stofu, borðstofu og eldhúsi. Það bjargaði reyndar heilmiklu að hluti hópsins, sem hafði farið með Gunnu á pöbbarölt (eða skoðunarferð) skilaði sér seint eftir ævintýri við að finna leiðarendann. Ég hafði svo skellt í alvöru danska lagköku en látið Føtex taka af mér ómakið með kransakökuna, síðan var ég með bjór og hvítvín sem var svo vel falið í geimskipslegu íláti að enginn fékk sér af því. Fólkið fékk því loks smá hressingu eftir erfiðan seinnipart.

Mér til mikillar undrunar var Skottan alveg hress með þennan fjölda og sólaði sig í athyglinni (eins og Strumpan en það kom hins vegar engum á óvart). Henni þótti reyndar Valdimar ögn skrýtinn, enda skartar hann veturgömlu skeggi og er farinn að minna á Gandalf. Gestirnir stoppuðu mislengi, þeir síðustu fóru rétt fyrir sex, höfðu þá þurft að bíða af sér eina hressilega skúr eða kannski meira hagl. Það var hálf dauflegt í kofanum eftir að hann tæmdist og eftirsjá af því að vera ekki með hópnum alla ferðina. Ég náði heldur ekki að spjalla almennilega við alla. Í dag fóru þau í Aros, áður en þau héldu áfram, ég hefði fylgt þeim þangað nema hvað ég var að fara í tíma um Sult Knuts Hamsun og mátti engan veginn missa af því.

Sem betur fer er alls konar félagslíf framundan, fyrst fer ég á aðalfund LC á laugardag, síðan kemur reyndar helgi sem er alls óplönuð en eftir það hellast yfir okkur viðburðir. Það styttist líka alltaf í heimför, nú er búið að kaupa far fyrir alla, Mummi kemur flugleiðis með dætur 16. júlí en ég læt bíða eftir mér og bílnum og kem til landsins 19.

Af sunnudagsrúntum og páskastemmingu

Ég gleymdi alltaf að segja frá einum yndislegum sunnudagsrúnti sem við tókum í síðasta mánuði. Ég hafði rekist á frásögn um hverfi hér í Árósum sem heitir Finnebyen. Þannig var að eftir seinni heimstyrjöld var gríðarlegur húsnæðisskortur hér og sveitarfélagið festi kaup á 122 timburhúsum frá Finnlandi, sem voru 56 fermetrar að stærð 🙂 . Í dag er reyndar búið að byggja við flest ef ekki öll húsin. Upprunalega voru þau öll máluð í gulum, rauðum, grænum eða bláum lit. Mig hafði langað til að skoða þetta hverfi frá því að ég las um það svo við ákváðum að gera loks ferð. Það er skemmst frá því að segja að þetta er dásamlega krúttlegt hverfi, mikið lagt upp úr sérstöðunni og húsunum vel við haldið.

Í framhaldinu fórum við og keyrðum í gegnum þorp sem við sáum í þyrlufluginu, það er agnarlítið og nánast orðið samvaxið við Árósa en stendur samt enn eitt og sér. Þetta var líka gjörsamlega sætt, alveg nákvæmlega eins og ég hefði verið til í að búa í. Við enduðum svo rúntinn á því að fara upp að alræmdum stúdentagörðum, Skjoldhøj kollegiet, sem er byggt á 8. áratugnum, meðan það þótti enn fínt að henda upp steinsteypuklumpum. Þarna búa fyrst og fremst erlendir stúdentar því það vill enginn annar búa þar. Það er stanslaust verið að brjótast inn og hjá sveitarfélaginu er rifist um hvort á að rífa bygginguna niður eða gera hana upp, það er kominn tími á viðhald, ekkert verið gert í 40 ár en það er varla talið svara kostnaði.

Af öðrum rúntum er það helst að á föstudaginn langa fórum við í heimsókn í sumarbústað til Viðars frænda og fjölskyldu. Þau voru með bústað í láni á vesturströndinni, aðeins norðar en Esbjerg, á Henne Strand. Okkur þótti tilvalið að líta á þau, aldrei komið á þessar slóðir áður. Höfðum reyndar verið að spá í að gista en Skottan var ekki alveg heil eftir magapestina svo við gerðum dagsferð. Bústaðurinn var ansi flottur, bjálkahús, alveg hvítmálaður að innan og frekar gamaldags húsgögn. Skemmtilega staðsettur í sumarbústaðahverfi án þess að vera alveg ofan í næsta granna. Þarna er greinilega mikið af Þjóðverjum, kjarninn sem þjónustar byggðina var afar þýskuvænn, allar merkingar bæði á þýsku og dönsku. Við gengum meðal annars niður að strönd, þrátt fyrir kulda og skít, Skottan gekk eins og herforingi, kærði sig alls ekki um að láta halda á sér. Strumpan náði góðu sambandi við frændsystkini sín, Viktoría frænka hennar er ári eldri og Strumpunni þótti mikið til þess koma hvað hún var góður gestgjafi. Við keyrðum síðan heim eftir kvöldmat, áttum rólega heimferð þar sem unga daman svaf alla leið.

