Heilsupósturinn (viðkvæmir hlaupi yfir fyrsta hlutann)

Strumpan var aðalefni síðustu færslu, hún er nú búin að ná sér vel, lítur orðið þokkalega út en þráir heitast að veikjast aftur, bara vægar í þetta skiptið, því þjónustan er nánast orðin „non existent“ eftir að hún náði sér á strik. Skottan krækti sér í enn eina magakveisuna, svo nú má sú eldri horfa upp á hvernig er dekrað við litla dýrið. Móðirin hefur staðið sig betur í hjúkrunarhlutverkinu núna, þrátt fyrir að ælur séu ofarlega á lista yfir það versta sem hún veit. En það er að minnsta kosti skárra að standa á hliðarlínunni með dallinn en að standa í stórfenglegum þrifum, svo þar hefur hún verið síðan aðfaranótt sunnudags. Við héldum reyndar að allt væri á uppleið eftir ælulausan gærdag en eftir ofsafengið seríosát í morgun, ýfðist maginn aftur upp og skilaði innihaldinu. Síðan hefur ástandið lagast, daman borðað þokkalega og það sem meira er, orkan er greinilega líka að skila sér, í gær var hún svo máttvana að hún gat varla talað, hvað þá að hún hreyfði sig en núna er hún farin að leika sér. Það er auðvitað grunnt á góða skapinu og ekki bætti nú úr skák að hún klemmdi sig áðan en deyfðin er á undanhaldi.

Við héldum langþráð afmælispartý fyrir Strumpuna á þriðjudag. Buðum öllum bekkjarsystrunum, áttum reyndar bara von á þeim helmingi sem hafði svarað en svo komu allar dömurnar. Við sóttum þær í vistun og gengum heim, það tók reyndar drjúgan tíma af þeim tveimur tímum sem voru áætlaðir í veisluna. Enda fór svo að það var ekki hægt að gera allt sem stóð til. Strumpan hafði meðal annars planað pakkaleik og stoppdans og tilheyrandi verðlaun voru klár en svo fór að hvorugt komst á dagskrá. Við vorum svo heppin að það var frábært veður og því fór stór hluti veislunnar fram úti í garði, þar á meðal sá dagskrárliður sem hélst inni og sló rækilega í gegn, andlitsmálun a lá Mummi. Einni dömunni varð að orði að það væri frábært að fá svona ókeypis andlitsmálningu, það fannst mér fyndið. Veitingarnar ruku misvel út, pönnukökurnar vöktu svo mikla lukku að ég rauk í að steikja meira, en afmæliskakan sjálf var óhreifð. Tvær stelpur fengu svo leyfi til að vera lengur, ég bauð upp á naglalakk, sem afmælisbarnið og önnur af stelpunum þáði, auk einnar öfundsjúkrar Skottu 🙂 . Foreldrarnir voru mikið fegnir þegar þessu var lokið og stóra daman sátt við sitt. Ég verð nú að skjóta að einni sögu sem sýnir að uppeldið hefur að einhverju leyti skilað sér, ein stelpan kom með tvo „top model“ bréfpoka sem gjöf og Strumpan tók við þeim með bros á vör enda verið hamrað á því að vera þakklátur með það sem maður fær. Móðirin var sennilega minna þakklát en dóttirin.

Ég átti frábæra ferð til Skagen fyrir 10 dögum. Var boðin í sextugsafmæli hjá dönsku mömmu minni 🙂 (eða hún er að minnsta kosti danska amman dætranna), hún átti reyndar afmæli í desember en hélt stelpupartý núna. Fékk far uppeftir með vinahjónum hennar sem nýttu helgina í hjónaferð, ég gisti heima hjá Bente ásamt einni vinkonu hennar. Á laugardeginum fór ég í bæinn með Piu gistivinkonu minni, við keyptum okkur hræðileg afmælisdress í Bláa krossinum, það stóð nefnilega í boðskortunum að við ættum að vera „festligt“ klæddar. (Lukkulega getur Mummi notað hluta af mínu dressi, ég keypti nefnilega Hawaiskyrtu sem passar svona prýðilega á hann, dæturnar urðu hins vegar óskaplega sáttar við rauða kúrekahattinn sem var hinn hlutinn af glaðlega útbúnaðinum). Við vinkonurnar fengum okkur öl niður á höfn, fórum síðan heim í síðbúinn hádegisverð og fegurðarblund í framhaldi af því. Veislan hófst klukka fimm, það voru 14 dömur í veislunni, ég hafði engar séð áður nema bílstjórann minn og gistifélaga sem ég hafði hitt deginum áður. Bente fékk kokk til að sjá um matinn, það var hlaðborð með óhemju góðum mat, mikið af fiskréttum sem voru algjört gúmmulaði. Síðar um kvöldið voru kokteilar, það var alveg frábært og með ólíkindum að veislan skyldi ekki leysast upp í rugl, miðað við veitingarnar. Við vorum að til þrjú, ég sem er engin B manneskja, hef ekki vakað svona lengi í háa herrans tíð. Daginn eftir var síðan afgangaveisla og haldið heim seinni partinn í dásamlegu veðri enda voru Mummi og dömurnar úti í garðverkum þegar ég kom.

Ég er aðeins farin að huga að praktískum málum fyrir heimferð og meðal annars hafði ég samband við leikskólann sem við sóttum um fyrir Skottuna, svona til að athuga hvort umsóknin væri ekki örugglega enn inni. Það kom auðvitað í ljós að svo var ekki, ég þurfi að sækja um aftur þar sem umsóknin var tekin út þegar við fluttum og verður ekki gild fyrr en við flytjum heim aftur og þar af leiðandi frekar ólíklegt að við fáum inni á leikskólanum sem við sóttum um. Ég er hundfúl, þetta er eini leikskólinn sem heita má að sé í nágrenni við okkur og er ekki algjörlega út leið fyrir okkur (það er að segja Mumma, allir leikskólar eru úr leið fyrir mig.) Það þýðir hins vegar ekkert að vera í fýlu yfir þessu, við erum ákveðin að ef hún fær ekki inni þarna, þá verður hún færð til um leið og tækifæri gefst, því þó ég sé frekar á móti því að færa krakka til þá er ég ekki að fara að keyra Skottuna næstu þrjú árin. Búin að njóta þess að geta gengið í vetur og vil endilega eiga kost á því áfram.