Páskadagur var að mestu leyti hinn ágætasti, þó ég hafi reyndar verið hálfgerður Helgi (sem er frægur fyrir hátíðaveikindi), páskaeggið fór illa í mig og ég var óróleg í maganum allan daginn, þetta hlýtur að vera ellimerki. Dæturnar fóru í páskaeggjaleit, sem tók óvenju fljótt af því Strumpan las svo vel úr vísbendingunum. Skottan var alsæl að fá nammi, það er ekki daglegur kostur í ungu lífi. Litla eggið hennar var reyndar gert upptækt áður en það var klárað en eflaust hefði hún ekki átt í vandræðum með að sporðrenna því öllu. Um hádegisbilið lögðum við síðan í’ann í Tivoli Friheden, við Árósabúarnir höfðum alveg klikkað á að fara þangað í fyrra, svo það var heldur betur tímabært. Það var fallegt veður, en svolítið kalt, rólegt í Tívolí og litlar raðir. Strumpan fékk turpas eins og venjulega en við keyptum bara miða handa Skottunni. Fyrsta tækið sem var prófað var rússibani, Strumpan var afar sátt við að vera orðin nógu há til að fara í rússíbana sem fór á hvolf. Við hin fylgdumst með af hliðarlínunni. Það var ekki laust við að kæmi skelfingarsvipur á dömuna í ferðinni en hún var alsæl, í pínu adrenalínrússi þegar hún kom út og fór strax í næstu ferð. Við gengum síðan áfram um garðinn og til að byrja með var það bara stóra daman sem fór í tæki en síðan fundum við tæki sem voru við hæfi lítilla og þá fóru þær báðar. Skottunni fannst líka æsispennandi að fara í tæki, hápunkturinn til að byrja með var tæki sem hún fór í alveg sjálf, bílar sem keyrðu eftir spori sem lá að hluta upp pínu brekku. Það var dama með sólskinsbros sem stýrði styrkri hendi. Undir lokin fór ég einn túr með Strumpunni í rússíbanann góða, lokaði kyrfilega augunum fyrsta hlutann en náði að hafa þau opin undir lokin. Ég er að verða gömul! Dömurnar fóru svo saman í stubbarússíbana, ég var ekki viss um hvort Skottan væri með skelfingarsvip eða gleðisvip en hún var í skýjunum þegar hún kom úr tækinu og vildi fara aftur. Hún stefnir í að verða fyrirtaks áhættufíkill.

Mummi eldaði svo páskalamb af nýsjálensku. Það olli ákveðnum vonbrigðum, bragðið var ágætt en kjötið hálf seigt og ég að auki ekki búin að ná mér í maganum (sem var aðallega galli þegar kom að sítrónufrómasinum, ég náði alls ekki góðum afköstum). Fjölskyldan var hálfþreytuleg eftir daginn, dömurnar sendar snemma í bæl og undirrituð sofnuð um 10 eftir erfiðan dag 😉 .

Á morgun er von á MA kennurum til Árósa. Við fáum matargesti annað kvöld og allan hópinn í innlit á miðvikudag (ég er að hafa af þeim dýrmætan tíma sem annars gæti nýst í búðum!)

Heilsupósturinn (viðkvæmir hlaupi yfir fyrsta hlutann)

Strumpan var aðalefni síðustu færslu, hún er nú búin að ná sér vel, lítur orðið þokkalega út en þráir heitast að veikjast aftur, bara vægar í þetta skiptið, því þjónustan er nánast orðin „non existent“ eftir að hún náði sér á strik. Skottan krækti sér í enn eina magakveisuna, svo nú má sú eldri horfa upp á hvernig er dekrað við litla dýrið. Móðirin hefur staðið sig betur í hjúkrunarhlutverkinu núna, þrátt fyrir að ælur séu ofarlega á lista yfir það versta sem hún veit. En það er að minnsta kosti skárra að standa á hliðarlínunni með dallinn en að standa í stórfenglegum þrifum, svo þar hefur hún verið síðan aðfaranótt sunnudags. Við héldum reyndar að allt væri á uppleið eftir ælulausan gærdag en eftir ofsafengið seríosát í morgun, ýfðist maginn aftur upp og skilaði innihaldinu. Síðan hefur ástandið lagast, daman borðað þokkalega og það sem meira er, orkan er greinilega líka að skila sér, í gær var hún svo máttvana að hún gat varla talað, hvað þá að hún hreyfði sig en núna er hún farin að leika sér. Það er auðvitað grunnt á góða skapinu og ekki bætti nú úr skák að hún klemmdi sig áðan en deyfðin er á undanhaldi.

Við héldum langþráð afmælispartý fyrir Strumpuna á þriðjudag. Buðum öllum bekkjarsystrunum, áttum reyndar bara von á þeim helmingi sem hafði svarað en svo komu allar dömurnar. Við sóttum þær í vistun og gengum heim, það tók reyndar drjúgan tíma af þeim tveimur tímum sem voru áætlaðir í veisluna. Enda fór svo að það var ekki hægt að gera allt sem stóð til. Strumpan hafði meðal annars planað pakkaleik og stoppdans og tilheyrandi verðlaun voru klár en svo fór að hvorugt komst á dagskrá. Við vorum svo heppin að það var frábært veður og því fór stór hluti veislunnar fram úti í garði, þar á meðal sá dagskrárliður sem hélst inni og sló rækilega í gegn, andlitsmálun a lá Mummi. Einni dömunni varð að orði að það væri frábært að fá svona ókeypis andlitsmálningu, það fannst mér fyndið. Veitingarnar ruku misvel út, pönnukökurnar vöktu svo mikla lukku að ég rauk í að steikja meira, en afmæliskakan sjálf var óhreifð. Tvær stelpur fengu svo leyfi til að vera lengur, ég bauð upp á naglalakk, sem afmælisbarnið og önnur af stelpunum þáði, auk einnar öfundsjúkrar Skottu 🙂 . Foreldrarnir voru mikið fegnir þegar þessu var lokið og stóra daman sátt við sitt. Ég verð nú að skjóta að einni sögu sem sýnir að uppeldið hefur að einhverju leyti skilað sér, ein stelpan kom með tvo „top model“ bréfpoka sem gjöf og Strumpan tók við þeim með bros á vör enda verið hamrað á því að vera þakklátur með það sem maður fær. Móðirin var sennilega minna þakklát en dóttirin.

Ég átti frábæra ferð til Skagen fyrir 10 dögum. Var boðin í sextugsafmæli hjá dönsku mömmu minni 🙂 (eða hún er að minnsta kosti danska amman dætranna), hún átti reyndar afmæli í desember en hélt stelpupartý núna. Fékk far uppeftir með vinahjónum hennar sem nýttu helgina í hjónaferð, ég gisti heima hjá Bente ásamt einni vinkonu hennar. Á laugardeginum fór ég í bæinn með Piu gistivinkonu minni, við keyptum okkur hræðileg afmælisdress í Bláa krossinum, það stóð nefnilega í boðskortunum að við ættum að vera „festligt“ klæddar. (Lukkulega getur Mummi notað hluta af mínu dressi, ég keypti nefnilega Hawaiskyrtu sem passar svona prýðilega á hann, dæturnar urðu hins vegar óskaplega sáttar við rauða kúrekahattinn sem var hinn hlutinn af glaðlega útbúnaðinum). Við vinkonurnar fengum okkur öl niður á höfn, fórum síðan heim í síðbúinn hádegisverð og fegurðarblund í framhaldi af því. Veislan hófst klukka fimm, það voru 14 dömur í veislunni, ég hafði engar séð áður nema bílstjórann minn og gistifélaga sem ég hafði hitt deginum áður. Bente fékk kokk til að sjá um matinn, það var hlaðborð með óhemju góðum mat, mikið af fiskréttum sem voru algjört gúmmulaði. Síðar um kvöldið voru kokteilar, það var alveg frábært og með ólíkindum að veislan skyldi ekki leysast upp í rugl, miðað við veitingarnar. Við vorum að til þrjú, ég sem er engin B manneskja, hef ekki vakað svona lengi í háa herrans tíð. Daginn eftir var síðan afgangaveisla og haldið heim seinni partinn í dásamlegu veðri enda voru Mummi og dömurnar úti í garðverkum þegar ég kom.

Ég er aðeins farin að huga að praktískum málum fyrir heimferð og meðal annars hafði ég samband við leikskólann sem við sóttum um fyrir Skottuna, svona til að athuga hvort umsóknin væri ekki örugglega enn inni. Það kom auðvitað í ljós að svo var ekki, ég þurfi að sækja um aftur þar sem umsóknin var tekin út þegar við fluttum og verður ekki gild fyrr en við flytjum heim aftur og þar af leiðandi frekar ólíklegt að við fáum inni á leikskólanum sem við sóttum um. Ég er hundfúl, þetta er eini leikskólinn sem heita má að sé í nágrenni við okkur og er ekki algjörlega út leið fyrir okkur (það er að segja Mumma, allir leikskólar eru úr leið fyrir mig.) Það þýðir hins vegar ekkert að vera í fýlu yfir þessu, við erum ákveðin að ef hún fær ekki inni þarna, þá verður hún færð til um leið og tækifæri gefst, því þó ég sé frekar á móti því að færa krakka til þá er ég ekki að fara að keyra Skottuna næstu þrjú árin. Búin að njóta þess að geta gengið í vetur og vil endilega eiga kost á því áfram.